Hoppa yfir valmynd
23. júní 2022 Innviðaráðuneytið

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Grein birt í Fréttablaðinu 23. júní 2022

Aukið var við framboð leiguíbúða í vikunni þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úthlutaði fyrri úthlutun stofnframlaga fyrir árið 2022. Þetta er mikilvæg innspýting í framboð á leigumarkaði en á þessu ári hafa 550 hagkvæmar leiguíbúðir verið teknar í notkun, það er 40% af öllum nýjum íbúðum sem komið hafa á markað á árinu. Landsbyggðin er stór þátttakandi í uppbyggingu á leiguhúsnæði sem styrkt eru með stofnframlögum.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir stofnframlögum en á síðasta ári náðist þó ekki að úthluta öllu því fjármagni sem heimildir voru fyrir í fjárlögum. Var skortur á byggingarhæfum lóðum einna helst skýringin. Stofnframlög skapa hvata til að auka framboð af leiguhúsnæði og er framlag ríkis og sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á íbúðum til leigu fyrir einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum. Það er sérlega ánægjulegt að sjá að yfir 30 sveitarfélög víða um land sameinast um þessa mikilvægu lausn með því að setja á stofn sameiginlegt óhagnaðardrifið leigufélag og veita þar með sterka viðspyrnu gegn hækkunum á leigumarkaði.

Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu fólks. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Í fyrri úthlutun ársins 2022 hefur HMS úthlutað 2,6 milljörðum til uppbyggingar á 328 íbúðum en því til viðbótar bætist við framlag frá sveitarfélögum.

Leiguíbúðirnar dreifast víða um land og hefur hlutfall íbúða á landsbyggðinni aldrei verið hærra eða 46%. Af þeim 328 íbúðum sem úthlutun ársins nær til stendur til að byggja 279 nýjar íbúðir en kaupa 49 nýjar og eldri íbúðir. Íbúðirnar verða allar að standast kröfur um hagkvæmni, en með því eru stjórnvöld að skapa hvata fyrir aukið framboð slíkra íbúða. Sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúða til samræmis við þörf til næstu ára mun skipta sköpum að ná og halda jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum