Hoppa yfir valmynd
12. október 2022 Innviðaráðuneytið

Ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 12. október 2022

Sveitarstjórnarfólk, ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs, starfsmenn og aðrir fundargestir.

Við erum ekki svo ýkja mörg sem byggjum þetta stóra land, Ísland. Byggðirnar eru dreifðar og aðstæður þeirra ólíkar. Þær hafa byggst upp vegna þeirra gæða sem náttúran hefur fært okkur, hafið er okkur gjöfult og landið einnig. Þróun síðustu áratuga hefur þó verið sú að flestir landsmenn búa á suðvesturhorninu, milli Hvítánna tveggja. Tækifærum utan höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgað á síðustu árum með tilkomu öflugrar ferðaþjónustu og við sjáum fram á að orkuskiptum heimsins fylgja atvinnutækifæri í frekari nýtingu á orkuauðlindum landsins ef rétt er á spilum haldið.

Það er mín bjargfasta trú að hagsmunir samfélagsins okkar séu að vel sé búið að byggðum um allt land. Að hagsmunir höfuðborgarsvæðisins og smærri byggða út um land séu sameiginlegir. Til þess að svo megi verða er öflugur Jöfnunarsjóður lykilþáttur í vefnaði samfélagsins. Á síðustu árum hefur reynt á íslenskt samfélag eins og önnur meðan heimsfaraldurinn gekk fyrir. Í þeim ólgusjó gleymdist mikilvægi sjóðsins ekki. Það kom best í ljós í samningi ríkis og sveitarfélaga um opinber fjármál árið 2020 þar sem beinn stuðningur var 3,3 milljarðar króna auk heimildar til að nýta einn og hálfan milljarð úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóð til almennra framlaga. Þessi samningur var mikilvægur fyrir samfélagið og byggðir landsins. 

Útsvarstekjur sveitarfélaganna voru í gegnum heimsfaraldurinn varðar með því að standa vörð um atvinnutekjur með hlutabótaleiðinni. Það var afskaplega mikilvæg ákvörðun enda fara hagsmunir sveitarfélaganna saman við hagsmuni launafólks.

Kæru fundargestir.

Það er alltaf ánægjulegt að fá að ávarpa ársfund Jöfnunarsjóðs en þetta er í fimmtánda sinn sem hann er haldinn. Sjóðurinn hóf starfsemi sína í núverandi mynd árið 1990 og hefur staðið undir nafni og gegnt þýðingarmiklu hlutverki til að jafna aðstöðumun sveitarfélaga. Við búum augljóslega við mismunandi aðstæður og Jöfnunarsjóðurinn er mikilvægt jöfnunartæki svo hægt sé að halda úti góðri grunnþjónustu án tillits til fjarlægða eða íbúafjölda. Hlutverk hans er skrifað inn í lög um tekjustofna sveitarfélaga. Hann jafnar mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum sem eru veitt á grundvelli ákvæða laga, reglugerða og vinnureglna sjóðsins. Jöfnunarsjóður er samtryggingarsjóður sveitarfélaganna.

Ég vil við þetta tækifæri nefna eitt verkefni sem Jöfnunarsjóður tekur þátt í. Það er verkefnið Römpum upp Ísland. Frumkvæðið að verkefninu hefur hugsjónamaðurinn Haraldur Þorleifsson. Það er sérstaklega ánægjulegt að til sé fólk eins og Haraldur sem lætur ekki sitt eftir liggja í baráttu fyrir jöfnu aðgengi. Markmið Römpum upp Ísland er byggja á næstu fjórum árum eitt þúsund rampa um allt land sem gerir fólki með skerta hreyfigetu auðveldar að komast um. Ég vil sérstaklega þakka Haraldi fyrir framlag hans og einnig þeim fjölmörgu sveitarfélögum og einkaaðilum sem taka þátt í Römpum upp Ísland. 

Frá því sjóðurinn hóf göngu sína hefur hann vaxið mikið og ljóst að hann gegnir stóru hlutverki á ýmsum sviðum sveitarstjórnarstigsins. Má þar nefna hlutverk hans við yfirfærslu grunnskólans árið 1996 og nú síðast við yfirfærslu málaflokks fatlaðs fólks árið 2011.
Ársskýrsla sjóðsins gefur glögga mynd af umfangi og mikilvægi sjóðsins. Tekjur Jöfnunarsjóðs námu á síðasta ári 55,5 milljörðum króna. Staða sjóðsins er góð og nam eigið fé hans um síðustu áramót rúmlega 700 milljónum króna. Í ljósi þessarar sterku stöðu hef ég fallist á tillögu ráðgjafanefndar um að hækka útgjaldajöfnunarframlög sjóðsins um 400 milljónir króna.

Eitt af lögbundnum hlutverkum sjóðsins er að styðja við sameiningar sveitarfélaga. Miklum fjármunum hefur verið veitt til þess hlutverks á síðustu árum og mun stuðningur við nýsameinuð sveitarfélög nema um einum milljarði í ár og á því næsta. Ég hef lagt mikla áherslu á þennan mikla stuðning þar sem stærri og öflugri sveitarfélög eru lykillinn að sjálfbæru og sterku sveitarstjórnarstigi. Það eru hagsmunir allra íbúa landsins að sveitarfélögin hafi afl til að veita góða þjónustu og geta horft fram á veginn í þróun byggðanna.

Eins og annað í þessu lífi er mikilvægt að Jöfnunarsjóður taki breytingum og taki mið af þörfum samfélagsins. Þess vegna hefur frá því í apríl á síðasta ári staðið yfir vinna við að endurskoða regluverk sjóðsins. Hópur sérfræðinga hefur unnið að tillögum sem ætlað er að auka gæði jöfnunar og auka gagnsæi. Regluverk sjóðsins hefur ekki tekið grundvallarbreytingum frá því að hann hóf störf og ég tel mikilvægt að sjóðurinn taka mið af þeim breytingum sem orðið hafa á sveitarstjórnarstiginu frá því að hann hóf störf. Byggðasjónarmið hafa frá upphafi verið eitt megin leiðarstef sjóðsins og mun ég tryggja að svo verði áfram. Þá er mikilvægt regluverk sjóðsins styðji vel við sameinuð sveitarfélög sem eftir sameiningu búa við flóknar útgjaldaþarfir.

Ekki eru mörg ár síðan nokkur af fámennustu og best stæðu sveitarfélögum landsins unnu dómsmál gegn Jöfnunarsjóði vegna galla í lagasetningu. Úr þessum ágalla var bætt af Alþingi og í framhaldinu er betur tryggt að tekið sé mið af tekjumöguleikum einstakra sveitarfélaga við úthlutun. Það var högg fyrir sjóðinn að þurfa að greiða sveitarfélögunum út afturvirk framlög og ljóst að þau höfðu ekki þörf fyrir þennan stuðning úr sjóði sem hefur það hlutverk að jafna aðstæður sveitarfélaga á landinu. 

Ég hef áður við þetta tilefni lýst furðu minni á aðför Reykjavíkurborgar að Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna sem birtist í kröfu borgarinnar upp á 5,4 milljarða króna auk dráttarvaxta sem slagar líklega í heildina hátt í níu milljarða króna. Þessari kröfu er ekki, frekar en kröfu áðurnefndra tekjuhæstu sveitarfélaga landsins, beint að ríkissjóði heldur að Jöfnunarsjóði sjálfum og því í raun að öllum sveitarfélögum. Ég hef alltaf átt von á því að málið yrði dregið til baka en hefur ekki orðið að ósk minni. Ég hef opnað á það að gerð yrðu frávik fyrir samkomulaginu frá 1996, sérstaklega hvað varðar greiðslur vegna grunnskólanemenda með íslensku sem annað mál, en ég tel ekki eðlilegt Reykjavík sitji ein utan þess kerfis. Í þeim hugmyndum sem eru uppi um breytingar á Jöfnunarsjóði eru einnig hugmyndir sem myndu gagnast Reykjavíkurborg. Það er hins vegar ljóst að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga getur ekki verið smíðaður í kringum langfjölmennasta og öflugasta sveitarfélag landsins. Í því fælist lítill jöfnuður og byggðahlutverkinu um leið hent út um gluggann.

Ég endurtek því hvatningarorð mín til borgarinnar um að draga kröfuna til baka. Svona veiðiferðir eru ekki til þess fallnar að auka samstöðu meðal sveitarstjórnarfólks og styrkja sveitarstjórnarstigið til framtíðar.

Kæru fundargestir.

Ég vil að lokum þakka ráðgjafarnefnd sjóðsins kærlega fyrir vel unnin störf. Það dregur að lokum skipunartíma hennar og um áramót mun ný nefnd taka við keflinu. Bestu þakkir fyrir ykkar mikilvæga framlag.

Eins vil ég þakka starfsmönnum sjóðsins kærlega fyrir þeirra góðu störf. Miklir fjármunir fara um Jöfnunarsjóð og ábyrgð starfsmanna er mikil við að ráðstafa þeim samkvæmt lögum og reglum sem um hann gilda.

Ykkur sveitarstjórnarfólki sem hér eruð óska ég góðs gengis í ykkar mikilvægu störfum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum