Hoppa yfir valmynd
19. júní 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Hátíðarræða Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 2019

Ágætu samkomugestir! Gleðilega þjóðhátíð.

Árið 2011 þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar samdi Gerður Kristný ljóðið Ávarp fjallkonu sem var frumflutt 17. júní á Austurvelli það ár.

Það bærist ekki hár
á  höfði Jóns
þar sem hann trónir
staffírugur á stöplinum
og hvessir augun
út á Tjörnina

Á hverju vori
gætir hann þess
að ungarnir komist upp
hikar ekki við
að stökkva niður
og stugga við
mávinum

Hattinum
fleygði Jón
í fugl
hefur verið
berhöfðaður síðan

Dúfa gekk undir
dúfuvæng og
bauðst til að
sækja höfuðfatið
en Jón er staðfastur
eins og karl á krossgötum
undir álfakvaki

Hatturinn er
úti í Hólma
geymir hreiður
úr stráum
dúni og
draumsýn

Örsmá eggin
óræk sönnun þess
að mesta skuldin
er alltaf
þakkarskuldin


Góðir gestir

Ég vil byrja á því að þakka fyrir það tækifæri sem þið veitið mér með því að bjóða mér að ávarpa ykkur hér á Hrafnseyri einmitt í dag 17. júní 2019 þegar 208 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar og lýðveldið okkar er 75 ára. Hér er stórkostlegt að vera á þessum degi.

Það má segja að við séum stödd í uppruna sjálfstæðisbaráttunnar, uppruna þjóðahátíðarinnar hér á Hrafnseyri en jafnframt vill svo vel til að hér er að finna merkan kafla í sögu lækninga á Íslandi.

Frá ómunatíð hafa konur og karlar leitast við að græða sár og hlynna að sjúkum án þess að hafa hlotið sérstaka fræðslu eða þjálfun fyrir utan þá sem gengur frá einni kynslóð til annarrar. Hér á Eyri við Arnarfjörð bjó undir lok tólftu aldar og í upphafi hinnar þrettándu Hrafn Sveinbjarnarson læknir og goðorðsmaður. Hrafn var víðförull og lagði leið sína suður um Evrópu. Þar mun hann hafa kynnst ýmsum lækningaaðferðum sem voru nýjungar í augum og eyrum þeirra sem áttu heima norðarlega í álfunni. Fræðimönnum hefur sumum þótt líklegt að hann hafi í reisu sinni til Frakklands og Ítalíu komist í snertingu við áhrif Salernoskólans þótt hvergi sjáist þess merki í heimildum að hann hafi gist þá borg. En lítill vafi leikur á að Hrafn hafi fyrstur Íslendinga leitað sér menntunar í læknislistum samtímans og þegar heim kom nýtt þá þekkingu sem hann aflaði sér. Í Sturlungu segir um Hrafn: „Til einskis var honum svo títt, hvorki til svefns né matar, ef sjúkir menn komu á fund hans að eigi mundi hann þeim fyrst nokkra miskunn veita." Síðan koma dæmi um lækningar hans og frábæran árangur þeirra aðgerða sem hann beitti. Hann eyddi bjúg með því að brenna díla á húðina á baki og brjósti og læknaði þunglyndi með blóðtöku. Hætt er við að nútíðarmenn leggi varlega trúnað á þess háttar kraftaverk en hann skar líka til steins eins og það var nefnt þá og síðar.

Hrafn kembdi ekki hærurnar. Hann var ekki nema liðlega fertugur þegar Þorvaldur Vatnsfirðingur, frændi hans og hálfgildings fóstursonur, lét hálshöggva velgjörðamann sinn á bæjarhlaðinu á Eyri árið 1213. Þannig voru stjórnmál þess tíma til lykta leidd og þótt margt sé glettilega líkt með átökunum þá og valdabaráttu í nútímanum eru málin sem betur fer gerð upp með öðrum hætti nú á tímum. Þar hafa konur komið fram á sjónarsviðið og látið til sín taka í vaxandi mæli og verður fróðlegt að sjá her t það leiðir okkur. Það er líka gaman í þessu samhengi að geta þess að nú er hið forna embætti landlæknis í fyrsta sinn skipað konu.

Góðir gestir

Á ráðstefnu um lækninn og höfðingjann Hrafn Sveinbjarnarson sem haldin var hér á Hrafnseyri fyrir sex árumkomu saman bókmenntafræðingar, sagnfræðingar og læknar. Eiríkur Jónsson þvagfæraskurðlæknir var einn þeirra sem talaði á ráðstefnunni hér. Sagt er frá erindi Eiríks í Læknablaðinu og þar stendur: „Þá stekkur allt í einu fram, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, fullsköpuð aðgerðarlýsing. Hún er einstök í íslenskum fornbókmenntum og þótt víðar væri leitað. Hrafn sker til þvagblöðru-steins sem hann hefur áður fært niður og skorðað af í þvagrás karlmanns sem þjáðist af steinsótt. Aðgerðarlýsingin er nákvæm og fylgir bestu þekkingu þess tíma. Steinsótt hefur fylgt mannkyninu og ráð við henni verið kunn meðal elstu siðmenninga. Hippókrates tekur það til að mynda sérstaklega fram, að engir nema þeir sem hafa þar til bæra þekkingu skeri til steins. ... Hvaðan kom Hrafni eða söguritara hans þessi þekking?“ spyr Eiríkur. Smáatriði í aðgerðarlýsingunni eru rétt og hvernig stendur á því að söguritarinn skýrir svona nákvæmlega frá aðgerðinni? Var söguritarinn læknisfróður? Í Hrafns sögu Sveinbjarnarsonar hinni sérstöku eru nefnd fjögur dæmi um lækningar Hrafns og fullvíst má telja að þau séu aðeins brotabrot af mörgum hundruðum aðgerða. Vafalaust hafa einhverjar aðgerðir mistekist en hitt er víst að ljósin frá lífi Hrafns Sveinbjarnarsonar lýsa okkur enn þann dag í dag.

Eins og saga Hrafns Sveinbjarnarsonar vitnar um hefur verið fengist við heilbrigðismál á Íslandi allt frá landnámi. Heilbrigðiskerfið er í raun einn af hornsteinum samfélagsins – mikilvægur hluti af samfélagssáttmálanum. Öll þurfum við á heilbrigðisþjónustu að halda einhvern tíma á lífsleiðinni og aðgangur fólks að góðri heilbrigðisþjónustu er reyndar ein af forsendum byggðar í landinu. Heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur lengi staðið framarlega í samanburði við önnur lönd og árangur á mörgum sviðum verið með því besta sem þekkist. Íslenska heilbrigðiskerfið byggist á ákveðnum gildum sem almenn sátt er um í samfélaginu, sömu gildum og vísuðu Hrafni Sveinbjarnarsyni veginn á sínum tíma. Þeim gildum að tryggja skuli öllum jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hér á landi óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum og fara þannig að fordæmi Hrafns sem sinnti öllum sem til hans leituðu og þáði ekki greiðslur fyrir.   

Hrafn var nefnilega  ekki aðeins læknir; hann rak eins konar velferðarstofnun á Hrafnseyri. Hingað komu fátækir og svangir og fengu mat. Og hvernig komust þeir? Nú er Hrafnseyri talin afskekktur útnári og staðurinn færist enn utar á landakortum ferðamennskunnar þegar göngin verða komin. En þá var sjórinn samgönguæðin. Hrafn flutti fólk því að kostnaðarlausu yfir Arnarfjörð og Breiðafjörð.. Reyndar minnir manngæska hans og hjartalag á Krist og Þorvaldur Vatnsfirðingur verður sá illi sjálfur þegar sagan er skoðuð.­ Það er bjart yfir Hrafnseyri þegar við hugsum um Hrafn Sveinbjarnarson. Hrafn var heilbrigðisráðherra, velferðarráðherra og samgönguráðherra.

 

Góðir gestir

Frá örófi alda hefur það verið eitt af hlutverkum kvenna að hugsa um sjúka, börn og aldraða á heimilum. Alveg fram á 18. öldina var hjúkrun ómótað starf, menntun af skornum skammti og litlar kröfur gerðar til þeirra sem unnu við hjúkrun. Ekki er langt síðan hjúkrun var skilgreind sem starfsgrein hér á landi en félag Íslenskra hjúkrunarkvenna var stofnað þann 18. nóvember 1919 og verður því 100 ára í ár. Fyrir 100 árum var heilsa landsmanna bágborin og ungbarnadauði hér á landi einna mestur í heiminum. Heimsfaraldrar taugaveiki, holdsveiki, lömunarveiki og berklar riðu yfir Ísland auk þess sem landsmenn bjuggu við frumstæðar vinnuaðstæður og húsakost. Hjúkrunarkonur og ljósmæður upplýstu og kenndu íslenskri þjóð að þrífa sig og varast smit og bættu þannig lífsgæði landsmanna stórkostlega. Þær lögðu grunn að því heilsuverndarstarfi sem enn er byggt á í heilbrigðisþjónustu hér á landi svo sem mæðra- og ungbarnavernd. Framsýni og kraftur þessara kvenna á stóran þátt í  að skapa þann mikla árangur sem náðst hefur í heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga  undanfarna öld. En til marks um þann árangur er sú staðreynd að ungbarnadauði hér á landi er hvað minnstur á heimsvísu. Sú áhersla sem hjúkrunarkonur og ljósmæður í upphafi síðustu aldar lögðu á ábyrgð hvers og eins á að verjast sjúkdómum til að mynda með auknu hreinlæti og öðrum smitvörnum er ekki síður mikilvæg í dag á tímum lífstílssjúkdóma.  Nauðsynlegt er að hver og einn geri sitt til að halda heilsu með heilbrigðum lífsstíl, góðum svefni, heilnæmu mataræði og hreyfingu. Þetta vita Vestfirðingar enda frumkvöðlar á þessu sviði. Það er vert að minnst Heilsubæjarins Bolungarvíkur í þessu samhengi. En mér er sagt að kjarnorkukonan Sigrún Gerða Gísladóttir heitin sem var hjúkrunarfræðingur að mennt hafi leitt það verkefni af mikilli hugsjón og framsýni. Það var árið 2000 sem Bolungarvík varð heilsubær með þátttöku íbúa, félagasamtaka, skóla, leikskóla og fleiri aðila sem saman unnu að því að bæta heilsu og lífsgæði fólks í bænum. En samstarf ólíkra aðila er einmitt lykillinn að árangri í slíkum verkefnum. Nú 20 árum síðan hefur þessi hugmyndafræði náð fótfestu og heilsueflandi skólar, heilsueflandi vinnustaðir  og heilsuefling samfélög hafa litið dagsins ljós og náð mikilli útbreiðslu en í dag búa meira en 80 prósent landsmanna í heilsueflandi samfélagi.  Þessi hugmyndafræði þátttöku og sameiginlegrar ábyrgðar einstaklinga og stjórnvalda á heilsu og heilbrigði þjóðarinnar er lykilatriði til að mæta áskorunum framtíðarinnar í heilbrigðismálum og þar eru Vestfirðingar frumkvöðlar.

Á þessum degi hugsum við óneitanlega um Jón Sigurðsson. Hér óx Jón úr grasi. Hér var hann lítill pjakkur sem lék sér við önnur börn, hér mannaðist hann umkringdur sömu fjöllum, sama himni og sömu náttúru og umlykur okkur nú. Hér öðlaðist hann sjálfstraust hér varð hann sjálfstæður einstaklingur. Nafn hans hefur lýst okkur leiðina að sjálfstæði og fullveldi. En ætli sjálfstæðið sé ekki örlítið annað nú en Jón Sigurðsson gerði sér í hugarlund fyrir 200 árum? Fjöregg okkar Íslendinga er sannarlega fullveldið. Að því er sótt utan frá og innan frá. Utan frá með alls konar atlögum tækniheimsins, tölvuhakkarar leika sér að því að loka lífsnauðsynlegum síðum og samskiptavefjum íslenskra stofnana með auðveldum hætti. Staðan er núna þannig að hægt er að útiloka þjóðina frá öllum samskiptum við umheiminn. Við vitum að við getum ekki varist þessum ósköpum nema með alþjóðlegu samstarfi. Hið sama er að segja um umhverfisvandann; einnig þar er engin vörn nema með alþjóðlegu samstarfi. Þannig kalla ný verkefni á allt aðra nálgun í alþjóðlegum samskiptum en áður var. Við þurfum stuðning annarra til að verjast verstu atlögunum að sjálfstæði okkar og frelsi; slíkt samstarf jafngildir ekki því að við glötum sjálfstæði okkar og frelsi. Jón Sigurðsson lagði einmitt áherslu á mikilvægi þess að leita sér stuðnings erlendis í samskiptum okkar við Dani, ekki bara í Danmörku, ekki síður annars staðar. Þess vegna gerðist hann sjálfur fréttaritari norsks blaðs. Þess vegna mat hann svo mikils stuðning alls konar fólks annars staðar í heiminum sem skrifaði með Íslandi þegar sjálfstæðisbaráttan við Dani var að taka á sig mynd.

Fullveldi landsins er ekki bara öðruvísi núna vegna hraðstígra tækniframfara.

Ég spyr: Væri Ísland fullvalda ríki ef háskólamenntun hér legðist af og allir sem stunda framhaldsnám í háskólum yrðu að fara utan lands? Nei, þá væri Ísland ekki fullvalda ríki.

Ég spyr: Væri Ísland fullvalda ríki að öllu öðru óbreyttu ef hér væri engin heilbrigðisþjónusta, ef allir með alvarleg veikindi yrðu fluttir utan? Nei, þá væri Ísland ekki fullvalda ríki.

Á tímum Jóns Sigurðssonar hefðu svona spurningar verið óhugsandi og næsta óskiljanlegar. Barátta hans snerist um fullveldið og formlega stöðu þess andspænis Dönum. Danir kölluðu Ísland „aukaland“ „biland“ þangað til Jón Sigurðsson tók þá á hné sér.

Til þess að verja fullveldið er nauðsynlegt að verja heilbrigðiskerfið, menntakerfið, íslenska innviði alla og umfram allt íslenskt mál og  menningu.

Liður í því að standa vörð um heilbrigðiskefið er að styrkja það og efla. Til að svo megi vera er nauðsynlegt að allir rói í sömu átt. Heilbrigðiskerfið er flókið og margþætt, sérhæfing mikil og þjónustuveitendur margir. Verkefni heilbrigðisyfirvalda í samstarfi við stofnanir heilbrigðiskerfisins, er að skapa heildrænt kerfi sem tryggir sjúklingum samfellda þjónustu á réttu þjónustustigi þar sem saman fara gæði, öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Til að stuðla að því að svo megi vera hefur Alþingi nú samþykkt nýja og langþráða Heilbrigðisstefnu til ársins 2030.  Stefnan fjallar um skipulag, verkaskiptingu og ábyrgð innan heilbrigðiskerfisins í þágu bættrar þjónustu við sjúklinga. Um innleiðingu og notkun mælikvarða á gæði og árangur heilbrigðisþjónustu. Um mikilvæga hvata í fjármögnunar- og greiðslukerfum. Um innleiðingu nýrra meðferða, lyfja og tækja og þær kröfur sem gera verður til gagnreyndrar þekkingar. Um leiðsögn og upplýsingagjöf til sjúklinga og almennings og leiðir til að auðvelda almenningi að vera virkir þátttakendur í eigin meðferð og taka upplýstar ákvarðanir í málum sem varða þeirra eigin heilsu. Loks er fjallað um mönnun heilbrigðiskerfisins, forystu og stjórnun, starfsumhverfi, vísindi og menntun og ótal margt fleira. Það er sannfæring mín að ný heilbrigðsstefna verði okkur öllum mikilvægur vegvísir inn í framtíðina.

Of sjaldan sér þess stað í máli þeirra sem mest tala um fullveldi að menntun, menning, heilbrigðiskerfi og skólar séu líka undirstaða fullveldisins.

Allt þetta er hvert um sig en þó aðallega samanlagt mikilvægara fullveldinu en nokkuð annað. Við megum ekki þrengja fullveldisumræðuna ofan í form og lögfræðilegar æfingar. Við verðum að skilja að allar forsendur fullveldis eru mikilvægar, allar saman, en ekki hver og ein sér og út af fyrir sig og án tengsla við alla annað.

Jón Sigurðsson barðist fyrir endurreisn og sjálfstæði Alþingis. Alþingi er hornsteinn lýðræðis og þingræðis og þar með fullveldis og sjálfstæðis þjóðarinnar. Þess vegna verður að halda vel utan um starfsemi Alþingis og samskiptareglur þar mega aldrei verða til þess að þjóðin gleymi því að Alþingi er undirstaðan. Það er því dapurlegt þegar lýðræðislegar leikreglur eru misnotaðar, þegar allsherjarósvífni ryður burt sanngjörnum og drengilegum leikreglum. Sigrar sjálfstæðisbaráttunnar voru ekki unnir með málþófi.

Allt fer þetta svo saman á þessum stað: Læknislistin frá Hrafni, heilsuverndarstarf hjúkrunarkvennanna og fullveldisbarátta Jóns eru í grunninn fyrst og fremst barátta fyrir sjálfstæði og fullveldi sem kjarnar sig eins og það heitir í dag í Alþingi Íslendinga.

Það er við hæfi þar sem ég ávarpa ykkur hér á Hrafnseyri að minnast á að nú er að störfum nefnd sem forsætisráðherra skipaði sem á að gera tillögur um framtíðarstarfsemi á Hrafnseyri.

Nefndin hélt nýlega fjölsóttan stefnumótunar- og hugarflugsfund. Þar komu fram fjölmargar hugmyndir sem endurspegluðu velvilja og áhuga í garð verkefnisins og Hrafnseyrar og er ráðgert að nefndin skili af sér tillögum fyrir haustið.

Ein af þeim spurningum sem leitað er svara við er hvort skynsamlegt sé að tengja betur saman starfsemina á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar og í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Í því samhengi þarf að velta fyrir sér hvernig best verði að því staðið að miðla menningar- og þjóðararfi til samtímans. Þá þarf að spyrja hvernig megi tryggja að arfurinn lifi áfram og dafni með þjóðinni og þá hvað það er helst sem draga megi fram og tengist nafni Jóns Sigurðssonar.

Stefnumótun fyrir Hrafnseyri þarf að taka mið af sögu staðarins um aldir og látlausu yfirbragði, þeim sessi sem hann skipar í sögu þjóðar og sjálfsvitund okkar allra. Þá þarf að huga að tengingum við mannlíf og atvinnulíf hér fyrir vestan, ferðaþjónustu og útivist á svæðinu, annað hliðstætt menningar- og menntastarf að ógleymdum þeim áhrifum sem nýju göngin munu hafa á umferð.

Það er spennandi verkefni að finna Hrafnseyri nýtt hlutverk þannig að hingað leiti fólk og líf. Sú hugmynd var rædd meðan ég var umhverfisráðherra að Arnarfjörður yrði friðað svæði, sjórinn og landið allt í kring ekki með það að markmiði að koma í veg fyrir nýtingu hafs- eða landsgæða heldur til að rækta þessa perlu lands og sjávar. Þá yrðu sett sérstök lög um friðun Arnarfjaðar eins og lögin um verndun Breiðafjarðar. Ég skil þessar framtíðarvangaveltur eftir hjá ykkur um leið og ég óska ykkur og þjóðinni allri til hamingju með þennan stóra dag fullveldis og sjálfstæðis lítillar þjóðar við ysta haf- stöndum vörð um fullveldið og lýðræðið. Það er auðvelt að finna Hrafnseyri verkefni sem verða sótt alls staðar að úr heiminum og af landinu. Sameinumst um það.

Gleðilega þjóðhátíð!

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum