Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. október 2009 InnviðaráðuneytiðKristján L. Möller, samgönguráðherra 2007-2010

Arnkötludalsvegur - formleg opnun miðvikudaginn 14. október 2009

Ávarp Kristjáns L. Möller samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við formlega opnun vegar um Arnkötludal.

Góðir Vestfirðingar, Strandamenn og aðrir gestir

Mikil tímamót hafa orðið í samgöngumálum Vestfirðinga með þeim lokaáfanga umfangsmikilla vegabóta sem við fögnum í dag. Ég vil í upphafi máls míns þakka öllum sem hér hafa komið við sögu, Vegagerðinni og öllu hennar fólki og starfsmönnum verktakans, Ingileifs Jónssonar.

Mér finnst eiga vel við að vitna í ljóð eftir Davíð Stefánsson sem heitir Vegurinn. Fyrsta erindið er svona:

Einn talaði oft um veg yfir vegleysur og hraun.
Einn vitnaði í samtök, er ynnu þyngstu raun.
Einn mældi fyrir vegi og vissi upp á hár,
hvar vegur ætti að koma... Svo liðu hundrað ár.

Svo liðu hundrað ár – og hér hafa menn beðið í hundrað ár eða næstum því.

Með nýju vegarköflunum í Ísafjarðardjúpi og með hinum nýja vegi um Arnkötludal hefur vetrarleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur styst um rúmlega 75 kílómetra. Þá hefur leiðin milli Hólmavíkur og Reykjavíkur styst um 42 kílómetra. Og það sem meira er: Nú ökum við þessa 455 kílómetra löngu leið á bundnu slitlagi – með öðrum orðum það er nú komið bundið slitlag milli Reykjavíkur og Bolungarvíkur. Mér finnst eðlilegra að nota Bolungarvík í þessu sambandi en ekki staðnæmast við Ísafjarðarbæ. Við getum kannski einhvern tímann bætt Skálavík við. Og ekki gleymum við Þingeyri því þangað er bundið slitlag líka ef farin er Djúpleiðin.

Í ljóði Davíðs er talað um að ekkert breytist, hraunið og björgin hafi legið kyrr, menn hafi talað og haft góðan vilja en sumum fundist heimska að leggja nokkra braut. Við erum ekki alltaf sammála um hlutina og við erum gjörn á að tala lengi áður en nokkuð gerist. Stundum hittum við líka úrtölumenn sem telja það hinn mesta óþarfa að leggja nokkurt fé í samgöngubætur á landsbyggðinni þar sem fáir búa að þeirra sögn.

En áfram með skáldið frá Fagraskógi:

En loksins hætti æskan að lúta þeirra sið,
sem líta fjærst til baka, en aldrei fram á við.
Og æskan, hún er samhent og sagði: Hér er ég.
Og sjá, hún ruddi hraunið og lagði nýjan veg.

Já, hér höfum við sannarlega nýjan veg og glæsilegan. Hér hefur hraunið verið rutt og hér hefur verið horft fram á við og af því að ljóðskáldið minnist sérstaklega á æskuna leyfi ég mér að halda því fram að hér hafi æskan og ellin tekið höndum saman um að ryðja brautina.
Þetta eru sannkölluð samgöngumannvirki og nú geta íbúar í þessum byggðum og aðrir sem nota þessi mannvirki fagnað og glaðst yfir því að komast leiðar sinnar með skjótum og öruggum hætti. Hér hafa verið lagðir beinir og breiðir vegir eins og hægt er þegar vegir liggja um fjöll og firði og loks má fagna því að viðunandi vegasamband er nú komið á hér um slóðir.
Vegurinn um Arnkötludal gefur líka nýja möguleika á samskiptum Dala- og Strandamanna sem nú verða næsta auðveld. Nú er tækifæri til daglegra atvinnu- eða menningarsamskipta sem ég efa ekki að menn munu nýta sér í þessum byggðum.

En eitt þýðingarmesta atriðið sem þessar framkvæmdir hafa í för með sér er stytting vegalengda sem ég minntist á. Hún verður arðbærasta atriðið í þessari samgöngubót. Við erum ósköp fegin og ánægð þegar við ferðumst milli landshluta í sumarleyfum eða öðrum slíkum erindum þegar við uppgötvum að leið sem við höfum oft farið er allt í einu orðin styttri. Það sparar okkur bæði fé og fyrirhöfn.

Styttingin er þó enn mikilvægari fyrir þá sem aka þessar leiðir í atvinnuskyni, þá sem stunda flutninga milli landshluta hvort sem er með fisk til vinnslu eða útflutnings eða með daglega nauðsynjavöru í byggðarlagið. Það munar um 40 til 70 kílómetra styttingu milli höfuðborgarsvæðisins og Hólmavíkur eða Ísafjarðar. Já, hverju munar?

Tökum til dæmis leiðina milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Ég hef aðeins heyrt í þeim sem sinna vöruflutningum á þessari leið og þeir segja að nú sé unnt að aka hana á um 7 tímum sem áður tók 8 og jafnvel 9 tíma. Leiðin er ekki aðeins styttri heldur fljótlegri. Það munar miklu, sérstaklega á þessum stóru flutningabílum, hvort ekið er á mjóum, krókóttum og holóttum malarvegi eða eðlilegum breiðum vegi með bundnu slitlagi. Vegur með bundnu slitlagi þýðir líka að bílstjórarnir þurfa ekki annað en að skola lauslega af bílunum í stað þess að hamast á leiðjunni sem safnaðist á þá á gömlu vegunum. Það er líka þægilegt að þurfa ekki lengur að fara um erfiða fjallvegi, til dæmis Ennisháls og Eyrarfjall.

Þessi bylting í samgöngumálum sem ég leyfi mér að kalla svo hefur líka leitt til þess að í gær tilkynnti Eimskip um lækkun flutningsgjalda um 8%. Þeir sem reka flutningaþjónustu segja að stytting leiðar hafi eðlilega í för með sér lægri kostnað og vegur með bundnu slitlagi og vegur sem liggur um færri fjallvegi þýðir líka minni olíukostnað. Þá minni ég líka á að við losnum við þungatakmarkanir þegar vegir eru byggðir almennilega upp og þar sem hönnun þeirra gerir ráð fyrir ákveðnu álagi. Lækkandi flutningskostnaður er mikilvægur liður í því að styrkja búsetu út um land og með þessu leggja flutningafyrirtækin strax sitt lóð á þá vogarskál. Landflutningar-Samskip hljóta einnig að huga að lækkun.

Verið er að koma á farsímasambandi á leiðinni um Arnkötludalinn og er þegar kominn sendir að norðanverðu og verið að ganga frá endurvarpi að sunnan sem á að geta tengst einhvern næstu daga. Farsímasamband á þjóðvegunum er eins og við vitum nauðsynlegt öryggisatriði, jafnvel þótt ekki sé hver einasti blettur í sambandi, og það er mikilvægt að geta nýtt farsímann á þessum helstu leiðum.

Menn hafa nokkuð lengi horft á leiðina um Arnkötludal til að stytta vegalengdir milli landshluta. Jónas Guðmundsson, sýslumaður í Bolungarvík, er aðalforgöngumaður samtakanna Leiðar, sem strax árið 2001 hóf að rannsaka mögulegar veglínur og lét vinna umhverfismat fyrir framkvæmdina. Vegagerðin nýtti síðan þessa rannsóknarvinnu Leiðar og boltinn fór að rúlla og hér erum við í dag.

Góðir gestir.

Í lokin ætla ég að tilfæra síðasta erindið úr ljóði Davíðs Stefánssonar:

Er starfinu var lokið og leyst hin mikla þraut,
fannst lýðum öllum sjálfsagt, að þarna væri braut.
En víða eru í byggðunum björg og keldur enn,
sem bíða ykkar, stórhuga vegabótamenn.

Við sem sinnum samgöngumálum þjóðarinnar skulum taka þessa brýningu skáldsins alvarlega: Það bíða okkar víða björg og keldur. Við þurfum ekki að hugsa lengra en til vegabóta milli norður- og suðurhluta Vestfjarða og samgöngubóta hér út frá Hólmavík og lengra norður Strandir.

Það er víða sem þörf er á að taka til hendinni. Við verðum að rifa seglin um stund meðan við náum aftur getu til að hefjast handa af krafti. Látum ekki hundrað árin líða – horfum bjartsýn til framtíðar og skipuleggjum næstu áfanga.

Ég nota mér lokaorð frá einum sem starfar við flutningana: Það er alveg óhætt að halda uppá þetta. Og ég bæti við að næsta fagnaðarefni er að slá í gegn í Bolungarvíkurgöngunum nú í næsta mánuði.

Til hamingju með daginn.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum