Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2021 Innviðaráðuneytið

Sjálfsögðu hlutirnir

Grein birt í Morgunblaðinu 18. febrúar 2021

Lífsgæði, hagsæld, og staða innviða eru nátengd hvert öðru. Í gegnum tíðina höfum við líkast til farið að taka því sem gefnum hlut að búa við trausta og góða innviði, hafa heimilið upplýst allan sólarhringinn, alla daga ársins, vera með háhraða nettengingu, jafnvel víðs fjarri þéttbýli og að úr krananum renni bæði heitt vatn og kalt. Besta neysluvatn í heimi, fyrir 0 krónur. Að við komumst ferðar okkar að vild, bæði innanlands og utan. Að vísu skal það viðurkennt að við höfum ekki enn fundið endanlega lausn á ófærð, en við gerum okkar besta.

En svo gerist allt í einu eitthvað sem fær okkur til að staldra við og muna hvílík verðmæti þetta eru. Á landinu skellur stormur og í nokkra daga missir hluti landsmanna aðgang að hluta þessara innviða; vegir loka, rafmagnið dettur út og fjarskiptasamband rofnar. Algjört neyðarástand skapast. Ástand sem ekki er hægt að sætta sig við. 

Endurreisn

Samtök iðnaðarins gáfu út innviðaskýrslu árið 2017 í aðdraganda síðustu kosninga. Það var ljómandi góð tímasetning. Í mínum augum var sú skýrsla mjög gagnlegt því hún dró upp mynd af innviðum landsins í sennilega því slakasta ástandi sem þeir hafa verið í langan tíma. Árin á undan, allt frá bankahruni, voru ár vanfjárfestingar í samgönguinnviðum og þeir liðu fyrir og létu á sjá. 

Þeir innviðir sem undir mitt ráðuneyti heyra, þjóðvegir, hafnir og flugvellir fengu ekki háa einkunn þá.

Í ríkisstjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar var kveðið á um nauðsynlega endurreisn íslenskra samgönguinnviða þar sem uppbyggingu væri hraðað, bæði í nýbyggingu og viðhaldi. Frá því ég tók við embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa framlög í samgönguframkvæmdir aukist hratt. 

Vegir, hafnir, flugvellir

Árið 2016, ári áður en umrædd skýrsla kom út, voru heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins 16,4 milljarðar á verðlagi dagsins í dag. Þar af fóru rúmir 6 milljarðar í viðhald. Framlög til viðhalds höfðu haldist á bilinu 4,5-6 milljarðar frá 2010 og jafnvel lengur.

Í ár erum við að gera ráð fyrir að heildarframlög til framkvæmda og viðhalds vegakerfisins verði 35,5 milljarðar, þar af 11 milljarðar í viðhald, sjá meðfylgjandi töflu.

Framlög til hafnarframkvæmda úr hafnarbótasjóði voru 660 milljónir 2016 og 412 milljónir árið 2017. Á þessu ári verða framlögin rúmir 1,6 milljarðar.

Framlög til flugvalla og flugleiðsögu voru rúmir 1,9 milljarðar 2016 og 1,8 árið 2017. Á þessu ári verða framlögin 4,4 milljarðar. Allar þessar upphæðir eru á sama verðlagi og skiptast í viðhald og nýframkvæmdir í samræmi við ráðgjöf og forgangsröðun þeirra sem til þekkja. 

Áfram veginn 

Tveimur samgönguáætlunum og einu fjárfestingarátaki síðar fullyrði ég að staðan nú er allt önnur og betri. Það besta er að við erum rétt að byrja. Á næstu árum höfum við lagt grunn að  miklum uppbyggingaráformum um allt land. Nýtum við þar öll trixin í bókinni; stóraukin bein framlög til framkvæmda, þjónustu og viðhalds, aukin þátttaka einkaaðila og einkafjármagns með hinni svokölluðu samvinnuleið (PPP) ásamt möguleika á að nýta sértæka gjaldtöku til enn frekari framfara. Ég ætla að leyfa mér að slá því föstu að næstu 15 ár verði tímabil framfara og uppbyggingar sem muni búa í haginn fyrir hagvexti morgundagsins og lífskjörum framtíðar kynslóða þessa lands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum