Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. janúar 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Vegaframkvæmdir boðnar út að nýju

Kristján L. Möller skrifar um framlög til vegamála. Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2009.


Vegagerðin hefur að ósk minni aftur hafið undirbúning og auglýsingu útboða vegna verkefna á næstu misserum í samræmi við gildandi samgönguáætlun og fjárveitingar ársins 2009. Í nóvember var ákveðið að bíða með öll verkútboð þar til séð yrði hver yrði framvinda efnahagsmála og hversu umfangsmikil lækkun framlaga til vegamála yrði.

Þrátt fyrir 6 milljarða króna lækkun útgjalda á þessu ári blasir við að árið verður annað mesta framkvæmdaár sögunnar í vegamálum. Á síðasta ári runnu um 25 milljarðar króna til framkvæmda og í ár mun tæplega 21 milljarður fara til framkvæmda. Aðrir stórir liðir í vegamálum eru rúmir 5 milljarðar til viðhalds, 3,7 milljarðar til vetrar- og sumarþjónustu á vegum og 1,4 milljarðar fara til að styrkja ferjur og sérleyfishafa í fólksflutningum og innanlandsflugi.

6-7 milljarðar til nýrra útboða á árinu

Áætlað er að um 14 milljarðar af framlaginu til nýframkvæmda ársins séu þegar bundnir í verkefnum sem komin voru af stað í fyrra. Eru það allmörg og umfangsmikil verkefni. Milli 6 og 7 milljarðar króna verða til ráðstöfunar í ný verkefni á árinu og er val á þeim langt komið. Þegar er hins vegar hægt að bjóða út verkefni sem komin voru á útboðsstig og má þar nefna kafla á Rangárvallavegi, Vestfjarðavegi milli Kjálkafjarðar og Vatnsfjarðar og veginn milli Vopnafjarðar og Hringvegar. Þessi og fleiri verkefni verða boðin út næstu vikur og mánuði. Með því er ætlunin að nýta komandi sumar sem mest til framkvæmda. Einnig er ætlunin að dreifa útboðum nokkuð yfir árið.

Við val á verkum hef ég lagt aukna áherslu á suðvesturhorn landsins og á samgöngubætur sem krefjast mikils mannafla. Er í fyrstunni miðað við að um helmingur af þeim 6-7 milljörðum króna sem til ráðstöfunar eru fari í verkefni á Suðvesturlandi og hinn helmingurinn skiptist á önnur landsvæði. Höfum í huga að flýtiframkvæmdir ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðs aflaheimilda voru allar í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Nú þegar er unnið að mörgum viðamiklum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu og mörg til viðbótar eru komin á útboðsstig og verða boðin út á næstunni.
Ljóst er að þegar framlög lækka frestast einhver verkefni sem komin voru á áætlun. Önnur ástæða er sú að vegna aukinnar verðbólgu og verðbóta sem Vegagerðin verður að greiða verktökum upp að vissu marki hrökkva fjárveitingar ekki eins langt og ráð var fyrir gert. Ég geri mér samt sem áður vonir um að þessi verkefni sem við frestum nú komist á dagskrá á næsta ári og því mun hönnun og annar undirbúningur halda áfram.

Arðbær verkefni

Vegaframkvæmdir eru yfirleitt með arðbærustu verkefnum í nútímaþjóðfélagi. Samgöngubætur eru til þess fallnar að stytta leiðir, auka öryggi og sameina byggðir. Í strjálbýlu landi getur hins vegar stundum verið erfitt að sýna fram á ótvíræða arðsemi. Vega- og samgöngumannvirki lúta ákveðnum hönnunar- og öryggisstöðlum og það er hvorki eðlilegt né réttlætanlegt að gefa afslátt frá þeim þótt umferð sé lítil. Af þessum sökum þurfum við að vega og meta hverja framkvæmd í þessu samhengi.

Nýr sæstrengur verður senn tilbúinn og samningaviðræður við Símann vegna háhraðatenginga á landsbyggðinni eru á síðustu metrunum þrátt fyrir erfitt árferði. Þessar tvær framkvæmdir á sviði fjarskipta geta skipt sköpum í atvinnuuppbyggingu næstu ára.

Í lokin vil ég ítreka að þótt hægist lítillega á nýframkvæmdum í bili verður samt varið um 5 milljörðum króna til viðhalds á vegakerfinu á árinu og tæplega 21 milljarði verður varið til vegaframkvæmda. Það eru líka framkvæmdir sem skipta máli, þær eiga sér stað um landið allt og eiga þátt í að halda uppi atvinnu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum