Hoppa yfir valmynd
19. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nokkrar staðreyndir um heilbrigðismál

Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Læknum sem eru aðilar að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands og sérgreinalækna fjölgaði úr 343 árið 2014 í 357 árið 2016. Árið 2017 fjölgaði þeim enn frekar, í 368 lækna og í dag eru 347 læknar aðilar að rammasamningnum. Læknum sem eru aðilar að samningnum hefur því í heild fækkað um 21.

Læknar sem eru aðilar að rammasamningum skiptast þannig eftir sérgreinum:

 Augnlæknar eru 33, barnalæknar 38, bæklunarlæknar 26, geðlæknar 34, háls- nef-, og eyrnalæknar 23, húðlæknar 18, kvensjúkdómalæknar 29, gigtarlæknar 9, hjartalæknar 28, meltingarlæknar 17, skurðlæknar 19, svæfingalæknar 25, taugalæknar 6, þvagfæralæknar 11 og lýtalæknar 6. Aðrar sérgreinar hafa færri lækna. Þessar tölur eru frá 2016 en hafa ekki breyst að ráði.

Nú er unnið að undirbúningi nýs samkomulags við sérfræðilækna í velferðarráðuneytinu. Miðað er við að það samkomulag uppfylli ákveðin skilyrði, sem eru í samræmi við ráðleggingar og tilmæli Ríkisendurskoðunar og ábendingar sem fram komu í skýrslu McKinsey. Fundur með sérgreinalæknum er ráðgerður í næstu viku. 

Einnig er unnið að mótun heilbrigðisstefnu í ráðuneytinu. Það verður gert í samráði við alla aðila málsins auk þess sem opnað verður fyrir samtal við þjóðina, stofnanir, félagasamtök og fleiri. Starfið hingað til hefur falist í að taka saman allan efnivið sem unnið hefur verið með í ráðuneytinu síðastliðinn áratug. Í undirbúningi eru tveir vinnudagar með framkvæmdastjórnum allra heilbrigðisstofnana og stofnunum sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið. Þeir fundir verða 3. og 4. október. Heilbrigðisþing verður haldið 2. nóvember, en það verður opið almenningi og haghöfum. Því næst verða drög að heilbrigðisstefnu sett í samráðsgátt og síðan verður unnið að gerð þingsályktunartillögu sem vonandi verður lögð fyrir Alþingi á vorþingi. Þá koma að málinu allir flokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi.

Þótt efnahagur þjóðarinnar fari nú batnandi erum við enn að vinna úr hruninu á margan hátt. Með því að setja fram vandaða heilbrigðisstefnu, tryggja öfluga þjónustu opinberra sjúkrahúsa, efla göngudeildir og treysta heilsugæsluna um allt land, en líka með því að skýra samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu sem ekki verður veitt af opinberum aðilum, þar sem markmið samninganna, gæðakröfur og ætlaður árangur af þeim liggja ljós fyrir, nálgumst við heildstæðara kerfi og markvissari og betri þjónustu fyrir alla. Kjölfestan verður að vera traust og öflugt heilbrigðiskerfi okkar allra, sem við eigum sjálf og þjóðin hefur kallað eftir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19.09.2018

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum