Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2022 Innviðaráðuneytið

Fjárfest í framtíðinni

Greinin var birt í Viðskiptablaðinu 18. febrúar 2022

Það verður að segjast að tíðin hefur verið heldur leiðinleg það sem af er ári. Mikil úrkoma og leiðindaveður sem hefur valdið því að vegir hafa lokast, meira að segja leiðin um Hellisheiði og Þrengsli hefur verið lokuð nokkra daga. Vegagerðin og Almannavarnir hafa staðið þétt saman og sýnt mikla ábyrgð og lokað vegum þegar spár og aðstæður eru sem verstar. Það eru eðlileg viðbrögð við alvöru íslenskum vetri. Slys og tjón af völdum veðursins hafa því verið með minnsta móti.

Innviðir stóðust prófið

Það eru rétt rúm tvö ár síðan mikið óveður gekk yfir landið norðanvert og hafði í för með sér verulegt tjón á mannvirkjum, ekki síst raflínum. Síðan þá hefur orðið mikil fjárfesting í innviðum raforkukerfisins og verulegt átak í varaafli í fjarskiptakerfinu. Þessir innviðir hafa staðist öll próf það sem af er vetri þrátt fyrir virkilega vond veður. Það er ánægjulegt og sýnir að rétt skref hafa verið stigin á síðustu árum.

Ljósleiðarabylting síðustu ára

Á síðustu árum hefur ríkið fjárfest mikið í innviðum, ekki síst í samgöngum og fjarskiptum. Verkefninu Ísland ljóstengt er lokið og nýtt verkefni Ísland fulltengt tók við. Þessi bylting í ljósleiðaravæðingu landsins er grundvöllur að auknu búsetufrelsi fólks og hefur verið mikilvæg í því ástandi sem hefur ríkt síðastliðin tvö ár meðan heimsfaraldurinn hefur gengið yfir.

Jákvæð áhrif Sundabrautar

Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær miklu framkvæmdir sem hafa verið í samgöngukerfi okkar, hvort heldur er litið til vegakerfisins eða hafna um allt land. Samgöngur eru lífæð samfélagsins og tengja fólk og fyrirtæki um landið allt. Framundan eru stórar og mikilvægar framkvæmdir og vil ég þar sérstaklega minnast á Sundabraut sem unnið hefur verið að í víðtækri samstöðu síðustu ár og hillir nú undir að verði að veruleika á næstu árum. Hún mun ekki aðeins hafa góð og mikil áhrif á tengingu höfuðborgarsvæðisins við landsbyggðina heldur mun hún hafa jákvæð áhrif á umferðarflæðið innan höfuðborgarsvæðisins.

Samgöngusáttmálinn rauf stöðnun

Samgöngusáttmálinn var stórt skref í því að skapa samstöðu um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn rauf þá stöðnun sem fylgdi óeiningu um lausnir í umferðarmálum höfuðborgarinnar. Hann snýst ekki aðeins um að efla innviði almenningssamgangna heldur ekki síður um að styrkja stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins og göngu- og hjólastíga. Við sjáum fram á enn frekari fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu og því afar brýnt að stíga þau skref sem verið er að stíga til að auðvelda fólki för innan svæðisins.

Aukin yfirsýn á húsnæðismarkaði

Með stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar urðu miklar breytingar á stjórnarráðinu til að stjórnarráðið þjóni betur breyttu samfélagi. Hluti af þeirri breytingu var að skipulagsmál og húsnæðismál fluttust til nýs innviðaráðuneytis. Það er mikilvægt skref til þess að hægt sé að auka yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn og þróun hans.

Húsnæðismarkaðurinn má ekki vera happdrætti

Það er ljóst að ein helsta áskorun dagsins í dag er það ójafnvægi sem ríkir á húsnæðismarkaði. Það er dagsljóst að það verður að byggja meira til að svara eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Spár sem byggja á góðum gögnum benda til þess að ráðast verði í sérstakt átak til að auka framboð á lóðum og nýbyggingum. Það að húsnæðismál, skipulagsmál, sveitarstjórnarmál og samgöngumál séu nú á einum stað í stjórnarráðinu veitir aukin tækifæri til að taka mikilvæg skref til að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði. Það er algjörlega ólíðandi að húsnæðismarkaðurinn sé happdrætti þar sem fáir græða en flestir blæða.

Sáttmáli um jafnvægi á húsnæðismarkaði

Það er samfélaginu öllu til hagsbóta að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði og að húsnæðiskostnaður sé sem minnstur. Það eykur ráðstöfunartekjur heimilanna verulega. Fjármunir sem fara í afborganir lána nýtast heimilunum ekki til annarra fjárfestinga og sparnaðar. Ég mun því leggja mikla áherslu á að ná góðu samtali við þann fjölbreytta hóp sem þarf að koma að því að leggja drög að sáttmála um jafnvægi á húsnæðismarkaði. Ríki, sveitarfélög, launþegasamtökin, samtök iðnaðar og atvinnulífs þurfa öll að leggja sitt af mörkum til að skapa jafnvægi og draga úr húsnæðiskostnaði fólksins í landinu. Það er okkur öllum mikilvægt.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum