Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. janúar 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Keflavíkurflugvöllur ohf. fer í loftið

Ávarp Kristjáns L. Möllers 2. janúar 2009.

Góðir starfsmenn og gestir.

Keflavíkurflugvöllur ohf. tekur hér með formlega til starfa. Ég vil byrja á því að óska ykkur, starfsmönnum öllum, til hamingju með daginn og þakka ykkur fyrir framlag ykkar í þessu verkefni.

Ég vil jafnframt þakka stjórn hins opinbera hlutafélags fyrir þátt hennar í að koma þessu gangverki öllu af stað undir nýjum formerkjum með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Það var ekki auðvelt verkefni og varð ekki auðveldara í breyttum heimi efnahagsmálanna.

Hvað boðar nýárs blessuð sól?

Þessari spurningu sálmaskáldsins Matthíasar Jochumssonar hefur oftlega verið varpað fram við áramót í heila öld. Prestar vitna til sálmsins í predikunum, leiðarahöfundar í dagblöðum, bloggarar á netinu og ráðherrar í tækifærisræðum.

Og hvað boðar nýárssólin – fyrir utan náttúrunnar jól, eins og sálmaskáldið sagði – og fyrir utan líf og líknarráð. Hvernig svörum við þessari spurningu? Hvað boðar hún fyrir okkur, einstaklinga, fjölskyldur, fyrirtæki, opinber hlutafélög?

Við sem hér erum og berum ábyrgð á rekstri Keflavíkurflugvallar ohf. stöndum frammi fyrir þessari spurningu. Við höfum í höndunum öflugt fyrirtæki. Hér eru hæfir starfsmenn sem hafa í áraraðir sinnt krefjandi verkefnum og veitt góða þjónustu. Því verður haldið áfram og þó að við verðum að þola samdrátt um skeið er ég sannfærður um að aftur birti og að við getum nýtt krafta okkar, tæki og aðstöðuna hér til að þjóna flugi og ferðamönnum um ókomin ár.

Við þurfum að gera áætlanir og það er eðlilegt og sjálfsagt í öllum rekstri. Það er hins vegar ekki auðvelt í dag þegar efnahagslífið er frosið og öll hreyfing með minnsta móti. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fækkaði umtalsvert á síðasta ári og sömuleiðis minnkaði umfang póst- og vöruflutninga.

Hvað þýðir það? Það þýðir að tekjurnar minnka þar sem þær eru tengdar fjölda flugvéla, farþega og annars flutnings. Það þýðir að handtökin og verkefnin eru færri sem vinna þarf og það þýðir að endurskipuleggja þarf starfstilhögun.

Þetta hefur verið og verður verkefni stjórnar og forráðamanna Keflavíkurflugvallar ohf. enn um sinn. Það þarf að leita leiða til að mæta samdrætti með hvers konar aðhaldi og hagræðingu.

Samdrátturinn í haust hefur verið hraður, ferðir Íslendinga hafa dregist saman og það er ekki raunhæft að gera ráð fyrir aukningu þar á næstu mánuðum. Vonarglæta er hins vegar í erlendum ferðamönnum sem hafa áfram streymt hingað til lands enda verðlagið hagstætt þeim.

Iðnaðarráðherra, sem einnig er ráðherra ferðamála, hefur ýtt undir aukningu á þessu sviði með meiri fjárframlögum til landkynningar og við vonum að það skili sér.

Þrátt fyrir þetta gerir stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. ráð fyrir talsverðum samdrætti á árinu. Það er nauðsynlegt að vera varkár í áætlunum og búa sig undir það versta en vona það besta.

Í lokin vil ég minnst á þá hugmynd sem ég varpaði fram á fundi með forstöðumönnum stofnana og félaga samgönguráðuneytisins, að kanna sameiningu Keflavíkurflugvallar ohf. og Flugstoða ohf. Efnahagsástandið knýr okkur til að leita allra leiða til ráðdeildar og sparnaðar. Ein þeirra gæti verið sameining þessara tveggja opinberu hlutafélaga. Við þurfum að kanna rækilega kosti þess og galla.

Með þessu er ég ekki að segja að félögin tvö séu illa rekin eða að þar hafi ekki verið unnið í anda hagkvæmni og skilvirkni heldur er ég aðeins að varpa því fram hvort sinna mætti þessum verkefnum með enn meiri hagkvæmni og skilvirkni. Ég legg líka áherslu á að þessari könnun verði hraðað sem mest.

Góðir samstarfsmenn.

Ég hef kannski dvalið um of við dekkri hliðarnar en ég hygg að þið getið verið sammála mér um að við eigum að vera raunsæ. Þið hafið áður horfst í augu við samdrátt og sveiflur í starfseminni hér og þið hafið áður staðið af ykkur slík tímabil. Þið eruð vön að takast á við hið óvænta.

Um leið og við búum okkur undir ákveðin viðbrögð og þreyjum þorrann og góuna skulum við íhuga hvar ný tækifæri liggja og hvernig við nýtum þau. Þau eru til – við þurfum bara að finna þau – og ég er sannfærður um að það mun takast. Það er í mínum huga boðskapur nýárssólarinnar.

Að svo mæltu ætla ég að opinbera merki félagsins sem á að birtast hér á skjánum.....



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum