Hoppa yfir valmynd
13. október 2022 Innviðaráðuneytið

Ávarp á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2022

Ávarp flutt á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 13. október 2022

Kæru ráðstefnugestir. Sveitarstjórnarfólk, nýkjörið og reynt. Við lifum á átakatímum. Meðan við sitjum hér og veltum fyrir okkur fjármálum samfélaganna okkar, samfélagsins okkar, eru kollegar okkar í öðru Evrópulandi að kljást við aðrar áskoranir, hvernig samfélag þeirra verður best varið fyrir sprengjuárásum og ofbeldi nágrannaþjóðar. Það er nánast óhugsandi sú staða sem er uppi í ríki svo nærri okkur. Við sem förum fyrir þjóðinni höfum lýst yfir stuðningi okkar við Úkraínu og heitið aðstoð. Það eru sannarlega viðsjárverðir tímar í heiminum.

Við vorum nýskriðin út úr hörmulegum heimsfaraldri þegar stríðið skall á. Stríð sem hefur sannarlega áhrif um alla Evrópu, um allan heim. Fjölskyldur á meginlandinu upplifa ekki aðeins nálægð við stríð heldur afleiðingar orkuskorts. Við hér á Íslandi erum svo einstaklega heppin að eiga orkuauðlindir sem hita híbýli okkar og lýsa og drífa áfram iðnað og atvinnutæki landsins.

Mikilvægt er að við sem þjóð berum gæfu til að nýta þau tækifæri sem okkur gefast til að nýta orkuauðlindina í sátt við náttúru með það að markmiði að efla atvinnu og efnahag og mæta þannig skuldbindingum í loftslagsmálum. 

Kæru ráðstefnugestir.

Ég stend hér við þetta tilefni, á þessari mikilvægu fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna, í nýju hlutverki sem ráðherra nýs innviðaráðuneytis. Undir það ráðuneyti heyra sveitarstjórnar-, byggða-, samgöngu-, húsnæðis- og skipulagsmál. Svið ráðuneytisins er því vítt og undir það heyrir að taka fast á þeim skorti sem er uppi á húsnæðismarkaði og veldur hækkunum á húsnæði, vísitölum og þar af leiðandi vöxtum.

Innviðaráðuneytið stendur þessa dagana fyrir samráðsfundum með öllum landshlutum þar sem fjallað er um allar þær stóru stefnur sem heyra undir innviðaráðuneytið. Tilgangur samráðsfundanna er að gefa íbúum landsins og sveitarstjórnarfólki um land allt tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótun í málaflokkum ráðuneytisins. Á fjarfundunum verður kastljósinu beint að framtíðaráskorunum í málaflokkunum. Meginviðfangsefni fundanna verða umræður um stefnumótun í samgöngum, sveitarstjórnarmálum og húsnæðis- og skipulagsmálum. Einnig verður fjallað um nýsamþykkta byggðaáætlun.

Miðpunktur þessara áætlana felst í því sem við höfum nefnt búsetufrelsi. Skilgreining á búsetufrelsi er á þessa leið: Lífsgæði fólks eru ekki síst fólgin í því að það geti búið sér heimili þar sem það helst kýs, í því búsetuformi sem því hentar og njóti sambærilegra umhverfisgæða, innviða og opinberrar þjónustu hvar á landinu sem er. 

Fjölbreytt íbúðasamsetning, nærþjónusta og grunnkerfi fjölbreyttra samgöngumáta óháð staðsetningu á landinu er því grunnstefið í hugtakinu búsetufrelsi.

Eitt stærsta áherslumálið í sáttmála ríkisstjórnarinnar er að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir þær miklu sveiflur sem hafa einkennt hann síðustu ár. Það er því ánægjulegt að ríki og sveitarfélög hafi náð sameiginlegri sýn á að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum sem er  forsenda þess að ná stöðugleika á húsnæðismarkaði. HMS og sveitarfélögin eru nú þessa dagana að kortleggja byggingarhæfar lóðir og yfirfara húsnæðisáætlanir sveitarfélaganna til að tryggja að byggt verði í samræmi við áform rammasamningsins.

En það er ekki nóg að hafa tölur á blaði eða í glærukynningu. 

Sameiginleg sýn og markmið ríkis og sveitarfélaga skapar um leið tækifæri til að einfalda ákvarðanir í skipulags- og byggingarmálum sem svo leiðir til aukinnar skilvirkni og framfara. Óhætt er að segja að staðan er frekar flókin í dag. Sveitarfélögin eiga samskipti við ríkið í skipulags- og húsnæðismálum í gegnum fjölmörg kerfi og stofnanir. Afleiðing þess getur verið óskilvirk og dýr stjórnsýsla, skortur á yfirsýn sem svo leiðir til „flöskuhálsa“ sem hafa neikvæð áhrif á framboð og gæði á húsnæðismarkaði. 

Stjórnsýslan hefur aukist að umfangi en því miður er ekki hægt að fullyrða að gæði húsnæðis hafi batnað að sama skapi. Hins vegar er hægt að fullyrða að þessir flóknu ferlar hafa ekki tryggt stöðugt framboð húsnæðis. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning með samræmdum hætti og mun innviðaráðuneytið leiða breytingar á sviði skipulags- og byggingarmála með því að stinga á kýli og samræma ferla sem mun til framtíðar tryggja landsmönnum aðgengi að öruggu og góðu húsnæði og leiða til aukins stöðugleika á húsnæðismarkaði. 

Það er ekki ofsögum sagt að jafnvægi á húsnæðismarkaði er stórt efnahagslegt mál og skortur á húsnæði ógnar þjóðarbúskapnum. Í nýlegri samantekt frá OECD kemur það beinlínis fram að jafnvægi á húsnæðismarkaði verði ekki náð nema með skýrri stefnu í húsnæðismálum þar sem skipulag miðar að fjölbreyttu framboði af húsnæði. Það sé þjóðhagslega brýnt að það sé gott aðgengi að húsnæði á viðráðanlegu verði til að draga úr ójöfnuði. Punkturinn sem ég vil draga fram er að ef okkur tekst ekki að einfalda skipulagsferlana þá er afar ólíklegt að okkur takist að koma á langtímajafnvægi í húsnæðismálum. Á næstunni  verður birt fyrsta grænbókin um húsnæðismál sem ætlað er að opna samtalið um gerð húsnæðisstefnu fyrir Ísland í fyrsta skiptið í sögunni. Það er til mikils unnið að lagður sé góður grunnur að fyrstu stefnu í húsnæðismálum sem verður mælt fyrir á fyrstu mánuðum nýs árs. Ég hvet því alla til að fylgjast með samráðsgátt og setja fram skoðanir og álit í þeirri undirbúningsvinnu sem stendur nú yfir.

Á síðustu árum hefur verið mikil uppbygging á sviði samgangna á landinu. Á það jafnt við um vegi, hafnir og flug. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðinu er á góðri siglingu og sama má segja um önnur mikilvæg verkefni út um landið. Stofnun innviðafélags stendur fyrir dyrum en það félag mun halda utan um samvinnuverkefni í samgöngum á borð við Sundabraut, Ölfusárbrú og fleiri verkefni sem samþykkt hefur á Alþingi að ráðast í. Unnið er hörðum höndum að undirbúningi nýrrar Ölfusárbrúar og verkefnisstjórn Sundabrautar vinnur að þessari hagkvæmustu framkvæmd Íslandssögunnar og um leið þeirri stærstu.

Nýtt jarðgangafélag mun hafa það hlutverk að halda utan um fjármögnun jarðganga með það að markmiði að flýta uppbyggingu um um það bil hálfa öld. Hálfa öld. Ég skil þær áhyggjur fólks er snúa að gjaldtöku í jarðgöngum, ekki þá síst þeim sem eru innan sveitarfélaga og vinnusóknarsvæða, en segi um leið að unnið er að leiðum sem eru sanngjarnar en skila okkur um leið miklum ávinningi, bæði hvað varðar öryggi og atvinnulíf. 

Ein helsta áskorunin í samgöngum snýst um fjármögnun þeirra. Álögur á bifreiðar hafa lækkað verulega á síðustu áratugum sé litið á hlutfall þeirra af þjóðarframleiðslu. Nýorkubílar hafa hingað til notið þeirra sérstöðu að greiða ekkert fyrir notkun sína á vegakerfinu. Það liggur í augum uppi að það er ekki sanngjarnt til lengdar.

Í janúar 2020 samþykkti Alþingi stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga og er það fyrsta áætlun sinnar tegundar á Íslandi.  Í fimm ára aðgerðaráætlun er að finna 11 aðgerðir sem almennt gengur vel að framfylgja.  Vinna við endurskoðun stendur yfir og var spurningalisti sendur til allra sveitarfélaga í sumar og hefur svörun verið ágæt.  Svörin hafa verið nýtt við vinnu við grænbók í málefnum sveitarfélaga.  Áætlað er að grænbókin verði lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda á næstu vikum.

Fjármál sveitarfélaga eru í brennidepli í dag og á morgun. Í byrjun september kallaði ráðuneytið eftir upplýsingum um rekstur A-hluta sveitarfélaga fyrir fyrstu 6 mánuði ársins 2022. Óskað var eftir upplýsingum um rekstrarreikning – efnahagsreikning og sjóðstreymi en að lágmarki upplýsingum um rekstrarreikning. 26 sveitarfélög af 64 skiluðu ekki upplýsingum og fá þeirra sem skila, gera uppgjör sem innifelur sjóðstreymi og efnahagsreikning. 

Vegna skorts á upplýsingum var farin sú leið að áætla sjóðstreymi sveitarfélaganna með því að styðjast við hlutföll úr sjóðstreymi þeirra sem skiluðu og upplýsingar frá ársreikningi 2021. Jafnframt voru fjárhagsáætlanir fyrir árið 2022 notaðar fyrir þau sveitafélög sem ekki skiluðu. Með þessari aðferðarfræði er hægt að nálgast áætlaða rekstrarstöðu fyrstu 6 mánuði ársins.

Erfitt er að draga stórar ályktanir af þessari yfirferð, en þó alveg ljóst að rekstur Reykjavíkurborgar er mjög þröngur þar sem rekstrarniðurstaða eftir 6 mánuði er neikvæð um 8,9 milljarða og veltufé frá rekstri neikvætt um 3,4 milljarða.  Fjárhagsáætlun ársins 2022 gerir ráð fyrir jákvæðu veltufé frá rekstri að fjárhæð um 2,5 milljarða. 

Á heildina litið er ljóst að verðbólga setur strik í rekstrarniðurstöðu 6 mánaða þar sem vísitala neysluverðs hækkaði um 6,17% á fyrstu 6 mánuðum ársins. Gera má ráð fyrir að sveitarfélögin hafi áætlað vísitölu neysluverð um 2-3% fyrir heilt ár í sínum áætlunum.

Sveitarfélögin standa því, líkt og ríkið, frammi fyrir miklum áskorunum.

Ég hef í störfum mínum sem sveitarstjórnarráðherra lagt mikið upp úr nánu og góðu samstarfi við forsvarsfólk sveitarfélaganna. Það voru mér því mikil vonbrigði hvernig starf tekjustofnanefndar endaði. Við komumst ekkert áfram án hvert annars. Það vitum við öll. Við berum saman ábyrgð á öllu starfi hins opinbera og því mikilvægt að milli okkar ríki traust og trúnaður. Það breytir því ekki að margvísleg úrlausnarefni eru framundan á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, drög að skýrslu nefndarinnar dregur mörg þeirra ágætlega fram og verkefni okkar er því að halda áfram samtölum um þau. Það á t.d. við um kostnaðarþróun varðandi þjónustu við fatlað fólk.

Yfirfærsla á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga fór fram um áramótin 2010 og 2011. Var þá gert ráð fyrir því að fjárhagsrammi þjónustunnar væri 10,7 milljarðar. Gert var ráð fyrir því að sveitarfélögin fengju að njóta alls ábata af hagræðingu með samþættingu við félagsþjónustu sem átti að fylgja í kjölfarið. 9,7 milljarðar komu til sveitarfélaga með 1,20% hækkun á útsvarshlutfalli sveitarfélaga, 1 milljarður var veittur með beinum tímabundnum framlögum vegna veikrar stöðu útsvarsstofnsins, biðlista og fleiri þátta. Því til viðbótar afhenti ríkið sveitarfélögunum endurgjaldslaust allt húsnæði þar sem starfsemin fór fram en bókfært verðmæti þess var fært til gjalda í ríkisreikningi ársins 2010 og nam liðlega sex milljörðum króna á núverandi verðlagi. 

Árið 2015 var skrifað undir samkomulag og lagabreytingar að undangenginni mikilli nefndarvinnu og var niðurstaðan 1,24% varanleg hækkun á útsvarshlutfalli sveitarfélaga og 0,235% hækkun á lögbundnu framlagi ríkissjóðs af innheimtum skatttekjum inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. 

Framangreindir tekjustofnar skiluðu sveitarfélögum 21 ma.kr. í tekjur árið 2018, 21,8 ma.kr. árið 2019 og 23,3 ma.kr. árið 2020. Að viðbættum öðrum sértekjum sem námu um 1,8 ma.kr. árið 2020 þá námu tekjur málaflokksins um 25 ma.kr. árið 2020. Það er meira en tvöföldun á tekjunum samanborið við það sem gert var ráð fyrir við flutninginn árið 2011. Það svarar til um 13% nafnaukningar tekna á ári eða um 8% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs.  

Á hinn bóginn þá kemur fram í skýrslu starfshóps um kostnaðarþróun í málefnum fatlaðs fólks að útgjöld vegna málefna fatlaðs fólks voru um 25,2 ma.kr. árið 2018, 28,8 árið 2019 og 34 ma.kr. árið 2020. Það er meira en þreföldun á útgjöldum frá upphafi yfirfærslunnar. Gliðnun tekna og útgjalda í lok þessa tímabils var því orðin um 9 ma.kr. Nýverið hefur komið fram af hálfu sveitarfélaga að gliðnunin stefni í 12-13 ma.kr. en engin skoðun á þeim áætlunum hefur farið fram af hálfu ríkisins.

Frá árinu 2014 hafa tekjur sveitarfélaga vaxið um 31% á föstu verðlagi en tekjur ríkissjóðs dregist á sama tíma saman um 1%. Á sama tíma hafa gjöld sveitarfélaga vaxið um 33% á föstu verðlagi en gjöld ríkissjóðs um 28%. Frá árinu 2019 til 2021 uxu tekjur sveitarfélaga um 3% á föstu verðlagi á sama tíma og tekjur ríkissjóðs drógust saman um 7%.

Í ljósi þess að ágætur vöxtur hefur verið í tekjustofnum sveitarfélaga, einnig á tímabili kórónuveirufaraldursins, er ekki annað hægt að segja að sá fjárhagsvandi sem snýr að málaflokki fatlaðs fólks er ekki tekjuvandi heldur fyrst og fremst útgjaldavandi. Í því sambandi má benda á að auknar aðrar tekjur en þær sem markaðar eru málaflokknum ættu að gera þeim kleift að veita auknu fjármagni þangað, t.d. stórauknar tekjur af fasteignasköttum.

Skýringar á auknum útgjöldum eru af ýmsum toga og má vafalaust benda á að auknar kröfur ríkisins í gegnum lagasetningu skýri einhvern hluta þeirrar aukningar. Á móti þarf að hafa í huga að útgjöld málaflokksins eru fyrst og fremst launakostnaður. Sá kostnaður hefur vaxið gríðarlega sl. ár en líkt og kemur fram í skýrslunni hafa laun og launatengd gjöld aukist um 5,3 ma.kr. eða 33,5% frá árinu 2018 til ársins 2020. Má þar ætla að til viðbótar fjölgunar stöðugildum hafi lífskjarasamningurinn verið málaflokknum afar íþyngjandi. Það verður þó að ætla sveitarfélögum að þau standi straum af kostnaði launahækkana sinna starfsmanna hvort sem það er í þessum málaflokki eða öðrum, enda er uppistaða tekna þeirra byggð á sköttum sem fylgja launaþróun. 

Um tveir þriðju af fráviki tekna og gjalda málaflokksins er hjá Reykjavíkurborg. Þannig nam þetta frávik 5,7 ma.kr. árið 2020 en var 2,6 ma.kr. árið 2018.

Líkt og hefur komið fram í opinberri umræðu þá er engu að síður ljóst að umfang fjárhagsvandans í þessum málaflokki er orðið af þeirri stærðargráðu að tilefni gæti verið til að mæta honum sem fyrst með ráðstöfunum til bráðabirgða þar til fullnaðaruppgjör og greining liggur fyrir af hálfu sérstakrar nefndar sem hefur málið til umfjöllunar. Þannig gæti komið til álita að hækka útsvarshlutfallið enn frekar á móti samsvarandi lækkun tekjuskattshlutfallsins sem næmi umtalsverðum hluta vandans í því skyni að gera sveitarfélögum kleift að standa við þau meginmarkmið um þróun afkomu og skulda sem gert var samkomulag um í aðdraganda gildandi fjármálaáætlunar. Eftirstandandi vandi ætti þá að vera viðráðanlegri. Einnig gæfist meira svigrúm til að ákvarða fullnaðaruppgjör og þar með hvort réttmætt sé að ríkið taki á sig frekari stuðning að aflokinni skoðun nýs vinnuhóps um kostnaðarskiptingu í málefnum fatlaðs fólks. Hópnum er ætlað að ljúka störfum í desember á þessu ári en hætt er við að það dragist. 

Í ljósi þess að sveitarfélög byggja nær alfarið á sjálfstæðum tekjustofnum er mikilvægt að slíkur stuðningur verði veittur í þeirri mynd að hækka tekjur þeirra fremur en að ríkið fari að leggja bein framlög inn til að fjármagna hluta af rekstri tiltekins málaflokks. Að slíku uppgjöri og styrkingu tekjustofna afloknu kemur það í hlut sveitarfélaga að axla ábyrgð á sinni fjármálastjórn og áframhaldandi útgjaldaþróun málalflokksins.

Með hliðsjón af umfangi fjárhagsvandans en einnig af góðum framgangi í tekjustofnum sveitarfélaga og í ljósi þess að ætla verður sveitarfélögunum að leggja sitt af mörkum til að glíma við sinn þátt í þessum útgjaldavexti mætti telja að hækkun árlegra tekna þeirra um 5-6 ma.kr. ætti að vera nægilegur stuðningur að sinni til að ekki þurfi að raska þessari þjónustu á næstu misserum. Skv. lauslegum útreikningi þyrfti að hækka útsvarsprósentuna um 0,26% til að skila þeirri tekjuaukningu.

Fyrirkomulag á þessum stuðningi gæti verið með þeim hætti að öll skattþrep í tekjuskatti ríkisins lækki um 0,26 prósentustig til að allir skattgreiðendur væru jafnsettir eftir sem áður. Í öðru lagi þyrfti í lagabreytingum að standa þannig að málum að öll hækkun útsvarsprósentunnar gangi til hækkunar á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í útsvarstekjunum. Eins og í fyrri samkomulögum væri tilgangurinn með þessu samkomulagi að öll sveitarfélög sjái sér hag í að hækka útsvarið sem og að tryggja að tekjurnar fari í málaflokkinn með því jöfnunarfyrirkomulagi sem felst í sjóðnum.

Eins og áður er mikilvægt að slík fyrirgreiðsla væri gerð með traustum umbúnaði í sérstöku undirrituðu samkomulagi með viðeigandi skilmálum til að tryggja að sveitarfélögin veiti viðeigandi fjármunum í málaflokkinn og til að útkljá að ríkið sé þar með búið að tryggja ákveðna þætti til að varna því að hægt verði að efna aftur til ágreinings.

Kæru ráðstefnugestir.

Við búum í góðu samfélagi, einhverju því besta í heiminum. Það breytir ekki því að það eru mörg verkefni sem bíða okkar svo það geti orðið enn betra. Við höfum á síðustu misserum fundið fyrir vaxandi ólgu sem birtist í hatrömmum deilum. Það er skautun í samfélaginu og því fylgir aukið óþol fyrir skoðunum annarra og lífsviðhorfum. Þeir öfgafyllstu, sama á hvaða sviði þær öfgar eru, þeir öfgafyllstu hafa lítið til málanna að leggja. Þeir skila í raun auðu því þeir vita eins og við öll að öfgar eru tímabundið fyrirbæri. Það er í skynsamlegu og yfirveguðu samtali sem raunverulegar framfarir verða, raunverulegar umbætur. 

Það er stríð í Evrópu, það er ógnandi verðbólga í heiminum og við förum ekki varhluta af því. Við þessar aðstæður er ekki í boði að standa ekki saman. Við verðum að vinna saman af yfirvegun með hagsmuni íbúa þessa lands í fyrirrúmi. Við aðstæður sem þessar er ekki í boði að velta mikilvægum ákvörðunum á undan sér til að þurfa ekki að horfast í augu við þær. Okkur sem stöndum í stafni í stjórnmálum er fyrirgefið margt en aldrei afstöðuleysi, aðgerðarleysi.

Ég veit að við komumst saman í gegnum skaflana, hvort sem þeir heita verðbólga eða húsnæðisskortur. Ég veit að með samtali og samstöðu getum við haldið áfram aukinni sókn til lífsgæða á okkar fagra og gjöfula landi.

Ég óska ykkur góðs gengis í störfum ykkar í dag og alla daga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum