Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. september 2008 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Hafnasambandsþing á Akureyri

Ávarp Kristjáns L. Möller samgönguráðherra á hafnasambandsþing á Akureyri 25. september 2008. Þema þingsins er: Framtíðarhorfur í starfsemi hafna.

Hafnasambandsþing á Akureyri
Ávarp samgönguráðherra 25. september 2008 kl. 10.15
Þema þingsins: Framtíðarhorfur í starfsemi hafna

Fundarstjóri og ágætu þingfulltrúar

Rekstrarumhverfi hafna er ofarlega í huga okkar flestra. Ýmsar breytingar í atvinnulífinu undanfarið hafa haft neikvæð áhrif á reksturinn. Niðurskurður á aflaheimildum hefur haft neikvæð áhrif á fiskihafnir þó svo að gengisþróunin undanfarið hafi þýtt að meiri verðmæti koma á land. Afli fer minnkandi og honum er landað í æ færri höfnum eins og atvinnuþróun hefur verið. Þetta skerðir tekjumöguleika þeirra hafna sem byggt hafa upp þjónustu við slíka starfsemi.

Þá hafa almennir vöruflutningar um margar hafnir dregist saman þótt nýjar tilraunir með strandflutninga standi nú yfir. Enn má nefna að íbúa- og byggðaþróun getur haft þau áhrif að endurskoða þurfi starfsemi hafna til dæmis þegar sveitarfélög leita leiða til að hagræða og sameina ýmsa rekstrarþætti sína.

Breytingar á hafnalögum hafa einnig þau áhrif að fjárframlög ríkisins munu fara minnkandi og allt þetta þýðir að fjárhagur flestra hafna fer versnandi.

Samkvæmt úttekt Hagfræðistofnunar Háskólans frá því í vor um fjárhagslega stöðu hafna er talið að viðbótarfjárþörf hafna verði kringum 820 milljónir króna til að þær geti staðið undir rekstri og eðlilegri endurnýjun og viðhaldi mannvirkja. Einnig segir í skýrslunni að þrjár stærstu hafnirnar, Faxaflóahafnir, Hafnarfjarðarhöfn og höfn Fjarðabyggðar, muni geta fjármagnað sig sjálfar, framlög ríkisins munu duga hjá þremur öðrum höfnum en aðrir 30 hafnarsjóðir þurfa á viðbótarfjármagni að halda.

Fram kemur í skýrslunni að hækkun gjalda á viðskiptavini sé neyðarbrauð en að aukið aðhald í rekstri og hagræðing ætti víða að geta bætt rekstur hafna. Brýnt sé að halda rekstri hafna aðskildum frá annarri starfsemi sveitarfélaga.

Settir eru fram þrír valkostir til að leysa vandann. Sú fyrsta er eins konar núllkostur, að breyta ekki hafnalögum og láta hafnarstjórnum og sveitarstjórnum eftir að sníða starfseminni stakk eftir vexti. Slíkt myndi mest áhrif hafa á miðlungsstórar hafnir þar sem umsvif hafa minnkað og styrkir minnka samkvæmt lögunum.

Önnur leið er að auka ríkisstyrki sem í dag eru aðeins heimilir til endurbygginga og fjárfestinga í mannvirkjum og tækjum en ekki rekstrar. Finna yrði þessu farveg með því að breyta hafnalögum eða líta á framlögin sem byggðastyrk. Hins vegar er bent er á að byggðastyrkir gætu stangast á við samkeppnissjónarmið.

Þriðja leiðin væri eins konar blanda af þessu tvennu. Þá þyrfti annars vegar að breyta styrktarflokkunum og hins vegar setja fram áætlun um hvaða hafnir væri hugsanlega hagkvæmt að leggja af og mætti hugsa sér ríkisaðstoð til að úrelda eða leggja af hafnir. Skýrsluhöfundur ætlar sér þó ekki það hlutverk sjálfur að setja fram tillögur um slíkt en hvetur til umræðu um það og undir það tek ég.

Við þurfum að finna bestu leiðina í þessu og það verður verkefni okkar næstu misseri að fara yfir þetta mál allt og marka stefnu enda hefur mér borist áskorun Hafnasambandsins um að leitað verði leiða til að rétta hlut hafnanna og skapa þeim fjárhagslegar forsendur og fari sú vinna fram í samráði við Hafnasambandið. Að því skulum við stefna.

Mörg verkefni eru framundan í höfnum landsins. Sum þeirra tengjast nýrri atvinnuuppbyggingu og krefjast mikilla fjárfestinga eins og fram hafa komið óskir um í tengslum við næstu samgönguáætlun. Þar er bent á uppbyggingu stórskipahafnar við Húsavík og Þorlákshöfn og álvershöfnina í Helguvík. Þetta eru verkefni uppá 12 til 13 milljarða króna. Fyrir utan þetta má nefna ýmsar endurbætur og verkefni hjá öðrum höfnum þar sem heildarkostnaður er áætlaður um 1.200 milljónir króna.

Allt tengist þetta umræðuefni dagsins, framtíðarhorfum í starfsemi hafna. Hver á forgangsröðin að vera og á hvað eigum við að leggja mesta áherslu næstu árin?

Ein tegund hafnaþjónustu hefur vaxið og dafnað síðustu árin þar sem hægt er að koma slíkri þjónustu við en það eru skemmtiferðaskipin. Tugir skipa hafa viðdvöl í nokkrum höfnum á sumri hverju og er ánægjulegt að fylgjast með þeirri grósku sem þeim fylgir. Farþegafjöldi þessara skipa hefur vitanlega góð áhrif á verslun og ferðaþjónustu og um leið leggur þetta kannski nýjar skyldur á herðar þeim höfnum sem þjóna þeim með bættri aðstöðu. Þennan lið þarf að halda áfram að styrkja og efla þar sem það á við.

Ég nefndi strandsiglingar áðan og nú er ljóst að áhugi er hjá skipafélögunum fyrir því að gera alvarlegar tilraunir í að endurvekja þær. Ef þær takast vel er það tvímælalaust í þágu aukins umferðaröryggis um leið og létt verður talsverðu álagi á þjóðvegakerfinu. Strandsiglingar eru þjóðhagslega og umhverfislega til mikilla bóta.

Þetta leiðir mig í næsta atriði sem eru loftslagsmálin sem koma til umræðu á öllum sviðum samgangna. Ljóst er að settur verður kvóti á útblástur í flugi með nýju kerfi í flugi í Evrópu. Slíkar aðgerðir munu hafa áhrif á íslenskan flugrekstur en leitað er leiða til rýmri losunarheimilda vegna sérstöðu Íslands sem er mjög háð flugsamgöngum. Þetta getur þó hins vegar reynst erfitt. Vel má ímynda sér að settar verði reglur um losun gróðurhúsalofttegunda í siglingum. Allar samgöngurgreinar þurfa og eru að taka öll þessi mál til endurskoðunar með það í huga að nýta annars konar eldsneyti, með framförum í tækni sem leiða til minni eldsneytisnotkunar og með leiðaskipulagningu og sem mestri nýtingu farartækja. Við þurfum að fylgjast vel með á þessum sviðum og reyndar eru þegar í gangi ýmsar aðgerðir sem snúast um olíusparnað ekki síst hjá fiskiskipaflotanum og þar hefur forysta útgerðarmanna ekki látið sitt eftir liggja.

Í þessu sambandi hef ég ákveðið að stofna nýjan stýrihóp til að fjalla um loftslagsmálin út frá sjónarhorni siglinga. Á hann að fylgjast með þróun og meta hvort tilefni er til aðgerða. Ég hef þegar ákveðið að formaður stýrihóps um loftslagsmál í flugi, Gunnlaugur Stefánsson, verði formaður þessa nýja hóps og að samsetning hans verði með líku sniði þó með hliðsjón af því að hann mun fjalla um siglingar.

Ef við horfum lengra út í sjóndeildarhringinn þá eru ýmsar breytingar í millilandasiglingum á norðurhveli jarðar í sjónmáli. Nýjar siglingaleiðir eru að opnast sem eiga eftir að hafa í för með sér mun meiri stórflutninga um hafsvæði okkar. Þetta kallar á ákveðinn viðbúnað af okkar hálfu sem við gerum okkur þegar grein fyrir og við þurfum að móta okkur vinnubrögð í þessu sambandi í samhengi við alþjóðlegar siglingareglur.

Tvær áfangaskýrslur og tillögur starfshóps um siglingaleiðir, neyðarhafnir og skipaafdrep liggja nú fyrir en í hópnum sat meðal annarra fulltrúi Hafnasambandsins. Þetta eru yfirgripsmikilar greinargerðir og tillögur um verklag við aðgerðir þegar skip í nauðum eru annars vegar. Taka þær tillögur bæði til björgunar og umhverfisvarna svo og hvernig fara skal með uppgjör kostnaðar og tjónabóta. Hafnirnar hafa komið með ákveðnar tillögur um ábyrgð og uppgjör kostnaðar svo og við stjórn aðila inn í þessa vinnu sem ég er sammála um að skoða þurfi vel.


Góðir fundarmenn.

Ég þakka ykkur fyrir að fá að ávarpa fundinn og fara yfir þau atriði sem hafa verið í umfjöllun í samgönguráðuneytinu undanfarin misseri.

Ég þykist vita að við eigum eftir að ræða málin út frá ýmsum hliðum bæði í hinni formlegu dagskrá og þegar stund gefst milli stríða til óformlegra viðræðna. Slíkt spjall er ekki síður mikilvægt og nauðsynlegt þegar þessi mikilvægi málaflokkur á samgöngusviðinu er annars vegar. Ég óska ykkur góðs gengis í fundarstörfum á hafnasambandsþingi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum