Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. mars 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Erindi við undirritun ársreiknings Landsbankans. 8. mars 1996.

I.

Margt bendir til að bankakerfið sé að rétta úr kútnum eftir mörg döpur ár. Það versta er vonandi yfirstaðið í útlánaafskriftum og betri hagur neytenda og fyrirtækja bætir hag bankanna. Hins vegar er afkoma Landsbankans langt frá því að vera viðunandi og stendur alls ekki undir þeirri arðkröfu sem eðlilegt er að gera til fyrirtækisins. Breytinga er þörf á rekstri bankans. Ég mun í erindi mínu fjalla um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaði. Fyrir dyrum standa róttækari skipulagsbreytingar á innlendum fjármagnsmarkaði en við höfum áður kynnst. Þær taka í fyrsta lagi til þess að breyta rekstrarformi ríkisviðskiptabankanna í hlutafélög. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að breyta rekstrarformi fjárfestingarlánasjóðanna. Í þriðja lagi er stefnt að því að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið og í fjórða lagi er gert ráð fyrir því að starfsgrundvöllur alls lífeyrissjóðakerfis landsmanna verði tekinn til endurskoðunar. Ég ætla hér að fjalla um fyrstu þrjár breytingarn
ar en geta þess þó að heildarendurskoðunar á lífeyrissjóðakerfinu er að vænta og tel ég að hlutverk bankanna þar muni aukast. Fyrst vil þó víkja stuttlega að vaxtamálum.
II.

Háir vextir á íslenskum fjármagnsmarkaði hafa orðið tilefni mikilla átaka að undanförnu. Kjarni vandans er sá að vextir á Íslandi eru nú hærri en efnahagsaðstæður gefa tilefni til. Háir vextir ógna þeirri uppsveiflu sem hafin er og draga móðinn úr fjölda íslenskra fyrirtækja sem sótt hafa fram með krafti og þor á mörkuðum innanlands sem utan á undanförnum misserum.

Ríkisstjórnin hefur að undanförnu kynnt sjónarmið sín fyrir Seðlabanka og ríkisviðskiptabönkunum. Þetta hefur borið nokkurn árangur því bankavextir sem og vextir á verðbréfa- og peningamörkuðum hafa lækkað nokkuð. En betur má ef duga skal. Rök ríkisstjórnarinnar fyrir frekari lækkun vaxta eru skýr. Í fyrsta lagi hafa vextir lækkað erlendis og horfur eru á frekari lækkun. Í öðru lagi hefur lánsfjáreftirspurn ríkis og sveitarfélaga minnkað. Í þriðja lagi hefur dregið úr þeirri spennu sem myndaðist í þjóðarbúskapnum í lok síðasta árs. Allt þetta stuðlar að lægri vöxtum. Eins og sakir standa er ekkert í farvatninu sem bendir til mikillar aukningar lánsfjáreftirspurnar heimila og fyrirtækja.

Hærri vextir hér á landi heldur en í löndunum í kringum okkur leiða til lakari samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Háir vextir draga úr fjárfestingu. Fjárfesting var á síðasta ári um 16% af landsframleiðslu, sem er um 5 prósentustigum lægra hlutfall en í iðnríkjunum að meðaltali. Lágt fjárfestingarhlutfall er áhyggjuefni því það bendir til þess að þjóðin vanræki að treysta þann grunn sem hagvöxtur framtíðarinnar byggist að hluta til á. Það er því afar brýnt að auka fjárfestingu hér á landi. Háir vextir verka þannig sem dragbítur á atvinnustarfsemi. Þeir draga úr hagvexti, auka atvinnuleysi og leiða aftur til efnahagslegrar stöðnunar. Þess vegna er svo brýnt að lækka vexti hér á landi.

Öll rök hníga að því að vextir hér á landi séu hærri um þessar mundir en aðstæður í þjóðarbúskapnum gefa tilefni til. Hinn gullni meðalvegur vaxtanna er þó vandrataður því fjárfestar eru fljótir að bregða sér bæjarleið ef ávöxtun reynist betri erlendis. Þegar efnahagslífið þenur sig hækka vextir, að öðru óbreyttu, og gegna mikilvægu aðhaldshlutverki. Slíkar aðstæður eru nú ekki fyrir hendi. Um þessar mundir er góður gangur í efnahagslífinu en þensluhætta ekki sjáanleg. Þjóðhagsstofnun bendir á að í þjóðhagsspá fyrir yfirstandandi ár að rétt sé að vera á varðbergi gagnvart þenslu en gæta þurfi þess að kæfa ekki vöxtinn í þjóðarbúskapnum.
III.

Vík ég þá að skipulagsumbótum á fjármagnsmarkaði. Þær miklu breytingar sem orðið hafa á innlendum fjármagnsmarkaði á undanförnum árum eru að hluta til komnar vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu en að hluta til vegna nýrra aðstæðna í íslensku þjóðfélagi og í alþjóðlegu efnahags- og viðskiptaumhverfi sem landið er hluti af. Umskiptin gegna mikilvægu hlutverki í því að aðlaga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að breyttum aðstæðum. Á þessum sviðum sem öðrum verður að gæta þess að löggjöfin hamli ekki framþróun íslensks atvinnulífs og íslensk fyrirtæki búi ekki við lakari kost en erlendir keppinautar. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar allt viðskiptaumhverfið er orðið alþjóðlegra en áður og íslensk fyrirtæki þurfa í auknum mæli að keppa við erlenda aðila um hvers konar viðskipti hér á landi. Á fjármagnsmarkaði eru aðstæður gerbreyttar frá því sem var þegar núverandi skipan komst á, skipan sem einkennist af ríkisviðskiptabönkum og nokkrum fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í eigu ríkisins. Þá var ísl
enskur fjármagnsmarkaður veikburða. Sífelldur skortur var á lánsfé og fáum stóð fyrirgreiðsla erlendra lánastofnana til boða. Þetta hefur gerbreyst. Því er rökrétt að endurskoða skipulag og starfsemi allra fjármagnsfyrirtækja í eigu ríkisins.
IV.

Aukin samkeppni á fjármagnsmarkaði hefur beint sjónum að samkeppnisskilyrðum fyrirtækja á þessum markaði, sérstaklega mismunandi samkeppnisskilyrðum ríkisviðskiptabankanna og einkabankans. Í nýlegri greinargerð sem Seðlabankinn tók saman kemur fram að í sumum atriðum hallar á einkabankann en í öðrum hallar á ríkisviðskiptabankana.

Síðasta haust skipaði ég nefnd til þess að annast undirbúningsvinnu að formbreytingu ríkisviðskiptabanka í hlutafélagsbanka. Hlutverk nefndarinnar er að finna lausnir á ýmsum álitaefnum sem leysa verður við formbreytinguna. Hefur nefndin unnið að gerð frumvarps til laga hér að lútandi. Í því starfi hefur nefndin leitað eftir samráði við ríkisviðskiptabankana og fleiri aðila.

Við undirbúning formbreytingarinnar þarf að finna lausnir á mörgum erfiðum málum. Eins og kunnugt er hefur biðlaunaréttur ríkisstarfsmanna verið mikið í umræðunni að undanförnu og má nefna að nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til nýrra laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, þar sem meðal annars er tekið á þessum málum. Þetta nefni ég hér sem dæmi um þau álitaefni sem menn standa frammi fyrir við formbreytingu, vegna þess möguleika að einhverjir starfsmenn ríkisviðskiptabankanna eigi slíkan biðlaunarétt.

Á þessari stundu er ekki hægt að fullyrða það að lög um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna verði afgreidd á yfirstandandi þingi þó enn sé stefnt að því. Það þýðir hins vegar ekki endilega að formbreytingin muni ekki eiga sér stað um næstu áramót ef lög þessa efnis verða samþykkt snemma á næsta haustþingi.

Mjög hefur verið til umræðu í þjóðfélaginu hvort núverandi ríkisstjórn muni stefna að sölu hlutafjár í tilvonandi hlutafélagsbönkum, og þá með hvaða hætti staðið verði að því. Eins og margoft hefur komið fram er það ekki ætlun ríkisstjórnarinnar að selja bankana þegar í stað. Það er einnig ljóst af minni hálfu að í lögum um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna verður ákvæði sem tryggir að hlutafé verði ekki selt nema með samþykki Alþingis.

Ég er þeirrar skoðunar að eftir formbreytingu bankanna eigi að auka hlutafé í bönkunum, bjóða það út á almennum markaði þannig að með þeim hætti komi nýjir aðilar inn sem eigendur að bönkunum ásamt ríkinu. Þannig yrði eiginfjárstaða bankanna styrkt og þannig yrðu bankarnir betur í stakk búnir til að mæta aukinni samkeppni í harðnandi heimi. Ríkisviðskiptabankarnir þurfa á auknu eigin fé að halda. Með því að selja eignarhluti ríkisins er aftur á móti ekki verið að styrkja eiginfjárstöðu bankanna heldur er fyrst og fremst verið að skipta um eigendur að eignarhlutunum.

Hins vegar legg ég áherslu á að við framlagningu frumvarpsins liggi fyrir og verði kynnt áætlun ríkisstjórnarinnar um traust eignarhald á þessum bönkum í framtíðinni.
V.

Það er skoðun ríkisstjórnarinnar að ríkið eigi að draga sig sem mest út úr beinni þátttöku í almennri starfsemi á fjármagnsmarkaði. Því ber einnig að breyta fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í eigu ríkisins í hlutafélög. Hluta arðs af fjárfestingarlánasjóðunum eða hluta eigna þeirra á síðan að verja til þeirra verka á fjármagnsmarkaði sem hin frjálsu markaðsöfl sinna ekki. Það er brýnt að standa undir áhættufjármögnun til raunverulegrar nýsköpunar í því skyni að stuðla að framfarasókn í íslensku efnahags- og atvinnulífi og fjölga arðbærum störfum. Nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna er því eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar. Unnið er að undirbúningi þessa verks.

Þær hugmyndir sem nú eru helst uppi í þessum efnum lúta að því að á grunni nokkurra þeirra fjárfestingarlánasjóða sem nú eru starfandi, verði stofnaður nýr fjárfestingarbanki er hafi það hlutverk að veita atvinnulífinu nauðsynlega fyrirgreiðslu. Hins vegar verði áhættufjármögnun fyrst og fremst á hendi sérstaks nýsköpunarsjóðs.

Tilgangur með þessum breytingum er að skapa fjárhagslegar traustar heildir og draga úr eða afnema hina óheillavænlegu skiptingu þessara sjóða eftir atvinnugreinum. Atvinnulífið tvinnast æ meira saman. Hlutföll milli atvinnugreina eru sífelldum breytingum háð og nýjar atvinnugreinar skjóta rótum sem falla illa inn í fyrra mynstur. Skipulag fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna má ekki verða til þess að tefja nauðsynlegar breytingar í íslensku efnahagslífi og allt þetta og fleira til eru rök fyrir því að tími sérgreindra fjárfestingarlánasjóða sé liðinn. Nýskipan á þessu sviði verður þó að hafa eðlilegan aðdraganda og að mörgu er þar að hyggja ekki hvað síst trausti innlendra og erlendra lánadrottna sjóðanna.
VI.

Áform eru uppi um að flytja almenna húsnæðislánakerfið frá Húsnæðisstofnun yfir í bankakerfið. Þar yrði í raun um hefðbundna lánastarfsemi að ræða sem óþarft er að sinnt sé af sérstakri ríkisstofnun. Núverandi húsnæðislánakerfi er íþyngjandi fyrir ríkissjóð og hinar miklu ríkisábyrgðir hafa neikvæð áhrif á lánstraust ríkissjóðs. Núverandi kerfi skortir sveigjanleika og töluvert vantar á að allir njóti fullnægjandi fyrirgreiðslu. Því tel ég að eftirfarandi markmið þurfi að hafa að leiðarljósi við það færa húsnæðislánakerfið yfir til banka og sparisjóða:
  • Í fyrsta lagi, að tryggja almenningi aðgang að löngum lánum með veði í fasteign á hagkvæmustu kjörum.
  • Í öðru lagi, að draga umtalsvert úr ábyrgðum ríkisins á húsnæðislánum.
  • Í þriðja lagi, að draga úr útgjöldum ríkissjóðs vegna húsnæðislánakerfisins.
  • Í fjórða lagi, að auka sveigjanleika lánakerfisins þannig að það geti veitt fleirum úrlausn.
  • Í fimmta lagi, að færa úrvinnslu og framkvæmd lánveitinga til bankakerfisins.
  • Í sjötta lagi, að koma í veg fyrir að kerfisbreytingin hafi í för með sér vaxtahækkun.
VII.

Góðir fundarmenn. Bankakerfið stendur nú á tímamótum. Tími opinbers rekstrar er að hverfa. Það er mín skoðun að núverandi rekstrarform ríkisviðskiptabankann útiloka þá framþróun sem er nauðsynleg eigi þessar stofnanir að halda velli. Ég þakka áheyrnina

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum