Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2021 Innviðaráðuneytið

Fjarfundafært

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. janúar 2021

„Þú ert á mjút“ er líklega setning síðasta árs enda hefur fjarfundaformið rutt sér hratt og örugglega til rúms sem viðbragð við samkomutakmörkunum. Þessi hraða þróun í fjarfundum mun eflaust nýtast okkur til frambúðar af því að þetta form nýtist einkar vel í stóru og dreifbýlu landi. Við höfum ekki aðeins nýtt fjarfundina í vinnunni heldur hefur netið verið mikilvægur gluggi milli fjölskyldu og vina á erfiðum tímum.

Það er ekki langt síðan samfélagið og atvinnulífið hefði lamast algjörlega við samkomutakmarkanir eins og þær sem við höfum búið við að mestu síðasta árið. Lykillinn að því að allir þessir fjarfundir, oft landshorna á milli, hafa getið farið fram er sú mikla uppbygging sem hefur verið í ljósleiðaratengingum um allt land. Sú stefna sem síðar fékk nafnið Ísland ljóstengt á upphaf sitt í grein sem ég skrifaði árið 2013 og bar yfirskriftina „Ljós í fjós“. Því verkefni lýkur á þessu ári og þá verða yfir 99% heimila og fyrirtækja með ljósleiðaratengingu sem er samkvæmt síðustu upplýsingum einsdæmi í heiminum.

Byggðamálin hafa lengi verið mér sérstaklega hugleikin. Það er mikilvægt að þau skilyrði séu sköpuð að fólk geti búið og starfað um allt land. Nú stendur yfir vinna við metnaðarfulla byggðaáætlun sem lögð verður fyrir þingið á vormánuðum. Sú áætlun sem nú er í gangi hefur reynst vel og náðst að sameina krafta ólíkra aðila í því að hugsa um hvað það er sem þarf til að byggðir geti dafnað á ólíkum stöðum. Byggðaáætlun er þó ekki eina áætlunin sem snýr að blómlegum byggðum um allt land því samgöngur og fjarskipti leika þar lykilhlutverk. Stórsókn í samgöngum er hafin og metnaðarfullar áætlanir eru um áframhaldandi eflingu fjarskipta um allt land. Það er aðeins ein leið út kófinu: áfram, áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum