Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2018 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðiskerfi án mismununar

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur segir meðal annars um íslenska heilbrigðiskerfið að það eigi að standast samanburð við það sem best gerist í heiminum og að allir landsmenn eigi að fá notið góðrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Það er markmið mitt sem heilbrigðisráðherra að tryggja að íslenska heilbrigðiskerfið standist þessar kröfur.

Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu er lykilatriði. Því markmiði má ná með félagslega reknu heilbrigðiskerfi. Það skiptir máli að heilbrigðiskerfið sé rekið á félagslegum forsendum því aðeins með þess konar rekstrarformi getum við boðið upp á sterkt heilbrigðiskerfi sem býður góða þjónustu, án þess að mismuna á grundvelli efnahags. Efnahagur fólks á ekki að hafa áhrif á það hvers kyns heilbrigðisþjónustu það hefur kost á. 

Heilbrigðiskerfi þar sem mikilvægir þættir kerfisins, svo sem sérfræðiþjónusta lækna, heilsugæsla og önnur fyrirtæki sem bjóða upp á heilbrigðisþjónustu, eru reknir með gróðarsjónarmið í huga er ekki gott fyrir sjúklinga. Ef gróðasjónarmið hafa áhrif á það hvers kyns þjónusta er veitt, hvenær hún er veitt og af hverjum er ljóst að hagsmunir sjúklinga eru ekki í forgrunni. Að mínu mati á einkarekstur í ágóðaskyni ekki heima í heilbrigðisþjónustu. Grunnheilbrigðisþjónusta er ekki gróðavegur. 

Sú þróun hefur orðið á síðustu áratugum í íslenska heilbrigðiskerfinu að fjármunir hafa nánast sjálfkrafa flætt úr ríkissjóði í tiltekna stóra þætti kerfisins. Fjármunirnir hafa ekki skilað sér í hið opinbera kerfi og þróunin hefur gert það að verkum að hið opinbera kerfi hefur veikst.

Styrking hins opinbera heilbrigðiskerfið er þar af leiðandi nauðsynleg. Áskoranirnar eru margar og ljóst er að við þurfum að vanda til verka. Til þess að tryggja jafnan aðgang allra að góðu heilbrigðiskerfi þarf að bæta í þegar kemur að hinu opinbera heilbrigðiskerfi. Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu næst einnig betur með sterku opinberu heilbrigðiskerfi. Við þurfum líka, samhliða styrkingu hins opinbera heilbrigðiskerfis, að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Lægri greiðsluþátttaka sjúklinga eykur aðgang alls almennings að heilbrigðisþjónustu og stuðlar að jöfnuði í samfélaginu. Skýr heilbrigðisstefna, þar sem framtíðarsýn í málaflokknum mun liggja ljós fyrir, er einnig mikilvæg og til þess fallin að varpa ljósi á það hvaða gildi við viljum að heilbrigðiskerfð okkar endurspegli.

Kjarni málsins er að hið opinbera heilbrigðiskerfi þarf að styrkja og efla. Við þurfum að auka fjármagn sem rennur til opinbera heilbrigðiskerfisins og gæta þess samtímis að fjármunirnir séu vel nýttir. Þannig tryggjum við gott heilbrigðiskerfi þar sem jafn aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er tryggður. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst 2018

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira