Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Meiriháttar samgöngubætur

Grein vegna viðauka við samgönguáætlun - Fréttablaðið 15.mars 2008.

Hafist verður handa við tvær meiriháttar samgöngubætur – tvöföldun Suðurlandsvegar og Vaðlaheiðargöng – strax á næsta ári. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi nú í vikunni og kynnt á blaðamannafundi á fimmtudag. Báðar þessar framkvæmdir eru hluti af viðauka við samgönguáætlun 2007-2010, sem ríkisstjórnin boðaði sem hluta af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar á þorskkvóta.

Tvöföldun til Hveragerðis

Lengi hefur verið talað um tvöföldun Suðurlandsvegar. Slys hafa verið tíð á veginum og umferð þar er mikil og fer vaxandi. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hefjast handa við fyrsta áfanga á tvöföldun vegarins felur því í sér mikil og góð tíðindi fyrir ökumenn. Stefnt er að því að frumdrög umhverfismats á tvöföldun vegarins frá Litlu kaffistofunni að Hveragerði verði tilbúin nú í lok maí. Þá þegar verður hönnun vegarkaflans boðin út og framkvæmd verksins strax í kjölfarið í nóvember. Framkvæmdir við tvöföldun þessa fyrsta áfanga geta því hafist að ári og ætti þeim að ljúka vorið 2011.

Göng um Vaðlaheiði

Vaðlaheiðargöng stytta ökuleiðina milli Akureyrar og Húsavíkur, og þar með hringveginn, um ríflega 16 kílómetra auk þess sem tilkoma þeirra gerir ökumönnum kleift að sneiða hjá vegi sem oft er varasamur að vetri. Nauðsynlegt var orðið að tengja þessi tvö atvinnusvæði, Akureyri og Húsavík, betur saman og engin framkvæmd er betur til þess fallin en Vaðlaheiðargöng. Hér er því án efa um þjóðhagslega hagkvæmt verkefni að ræða, þar sem betri forsendur fyrir vexti og atvinnuþróun á Norðausturlandi mun vitaskuld koma þjóðinni allri til góða. Undirbúningsvinna, nauðsynlegar rannsóknir og mat, hefur þegar farið fram, sem gerir það að verkum að nú er hægt að hefjast handa og ráðast í útboð.

Þreföldun til tengivega

Auk þessara tveggja meiriháttar samgöngubóta boðar ríkisstjórnin til enn frekari aðgerða á sviði samgöngumála. Um 700 milljónum verður varið til framkvæmda á tengivegum víða um land, til viðbótar við þær tæplega 1300 milljónir sem boðaðar voru í framkvæmdir við tengivegi síðastliðið sumar. Alls renna því tveir milljarðar til tengivega á þessu ári, sem er ríflega þreföldun frá fyrra ári. Út frá atvinnusjónarmiðum er mikilvægt að hafa í huga að þessar framkvæmdir henta minni verktökum víða um land ákaflega vel og falla því vel að markmiðum mótvægisaðgerðanna.

GSM og háhraðanet um allt land

Einnig verður hafist handa við lengingu Akureyrarflugvallar, sem eykur notkunarmöguleika flugvallarins til muna. og gert er ráð fyrir að komið verði upp aðstöðu fyrir innanlandsflug á Reykjavíkurflugvelli, til þess að leysa úr aðsteðjandi húsnæðisvanda sem þarfnast úrlausnar, burtséð frá öllum ákvörðunum sem síðar verða teknar um framtíð flugvallarins.

Í fjarskiptamálum verður einnig brett upp ermar. Þegar hefur farið fram útboð á lagningu háhraðanets til um 1200 staða á landinu, sem standa fyrir utan áætlanir fyrirtækja á markaði um netuppbyggingu. Þegar þessir staðir verða tengdir hefur ríkisstjórnin náð því markmiði sínu að koma á háhraðaneti um land allt. Uppbygging á GSM neti hefur einnig verið sett á fulla ferð og gera áætlanir ráð fyrir að síðari áfanga í þeirri uppbyggingu ljúki á næsta ári. Jafnvel má gera ráð fyrir, ef áætlanir ganga eftir, að landið allt verði orðið GSM-vætt um áramót.

Sókn í samgöngumálum

Aldrei hefur jafnmiklu fé verið varið til samgöngumála og nú. Það er í samræmi við fyrirheit beggja stjórnarflokkanna á sviði samgöngumála, enda eru góðar samgöngur í víðustu merkingu þess orðs lykillinn að hagvexti og blómlegu mannlífi í landinu.

Þær aðgerðir sem nú eru boðaðar og hér hafa verið raktar marka vitaskuld ekki endapunkt á framkvæmdum í samgöngumálum. Meira stendur til. Á það hefur verið bent að ýmsar vegaframkvæmdir á Suðvesturhorninu og þá einkum á höfuðborgarsvæðinu séu orðnar verulega aðkallandi. Undir það tek ég heilshugar. Næsta stórframkvæmd á dagskrá er Sundabraut. Hún hefur alltaf verið forgangsmál í mínum huga. Fyrirhuguð lagning hennar er nú í lögformlegu matsferli.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum