Hoppa yfir valmynd
11. júní 2020 Innviðaráðuneytið

​Rýnt til gagns – upphaf að endurskoðun byggðaáætlunar

Ávarp á samráðsfundi um byggðaáætlun í Hafnarborg fimmtudaginn 11. júní 2020

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur velkomin á þennan fund, bæði þið sem eruð hér með okkur í Hafnarfirði og þið sem fylgist með á fjarfundi.

Í dag eru tvö ár liðin frá því að Alþingi samþykkti einum rómi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024. Það var mikill einhugur um áætlunina - sem er alls ekki sjálfgefið. Ég tel að það megi þakka miklu og virku samráði sem haft var við vinnuna frá upphafi til enda. Það samráð náði til allra landsmanna, þó sérstök áhersla hafi verið lögð á samráð við sveitarfélögin í gegnum landshlutasamtökin og ráðuneytin í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. 

Núgildandi byggðaáætlun er fyrsta og eina byggðaáætlunin sem nær til sjö ára. Fyrri áætlanir voru gerðar til fjögurra ára og sú næsta mun ná til 15 ára - en samkvæmt lögum frá 2018 var gerð sú breyting að ráðherra skuli, að minnsta kosti þriggja ára fresti, leggja fyrir Alþingi endurskoðaða byggðaáætlun sem nær til 15 ára. Jafnframt skal mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. 

Samkvæmt þessu skal þannig leggja fram endurskoðaða byggðaáætlun eigi síðar en vorið 2021. Til að svo megi verða erum við hér samankomin í dag. 

Tilgangurinn með þessum fundi er að hefja formlegt ferli endurskoðunar með því að safna efnivið í stöðumat fyrir núverandi byggðaáætlun, svokallaðri grænbók og fá fram hugmyndir um það hvert á að stefna með nýrri byggðaáætlun.

Við spyrjum ykkur í einlægni hvernig ykkur finnst til hafa tekist? Hvar höfum við staðið okkur vel og hvað mætti betur fara? Hvað eigum við að taka með okkur áfram í nýja byggðaáætlun og hvað eigum við að skilja eftir? Er byggðaáætlun að taka nægt tillit til annarra opinberra stefna og áætlana eða erum við kannski að gera of mikið úr því að tengja við aðrar stefnur?

Við gerum ráð fyrir að stöðumat liggi fyrir eigi síðar en í nóvember og þá verður hafist handa við ritun þingsályktunar. 

Þar sem framkvæmd byggðaáætlunar þykir um margt hafa verið til fyrirmyndar hefur forsætisráðuneytið óskað eftir að samhliða endurskoðuninni verði unnið tilraunaverkefni þar sem hugað verður sérstaklega að kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Sú vinna fer fram undir leiðsögn sérfræðings forsætisráðuneytisins í kynjasamþættingu, sem mér skilst að sé einmitt með okkur hér í dag. Gert er ráð fyrir því að innan skamms tíma verði það meginregla að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við allar opinberar áætlanir. Byggðaáætlun mun þannig ríða á vaðið og verða fyrst til. Sem er ánægjulegt.

Ég tel að við höfum haldið vel á spilunum hvað framkvæmd og eftirfylgd byggðaáætlunar varðar og við höfum ávallt gætt þess að sýna vel á spilin. Þannig má til dæmis finna upplýsingar um stöðu allra aðgerðanna á vef ráðuneytisins og tiltekin er tengiliður við hverja aðgerð. 

Í byggðaáætlun eru tilgreindar 54 aðgerðir og er vinna hafin við þær allar. Nokkrum aðgerðum er þegar lokið og aðrar aðgerðir eru komnar mislangt á veg. Af þessum 54 aðgerðum eru 30 þeirra fjármagnaðar af byggðalið, sumar að öllu leyti en aðrar að hluta til. Af þessum 30 aðgerðum eru 20 sem eru á ábyrgð annarra ráðuneyta en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Byggðamál eru nefnilega ekki einkamál samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins heldur snerta þau flest, ef ekki öll, ráðuneyti. Ég tel að með því að setja fjármagn til aðgerða sem eru á ábyrgðasviði annarra ráðuneyta, svo sem til stuðnings við innleiðingu fjarheilbrigðisþjónustu, þá séum við að stuðla að framgangi brýnna byggðaaðgerða.  

Lögum samkvæmt þá skal byggðaáætlun lýsa stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfingu við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Jafnframt eru meginmarkmið byggðaáætlunar fest í lög en þau eru að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf.

Þetta segja lögin. Þau segja líka með nokkuð afdráttarlausum hætti að hafa skuli víðtækt samráð við undirbúning og mótun byggðaáætlunar og þar stendur að almenningi skuli gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum og athugasemdum í opnu samráðsferli. Þetta virðum við að sjálfsögðu og í dag opnar sérstök samráðsgátt á vef Byggðastofnunar sem vonandi verður vel nýtt. Þar er meðal annars kallað eftir skoðunum á núverandi byggðaáætlun, kostum hennar og göllum, og hverjar eru helstu áskoranir framundan við mótun nýrrar áætlunar. 

Byggðastofnun mun gegna lykilhlutverki við vinnuna framundan, líkt og við gerð síðustu byggðaáætlunar. Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki stofnunarinnar fyrir þeirra mikilvæga framlag, í fortíð, nútíð og framtíð. 

Í gegnum framkvæmd þessarar byggðaáætlunar hefur tekist vel til að vinna með sveitarfélögunum og samstarf Byggðastofnunar við þau er til fyrirmyndar. Nýleg greining hennar á áhrifum Covid-19 faraldursins á sveitarfélögin sýnir að stofnunin hefur einnig hlutverki að gegna þegar kemur að málefnum sveitarfélaga. Því er spurning hvort ekki eigi, þegar kemur að því að endurskoða lög um Byggðastofnun, að auka hlutverk hennar á sviði sveitarstjórnarmála, t.d. varðandi rannsóknir og greiningar. Það gæti styrkt enn betur samspilið á milli þróunar byggðamála almennt og þessa mikilvæga stjórnsýslustigs, sveitarstjórnarstigsins. Er það ekki prýðis hugmynd? 

Við leggjum nú byggðaáætlun og framkvæmd hennar á ykkar borð. Höfum við gengið til góðs? Hvernig getur byggðaáætlun stuðlað að enn blómlegri byggðum um land allt? 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum