Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. nóvember 2007 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Sparnaður og minni losun með vistakstri

Grein um hagkvæman akstur - Morgunblaðið 21.nóvember 2007.

Vistakstur hefur komið til umræðu síðustu misserin en með slíkum akstri má minnka eldsneytisnotkun að minnsta kosti um 10% og draga úr losun mengandi efna. Vistakstur fellur þannig mjög vel að umhverfismarkmiðum samgönguáætlunar.

Með vistakstri er átt við aðferðafræði í akstri sem miðar einkum að því að aka mjúklega og huga jafnframt að ýmsum atriðum varðandi umhirðu bílsins.

Akstur með þessu lagi er vistvænn og hagkvæmur andrúmsloftinu og um leið lækkar eldsneytiskostnaður sem þýðir sparnað fyrir notandann. Enn ein jákvæð afleiðing vistaksturs er aukið umferðaröryggi þar sem menn verða meðvitaðri um akstur sinn og hafa hugann betur við hann. Af þessum sökum öllum mætti allt eins segja að vistakstur sé skynsemisakstur.

Hérlendis hefur Ökukennarafélag Íslands haft forgöngu um að kynna vistakstur. Félagið hefur staðið fyrir námskeiðum fyrir félagsmenn sína, ökukennara sem vilja bjóða nemendum og öðrum ökumönnum að nýta þessa aðferðafræði. Þá hefur ferðaþjónustufyrirtækið Hópbílar, sem einnig rekur Hagvagna, gengist fyrir námskeiðum um vistakstur fyrir bílstjóra sína í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Vistakstur getur því jafnt átt við fólksbíla og stóra sem litla atvinnubíla.

Hegðunin hefur mest áhrif

Í skýrslu um umhverfismat fyrir tillögu að samgönguáætlun áranna 2007 til 2018 er fjallað um áhrif samgangna á loftslag. Þar kemur fram að mæta þurfi aukningu útblásturs sem hlýst af auknum akstri með mótvægisaðgerðum sem annaðhvort snúast um að minnka losun eða binda kolefni. Er fyrst og fremst horft til lausna sem felast í sparneytnari bílum og nýtingu umhverfisvænni orkugjafa.

Einnig segir í skýrslunni: ,,Hegðun fólks hefur einna mest áhrif á eldsneytisbrennslu. Bæði það hvernig fólk notar bílinn sem samgöngutæki og hvernig það ekur honum getur haft mikil áhrif. Í samgönguáætlun er talað um beitingu áróðurs og menntunar til að kenna fólki vistakstur. Fjöldi stuttra bílferða innanbæjar eru umhugsunarefni fyrir samgönguyfirvöld og sveitarfélög. Gefst þar færi á að minnka allverulega eldsneytisnotkun heimilanna.“

Unnt er að fræðast um vistakstur til dæmis með því að sækja námskeið hjá ökukennara. Einnig er hægt að gera tilraunir áður en til þess kemur og freista þess að meta hvaða árangri unnt er að ná. Hér eru nokkrar ábendingar sem dæmi um hvernig við getum breytt hugsunarhætti okkar við akstur og vitanlega er ekki alltaf hægt að fara eftir þessu til hins ýtrasta.

  • Auktu hraðann ákveðið. Hér er átt við að menn aki rösklega af stað en án þess að stíga í botn.
  • Hægðu á þér með því að sleppa bensíngjöf í tíma – til dæmis þegar rautt ljós er framundan.
  • Dreptu á vélinni. Alltof algengt er að við látum vélina ganga meðan makinn skreppur inn í búð eða meðan við fylgjum börnunum í leikskólann. Við skóla og leikskóla er líka iðulega bent á að bíll í lausagangi mengar.
  • Óþarft er að hita upp bílinn áður en lagt er af stað að morgni. Það skal hins vegar viðurkennt að freistandi er að setja í gang og skafa síðan rúðurnar.
  • Best er að geta skipulagt aksturinn. Tíu mínútna óþarfa akstur á klukkutíma ferð þýðir 14% minni nýtingu eldsneytis.
  • Athugaðu loftþrýsting í hjólbörðum reglulega. Réttur þrýstingur getur minnkað eldsneytisnotkun um 2-5% og hjólbarðar endast betur. Hæfilegt er að athuga þrýstinginn tvisvar í mánuði.
  • Hentu út óþarfa dóti. Aktu ekki um með toppgrind eða farangurshólf á þakinu árið um kring þar sem það veldur óþarfa loftmótstöðu. Farangursbox getur aukið eldsneytisnotkun um einn lítra á hverja 100 km. Einnig er ráðlagt að nota nagladekk hóflega þar sem þau auka á svifryk og hafa meiri eldsneytisnotkun í för með sér.
  • Reglulegt þjónustueftirlit. Farið eftir leiðbeiningum í handbók bílsins. Reglulegt eftirlit, stilling, skipting á olíu og síum getur dregið úr eldsneytisnotkun. Hugsanlega þarf að skipta oftar um síur en handbók segir til um ef mikið er ekið á malarvegum.

Af þessu má sjá að vistakstur er eins konar hugmyndafræði sem ökumenn geta tamið sér ef þeir vilja leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið. Beinn ávinningur fyrir hvern og einn er minni eldsneytiskostnaður. Má gera ráð fyrir að sparnaður vegna þessa geti verið kringum 18 til 22 þúsund krónur á fólksbíl miðað við meðalakstur á ári. Þar fyrir utan má fastlega gera ráð fyrir að þessi breytta hegðan leiði ósjálfrátt til aukins umferðaröryggis. Með vistakstri hugsum við líka aðeins út fyrir okkar daglega ramma, verðum meðvitaðri um að jarðefnaeldsneyti endist ekki til eilífðarnóns.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum