Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2020 Innviðaráðuneytið

Ávarp á ráðstefnu um áskoranir í samgöngum

Ávarp haldið á ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands 22. janúar 2020 í Hátíðarsal Háskólans,
Áskoranir í samgöngumálum, staða og framtíð.


Kæru fundargestir,

það er ánægjulegt að ávarpa metnaðarfulla ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands um áskoranir í samgöngumálum, stöðu þeirra og framtíð. Ég þakka Háskólanum fyrir að taka þessi mál til umræðu en samtal um verkfræðilegar áskoranir læt ég ykkur eftir.

Áskoranirnar eru margar og víða um land. Við myndun ríkisstjórnarinnar voru samgöngur eitt af þeim viðfangsefnum sem settar voru í forgang þar sem verkefnaþörfin er brýn. Samgöngur hafa alltaf skipt þessa þjóð miklu máli. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og því er uppbygging nútíma samgönguinnviða mikil áskorun. 

Við viljum að íbúar og atvinnulíf njóti greiðra samgangna og nútíma samskiptamöguleika. Þarfir okkar og kröfur til kerfisins þróast líka í takt við tímann. Þannig eru samgöngur og fjarskipti meðal grunnstoða í innviðum þjóðfélagsins. Og að sumu leyti hafa þær sömuleiðis þróast með mismunandi hætti í þéttbýli og dreifbýli.  

Þróunin er hröð og ekki er svo langt síðan að eitt helsta kappsmálið var að ljúka vegtengingu hringinn í kringum landið. Það verkefni kláraðist, árið 1974. En þessum stóra áfanga lauk raunverulega ekki fyrr en síðasta sumar þegar hringvegurinn var loks að fullu lagður bundnu slitlagi. 

Frá því að ég kom inn í ráðuneyti samgöngumála hef ég lagt áherslu á að breyta forgangsröðun og flýta framkvæmdum á umferðarþyngstu vegunum. Þannig hafa framlög til vegagerðar verið aukin umtalsvert með áherslu á umferðaröryggi. 

Aukið fjármagn hefur verið sett í málaflokkinn í samgönguáætlun sem ég lagði fram á Alþingi í byrjun desember. Gert er ráð fyrir að flýta framkvæmdum sem í heild eru metnar á 214 milljarða króna. Þá eru einnig tillögur í samgönguáætlun að úrlausnum mikilvægra verkefna, sem sum hafa lengi verið föst vegna deilna eða fjárskorts.

Verkefnalistinn er þó enn langur. Víða um land þurfa íbúar, fullorðnir og börn að ferðast um malarvegi, yfir einbreiðar brýr og fjallvegi á hverjum degi í vinnu eða skóla. Meðan slíkt ástand ríkir er ekki hægt að segja að allir sitji við sama borð þegar kemur að aðgengi okkar allra að sameiginlegum gæðum og þjónustu. En að þessum aðgerðum er unnið. 

Uppfærsla vegakerfisins í takt við lágmarksstaðla, uppbygging jarðganga, fækkun einbreiðra brúa og áframhaldandi átak í lagningu bundins slitlags á malarvegi eru þau verkefni sem helst standa upp út í aðgerðum okkar á vegakerfinu til þess að jafna stöðu íbúa. 

Fyrir þá sem búa á landsbyggðinni hefur það sýnt sig að öflugt innanlandsflug er byggðunum lífsnauðsynlegt. Raunar er það svo að þar sem fara þarf langt á milli hér á landi, milli Austurlands og höfuðborgarsvæðisins, er innanlandsflug sá samgöngumáti sem flestir nýta. 

Öflugt og samþætt kerfi innanlandsflugs, áætlunarbíla og ferja sem er raunhæfur kostur fyrir alla, óháð efnahag, er því mikilvægt framlag til aðstöðujöfnunar íbúa á landsbyggðinni. 

Stór liður til að jafna aðstöðumun landsmanna er hin svokallaða skoska leið, þ.e. greiðsluþátttaka stjórnvalda til þeirra íbúa á landsbyggðinni sem koma langt að og þurfa að fara fljúgandi.

Jöfn tækifæri og aðgengi fyrir alla hefur verið, er enn og mun halda áfram að vera einn megin áskorun þjóðarinnar í samgöngumálum. 

Á sama tíma og hringvegurinn var loks lagður langþráðu bundnu slitlagi stóðu yfir samningaviðræður ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um mestu uppbyggingaráform í sögu svæðisins, svokallaðs Samgöngusáttmála. 

Höfuðborgarsvæðið hefur þanist hratt út á síðustu 50-60 árum. Sú uppbygging byggði að miklu leyti á stefnu þess tíma í skipulagsmálum sem gekk m.a. út á að auðvelda íbúum að nota eigin bíla. Í dag er stefna borgarinnar (höfuðborgarsvæðisins) önnur. Þétta á byggð og stuðla að aukinni blöndun íbúabyggða og atvinnustarfsemi. Stefnan er stundum kölluð „samgöngumiðað skipulag“ og gengur út á að íbúar búi í auknum mæli stutt frá vinnu, skóla og verslun og þurfi minna að ferðast en áður. 

Ekki er í þessu skipulagi gert ráð fyrir mikilli bílaeign íbúa. Því er nauðsynlegt að í boði séu góðar almenningssamgöngur og innviðir fyrir virkar samgöngur, göngu og hjólreiðar. 

Markmið og áskoranir eru því ólíkar eftir því hvar við búum. Markmið samgöngusáttmálans eru ólík t.d. þeim sem unnið var að í Berufirði. 

Helstu áskoranir á höfuðborgarsvæðinu tengjast töfum og umferðarþunga, loftmengun og nýjum áherslum í skipulagsmálum. 

Síðustu ár hafa sömuleiðis verið mikill uppbyggingartími hjá sveitarfélögum innan vinnusóknarsvæðis höfuðborgarinnar, svokallaðs Hvítár-Hvítár svæðis, og íbúum þar fjölgað mikið, telja nú um 84% þjóðarinnar. 

Margir þeirra sækja vinnu og skóla til höfuðborgarsvæðisins á hverjum degi. Þetta veldur því, ásamt þeirri staðreynd að árlegur ferðamannafjöldi hefur margfaldast á fáeinum árum, að umferð um vegina til og frá höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mjög mikið. 

Það er því gríðarlega mikilvægt að byggja upp vegi á þessu svæði, aðskilja akstursstefnur og auka þar öryggi. Það er sláandi hvað aðskilnaður akstursstefna hefur stuðlað að mikilli fækkun slysa á Reykjanesbrautinni. 

Ein stærsta einstaka framkvæmdin í þessa átt er Sundabrautin, en hún bætir til mikilla muna aðgengi að megingáttum landsmanna. Greiðara aðgengi, minni umferðatafir og mengun verður fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu og flytja vörur milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands og Norðurlands. 

Ég hef því lagt áherslu á að taka frumkvæðið í Sundabrautarmálinu og hefur næsta skref verið tekið með því að leita liðsinnis Reykjavíkurborgar í þeirri vinnu.

Góðir gestir.

Það er enginn skortur á spádómum um framtíð samgangna. Það er svo sem ekki ný staða og flest þekkjum við gömul dæmi um lausnir sem síðar varð ekkert úr. Verður umferðin sjálfkeyrandi, færist verslun og þjónusta alfarið á netið eru meðal þeirra spurninga sem menn velta upp nú á dögum. 

Hvað sem verður er lykilatriði að stjórnvöld séu vakandi yfir þróuninni og tryggi að bæði áætlanir og lagaumhverfi styðji við innleiðingu góðra lausna sem bæta lífskjör hér á landi. Líklegt verður að teljast að lausnir framtíðar kalli á aukið samtal og samþættingu milli málaflokka svo sem milli fjarskipta, samgangna, byggðamála, umhverfismála og sjálfsagt fleiri. 

Einmitt þess vegna höfum við í mínu ráðuneyti lagt á það mikla áherslu að samþætta þær áætlanir sem við berum ábyrgð á. 

Skýr langtímasýn er ávallt nauðsynleg. Hún leggur markmiðin svo hægt sé að finna leiðirnar að þeim. Fyrir Alþingi liggur nú frammi tillaga að uppfærðri Í samgönguáætlun þar sem horft er til næstu 15 ára. Í áætluninni eru metnaðarfull uppbyggingaráform, fyrsta flugstefna Íslands, ný heildarstefna í almenningssamgöngum milli byggða auk verkefna og annarra áherslna sem sérstaklega miða að því að unnið verði skipulega að úrlausn allra þessara mála til næstu ára. 

Þessi ráðstefna er mikilvægt skref í því að móta leiðirnar að markmiðunum. 

Ég óska ykkur góðs og gagnlegs fundar og þakka áheyrnina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum