Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. maí 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Náum aftur góðu flugi eftir þrengingar

Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp við setningu ráðstefnu um rekstur flugfélaga sem Tækniskólinn hafði frumkvæði að. Fulltrúar íslenskra flugrekenda fluttu þar erindi um rekstur sinn og rektor School of Aviation, John Wensveen, ræddi um vanda, stefnu og framtíð flugheimsins.

Kristján L. Möller samgönguráðherra flutti ávarp við setningu ráðstefnu um rekstur flugfélaga sem Tækniskólinn hafði frumkvæði að. Fulltrúar íslenskra flugekenda fluttu þar erindi um rekstur sinn og rektor School of Aviation, John Wensveen, ræddi um vanda, stefnu og framtíð flugheimsins.

Góðir ráðstefnugestir.

Rekstur flugfélaga er áhugavert efni enda eigum við Íslendingar langa og merkilega sögu í flugrekstri. Flugið er mjög samtvinnað daglegu lífi okkar og atvinnusögu þjóðarinnar. Við erum flest beinir eða óbeinir þátttakendur í fluginu auk nær daglegrar nálægðar við flugvelli og flugumferð. Og ef við erum ekki beinir þátttakendur í fluginu getum við að minnsta kosti sameinast í rifrildi um það hvort Reykjavíkurflugvöllur á að vera áfram í Vatnsmýri eða ekki.

Það liðu ekki margir áratugir frá því að Wright bræður hófu flugið fyrir rúmum hundrað árum þar til Íslendingar voru búnir að stofna flugfélög. Þar með varð flugið fljótlega ein helsta samgönguleið okkar um landið og milli landa.

Flugið er Íslendingum mikilvægur samgöngumáti og atvinnugrein. Við sjáum alls staðar merki þess. Hér eru skráðir tugir stórra farþegaþota, um tvær milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll á ári, a.m.k. fram að þessu, um hundrað þúsund flugvélar fara um íslenska flugstjórnarsvæðið á ári, flugfélög okkar sinna verkefnum nánast um allan heiminn og þessi rekstur veitir þúsundum manna atvinnu. Ég hygg að við heyrum í dag margt sem sýnir þetta betur.

Rekstur flugfélaga – þetta er yfirgripsmikið efni og þetta er flókinn rekstur og fjölþættur:

  • Til þess að rekstur flugfélags geti þrifist þarf nauðsynlega innviði og jákvætt rekstrar- og starfsumhverfi.
  • Til þess að reka flugfélag þarf sérsniðið menntakerfi sem ungar út sérhæfðum starfsmönnum.
  • Til þess að reka flugfélag þarf fjármagn og lánstraust.
  • Til þess að reka flugfélag þarf margs konar stuðnings- og tækniþjónustu þar sem þróaðar eru nýjar lausnir og nýr búnaður.
  • Til þess að reka flugfélag þarf að setja öryggið ofar öllu.
  • Til þess að reka flugfélag þarf að kunna skil á áhrifum þess á umhverfið.
  • Og síðast en ekki síst - til þess að reka flugfélag þarf áræði, djörfung og dug til að sækja fram og sýna frumkvæði.

Ég ætla aðeins að staldra við tengda starfsemi. Flugmálastjórn og síðar Flugstoðir reka til dæmis dótturfyrirtækið Flugkerfi. Þar eru stundaðar rannsóknir og þróun á flugstjórnar- og flugleiðsögutækni og starfa við það um 30 manns. Fyrirtækið hefur selt erlendum aðilum tæknilausnir sínar og þessi útrás er enn í fullu gildi.

Við getum líka nefnt flugvélaleigu sem íslensk flugfélög hafa alltaf sinnt. Þegar verkefnin voru í lágmarki heima fyrir var unnt að leigja hluta flugflotans í tímabundin verkefni úti í heimi. Síðar hefur þessi starfsemi þróast í sérhæfð fyrirtæki sem kaupa, leigja og selja flugvélar.

Enn fleira mætti tína til sem er afleidd starfsemi og tengist fluginu svo sem margs konar landkynningar- og markaðsstarfsemi og ferðaþjónustuna í heild sem færir okkur ómældar gjaldeyristekjur. Allt þetta sýnir hversu víðtæk atvinnugreinin er og að hún teygir anga sína meðal annars yfir í margs konar þróunar- og rannsóknarstarfsemi.

Stjórnvöld þurfa líka sífellt að meta hvar og hvernig er unnt að reka alla þjónustu sína á skilvirkan og hagkvæman hátt. Ég er kannski kominn út á hálan ís þegar ég nefni Evrópusamvinnu en væri til dæmis mögulegt að koma á samevrópskri skráningu fyrir flugvélar í stað þess að hvert og eitt land annist þá umfangsmiklu vinnu sem skráningin kallar á? Væri líka hugsanlegt að sameina á einhvern hátt rannsóknarnefndir flugslysa Evrópulanda? Þessu tvennu hefur verið varpað fram í hinum evrópska flugheimi.

Samgönguyfirvöld eru að stíga eitt skref í hagræðingarátt hérlendis með því að kanna hvort hagkvæmt væri að sameina rannsóknarnefndir samgönguslysa. Tilgangurinn er ekki aðeins hagkvæmni heldur er einnig stefnt að því að efla rannsóknir á samgönguslysum.

Við erum einnig að stíga annað skref í þágu þess að reyna að ná fram minnkandi kostnaði í þjónustu við flugið. Það er athugunin á sameiningu á rekstri Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. Starfshópur um málið hefur þegar haldið nokkra fundi og er að kanna alla kosti og galla við hugsanlega sameiningu. Meðal þess sem hópurinn hefur rætt er að hafa millilandaflugvellina í Keflavík, Reykjavík, Akureyri og á Egilsstöðum í sameinuðu fyrirtæki en láta til dæmis sveitarfélög um að annast innanlandsflugvelli.

Í þessu sambandi þarf að marka stefnu í gjaldtökumálum. Eiga flugvellir að standa undir sér með gjaldtöku fyrir þjónustuna? Verður þá gjaldið of hátt og flugfélög fælast frá? Eða á ríkið að halda uppi flugi með styrkjum á ákveðnum leiðum? Þýðir það ekki að samkeppnin leggst af?

Loftferðasamningar eru lykillinn að milliríkjasamskiptum þegar flugið er annars vegar. Í dag eru í gildi um 20 loftferðasamningar milli Íslands og annarra landa og hátt í annar eins fjöldi bíður undirritunar eða gildistöku. Viðræður standa yfir við fjölmörg lönd og í undirbúningi eru viðræður við um 50 ríki.

Í þessum efnum stendur ekki á áhuga okkar Íslendinga að koma á samningum. Í mörgum tilvikum hafa þreifingar staðið yfir árum og jafnvel áratugum saman áður en þær leiða til árangurs. Við höfum oft þurft að kyngja því að við erum of lítil þjóð með of lítið markaðssvæði fyrir flugfélög stórþjóða og þar með er áhugi þeirra á samningum við okkur enginn.

Í þessu sambandi kem ég aftur að Evrópumálunum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu myndi færa okkur mun sterkari stöðu hvað varðar loftferðasamninga við fjölmörg ríki. Þeirra á meðal eru ríki í Asíu, Afríku og Eyjaálfu, í ríkjum þar sem íslensk flugfélög hafa verið að þreifa fyrir sér með verkefni til lengri eða skemmri tíma. Þessi verkefni stranda iðulega á því að loftferðasamningur er ekki fyrir hendi.

Góðir ráðstefnugestir.

Rekstur flugfélaga verður seint auðveldur. Við gerum miklar kröfur til flugfélaga og er krafan um öryggi þar efst á blaði. Í kjölfarið koma síðan kröfur um fjölbreytta og góða þjónustu.

Tímabundnir erfiðleikar í efnahagslífinu steðja að okkur en ég er sannfærður um að við munum fyrr en varir ná aftur góðu flugi. Á þrengingatímum þurfum við að tileinka okkur nýja hugsun og leit að nýjum leiðum. Ég er sannfærður um að í dag verður margt áhugavert borið hér á borð og að umræður verða gagnlegar og fræðandi. Gangi ykkur vel.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum