Hoppa yfir valmynd
17. mars 2022 Innviðaráðuneytið

Ávarp við úthlutun úr Aski - mannvirkjarannsóknasjóði

Ávarp flutt við fyrstu úthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknasjóði í Veröld - húsi Vigdísar 17. mars 2022

Góðir gestir.

Við búum við þau forréttindi á Íslandi að hafa endurnýjanlega orku. Rafmagn er framleitt með endurnýjanlegum hætti og er stærstur hluti heimila hitaður með jarðvarma. Heppileg landfræðileg lega landsins er að sjálfsögðu forsenda þess að slíkt er mögulegt. Við eigum jarðvarmann fyrir heimili og atvinnulífið og það eru vissulega forréttindi. Vegna staðsetningar okkar norður í Atlantshafi höfum við á hinn bóginn búið við skort á byggingarefnum og hverju sinni þurft að vera sjálfum okkur nóg. Torfbæirnir voru reistir úr efnivið sem fannst í nálægð við bæinn. Fólkið sem byggði landið áður fyrr þurfti að vera útsjónarsamt og sjálfum sér nógt við að koma þaki yfir höfuðið og bústofninn. Að einhverju leyti er þetta það sem við köllum sjálfbærni í dag. 

Löngu síðar, eftir að samfélagið breyttist hratt, áttum við þess kost að flytja inn vörur og hráefni til húsasmíða og mannvirkjagerðar og nýttum í bland við eigin auðlindir og reistum nýstárlegri mannvirki með kostum og göllum af tækni hvers tíma.

Nú liggur það þó ljóst fyrir – að eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir – er baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Og sú barátta fer fram á öllum sviðum samfélagsins. Við verðum þess vegna að leita allra leiða til að draga úr kolefnisspori mannvirkja og byggingarefna og samtímis að draga úr notkun óumhverfisvænna byggingarefna. Það getum við gert með því að líta okkur nær, nýta þekkingu okkar, rannsóknir, bæta hönnun og efla hringrásarhagkerfið.

Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við erum hér í dag. Mannvirkjarannsóknasjóðurinn Askur var settur á laggirnar í fyrra í náinni og góðri samvinnu stjórnvalda, vísindasamfélags og atvinnulífs til að efla þessa þekkingu, ekki síst með hliðsjón af loftslagsmálum, og styrkja mörg mikilvæg nýsköpunar- og rannsóknaverkefni á sviði mannvirkjagerðar.

Mikilvægt er að sjóðurinn er opinn samkeppnissjóður. Það þýðir að margvíslegir aðilar geta ýmist einir eða í samvinnu við aðra lagt fram skýrar og mótaðar hugmyndir að rannsóknarverkefni tengdu mannvirkjagerð og sótt um í sjóðinn. Sérstakt fagráð sjóðsins skipað fólki með ólíkan bakgrunn metur mögulegan samfélagslegan ávinning af verkefninu og gerir tillögu til ráðherra um hvaða verkefni fái framgang og styrk.

Ætlun okkar með stofnun sjóðsins var meðal annars að opna aðgang að rannsóknarfjármagni til breiðs hóps fólks, ýmist í byggingariðnaði, háskólasamfélaginu, rannsóknarstofnunum, hjá hagsmunasamtökum eða einstaklingar með sérfræðiþekkingu á sínu sviði. Við viljum efla íslenskt hugvit á þessu sviði. Við viljum fá fram hugmyndir um notkun íslenskra hráefna í byggingariðnaði, en þar má nefna sandinn okkar, hampinn, skógana, og ekki síður íslenskt hugvit á mörgum ólíkum sviðum. Við viljum einnig geta bætt orkunýtingu og nýtt stafræna tækni eins og kostur er. Við viljum leysa vandamál sem eru sérstaklega mikilvæg fyrir okkur Íslendinga. 

Afurðirnar sjáum við svo þegar niðurstöður verkefna liggja fyrir eftir ár eða svo. Önnur en ekki síður mikilvæg afurð er mannauðurinn og rannsóknarhópar sem standa að verkefnunum. Í mörgum verkefnum hefur fólk úr ýmsum áttum komið saman, myndað tengsl og skapað verkefni sem kalla á breiða samvinnu og ólíka þekkingu. Samvinna af þessu tagi vex og dafnar og eflir þannig rannsóknarsamfélagið á Íslandi. 

Ég vil færa þeim sem komu sjóðnum á laggirnar og unnið að framgangi hans síðan sérstakar þakkir. Þar má nefna starfsfólk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og ráðuneytanna sem standa að sjóðnum. Ég þakka einnig fagráðinu fyrir sitt vandvirka starf við mat á umsóknum.

Málefni húsnæðismála, mannvirkja og skipulagsmála heyra nú undir innviðaráðuneytið. Nýir málaflokkar okkar munu tvinnast saman við sveitarstjórnarmál, byggðamál og samgöngumál en stefnur og áætlanir í þessum málaflokkum eru þegar samhæfðar. Við í innviðaráðuneytinu teljum mikilvægt að veita rannsóknum í þessum málaflokki verðskuldaða athygli og stuðning í verki. Mannvirkjagerð er í eðli sínu mjög þverfagleg, þar þarf að koma saman reynsla, hæfni og menntun af mjög mörgum mismunandi sviðum.

Það er í allra þágu að styðja mannvirkjarannsóknir til að auka gæði mannvirkja og minnka viðhald þeirra. Flest mannvirki standa í áratugi og velta byggingariðnaðar mörg hundruð milljarðar á ári hverju. Það er því gríðarlega þjóðhagslega hagkvæmt ef framfarir verða við mannvirkjagerð. Því er mikilvægt að viðhalda öflugum rannsóknum og tækniþróun á sviði mannvirkjagerðar.

Ég óska styrkþegum til hamingju með sína styrki – og öllum umsækjendum fyrir góðar tillögur og hugmyndir. Úthlutanir úr Aski í ár sýna mikla breidd í vali rannsóknarverkefna og ég tel sjóðurinn geti til lengri tíma orðið mikilvæg lyftistöng fyrir byggingariðnaðinn í landinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum