Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. desember 2007 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Umferðarslys og skipulagsmál

Grein um samhengi umferðarslysa og skipulags - Morgunblaðið 8.desember 2007.

Enn hefur orðið hörmulegt banaslys í umferðinni. Enn á ný horfumst við í augu við að kannski hefði mátt koma í veg fyrir slys ef tilteknum forvörnum hefði verið beitt. Þessi nöturlega staðreynd blasir of oft við þegar banaslys eru annars vegar. Hugur okkar er hjá foreldrum og öðrum aðstandendum litla drengsins í Keflavík og öðrum sem misst hafa ástvini í umferðarslysum.

Orsakir slysanna eru margar og misjafnar og oft eru þær nokkrar og samverkandi. Hegðun ökumanns ræður miklu en færi og veður einnig. Stundum er það ástand ökutækis og stundum eitthvað í umferðarmannvirkjunum sem leiðir til slyss eða kemur í það minnsta ekki í veg fyrir það og afleiðingar þess.

Æ meira er nú horft til þess að gera umferðarmannvirki þannig úr garði að þau og umhverfi þeirra dragi eins og kostur er úr afleiðingum slysa og áverka ef eitthvað fer úrskeiðis í akstrinum. Þetta á einnig við um skipulag gatna, íbúðarhverfa og þjóðvega sem er tilefni þessarar greinar.

Skipulag skiptir máli

Mörg rótgróin bæjarfélög í landinu búa við skipulag sem er barn síns tíma sem í dag ræður ekki við sívaxandi umferð í bæjunum. (Það á raunar við þjóðvegakerfið líka sem við erum orðin eftir á með að endurnýja og byggja upp.) Skipulag gömlu hluta bæjanna byggist oft á aðalgötum, tengibrautum og safnbrautum sem erfitt getur verið að greina á milli. Þegar umferð um aðalgöturnar gerist tafsöm leitar hún í tengigötur og safngötur og þar standa yfirleitt íbúðarhús. Oft er því lítill munur á húsagötu, safngötu og tengibraut. Þetta eru iðulega nokkuð breiðar götur sem þýðir að hraðinn er jafnmikill og á aðalgötunum. Þetta skipulag býður hættunni heim því að við þessar íbúðargötur er fólk á ferli, ekki síst börn, og allir vita að þau eru kvik og frá á fæti.

Ný íbúðarhverfi hafa í seinni tíð verið skipulögð þannig að aðalumferðaræðar liggja utan við hverfin, þær tengdar saman með tengigötum þar sem hraða er haldið niðri til dæmis með hringtorgum. Inn í hverfin sjálf liggja síðan safngötur, gjarnan með hraðahindrunum eða þrengingum, og stuttar húsagötur. Þar er hámarkshraðinn oft 30 km á klst. Skipulag þetta kallast flokkað gatnakerfi og er til þess fallið að draga úr óþarfa umferð inni í íbúðarhverfum, hraða hennar og þeirri hættu að gangandi stafi ógn og hætta af umferð bíla.

Það er því varasamt að horfa framhjá þessari hugmyndafræði hins flokkaða gatnakerfis þegar ný hverfi eru skipulögð. Ný stefna hefur hins vegar numið land sem felur í sér afturhvarf til fyrri tíma þar sem gert er ráð fyrir að umferðin geti flætt um allt viðkomandi hverfi án þess að eiga beinlínis erindi í það. Þetta hefur verið orðað svo að verið sé að fjölfalda 101 Reykjavík og þannig megi efla samskipti íbúanna. En jafnvel þótt gripið sé til hraðahindrandi aðgerða í slíku gatnakerfi, sem að vísu duga misvel gagnvart öflugum bílum nútímans, þá er ekkert sem kemur í staðinn fyrir rólega húsagötu sem er algjörlega án umferðar sem á þangað ekkert erindi.

Umferð beint á stofnbrautir

Í nýlegri úttekt Reykjavíkurborgar á umferðaröryggi 30 km hverfa kom í ljós að slysatíðni er hæst í 101 Reykjavík, einmitt þar sem umferðin getur flætt hindrunarlítið í gegnum hverfið og flokkun gatna er lítil sem engin. Í úttektum á slysatíðni á öðrum götum kemur einnig í ljós að slysatíðni á vel útbúnum stofnbrautum með mislægum gatnamótum er með lægsta móti en götur sem eru með mismunandi hlutverk eru yfirleitt með háa slysatíðni. Það er því allt sem mælir með því að hindra að óviðkomandi umferð fari um húsagötur og safngötur og henni verði beint að afkastamiklum stofnbrautum þar sem hún kemst leiðar sinnar á greiðan og öruggan hátt.

Gatnaskipulag íbúðarhverfa á fyrst og fremst að þjóna þeim sem þar búa. Þar verða öryggissjónarmið að vera efst á blaði og hámarkshraðinn sem minnstur. Umferðin safnast í rólegheitunum að stærri götunum og síðan út úr hverfinu. Á sama hátt þegar menn koma inn í hverfið er hinn takmarkaði hámarkshraði skýrt tilgreindur bæði með góðum merkingum sem og gerð gatnanna. Hringtorg, þrengingar, hraðahindranir og skýrar hraðamerkingar eru lykilatriði í íbúðarhverfunum auk eftirlits lögreglu.

Ef við ætlum að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að fækka slysum verðum við að skoða alla möguleika. Við getum bætt hegðan okkar, við vitum að það er víða nauðsynlegt að grípa til ákveðinna aðgerða og við vitum að allt kostar það fjármuni. Samgönguyfirvöld og sveitarfélög þurfa að láta umferðaröryggismál njóta forgangs – meðan svo er ekki getum við ekki vænst þess að slysunum fækki.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum