Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Rafrettur og sitthvað fleira

Grein eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra
Birtist í Morgunblaðinu 14. júlí 2018

Á síðastliðnu þingi, 148. löggjafarþingi, sem jafnframt var  mitt fyrsta löggjafarþing í embætti heilbrigðisráðherra, voru samþykkt fjögur lagafrumvörp sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Lagafrumvörpin hafa það öll á einn eða annan hátt að markmiði að tryggja betri og öruggari heilbrigðisþjónustu, og stuðla að bættri heilsu landsmanna.

Í fyrsta lagi má nefna frumvarp um breytingu á lyfjalögum en lagabreytingin felur í sér innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins. Tilskipuninni er ætlað að tryggja öryggi lyfja sem eru seld á markaði, á þann veg að löggjöf nái yfir alla aðila sem koma að sölu lyfja. Innleiðing tilskipunarinnar hefur til dæmis í för með sér þrengdar heimildir til umpökkunar og endurmerkingar lyfja og meðal nýmæla í lögunum er heimild til að stunda netverslun með lyf undir eftirliti Lyfjastofnunar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum varð einnig að lögum á 148. löggjafarþingi. Markmið laganna er að koma í veg fyrir að tiltekin efni og lyf séu notuð til að bæta líkamlega frammistöðu, fyrirbyggja heilsutjón vegna notkunar þeirra og koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra. Lögin hafa einnig það markmið að efla fræðslu og forvarnir, ásamt því að koma í veg fyrir ólögmæta markaðssetningu þeirra efna og lyfja sem lögin taka til. Fyrir gildistöku þessara laga giltu engin lög um notkun umræddra efna, þ.e. efna sem í daglegu tali eru oft kölluð sterar, og því um mikilvæga lagasetningu að ræða.

Í þriðja lagi var frumvarp til laga um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur loks að lögum, en frumvarpið var endurflutt frá 146. löggjafarþingi. Um rafrettur, efni sem notuð eru í þær og áfyllingar rafrettna hafa hingað til engin lög eða reglur gilt, og því tímabært að setja regluverk um notkun, sölu og öryggi rafrettna og efna sem þær innihalda. Markmiðið með lögunum er að tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markaði, svo fullvíst sé að áfyllingar sem seldar eru hérlendis séu öruggar. Markmið laganna er einnig að veita heimildir til innflutnings, sölu, markaðssetningar og notkunar rafretta og tryggja að börn geti ekki keypt rafrettur.

Að síðustu má nefna frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra. Frumvarpið var þingmannafrumvarp en heyrir undir valdsvið heibrigðisráðuneytis. Efni breytingarinnar er að nema megi brott líffæri eða lífræn efni úr líkama látins einstaklings til nota við læknismeðferð annars einstaklings hafi hinn látni ekki lýst sig andvígan því, og það er ekki af öðrum sökum talið brjóta í bága við vilja hans.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum