Hoppa yfir valmynd
28. september 2022 Innviðaráðuneytið

Ávarp á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga

Ávarp flutt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, 28. september 2022

Kæra sveitarstjórnarfólk.

Ég vil byrja á því að óska nýjum formanni, Heiðu Björg Hilmisdóttur, til hamingju með kjörið. Það er mikið ábyrgðarstarf sem þú átt fyrir höndum og ég hlakka til að vinna með nýjum formanni að eflingu sveitarstjórnarstigsins á næstu árum.

Ég vil einnig þakka fráfarandi formanni, Aldísi Hafsteinsdóttur, fyrir ákaflega gott og traust samstarf síðustu árin. Næstu fundir okkar Aldísar verða væntanlega óformlegri en áður og fara að öllum líkindum fram í Litlu-Melabúðinni á Flúðum.

Ég ávarpa ykkur nú í eilítið öðru hlutverki en síðast þar sem nýtt innviðaráðuneyti varð til við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Veigamikil breyting fólst í því að undir nýtt innviðaráðuneyti heyra nú húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngumál, sveitarstjórnarmál og byggðamál. Með þessari breytingu hefur náðst betri yfirsýn sem leiðir til markvissari aðgerða.

Eitt af lykilviðfangsefnum nýs innviðaráðuneytis er búsetufrelsi. Öll þau verkefni sem heyra undir innviðaráðuneytið eiga það sameiginlegt að leggja grunninn að búsetufrelsi. Í því felst að þjónusta hins opinbera þarf að vera aðgengileg öllum, hvar sem þeir búa á landinu. Hamingja fólks er ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs. Búsetufrelsi ýtir undir fjölbreytileika byggðanna.

Á næstu vikum mun innviðaráðuneytið fara í rafræna fundaferð um landið þar sem ykkur sveitarstjórnarfólki og öllum þeim sem áhuga hafa er boðið að taka þátt í kynningu og samráði um þær stóru stefnur og áætlanir sem heyra undir ráðuneytið. Yfirskrift fundaherferðarinnar er Vörðum leiðina saman. Ég hvet ykkur öll til að taka virkan þátt í þessu mikilvæga samráði.

Kæru þingfulltrúar

Síðustu ár hafa ekki verið tíðindalítil í íslensku samfélagi frekar en öðrum samfélögum heimsins þann tíma sem heimsfaraldurinn gekk yfir.

Efnahagslíf okkar er kvikt. Við tókum snarpa dýfu í faraldrinum og stjórnvöld mættu henni með markvissum aðgerðum með það að markmiði að skapa öfluga viðspyrnu. Það hefur tekist og við sjáum nú háar hagvaxtartölur. Nýjar áskoranir hafa leyst eldri af hólmi og er sú stærsta sú að kveða niður verðbólgudrauginn sem aftur hefur látið á sér kræla. Í frumvarpi til fjárlaga er dregið úr útgjöldum á öllum sviðum nema þeim sem snúa að heilbrigðis og félagsmálum. Þær aðgerðir eru nauðsynlegar til að draga úr verðbólgu og standa þannig vörð um lífsgæði okkar til lengri tíma.

Það verkefni sem flestir eru sammála um að sé það mikilvægasta er að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn til framtíðar. Stór skref hafa þegar verið stigin til að auka verulega uppbyggingu húsnæðis. Fyrir hálfum mánuði kynnti ég ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og HMS næstu skref sem miða að því að á næstu fimm árum verði byggðar 20 þúsund íbúðir og samtals 35 þúsund á næstu tíu árum. Sá samhljómur sem hefur náðst í samstarfi ríkis og sveitarfélaga er mikilvægur og þýðir í raun að fyrir dyrum stendur þjóðarátak í uppbyggingu húsnæðis. Markmiðið er að 30% nýrra íbúða verði hagkvæmar á viðráðanlegu verði og fimm prósent verði félagsleg húsnæðisúrræði. Ríkið mun koma með fjármuni í húsnæðisstuðning til að sameiginlegum markmiðum verði náð.

Sú yfirsýn sem náðst hefur með nýju innviðaráðuneyti felur í sér miklar breytingar. Það að innan eins og sama ráðuneytis séu húsnæðis- og skipulagsmál, sveitarstjórnar-, byggða- og samgöngumál gerir okkur kleift að samhæfa betur alla þá þætti sem snúa að uppbyggingu húsnæðis. Öflugar stofnanir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Skipulagsstofnun, og þétt samstarf þeirra á milli veitir tækifæri til að einfalda ferla og gera okkur betur grein fyrir þörfum samfélagsins á hverjum tíma.

Starf HMS hefur á síðustu misserum miðað að því að gera upplýsingaöflun markvissari og þar með einnig að efla upplýsingagjöf. Það er ekki langt síðan að einu miðlægu upplýsingarnar um uppbyggingu á húsnæði voru fengnar með því að Samtök iðnaðarins gerðu út fólk til að telja íbúðir í hverfum sem voru að byggjast upp. Samræmdar og rafrænar húsnæðisáætlanir gera okkur mögulegt að gera okkur betur grein fyrir stöðunni í dag og samkeyrsla við mannfjöldaspár veitir okkur nauðsynlega sýn á hvernig uppbyggingu sé best háttað.

Ef skyggnst er inn í húsnæðisáætlanir er aðeins gert ráð fyrir um 16 þúsund íbúðum á næstu fimm árum. Það er því mikilvægt að tryggja aukið framboð íbúða. Þar er lóðaframboð lykilþáttur og hvílir það á sveitarfélögunum að útvega byggingarhæfar lóðir í samræmi við þörf.

Fjármál sveitarfélaga eru mikilvægt umræðuefni. Á meðan heimsfaraldur geisaði greip ríkið til aðgerða sem léttu undir með sveitarfélögunum, bæði með auknum stuðningi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en mikilvægasta aðgerðin var hlutabótaleiðin sem tryggði sveitarfélögunum útsvarsgreiðslur. Í umræðum á þeim tíma voru háværar raddir sem bentu á hin Norðurlöndin og stuðning þeirra við sveitarfélögin. Þær háværu raddir tóku ekki með í reikninginn að aðstæður sveitarfélaga á Íslandi eru að mörgu leyti ólíkar því sem gengur og gerist á öðrum Norðurlöndum. Hér eru sveitarfélögin sjálfstæðari, hér hafa sveitarfélögin sjálfstæða tekjustofna en eru ekki upp á ríkið komin á sama hátt. Þessu fylgir aukið sjálfstæði en um leið aukin ábyrgð sveitarfélaganna. Ég er hugsa að fáir vilji taka upp það kerfi sem er við lýði á hinum Norðurlöndunum.

Auðvitað eru ýmis álitaefni þegar kemur að skiptingu tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og það sama gildir um verkaskiptingu. Við höfum á síðustu árum unnið að því að kortleggja grá svæði, sérstaklega er varða félagsleg málefni og málefni aldraðra. Eftir síðasta Sambandsþing var sett af stað vinna sérstakrar tekjustofnanefndar sem hefur að mörgu leyti gengið vel þótt ekki hafi náðst fullkominn samhljómur um niðurstöðuna.

Nefndinni var falið að skoða og leggja mat á hvort hægt væri að styrkja núverandi tekjustofna sveitarfélaga. Tekjustofnar sveitarfélaga á Íslandi eru eins og þið þekkið, útsvar, fasteignaskattar, þjónustutekjur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Eiga þessir stofnar það sameiginlegt að vera mjög stöðugir í samanburði við aðra stóra tekjustofna hins opinbera á borð við fjármagnstekjur og virðisaukaskatt.

Í skýrsludrögunum eru settar fram margvíslegar ábendingar sem ættu að nýtast við frekari stefnumótun og ákvörðunartöku í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Skýrslan mun ekki innihalda beinar tillögur af hálfu nefndarinnar um breytingar en hins vegar eru settar fram margvíslegar ábendingar sem ættu að nýtast við frekari stefnumótun og ákvörðunartöku í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

Standi vilji til þess að auka tekjur eða breyta skiptingu tekna milli ríkis og sveitarfélaga má vel ná þeim markmiðum innan núverandi kerfis, eða með hverju því kerfi sem komið verður á og uppfyllir þörf sveitarfélaganna um stöðuga og fyrirsjáanlega tekjustofna. Settar eru fram ábendingar um valkosti í því sambandi.

Hvað varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga þá kynnir nefndin nýtt líkan sem gæti tekið við af núverandi fyrirkomulagi á útgjaldajöfnunarframlögum, tekjujöfnunarframlögum, fasteignaskattsframlögum og framlögum vegna yfirfærslu grunnskólans. Líkanið mun einfalda aðferðafræði við úthlutun framlaga úr sjóðnum, stuðla að meira gagnsæi, auka gæði úthlutunar og tryggja að sambærileg sveitarfélög að stærð og samsetningu fengju svipaða útkomu í útgjaldamælingu. Mögulegt er að innleiða það í áföngum á yfirstandandi kjörtímabili sveitarstjórna sem lýkur árið 2026.

Staða sveitarfélaganna hefur versnað á síðustu árum. Árið 2019 voru 12 sveitarfélög undir lágmarksviðmiði Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Árið 2020 voru þau 22 og árið 2021 voru sveitarfélögin 30. Ástæður fjárhagsvanda þessara 30 sveitarfélaga má greina í þrennt: Rekstrarvandi, skuldavandi og í þriðja lagi ýmsar ástæður á borð við fábreytt atvinnulíf, fámenni og neikvæða íbúaþróun sem leiða oft til erfiðleika.

Það er ljóst að málefni fatlaðs fólks hafa reynst sveitarfélögunum mun kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir við yfirfærslu. Halli sveitarfélaganna vegna reksturs málaflokksins nam árið 2020 hartnær 9 milljarða króna. Það er að mínu mati nauðsynlegt að skoða þessi mál sérstaklega og vinnur nú starfshópur félags- og vinnumarkaðsráðherra að mótun tillagna varðandi kostnaðarskiptingu.

Einnig kemur fram í umfjöllun tekjustofnanefndar að kostnaðurinn við rekstur grunn- og leikskóla hefur aukist verulega á umliðnum árum og þá mælt í kostnaði á nemanda í samanburði við þróun verðlags og launa. Sveitarfélögin hafa staðið sig mjög vel í stuðningi við barnafjölskyldur sem sést best á því að í upphafi aldar námu leikskólagjöld um og yfir fjórðungi af rekstrarkostnaði skólanna en eru nú aðeins tæp 10%.

Skortur á húsnæði hefur óhjákvæmilega leitt til hærra verðs og þar með til hærra fasteignamats. Og eins og þið þekkið vel þá miðast fasteignaskattar við fasteignamat. Sveitarfélögin hafa lagt mikla áherslu á að varðveita það kerfi sem nú er við lýði, enda er um mikilvægan skattstofn að ræða. Í vinnu við endurskoðun tekjustofna hafa komið upp hugmyndir að því hvernig hægt væri að þróa kerfið þannig að breytingar séu hóflegar og þróun skattstofnsins fyrirsjáanleg. Mikilvægt er að huga að því hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að stökkbreytingar á skattstofninum hafi alvarleg áhrif á sjálfa álagninguna. Það jafnvægi sem unnið er að á húsnæðismarkaði með viðamiklum aðgerðum er einmitt mikilvægt til að skapa stöðugleika og sanngirni.

Sjálfstæðir og sterkir tekjustofnar sveitarfélaga eru mikilvægir fyrir framþróun byggða á landinu okkar. Á næstu mánuðum mun ég leggja fram tvö frumvörp til laga um breytingu á hafnalögum. Ef lögin verða að veruleika mun það tryggja að hafnir hafi fullnægjandi heimildir til að taka gjöld í samræmi við veitta þjónustu, til dæmis við starfsemi fiskeldisfyrirtækja.

Annar tekjustofn sem mikið hefur verið rætt um í gegnum tíðina er gistináttagjald. Ferðaþjónustan er ein mikilvægasta stoð íslensks efnahags. Hún átti stóran þátt í því að við náðum að rísa hratt og örugglega upp úr erfiðleikum hrunsins. Ferðaþjónustan hefur á síðustu mánuðum sýnt afl sitt og lagt mikið af mörkum inn í byggðirnar, inn í þjóðarbúið eftir erfið og mögur ár heimsfaraldursins. Ferðaþjónustan er því vaxandi grein og ber að fara varlega í að leggja á hana of miklar byrðar. Það kemur til greina að mínu mati að búa til lagaumhverfi sem heimilar, ekki skyldar, sveitarfélögum að leggja á hóflegt gistináttagjald.

Málefni Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er ætíð ofarlega á baugi í umræðum sveitarstjórnarfólks enda er hann gríðarlega mikilvægur þegar kemur að bókhaldi sveitarfélaganna. Jöfnunarsjóður er eins og nafnið gefur til kynna sjóður til að jafna aðstöðu sveitarfélaga. Hlutverk hans er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sem settar eru um starfsemi hans. Tilgangurinn er að sveitarfélögin standi á jafnari grunni, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna sínum lögbundnum verkefnum. Þá greiðir sjóðurinn framlög til samtaka sveitarfélaga, stofnana og annarra aðila í samræmi við ákvæði laga.

Eitt af verkefnum nýrrar forystu Sambands íslenskra sveitarfélaga hlýtur að vera að standa vörð um þennan mikilvæga sjóð og hlutverk hans. Á síðustu árum hafa málefni sjóðsins ekki aðeins verið rædd í sveitarstjórnum og á þingi heldur hafa þau einnig ratað inn í dómssali. Málssóknir eru að mínu mati ekki rétta leiðin í samskiptum sveitarfélaga og ríkis. Mikilvægt er að horfa á heildarmyndina og fórna ekki meiri hagsmunum fyrir minni þegar kemur að þessu mikilvæga jöfnunartæki sveitarfélaganna.

Á síðustu árum hefur náðst nokkur árangur í sameiningum sveitarfélaga. Sá stuðningur sem stendur til boða er mikilvægur til þess að efla sveitarstjórnarstigið og búa til stærri og öflugri stjórnsýslueiningar. Það er krefjandi verkefni að sitja í stjórnum sveitarfélaga og mikilvægt að muna að skyldur fólks í stjórnmálum eru við samfélagið sitt en ekki tilbúin hreppamörk. Kröfur fólks og væntingar til þjónustu eru sífellt að vaxa og mikilvægt að leita allra leiða til að nýta það fjármagn sem sveitarfélögin hafa til að skapa blómleg samfélög sem er eftirsóknarvert að lifa og starfa í. Það er verkefni okkar allra.

Kæru þingfulltrúar. Það er skammt liðið frá sveitarstjórnarkosningum. Þið eruð mörg hver ný á þessu mikilvæga sviði sem sveitarstjórnarmálin eru. Sjálfur á ég góðar minningar og mikilvæga reynslu frá störfum mínum í sveitarstjórn. Starf sveitarstjórnarfólks og þingmanna er að mörgu leyti ólíkt, ekki síst vegna þeirrar nálægðar sem er einkennandi fyrir sveitarstjórnarstarfið. Ég óska ykkur öllum, nýjum og gömlum, til hamingju með kjörið og óska ykkur velfarnaðar í störfum ykkar. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum