Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. janúar 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Nánara samráð vegna efnahagsástandsins

Kristján L. Möller skrifar um samstarf ríkis og sveitarfélaga. Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2009.


Efnahagsástandið í landinu kemur illa við alla landsmenn, heimilin, fyrirtækin og samfélagið í heild sinni. Það mun taka okkur tíma að vinna okkur út úr þessum mikla vanda en með samstilltum aðgerðum hér heima fyrir og í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og alþjóðasamfélagið mun okkur takast að vinna á þessum erfiðleikum.

Mér segir svo hugur, þó að ástandið verði erfitt næstu misserin, að við Íslendingar verðum fljótari en margar aðrar þjóðir að ná nauðsynlegum efnahagsstöðugleika. Við höfum þrátt fyrir allt allar forsendur til þess. Unnið er að endurreisn fjármálastarfsemi landsins og varnarbarátta er háð fyrir atvinnulífið og heimilin. Samstaða er um það að eitt meginviðfangsefnið sé við þessar aðstæður að styrkja stoðir velferðarkerfisins og verja grunnþjónustuna.

Hlutverk sveitarfélaganna í þessu samhengi er afar mikilvægt. Sveitarfélögin bera ábyrgð á um þriðjungi af opinberum útgjöldum og á herðum þeirra hvílir mikilvæg grunnþjónusta, svo sem menntun barna og félagsþjónusta. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á að eiga gott og náið samráð við sveitarfélögin og stutt við bakið á þeim eins og kostur er.

Sameiginlegt verkefni að verja grunnþjónustu

Strax og ljóst var í hvert óefni var komið, eða þann 10. október, átti ég fund með formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem við undirrituðum yfirlýsingu þess efnis að það væri sameiginlegt verkefni okkar að verja grunnþjónustuna. Við hétum jafnframt auknu og nánara samstarfi og höfum síðan átt reglulega samráðsfundi þar sem rætt hefur verið um leiðir til að treysta stöðu sveitarsjóðanna við hinar gerbreyttu aðstæður.

Ég þakka fyrir þetta góða samstarf við forystu Sambandsins og tel afrakstur þess heilmikinn. Í grundvallaratriðum hefur áherslum sveitarfélaganna, sem kynntar voru á samráðsfundi þeirra um efnahagsmál þann 17. október síðast liðinn, verið mætt með margvíslegum hætti.

Í fyrsta lagi hefur Lánasjóður sveitarfélaganna verið efldur.

Í öðru lagi liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga sem breytir lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um gatnagerðargjald.

Í þriðja lagi hefur verið tryggt að einn milljarður mun frá og með þessu ári renna varanlega í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga í því skyni að verja sveitarfélög sem standa höllum fæti, en þurfa að veita umtalsverða grunnþjónustu. Jafnframt hefur ríkið fallið frá kröfum um að lækka álagningarprósentu á opinberar fasteignir úr 1,32% í 0,88%.

Í fjórða lagi hefur verið unnið að öflun samtíma upplýsinga um fjárhagsleg málefni sveitarsjóðanna og auknu svigrúmi við gerð fjárhagsáætlana.

Jafnframt var ákveðið að breyta lögum um tekjustofna á þann veg, að hámarksútsvarsprósenta hækkar um 0,25 prósentustig frá og með þessu ári, verður 13,28% í stað 13,03%. Áætlað er að þessi breyting geti skilað sveitarfélögunum allt að tveimur milljörðum í viðbótartekjur miðað við að þau fullnýti heimildina. Það hefur hins vegar komið í ljós að mörg sveitarfélög munu ekki nýta sér hið aukna svigrúm til útsvarsálagningar, sem bendir til góðrar fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélaga. Af 78 sveitarfélögum leggja 54 á hámarksútsvar.

Fjármálareglur nauðsynlegar

Enn er verk að vinna til að gera sveitarfélögin betur í stakk búin til að rækja hlutverk sitt. Við þurfum að efla sveitarstjórnarstigið enn frekar og að því vil ég stefna. Mikilvægt er að áfram verði unnið að mótun fjármálareglna fyrir sveitarfélögin og að þau fari að vinna eftir slíkum reglum. Ég er ekki í vafa um það að fjármálareglur munu hafa jákvæð áhrif á búskap hins opinbera og tryggja betur en nú er samspil efnahagsmála ríkis og sveitarfélaganna. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefði komið sér vel í þessu efnahagsástandi ef slíkar reglur væru í gildi.

Ég tel brýnt að vinna áfram að eflingu sveitarstjórnarstigsins með því að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaganna. Unnið hefur verið að því undir forystu félags- og tryggingamálaráðherra að færa málefni fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaganna árin 2011 og 2012. Efnahagsástandið á ekki að trufla þau áform.

Á fundum með sveitarstjórnarmönnum hef ég boðað endurskoðun á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, þar með talið regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Vegna efnahagsástandsins hefur dregist að koma þessari vinnu af stað, en nú er okkur ekkert að vanbúnaði. Ég hef þegar skipað starfshóp sem fjalla á um framlög Jöfnunarsjóðs og meta hvort og hvernig hægt sé að auka gæði jöfnunar. Það er umhugsunarefni að sum sveitarfélög fá allmikla fjármuni úr sjóðnum án þess að hafa þörf fyrir að fullnýta tekjustofna. Ég vonast til þess að geta fljótlega skipað nefnd um tekjustofna sveitarfélaga og mun bjóða öllum þingflokkum sem nú starfa á Alþingi að eiga fulltrúa í nefndinni.

Efling með sameiningu

Að lokum vil ég nefna það mikilvæga verkefni sem er sameining sveitarfélaga. Í dag er meira en helmingur allra sveitarfélaga með færri en 1.000 íbúa, eða 45 sveitarfélög. Þar af eru 30 með færri en 500 íbúa. Ég tel einboðið að mikil tækifæri til hagræðingar og um leið eflingar sveitarstjórnarstigins felist í því að sameina frekar sveitarfélögin á Íslandi. Ég hef hvatt til þess að nýjar leiðir verði farnar til sameiningar sveitarfélaga. Mín skoðun er sú að besta og skilvirkasta leiðin sé að hækka núverandi íbúalágmark, sem er 50 samkvæmt sveitarstjórnarlögum, í 1.000. Að því mikilvæga verkefni vil ég vinna í samstarfi við sveitarfélögin.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum