Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. febrúar 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á aðalfundi Verslunarráðs, 15. febrúar 1996.

 

Ágætu aðalfundarfulltrúar,
Kyrrstaðan í íslensku efnahags- og atvinnulífi hefur verið rofin. Þannig óx landsframleiðsla til að mynda um 2,6% á síðasta ári og því er spáð að hún muni aukast um 3.2% á þessu ári. Almennar hagrænar aðstæður hafa stuðlað að þessu auk aðgerða stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Raungengi krónunnar hefur nú um allnokkurt skeið verið í sögulegu lágmarki. Þetta hefur tvímælalaust hleypt lífi í ýmsan útflutning, ekki síst á sviði iðnaðar. Það er staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að halda þannig á málum að hagvöxturinn aukist jafnhliða því að tryggður sé áframhaldandi stöðugleiki.

Eina af þeim fáu hagstærðum, sem ekki hafa þróast í jákvæða átt í nýhafinni uppsveiflu, er almenna fjárfestingin í þjóðfélaginu. Fjárfesting jókst að vísu lítillega á síðasta ári en er engu að síður einungis um 16% af landsframleiðslu. Það er um 5 prósentustigum lægra hlutfall en í OECD-ríkjunum að meðaltali.

Lágt fjárfestingarhlutfall er áhyggjuefni því það bendir til þess að þjóðin vanræki að treysta þann grunn sem hagvöxtur framtíðarinnar byggist að hluta til á. Það er því afar brýnt að auka fjárfestingu í atvinnulífinu. Sérstaklega er áhyggjuefni hvað fjárfesting erlendra aðila er lítil í almennu atvinnulífi hér á landi í samanburði við það sem tíðkast með grannþjóðum okkar. Ég hef því beitt mér fyrir sérstökum aðgerðum til að kynna útlendingum fjárfestingarkosti hér eins og ég vík nánar að síðar.

Vextir hafa afgerandi áhrif á innlenda fjárfestingu, einkum vextir á langtímalánum. Vextir á peninga- og bankamarkaði hneigðust frekar til hækkunar í fyrra. Verðtryggðir meðalvextir bankanna hækkuðu til að mynda um hálft prósentustig og voru 8,8% um áramótin. Sama tilhneiging til vaxtahækkunar er upp á teningnum nú í ársbyrjun 1996. Þetta gerist á sama tíma og vextir allt í kringum okkur hafa farið lækkandi. Nú er svo komið að raunþáttur vaxta er hér um 3% hærri en almennt gerist í hinum vestræna heimi. Miðað við lönd eins og Bandaríkin, Þýskaland eða Japan þýðir það að vaxtastig er hér tvöfalt hærra en þar. Augljóslega hafa hinir háu vextir hér á landi lamandi áhrif á fjárfestingu í atvinnulífinu. Allar efnahagslegar forsendur eru nú til staðar til að vextir geti lækkað:

  • Verðlag hefur þróast í samræmi við væntingar og samkvæmt seinustu tölum er verðbólguhraðinn jafnvel minni nú en margir töldu.
  • Lánsfjárþörf ríkissjóðs hefur ekki um langt skeið verið minni eftir samþykkt fjárlaga fyrir þetta ár.
  • Stöðugleiki er á vinnumarkaði.
  • Eftir nokkurt umrót á gjaldeyrismarkaði innanlands á seinasta ársfjórðungi hefur jafnvægi skapast og er nú meira innstreymi gjaldeyris en útstreymi. Ekki verður því séð að þörf sé á háu vaxtastigi til að tempra viðskiptajöfnuðinn; allra síst kallar það á háa vexti á langtímaskuldbindingum.

Hærri vextir hér á landi heldur en í löndunum í kringum okkur leiða til þess að samkeppnisaðstaða íslenskra fyrirtækja er lakari en ella. Háir vextir munu draga úr fjárfestingu í atvinnulífinu, draga úr hagvexti, auka atvinnuleysi og leiða hér aftur til efnahagslegrar stöðnunar.

Nýsköpun og framsókn í atvinnulífinu

Vík ég nú að sértækari aðgerðum til eflingar atvinnulífsins.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á atvinnu- og verðmætasköpun með því að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Atvinnulífið þarf ekki hvað síst að byggjast á vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau eru hvarvetna burðarásar hagvaxtar. Vissulega munum við freista þess að draga til okkar stóriðju eins og samræmst getur skynsamlegri orkunýtingu og markmiðum í umhverfismálum. Við getum ekki treyst á að stóriðja verði umtalsverður grundvöllur efnahagslegra framfara á næstu áratugum og auðlindir hafsins eru ekki lengur ávísun á vaxandi velmegun. Sá auður sem í fólkinu býr skiptir sköpum í harðnandi samkeppni. Geysilegur kraftur í hagkerfum margra auðlindasnauðra þjóða á undanförnum áratugum samhliða hnignum þjóða, sem búa yfir gjöfulum auðlindum, sýnir þetta best.

Ég hef í minni tíð sem ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála hleypt af stokkunum þremur verkefnum sem lúta að nýsköpun atvinnulífsins. Það er í fyrsta lagi Evrópuverkefni um lítil og meðalstór fyrirtæki. Í öðru lagi sérstakt átak til atvinnusköpunar. Og að síðustu er hér um að ræða aðgerðir til að laða að erlenda fjárfestingu, eins og ég hef þegar nefnt. Ég vil stuttlega kynna markmið þessara verkefna.

Í nefnd um lítil og meðalstór fyrirtæki eru fulltrúar úr atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni og frá stjórnvöldum. Formaður hennar er Davíð Scheving Thorsteinsson. Hlutverk nefndarinnar er einkum að kortleggja þau tækifæri sem íslenskum fyrirtækjum kunna að bjóðast á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin hefur nú gefið út kynningarrit sem ber heitið "Evrópuverkefni á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja". Þar er greint frá ýmsum rannsókna- og ráðgjafaverkefnum sem standa íslenskum fyrirtækjum til boða sem og ýmsum verkefnum sem ætlað er að greiða fyrir samstarfi fyrirtækja. Ég hef farið um landið að undanförnu og kynnt þetta starf. Ég hef hvarvetna fundið fyrir gríðarlegum áhuga á þessu starfi og ljóst er að brýn þörf var á að leggja út í þessa vinnu.

Stjórnendur íslenskra fyrirtækja hafa hins vegar enn sem komið er lítið nýtt sér þá möguleika sem EES-samningurinn býður upp á, enda erfitt, mitt í daglegu amstri, að henda reiður á starfsemi Evrópusambandsins. Hér er mikilvægt að stjórnvöld leggi fyrirtækjum lið. Að mínu mati er eðlilegt að stjórnvöld veiti upplýsingar um þau tækifæri sem bjóðast og hjálpi fyrirtækjum að stíga fyrstu skrefin. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytin eru nú tímabundið með starfsmann í Brussel sem veitir íslenskum fyrirtækjum slíka aðstoð. Beri þessi tilraun árangur vil ég halda starfinu áfram í samvinnu við atvinnulífið.

Nefndin hefur einnig sett fram margar athyglisverðar hugmyndir sem ég hyggst beita mér fyrir. Þar má nefna nauðsyn þess að aðgengi fyrirtækja að lögum og reglum verði bætt. Skref í þessa átt hefur nú þegar verið stigið með því að ríkisstjórnin hefur samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið Úrlausn-Aðgengi um útgáfu reglugerðarsafns á tölvutæku formi. Ég hef einnig áhuga á að óháður aðili innan stjórnsýslunnar meti, áður en ný lög eru sett, hvaða áhrif þau hafa á rekstur og samkeppnishæfni fyrirtækja. Ég hef lagt tillögu þess efnis fyrir ríkisstjórn. Ég er ekki í vafa um að slíkt mat mundi gagnast bæði stjórnvöldum og atvinnulífinu.

Verkefnið "Átak til atvinnusköpunar" er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Iðntæknistofnunar. Markmið þess er þríþætt: Að standa sameiginlega að verkefnum sem stuðla að atvinnusköpun og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins, að samræma verkefni til hvatningar og stuðnings lítilla og meðalstórra fyrirtækja, svo og einstaklinga, á sviði atvinnu- og nýsköpunar og að síðustu að stuðla að auknu alþjóðasamstarfi fyrirtækja á sviði markaðsmála og tækniyfirfærslu. Hafin verður skipuleg leit að vænlegum fyrirtækjum sem flutt verði til landsins með það að leiðarljósi að efla íslenskt atvinnulíf og skapa ný störf. Góð reynsla er af innflutningi slíkra fyrirtækja. Átakið mun einnig veita ráðgjöf um stofnun fyrirtækja og frumkvöðlar og uppfinningamenn fá aðstoð til að koma hugmyndum sínum á framfæri og í framkvæmd.

Þriðja viðfangsefnið, sem ég hef lagt mikla áherslu á, stefnir að því að laða hingað erlenda fjárfestingu í auknum mæli. Alþekkt er það markaðsstarf sem stundað hefur verið um áratug í samvinnu Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytisins til að fá hingað fjárfesta í orkufrekum iðnaði. Fjölmargir kostir hafa þar verið kannaðir og kynntir. Það sem helst er á döfinni í þeim efnum um þessar mundir er þekkt úr almennum fréttum: Stækkun álversins í Straumsvík, viðræður við Columbia Aluminium um álver á Grundartanga svo og hugmyndir um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og áframhaldandi viðræður við Atlantál- hópinn um álver á Keilisnesi.

En að frátalinni stóriðju hefur erlend fjárfesting verið óveruleg hér á landi hingað til. Að hluta hefur löggjöf meðvitað haldið hugsanlegum erlendum fjárfestum fjarri, en í tengslum við samninginn um EES-svæðið hafa takmarkanir smám saman verið afnumdar. Að samþykktu lagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi eru einungis eftir takmarkanir á beinni fjárfestingu í sjávarútvegi. Til þess að vinna að markvissri kynningarstarfsemi á kostum fjárfestingar í almennum atvinnurekstri hérlendis hefur í samstarfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Útflutningsráðs verið sett á laggirnar sérstök Fjárfestingarskrifstofa. Auk gerðar almenns kynningarefnis hyggst skrifstofan einbeita sér að markvissri kynningu á iðjukostum á tilteknum svæðum annars vegar og hins vegar í tilteknum iðngreinum. Þannig er unnið að kynningu á Reykjanesi sem svæði fyrir hvers konar iðnað sem samnýtir iðnaðargufu og raforku. Þá er Akureyri og umhverfi kynnt sem matvælaiðnaðarsvæði auk þess sem stóriðjukostir á Reyðarfirði eru enn til skoðunar. Einn
ig er unnið að því að kynna kosti til fjárfestingar í starfandi fyrirtækjum í samráði við Verslunarráðið.

Umbætur á fjármálamarkaði

Eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar er að tryggja að íslenskar fjármálastofnanir aðlagist því viðskiptaumhverfi sem við búum við í dag. Að mínu mati hefur ekki verið hugað nægilega vel að þessu á undanförnum árum, þó menn hafi kannski gert sér grein fyrir vandanum.

Það er skoðun mín að núverandi rekstrarform ríkisviðskiptabankanna útiloki þá framþróun sem er nauðsynleg eigi þessar stofnanir að halda velli. Þá tel ég einnig að sjóðakerfi atvinnuveganna þarfnist gagngerrar endurskoðunar af sömu ástæðum. Nauðsynlegt er að þessar stofnanir búi við rekstarform og starfsaðstæður sem tryggi svigrúm til hagræðingar og aukinnar hagkvæmni í rekstri, sem um leið styrki samkeppnisstöðu þeirra í sífellt stækkandi viðskiptaumhverfi.

Á vegum viðskiptaráðuneytisins er nú unnið að undirbúningi að breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Nefnd var sett á laggirnar á haustdögum til að finna lausnir á ýmsum álitaefnum í tengslum við breytingu ríkisviðskiptabankanna í hlutafélagabanka og semja lagafrumvörp þar að lútandi. Nefndin mun á næstunni leggja lokahönd á samningu lagafrumvarps og er það ætlun mín að leggja fram slíkt frumvarp nú á vorþingi.

Þá er á vegum forsætisráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta og sjávarútvegsráðuneytis verið að vinna að hugmyndum um breytingar á sjóðakerfi atvinnuveganna. Markmið starfsins er að koma sjóðakerfinu þannig fyrir að atvinnulífinu verði á sem hagkvæmastan hátt tryggður aðgangur að langtímafjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum jafnhliða sem því verði tryggður aðgangur að áhættufjármagni til nýsköpunar og þróunar. Með þessi markmið í huga hefur vinnuhópurinn haft til skoðunar hvernig best megi nýta það fjármagn sem þegar er til staðar í fyrirliggjandi sjóðakerfi og hvert eigi þá að vera skipulag þessara mála.

Svo sem kunnugt er eru lífeyrissjóðirnir einn stærsti áhrifavaldurinn í íslensku fjármálakerfi. Þeir hafa einkarétt á því að taka á móti lífeyrissparnaði landsmanna og í skjóli þess einkaréttar eru þeir orðnir stærri en bankakerfið og verðbréfafyrirtækin samanlagt, ef tekið er mið af peningalegum eignum. Þrátt fyrir þetta er er ekki til staðar nein heildstæð löggjöf um starfsemi lífeyrissjóða. Gildandi löggjöf tekur aðeins á afmörkuðum atriðum í rekstri og starfsemi þeirra. Það er því bráðnauðsynlegt að lífeyrissjóðunum verði sett með lögum sambærileg umgjörð og aðrar fjármálastofnanir í landinu búa við. Í slíkri löggjöf legg ég áherslu á tvennt: Í fyrsta lagi að launamönnum verði gert kleift að hafa áhrif á störf, stefnumörkun og stjórnarkjör í viðkomandi lífeyrissjóði og þannig orðið virkari þátttakendur í uppbyggingu atvinnulífsins. Í öðru lagi að lífeyrissjóðir sæti eftirliti bankaeftirlitsins og að það eftirlit verði skilgreint á svipaðan hátt og eftirlit annarra stofnana á fjármagnsmarkaði.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að yfirburðastaða lífeyrissjóðanna á markaði og mikil áhrif þeirra á vaxtastigið eigi stóran þátt í háu vaxtastigi. Það er því tímabært að mínu mati að tekið verði til skoðunar hvernig skapa megi aukna samkeppni á markaðnum, m.a. hvort ekki sé rétt að afnema einkarétt lífeyrissjóðanna til þess að taka á móti lífeyrissparnaði landsmanna.

Á vegum félagsmálaráðuneytisins er nú starfandi nefnd sem ætlað er að kanna möguleika á að draga úr ríkisábyrgðum í húsbréfakerfinu og flutningi almenna húsnæðiskerfisins til bankanna. Það er mín skoðun að nauðsynlegt sé að draga umtalsvert úr ábyrgðum ríkisins á húsnæðislánum og draga úr útgjöldum ríkisins vegna húsnæðislánakerfisins. Einnig er æskilegt að mínu mati að úrvinnsla og framkvæmd lánveitinga færist sem mest til bankakerfisins. Við slíkar breytingar verður að hafa að leiðarljósi að sveigjanleiki lánakerfisins aukist og að almenningi verði tryggður aðgangur að löngum lánum með veði í fasteign á hagkvæmum kjörum. Þau atriði sem ég hef hér drepið á eru að mínu mati lykilatriði, ætli menn að ná betri tökum á efnahagsstjórn landsins, þar með talið að ná niður vaxtastiginu. Árangur næstu ára í þessum málum mun því skipta miklu um stöðu íslensks atvinnulífs í hinu sístækkandi alþjóðlega viðskiptaumhverfi.

Samkeppnismál

Að lokum vil ég fara nokkrum orðum um samkeppnismál, enda er það sá málaflokkur sem snertir ykkur í Verslunarráði Íslands alveg sérstaklega. Vart er þörf á að hamra á mikilvægi samkeppni bæði til að stuðla að hagkvæmum atvinnurekstri og sanngjörnu verði samhliða góðri þjónustu fyrir neytendur. Það eru ekki mörg ár síðan við bjuggum að mestu við miðstýrðar verðlagsákvarðanir, þar sem samkeppni á markaði mátti sín lítils. Íslenskt hagkerfi hefur tekið grundvallarbreytingum hvað þetta varðar. Með fáum en vel skilgreindum undantekningum treystum við nú á markaðsöflin til verðákvarðana. Það er skiljanlegt að ýmsir voru efins í upphafi um þá stefnubreytingu. Menn óttuðust að hagkerfið væri ekki nægilega stórt til að kostir frjálsrar samkeppni fengju notið sín. Reynslan hefur á hinn bóginn verið góð. Fullyrða má að í velflestum tilvikum hefur samkeppni verið virk. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að hagkerfið er nú orðið næsta opið út á við. Samkeppnin kemur því ekki aðeins að innan heldur og erlendis frá. Þa
r sem misbrestur er á virkri samkeppni eða nauðsyn er talin á verðlagsstýringu er það einmitt vegna þess að erlend samkeppni hefur ekki komist á.

Nú eru tæp þrjú ár liðin frá því að samkeppnislögin tóku gildi. Á þeim tíma hefur starfsemi samkeppnisyfirvalda í stórum dráttum falist í að afgreiða þann mikla fjölda erinda sem þeim hefur borist til meðferðar frá fyrirtækjum og einstaklingum. Það er ljóst að svo mun verða áfram, a.m.k. um sinn. Vonir standa þó til að samkeppnisyfirvöld geti í ríkari mæli tekið upp mál að eigin frumkvæði og ljóst er af umfangi laganna að þar er af nógu að taka og að forgangsraða þarf verkefnum.

Með samkeppnislögunum var stefnt að því að efla virka samkeppni þar sem hún getur best tryggt hag neytenda og atvinnulífsins. Þetta er gert með því að skerpa samkeppnisreglur, auka gagnsæi markaðarins og draga úr opinberum samkeppnishömlum. Með samkeppnislögunum voru í fyrsta skipti sett lagaákvæði sem beinlínis vinna gegn samkeppnishindrunum og þá vísa ég sérstaklega til ákvæðisins sem heimilar Samkeppnisráði að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað opinberra stofnana frá einkaréttarstarfsemi eða verndaðri starfsemi sömu stofnana.

Eðlilegt er að spurt sé hvernig til hafi tekist á þeim tíma sem liðinn er frá því að samkeppnislögin komu til framkvæmda. Á þessu tímabili hafa verið teknar ákvarðanir, gefin álit og haldið uppi annarri starfsemi sem marka tímamót og sem hafa þegar stuðlað að virkari og sanngjarnari samkeppni. Þó ber að hafa í huga að efling samkeppni er langtímaverkefni sem á að skila varanlegum árangri, andstætt beitingu verðlagsákvæða sem byggðist á skammtímalausnum.

Sá þáttur í starfi samkeppnisyfirvalda sem mesta athygli hefur vakið eru afskipti af opinberum samkeppnishindrunum. Í flestum tilvikum hafa opinber fyrirtæki brugðist vel við og gert ráðstafanir í samræmi við ákvarðanir yfirvaldanna. Í þessu sambandi hef ég skipað nefnd til að kortleggja þann rekstur ríkisins sem er í samkeppni við einkarekstur og á Verslunarráð fultrúa í henni. Nefndin mun skila niðurstöðum innan tíðar og vænti ég þess að starf hennar flýti því að opinberum samkeppnishindrunum verði rutt úr vegi.

Í samræmi við ofangreint er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa starfsemi hins opinbera út á almennan markað þar sem því verður við komið. Hvað mín ráðuneyti varðar er ég m.a. að láta kanna í hvaða mæli er unnt að bjóða út verkefni rannsóknarstofnana. Við þetta minnkar fastur kostnaður þessara stofnana og um leið er auðveldara að aðlaga umfang rannsókna eftirspurn og þörfum á hverjum tíma. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem miklar sveiflur eru á rannsóknarþörfinni eins og t.d. í orkurannsóknum.

Eftirlitsiðnaðurinn svokallaði er annað dæmi um starfsemi sem á í sem ríkustum mæli að færast út á einkamarkað. Í ráðuneytum mínum hefur verið starfað með það að leiðarljósi. Jafnframt er brýnt að halda öllum kostnaði við eftirlitsstarfsemi í lágmarki bæði fyrir hið opinbera en ekki síður atvinnulífið. Í því sambandi vil ég á ný vekja athygli á þeirri tillögu sem ég hef flutt í ríkisstjórn um að stjórnarfrumvörp séu metin til kostnaðar fyrir atvinnulífið áður en þau eru lögð fram.

Lokaorð

Ágætu aðalfundargestir!
Í þessu ávarpi mínu hef ég aðeins drepið á nokkur atriði í viðfangsefnum ráðuneyta minna. Margt verður út undan enda spanna ráðuneytin mörg svið atvinnulífsins. Til fróðleiks má geta þess að undir ráðuneyti iðnaðar- og viðskipta falla atvinnugreinar sem samanlagt taka til tveggja þriðju hluta af þáttatekjum í einkaatvinnurekstrinum og sé opinber rekstur meðtalinn ná umsvifin til um helmings þjóðarteknanna. Það er því í mörg horn að líta, en líka mörg tækifæri til að þoka málum til betri vegar. Stuðningur samtaka í atvinnulífi, þar með talið Verslunarráðs Íslands, til farsælla verka er því vel þeginn.

Ég þakka fyrir áheyrnina!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum