Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. október 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2009

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra , flutti ræðu á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem haldinn var á á Hilton Hótel Nordica, föstudaginn 2. október 2009.

Góðir fundarmenn á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Í fréttum af sveitarstjórnarmálum er þetta helst: Vikan hefur verið undirlögð af verkefnum sem tengjast sveitarfélögum og Jöfnunarsjóði og hún hefur einnig verið árangursrík. Við höfum gengið frá verklagi við eflingu sveitarfélaga, skipulagðara samráði ríkis og sveitarfélaga og endurskoðun á tekjustofnum er langt komin.

Ég mun nú fjalla nánar um þessar fréttir og ýmislegt fleira sem unnið er að í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og snertir Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem er umfjöllunarefni okkar í dag en þessi verkefni snerta einnig fjármál sveitarfélaga og hag sveitarfélaganna í víðu samhengi.

Það er engin tilviljun að heitið ,,sveitarstjórnar” bætist nú í nafn ráðuneytisins. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að efla sveitarfélögin með ýmsum hætti og þið þekkið orðið þann lista: Flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga, endurskoða tekjustofna, setja samskiptareglur og koma yfirleitt á mun formlegri samskiptum og samráði milli þessara aðila. Með öðrum orðum: Vægi sveitarstjórnarmála í ráðuneytinu er að aukast. Langflest málefni sem samgönguráðuneytið eitt og sér hefur sýslað með í gegnum árin snerta sveitarfélögin. Það var því bæði rökrétt og sjálfsagt að flytja sveitarstjórnarmál í samgönguráðuneytið og rökréttur lokahnykkur í því er að aðlaga nafnið þessari breytingu.

Síðastliðinn þriðjudag var haldinn samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga og sátu hann, auk okkar í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, fulltrúar fjármálaráðuneytis og forsvarsmenn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fjármálaráðherra gerði þar grein fyrir stöðu og horfum í búskap ríkisins og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sagði frá stöðu og horfum í búskap sveitarfélaganna. Síðan greindi ég frá ýmsum verkefnum sem unnið er að í ráðuneytinu og snerta vöxt og viðgang sveitarfélaganna.

Fundur sem þessi er boðaður á grundvelli samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga en tilgangur hans er að efla formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga. Er það gert með reglulegum samskiptum aðila, stuðla að sameiginlegri sýn á þróun, stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins og stuðla að aðhaldi og ábyrgð í opinberum rekstri. Skipuð var samráðsnefnd, Jónsmessunefnd, í fyrra sem ætlað er að auka formfestu í þessum samskiptum, innleiða samskiptareglur og skapa traust. Mér er óhætt að fullyrða að nefndinni hefur orðið vel ágengt og er almenn ánægja beggja aðila með starf hennar.

Í framhaldi af samráðsfundinum á þriðjudag skrifuðum við Halldór Halldórsson undir yfirlýsingu um að sameinast um vinnu við áframhaldandi eflingu sveitarstjórnarstigsins. Skipuð verður samstarfsnefnd sem meta skal sameiningarkosti með því að fara um landið og ræða við sveitarstjórnarmenn og aðra íbúa um land allt. Hún mun leggja tillögur sínar fyrir landsþing eða aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga og afgreiðsla þeirra verður síðan grundvöllur að tillögum mínum til Alþingis. Alþingi mun hafa síðasta orðið í þessu ferli. Grunnurinn kemur frá grasrótinni sem verður svo formlega staðfest í meðförum Alþingis og þannig má segja að þessi aðferð sé blanda af frjálsu vali og lögfestingu löggjafans.

Aftur minni ég á þá ætlan ríkisstjórnarinnar að efla sveitarfélögin. Grunnur að eflingu þeirra er að stækka þau enda eru flestir innst inni sammála um að fámenn sveitarfélög rísa ekki lengur undir þeirri þjónustu og starfsemi sem samfélagið krefst. Með því að teikna þannig upp ígrundaðar tillögur að sameiningu og stækkun sveitarfélaga sem byggjast á viðræðum við heimamenn sé ég fyrir mér árangur í þessum efnum. Árangur sem leiðir til þess að sveitarfélagaskipanin verður orðin allt önnur eftir kosningarnar 2014 og árangur sem felur í sér sterkari sveitarfélög. Þau verða jafnframt umtalsvert færri og ég hef nefnt töluna 17, fækkun úr 77 sveitarfélögum í 17.

Ég sé þessa fækkun fyrir mér meðal annars með þeim rökum að til dæmis hafa landshlutasamtök á Vestfjörðum og Austurlandi lýst yfir áhuga á að kanna allsherjarsameiningu í sínum fjórðungum. Ég sé einnig fyrir mér margháttuð sameiningartækifæri á Norðurlandi, Suðurlandi og Reykjanesi og ég vil heldur ekki undanskilja höfuðborgarsvæðið. Gleymum ekki að kanna möguleikana þar.

Þá vil ég minna á að efling sveitarfélaga er nánast óhugsandi án þess að þau fái til sín fleiri verkefni og tilheyrandi tekjustofna. Ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið flutning á málefnum fatlaðra og aldraðra árin 2011 og 2012 og nefnt hefur verið að flytja einnig heilsugæslu í fyllingu tímans. Eflaust fylgir fleira í kjölfarið og sveitarstjórnarmenn hafa til dæmis nefnt framhaldsskólann og því ekki einhver verkefni á sviði samgöngumála.

Þessu öllu tengjast vitanlega tekjustofnar sveitarfélaganna. Við þurfum að efla þá og treysta. Nefnd undir forystu Gunnars Svavarssonar vinnur nú að endurskoðun á öllu tekjustofnakerfinu. Í nefndinni eru margir sveitarstjórnarmenn, núverandi og fyrrverandi og þar er því mikil reynsla og þekking fyrir hendi. Tillögur hennar munu líta dagsins ljós uppúr áramótum og ég er þess fullviss að þær verða vandaðar og raunhæfar. Á sama hátt er verið að endurskoða allt regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og stýrir Flosi Eiríksson því verkefni. Ég veit að þar verður hverjum steini velt við og vegið og metið hver ættu að vera eðlileg verkefni Jöfnunarsjóðs og hverju mætti breyta.

Af öðrum fréttum varðandi sveitarfélögin vil ég nefna endurskoðun á sveitarstjórnarlögunum. Það verkefni er að hefjast og hefur Trausti Fannar Valsson verið ráðinn til þess verks.

Enn vil ég nefna verkefni sem hleypt var af stokkunum að frumkvæði ríkisstjórnarinnar sem er starfshópur um sóknaráætlanir sem Dagur B. Eggertsson stýrir. Sá hópur er að móta sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta og er honum falið að finna nýjar leiðir í svæðasamvinnu, samþætta opinberar áætlanir og færa meiri ábyrgð heim í hérað. Þarna á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stóran hlut að máli með samgönguáætlun og fjarskiptaáætlun.

Þá minni ég á að nú síðsumars lauk störfum nefnd sem kannaði starfsemi landshlutasamtaka sveitarfélaga. Því verki stýrði Hólmfríður Sveinsdóttir. Niðurstaða nefndarinnar var sú að landshlutasamtökin ættu fullan rétt á sér og vel væri hugsanlegt að fela þeim enn frekari verkefni til dæmis á sviði alþjóðlegrar samvinnu. Ábendingar skýrslunnar og starfsemi landshlutasamtakanna verða áfram til skoðunar og hlýtur að tengjast mjög niðurstöðum næstu missera varðandi stækkun sveitarfélaga.

Kosningar til sveitarstjórna verða eflaust mikið til umræðu næstu misserin bæði í ljósi þess að sveitarstjórnarkosningar verða næsta vor og rætt hefur verið um að taka um persónukjör. Á liðnum vetri skipaði ég starfshóp til að kanna hvernig auka megi hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ég taldi æskilegt að vinna út frá því markmiði að hlutfall kvenna og karla í sveitarstjórnum verði því sem næst jafnt við næstu sveitarstjórnarkosningar og að engin sveitarstjórn verði skipuð aðeins öðru kyninu. Núna eru að minnsta kosti fimm sveitarstjórnir aðeins skipaðar körlum. Starfshópurinn er að ljúka störfum og ég hlakka til að sjá hvað hann hefur fram að færa.

Í lokin er rétt að segja frá vegvísi að gerð hagstjórnarsamnings sem undirritaður var í gær þar sem þið voruð mörg viðstödd. Að vegvísinum standa fjármálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Þessir aðilar eru sammála um að líta á fjármál opinberra aðila sem eina heild í hagstjórnarlegu tilliti. Meðal leiðarljósa í því samstarfi er að eiga náið samstarf um að áætlanir og útgjöld ríkis og sveitarfélaga taki mið af markmiðum um þjóðhagslegan stöðugleika, leita leiða til að afkoma þeirra verði í samræmi við þau viðmið sem sett eru um jöfnuð í fjármálum hins opinbera og að vinna að setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélög sem tryggi markmið um rekstrarafkomu og reisi skorður við skuldsetningu.

Eitt þýðingarmesta atriði hagstjórnarsamningsins er ákvæði um að leita leiða til að tryggja að öll lagafrumvörp og allar reglugerðir sem geta haft áhrif á útgjöld ríkissjóðs og/eða sveitarsjóði verði kostnaðarmetin áður en kynning fer fram í ríkisstjórn og áður en frumvarp er lagt fram á Alþingi eða reglugerð birt í Stjórnartíðinum. Þetta er þýðingarmikið atriði sem sveitarfélögin hafa lengi hamrað á að tekið sé tillit til við laga- og reglugerðasmíð og ég tel hér farsællega komið til skila.

Góðir fundarmenn.

Nú er fjárlagafrumvarpið komið fram og er það í anda þess sem boðað var varðandi fjögurra ára áætlun ríkisfjármála 2010 til 2013 meðal annars um að ná jöfnuði á fjórum árum. Þið vitið það jafn vel og ég að þetta verður ekki auðvelt.

Staða ríkissjóðs er erfið, staða sveitarfélaga er erfið og staða heimila er erfið. Það skulda allir of mikið. Af þeim sökum hafa allir orðið að endurskoða og endurmeta alla hluti, spara, skera niður, fresta verkefnum og leita hagræðingar. Forgangsröðin verður önnur við slíkar aðstæður.

En við erum líka sannfærð um að betri tímar séu framundan og að við munum komast út úr þessum erfiðleikum.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er sveitarfélögunum mikilvæg stoð. Sveitarfélögin verða að eiga hann að um ókomin ár þrátt fyrir að regluverk hans sé nú í endurskoðun.

Af yfirferð minni hér að framan heyrið þið að verkefnin eru mörg. Við höfum verið í eins konar undirbúningsferli síðustu mánuði og misseri. Verkefnahópar hafa verið skipaðir og samningar undirritaðir. Nú er undirbúningi lokið og sjálf verkefnin taka við.

Í lok máls míns vil ég þakka öllu starfsfólki Jöfnunarsjóðsins fyrir gott og mikið starf. Ég vona að þið takið undir það með mér með lófataki.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum