Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. janúar 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Verk- og kerfisfræðistofan hf.: Vottun gæðakefis skv. ISO 9001. Ávarp ráðherra, 18. janúar 1996.



Ágætu samkomugestir.

Það er álit margra, sem göggt til þekkja, að upplýsingaiðnaður verði helsti vaxtarbroddur íslensks atvinnulífs á komandi árum.

Þótt það sé sjaldan í hávegum haft höfum við Íslendingar náð umtalsverðum árangri á þessu sviði, eins og útflutningur hugbúnaðar ber glöggt vitni um. Hann nemur nú mörg hundruð milljóna króna á ári og er þá ótalinn umfangsmikill útflutningur á margvíslegum iðnaðarvörum sem byggja á hugbúnaði.

Hér er um vandfýsinn markað að ræða og er brýnt að í hvívetna sé vandað til verka. Mikilvægt er, að okkur auðnist gæfa til að ná varanlegri fótfestu á þeim mörkuðum þar sem við höfum knúið dyra. Það krefst þolinmæðis, en ekki síður tiltrúar viðskiptavina okkar á hæfni okkar og á því sem við höfum að bjóða þeim.

Fyrir fyrirtæki, sem huga að verkefnaútflutningi er þetta enn mikilvægara en þegar um beinan vöruútflutning er að ræða. Í því tilfelli er hið selda lítt áþreifanlegt og byggir að mestu á orðspori því sem fer af seljandanum. Fyrir litla og afskekkta þjóð sem okkar kann þetta að vera þraut þyngri, einkum í ljósi þess, að litlar hefðir eru hér á landi fyrir verkefnaútflutningi, samanborið við margar hinar stærri þjóðir. Íslensk fyrirtæki eru því enn í dag í sporum frumkvöðlanna, sem verða að brjótast til sigurs í óvæginni samkeppni, þar sem á brattan er að sækja.

En til mikils er að vinna og möguleikar okkar eru vissulega miklir. Við höfum um margt sérstöðu umfram aðra og smæð okkar er okkur ekki alltaf fjötur um fót, - getur þvert á móti talist til kosta á vissum mörkuðum, ef rétt er að málum staðið. Víðtæk almenn menntun og reynsla á hinum ólíklegustu sviðum svo og mikil tungumálakunnátta er okkur til framdráttar og hefur vakið athygli víða um lönd.

Þetta eitt og sér dugir þó skammt. Kaupendur vöru og þjónustu gera þá kröfu, að það sem þeir fá afhent sé í góðu lagi, sé afhent á réttum tíma og uppfylli að öllu leyti væntingar þeirra. Virk gæðastjórnun er lykilatriði til að mæta þessum kröfum.

Ég hef orðið var við, að gæðastjórnun mætir vaxandi skilningi hjá íslenskum fyrirtækjum. Augu manna hafa opnast fyrir því, að gæðastjórnum snýst ekki einvörungu um hagsmuni neytenda. Hún er ekki síður mikilvirkt tæki til að fækka göllum, auka gæði og lækka tilkostnað, auk þess að skapa þá viðvarandi viðskiptavild sem nauðsynleg er. Gæðastjórnun er því ekki fjárhagsleg áþján heldur langtíma fjárfesting.

Atburður þessi markar á vissan hátt tímamót. Verk- og kerfisfræðistofan hf. sem í dag tekur á móti staðfestingu þess, að gæðakerfi fyrirtækisins hafi verið vottað skv. alþjóðlegum staðli er fyrsta íslenska hugbúnaðarfyrirtækið sem slíka viðurkenningu hlýtur. Það er jafnframt til vitnis um, að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki horfa af framsýni til nýrrar sóknar. Megi það verða öðrum til hvatningar og eftirbreytni.

Ég vil nú biðja Ara Arnalds framkvæmdastjóra Verk og kefisfræðistofunnar hf. að koma hingað og taka á móti skjali þessu, sem er til staðfestingar því, að gæðakerfi fyrirtækisins hefur verið vottað skv. gæðastðlinum ÍST ISO 9001.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum