Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2019 Innviðaráðuneytið

Almenningssamgöngur fyrir allt landið

Greinin var birt í Fréttablaðinu, fimmtudaginn 14. febrúar 2019.

Skilvirkar samgöngur eru undirstaða verðmætasköpunar. Almenningssamgöngur eru stór liður í þeirri breytu ásamt því að ná settum markmiðum í umhverfismálum. Sterkt almenningssamgöngukerfi um land allt, sem tengir saman byggðakjarna landsins og höfuðborgarsvæðið við landsbyggðina, er forsenda þess að jafna stöðu landsmanna og færa okkur nær hvert öðru. Notkun á almenningssamgöngum verður ekki aukin nema að þjónustustigið taki mið af þörfum notandans þar sem lykilatriði er að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Nýrri stefnu ríkisins um almenningssamgöngur sem mótuð hefur verið í fyrsta sinn er ætlað að tryggja að þær verði raunhæfur valkostur fyrir alla landsmenn.

Jafnt aðgengi
Markmið núverandi ríkisstjórnar er að jafna aðgengi að þjónustu og til atvinnu. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að byggja áfram upp almenningssamgöngur um land allt, gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa og að stutt verði við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýsamþykkt samgönguáætlun á Alþingi kveður á um að almenningssamgöngur verði skipulagðar sem heildstætt kerfi og í byggðaáætlun er lög áhersla á að skilgreina net almenningssamgangna á landinu öllu og reglur mótaðar um niðurgreiðslu fargjalda.

Eitt leiðakerfi og sameiginleg upplýsingagátt
Lykilatriði í nýju stefnumótuninni eru bætt þjónustustig, sameiginleg upplýsingaveita og þéttari tengingarnar svo ferðamátinn sé sem þægilegastur. Þá er lagt til að upplýsingar um áfangastaði og tímasetningar verði aðgengilegar og stefnt að því að öllum upplýsingum um leiðarkerfi almenningssamgangna verði komið á einn gagnvirkan upplýsingavef. Fyrir farþega er lykilatriði að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Sá sem ætlar að fara frá Vopnafirði til Ísafjarðar eða Kaupmannahafnar til Dalvíkur á ekki að þurfa að leita að fari nema í einni gátt. Upplifunin þarf að vera að eitt far sé pantað, óháð staðsetningu.

Ný drög að heildstæðri stefnu um almenningssamgöngur fara nú til umsagnar til almennings í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og verður leiðarljós að bættri þjónustu fyrir almenning. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér tillögurnar á vef samráðsgáttar – samradsgatt.island.is – og vænti þess að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum