Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða iðnaðarráðherra á Iðnþingi 1996.

I.

Góðir þingfulltrúar.
Vorvindar leika nú um íslenskan iðnað. Samkeppnisstaða iðnaðar gagnvart erlendum keppinautum hefur stórbatnað á undanförnum misserum með raungengi í sögulegu lágmarki og meiri stöðugleika en íslenskt atvinnulíf hefur búið við um áratugaskeið. Kyrrstaðan í erlendri fjárfestingu hefur verið rofin með samningum um stækkun álversins í Straumsvík. Við slíkar aðstæður er ánægjulegt að fá tækifæri til að ávarpa Iðnþing. Ég vil skipta ræðu minni í fjóra meginþætti. Í fyrsta lagi mun ég fjalla um þau efnahagsskilyrði sem iðnaðurinn býr við um þessar mundir, í öðru lagi um sambúð iðnaðar og sjávarútvegs, í þriðja lagi um vexti og umbætur á fjármagnsmarkaði og að síðustu um nýsköpun í atvinnulífinu.
II.

Óhætt er að segja að iðnaðurinn hafi nýtt sér stöðugleikann til hins ýtrasta. Hann hefur sýnt það hvers hann er megnugur og hefur hann blómstrað við hagstæð ytri skilyrði. Íslenskur iðnaður fór mjög illa út úr stöðnun áranna 1988 til 1993. Þess bera hagstærðir iðnaðarins glöggt vitni. Leiðin hefur hins vegar legið upp á við síðustu tvö ár. Velta í iðnaði hefur aukist mjög og markaðshlutdeild íslenskra iðnaðarvara hefur vaxið á ný. Sérstaklega er þó ánægjulegt að sjá mikla sókn iðnaðarins á erlenda markaði.

Bráðabirgðatölur Þjóðhagsstofnunar sýna að útflutningur iðnaðarvara, að stóriðju undanskilinni, jókst um tæp 19% að magni á síðasta ári. Á sama tíma dróst útflutningur þjóðarinnar í heild saman um 2% að magni. Verðmæti útflutnings annarra iðnaðarvara en stóriðju var tæpir 10 milljarðar á síðasta ári. Það er enn sem komið er ekki hátt hlutfall af heildarútflutningi, eða um 8%. Hlutfallið fer þó vaxandi og er hærra nú en það hefur verið frá árinu 1985. Ef stóriðja er tekin með í reikninginn nam hlutfall iðnaðarvara af heildarútflutningi um 21%.

Þau efnahagslegu skilyrði sem iðnaðurinn býr við eru sérlega hagstæð um þessar mundir. Hagvöxtur hefur verið vel viðunandi síðustu tvö ár. Þjóðhagsstofnun spáir 3% hagvexti á þessu ári og reiknar með að framhald verði á hagstæðri þróun fram til aldamóta. Verðbólga er svipuð, eða jafnvel heldur lægri, en í helstu samkeppnislöndum okkar, afgangur er í viðskiptum við útlönd, afkoma fyrirtækja hefur batnað og kaupmáttur launa fer vaxandi.

Það er mikilvægt að batinn í efnahagslífinu verði nýttur til að stuðla að nauðsynlegum búháttabreytingum í íslensku atvinnulífi og til þess að leggja grunn að enn frekari framfarasókn. Það mun ráða miklu um framtíð þjóðarinnar hvernig til tekst á næstu árum. Það blasir við að fram að aldamótum þarf að skapa þúsundir nýrra starfa fyrir þær vinnufúsu hendur sem þegar eru án verðugra verkefna og fyrir það unga fólk sem mun leita út á vinnumarkaðinn á næstu árum.

Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur verið ákaflega lítil. Á árinu 1994 nam bein fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi 351 milljónir króna og árið 1995 var hún 477 milljónir króna. Þetta eru ekki háar tölur. Með samningum um stækkun ÍSAL hefur verið tryggð veruleg erlend fjárfesting á þessu ári og því næsta. Fjárfesting vegna álversframkvæmdanna er talin verða um 16,5 milljarðar króna, þar af eru um 14 milljarðar vegna álversins og um 2,5 milljarðar vegna raforkuframkvæmda. Ársverk vegna framkvæmdanna verða alls um 750 til 800. Hagvöxtur er talinn aukast um 0,7% á þessu ári af þessum sökum.
Ekki eru allar hagstærðir jákvæðar þó svo nú stefni í rétta átt. Hagvöxtur síðustu tveggja ára hefur ekki dregið úr atvinnuleysi í sama mæli og vonir stóðu til. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru einnig meiri en viðunandi getur talist. Atvinnuleysi fer nú minnkandi og erlendar skuldir hafa lækkað. En betur má ef duga skal. Eitt brýnasta verkefni hagstjórnar undanfarinna ára hefur verið að draga úr halla ríkissjóðs. Þar hefur fram til þessa lítið orðið ágengt. Hallinn er verulegt áhyggjuefni vegna þess hve fyrirferðarmikill ríkissjóður er á innlendum lánsfjármarkaði og lánsfjárþörf hans hefur átt þátt í að halda vöxtum háum. Þá eru erlendar skuldir þjóðarinnar miklar þannig að svigrúm til að fjármagna hallann erlendis er ekki mikið. Nú er fyrirsjáanlegt að lánsfjárþörf ríkisins sem og sveitarfélaganna minnki mjög á þessu ári. Stefnt er að hallalausum fjárlögum á næsta ári og er í gangi mikil vinna til að finna leiðir að því marki.
III.

Vík ég þá að sambúð iðnaðar og sjávarútvegs. Mesta hagsmunamál iðnaðarins er að fá áfram að njóta sín í skjóli hagstæðra efnahagsskilyrða. Samtök iðnaðarins hafa af því áhyggjur að þegar fiskafli eykst muni raungengi hækka og samkeppnisstaða iðnaðar versna. Þannig muni uppsveifla til sjávar gera að engu uppbyggingarstarfið í iðnaðinum.

Ef sagan er skoðuð má ljóst vera að sjávarútvegur hefur verið uppspretta sveiflna í þjóðarbúskapnum og hefur tekjuaukning í sjávarútvegi oft kæft vaxtarbrodda í öðrum atvinnugreinum. Ég er þeirrar skoðunar að breyttar aðstæður í þjóðarbúskapnum, svo sem aukin markaðshyggja og agaðri hagstjórn, geri það að verkum að áhrifin af uppsveiflu til sjávar verði mildari en áður. Almenn peninga- og fjármálastefna dugar því betur til hagstjórnar nú og síður er þörf á sértækum aðgerðum.

Með þessu er ég ekki að segja að ekki sé þörf á sértækum aðgerðum til sveiflujöfnunar við tilteknar aðstæður, svo sem við verulega uppsveiflu í sjávarútvegi vegna verðhækkana eða aflaaukningar. Sú staða getur hæglega komið upp og þá er slæmt að eiga engin verkfæri í kistunni önnur en hin almennu hagstjórnartæki. Nú er að störfum hagvaxtarnefnd undir forystu ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins. Mikilvægt er að nefndinni takist að finna leiðir til að skapa sem best og stöðugust vaxtarskilyrði fyrir þjóðarbúið til langs tíma litið.

Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins hafa verið eindregnir talsmenn þess að leggja auðlindagjald á sjávarútveginn. Ég get ekki tekið undir það sjónarmið eitt sér. Rök Samtakanna fyrir hagkvæmni auðlindagjalds eru tvenns konar. Annars vegar að gjaldið geti virkað til sveiflujöfnunar. Því er til að svara að erfitt er að útfæra auðlindagjald þannig að það nýtist til sveiflujöfnunar. Það eru til önnur tæki til að jafna sveiflur. Hins vegar telja Samtök iðnaðarins að gjaldið nýtist til að jafna starfsskilyrði iðnaðar og sjávarútvegs. Þetta verður að ræða í víðara samhengi. Ég er ekki hlynntur því að tekið verði upp auðlindagjald á eina atvinnugrein umfram aðrar. Auðlindagjald ætti þá að leggjast á allar atvinnugreinar sem nýta sér sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Auðlindagjald, ef til þess kemur, mun skapa ríkissjóði tekjur og þá er eðlilegt að lækka skatta á atvinnulífið á móti.

Það sem skiptir mestu máli fyrir iðnaðinn er að raungengið haldist svipað og verið hefur að undanförnu. Það væri iðnaðinum síst til framdráttar ef sú röskun sem óhjákvæmilega fylgir upptöku auðlindagjalds ógnaði stöðugleikanum í þjóðarbúskapnum. Ekki má síðan gleyma því að vart er hægt að tala um iðnað og sjávarútveg sem andstæður því tengsl þessara greina eru sterk. Tengslanefndin svokallaða sem iðnaðarráðherra skipaði og nýlega lauk störfum sýndi að iðnaður tengdur sjávarútvegi er verulegur hluti allrar iðnaðarframleiðslu. Iðnfyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa það fram yfir önnur íslensk iðnfyrirtæki að búa við mjög öflugan heimamarkað. Þessi fyrirtæki eru mörg hver meðal öflugustu fyrirtækja í atvinnulífinu.
IV.

Vil ég nú gera að umtalsefni tvær hagstærðir sem varða iðnaðinn miklu. Það eru vextir og fjárfesting. Samspil vaxta og fjárfestingar er hverjum iðnrekanda augljóst. Háir vextir draga úr fjárfestingu. Um langt árabil var fjárfesting hér á landi mun hærri í hlutfalli af landsframleiðslu en í flestum öðrum iðnríkjum. Þetta snerist við um miðjan níunda áratuginn og er nú svo komið að fjárfesting er óvíða lægri en hér á landi. Lágt fjárfestingarhlutfall er áhyggjuefni því það bendir til að þjóðin vanræki að treysta þann grunn sem hagvöxtur framtíðarinnar byggir að hluta til á.

Sérstök ástæða er til að hafa áhyggjur af lítilli fjárfestingu í atvinnurekstri landsmanna en hún er orðin mun minni en nemur úreldingu framleiðslutækjanna. Fjárfesting atvinnuveganna hefur heldur aukist á undanförnum misserum og búist er við miklum vexti á þessu ári vegna stækkunar álversins. Þannig er gert ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting muni bera uppi hagvöxtinn á þessu ári. En almenn fjárfesting mun vart glæðast að ráði ef vextir eru hér mun hærri en í samkeppnislöndum. Ef vextir eru það háir að fyrirtæki veigra sér við að fjárfesta frestast nauðsynleg endurnýjun framleiðslutækja.

Þannig verka háir vextir sem dragbítur á atvinnustarfsemi. Í uppsveiflu efnahagslífsins hækka vextir að öðru óbreyttu og gegna mikilvægu aðhaldshlutverki. Þjóðhagsstofnun leggur í þjóðhagsspá áherslu á að góður gangur sé í efnahagslífinu og þensluhætta ekki sjáanleg. Þjóðhagsstofnun bendir hins vegar á að rétt sé að vera áfram á varðbergi gagnvart þenslu en gæta þess jafnframt að kæfa ekki vöxtinn í þjóðarbúskapnum.

Það er mat mitt að vextir séu of háir hér á landi miðað við efnahagsaðstæður. Ríki og sveitarfélög hafa dregið verulega úr lánsfjáreftirspurn sinni, bankar og sjóðir eru komnir yfir það versta í útlánaafskriftum og gott jafnvægi ríkir í þjóðarbúskapnum. Því eru engin efnahagsleg rök fyrir því að raunvextir ríkisskuldabréfa skuli vera 2-3 prósentustigum hærri hér á landi en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Í iðnríkjunum lækkuðu vextir allt síðasta ár og sú þróun hefur haldið áfram nú í byrjun þessa árs. Á sama tíma hafa vextir heldur hneigst til hækkunar hér á landi. Fyrr eða síðar munu lægri vextir erlendis hafa áhrif til lækkunar vaxta hér á landi. Annað er óhjákvæmilegt við skilyrði frjálsra fjármagnsflutninga.

Lágir vextir eru gríðarlegt hagsmunamál fyrir iðnaðinn þar sem íslensk iðnfyrirtæki eru skuldsettari en almennt gerist. Í skýrslu starfshóps um starfsskilyrði iðnaðar, sem kom út á vegum iðnaðarráðuneytisins haustið 1994, kom fram að raunvaxtakostnaður íslenskra iðnfyrirtækja er um tvöfalt hærri á Íslandi en í Evrópusambandinu og Japan og fjórfalt hærri en í Bandaríkjunum. Gera má ráð fyrir að staðan hafi ekki breyst mikið á síðustu árum þó svo íslensk fyrirtæki hafi að vísu greitt niður skuldir í nokkrum mæli að undanförnu.
V.

Næst vík ég að skipulagsumbótum á fjármagnsmarkaði. Þær skipulagsumbætur sem fyrirhugaðar eru eiga að stuðla að aukinni hagkvæmni, greiðari aðgangi að fjármagni og lægri vöxtum. Umskiptin gegna mikilvægu hlutverki í því að aðlaga íslenskt efnahags- og atvinnulíf að breyttum aðstæðum. Á þessum sviðum sem öðrum verður að gæta þess að löggjöfin hamli ekki framþróun íslensks atvinnulífs og íslensk fyrirtæki búi ekki við lakari kjör en erlendir keppinautar. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar allt viðskiptaumhverfið er orðið alþjóðlegra en áður og íslensk fyrirtæki þurfa í auknum mæli að keppa við erlenda aðila um hvers konar viðskipti hér á landi. Á fjármagnsmarkaði eru aðstæður gerbreyttar frá því sem var þegar núverandi skipan komst á, skipan sem einkennist af ríkisviðskiptabönkum og nokkrum fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna í eigu ríkisins. Þá var íslenskur fjármagnsmarkaður veikburða. Sífelldur skortur var á lánsfé og fáum stóð fyrirgreiðsla erlendra lánastofnana til boða. Þetta hefur gerbreyst. Því er rö
krétt að endurskoða skipulag og starfsemi allra fjármagnsfyrirtækja í eigu ríkisins.

Hlutafélagavæðing ríkisviðskiptabankanna hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Ekki er ljóst á þessu stigi hvort lög um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna verða afgreidd á yfirstandandi þingi, þó enn sé stefnt að því. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að formbreytingin eigi sér stað um næstu áramót.

Ég er þeirrar skoðunar að eftir fyrirhugaða formbreytingu eigi að auka hlutafé í bönkunum, bjóða það út á almennum markaði þannig að með þeim hætti komi nýir aðilar inn sem eigendur að bönkunum ásamt ríkinu. Þannig yrði eiginfjárstaða bankanna styrkt og bankarnir yrðu betur í stakk búnir að mæta aukinni samkeppni í harðnandi heimi. Ríkisviðskiptabankarnir þurfa á auknu eigin fé að halda. Með því að selja eignarhluti ríkisins er aftur á móti ekki verið að styrkja eiginfjárstöðu bankanna heldur er fyrst og fremst verið að skipta um eigendur á eignarhlutunum.

Einnig er stefnt að því að breyta formi og skipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna. Það er brýnt að standa undir áhættufjármögnun til raunverulegrar nýsköpunar í því skyni að stuðla að framfarasókn í íslensku efnahags- og atvinnulífi og fjölga arðbærum störfum. Nýskipan fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna er því eitt af brýnustu verkefnum ríkisstjórnarinnar. Hluta arðs af fjárfestingarlánasjóðunum og hluta eigna þeirra á því að mínu mati að verja til áhættufjármögnunar, það er til þeirra verka á fjármagnsmarkaði sem hin frjálsu markaðsöfl sinna ekki sem skyldi. Unnið er að tillögugerð í þessum efnum.

Markmiðið með þessum breytingum er að skapa fjárhagslegar traustar heildir og draga úr eða afnema hina óheillavænlegu skiptingu þessara sjóða eftir atvinnugreinum. Atvinnulífið tvinnast æ meira saman. Hlutföll milli atvinnugreina eru sífelldum breytingum háð og nýjar atvinnugreinar skjóta rótum sem falla illa inn í fyrra mynstur. Skipulag fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna má ekki verða til þess að tefja nauðsynlegar breytingar í efnahagslífinu og allt þetta og fleira til eru rök fyrir því að tími sérgreindra fjárfestingarlánasjóða sé liðinn. Nýskipan á þessu sviði verður þó að hafa eðlilegan aðdraganda og að mörgu er þar að hyggja, ekki hvað síst trausti innlendra og erlendra lánardrottna sjóðanna. Það er mín skoðun að sameina eigi Fiskveiðisjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð og á grunni þeirra eigi að stofna nýjan fjárfestingarbanka er hafi það hlutverk að veita atvinnulífinu almenna fyrirgreiðslu varðandi langtímalán. Til álita kemur að fleiri opinberir lánasjóðir komi að myndun fjárfestingarbankans. Rá
ðgert er að sú áhættufjármögnun sem nú fer fram í sjóðunum þremur verði sameinuð og efld í sérstökum nýsköpunarsjóði. Til að tryggja nýsköpunarsjóðnum nægilega fjármuni njóti hann arðs af hluta af eigin fé sjóðanna þriggja og/eða arðs af hluta af hlutafé fjárfestingarbankans. Að öðru leyti verði bankinn í upphafi hlutafélag í eigu ríkisins en það hlutafé selt um leið og markaðsaðstæður leyfa. Aðkoma atvinnuveganna verður tryggð að nýsköpunarsjóðnum og um leið áhrif þeirra á mótun fjárfestingarbankans. Atvinnulífið mun síðan að sjálfsögðu hafa þau áhrif sem það kýs með því að eignast hlut í bankanum.

Með lagabreytingu á síðastliðnu ári var Iðnþróunarsjóði falið að sinna áhættufjármögnun. Þetta hefur hann nú gert um árs skeið. Lagt verður fyrir yfirstandandi þing að framlengja ákvæðin um Iðnþróunarsjóð þar til væntanleg lög um nýsköpunarsjóð taka gildi.
VI.

Að síðustu vil ég fjalla um sértækari aðgerðir til eflingar atvinnulífsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á atvinnu- og verðmætasköpun með því að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Atvinnulífið þarf ekki hvað síst að byggjast á vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau eru hvarvetna burðarásar hagvaxtar. Vissulega munum við freista þess að draga til okkar stóriðju eins og samræmst getur skynsamlegri orkunýtingu og markmiðum í umhverfismálum. Við getum ekki treyst á að stóriðja verði umtalsverður grundvöllur efnahagslegra framfara á næstu áratugum og auðlindir hafsins eru ekki lengur ávísun á vaxandi velmegun. Sá auður sem í fólkinu býr skiptir sköpum í harðnandi samkeppni. Geysilegur kraftur í hagkerfum margra auðlindasnauðra þjóða á undanförnum áratugum samhliða hnignum þjóða, sem búa yfir gjöfulum auðlindum, sýnir þetta best.

Ég hef í minni tíð sem ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála hleypt af stokkunum þremur verkefnum sem lúta að nýsköpun atvinnulífsins. Það er í fyrsta lagi Evrópuverkefni um lítil og meðalstór fyrirtæki. Í öðru lagi sérstakt átak til atvinnusköpunar. Og að síðustu er hér um að ræða aðgerðir til að laða að erlenda fjárfestingu. Ég vil stuttlega kynna markmið þessara verkefna.

Í nefnd um lítil og meðalstór fyrirtæki eru fulltrúar úr atvinnulífinu, verkalýðshreyfingunni og frá stjórnvöldum. Formaður hennar er Davíð Scheving Thorsteinsson. Hlutverk nefndarinnar er einkum að kortleggja þau tækifæri sem íslenskum fyrirtækjum kunna að bjóðast á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin hefur nú gefið út kynningarrit sem ber heitið "Evrópuverkefni á sviði lítilla og meðalstórra fyrirtækja". Þar er greint frá ýmsum rannsókna- og ráðgjafaverkefnum sem standa íslenskum fyrirtækjum til boða sem og ýmsum verkefnum sem ætlað er að greiða fyrir samstarfi fyrirtækja. Ég hef farið um landið að undanförnu og kynnt þetta starf. Ég hef hvarvetna fundið fyrir gríðarlegum áhuga á þessu starfi og ljóst er að brýn þörf var á að leggja út í þessa vinnu.

Verkefnið "Átak til atvinnusköpunar" er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Iðntæknistofnunar. Markmið þess er þríþætt: Að standa sameiginlega að verkefnum sem stuðla að atvinnusköpun og aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins, að samræma verkefni til hvatningar og stuðnings lítilla og meðalstórra fyrirtækja, svo og einstaklinga, á sviði atvinnu- og nýsköpunar og að síðustu að stuðla að auknu alþjóðasamstarfi fyrirtækja á sviði markaðsmála og tækniyfirfærslu. Hafin verður skipuleg leit að vænlegum fyrirtækjum sem flutt verði til landsins með það að leiðarljósi að efla íslenskt atvinnulíf og skapa ný störf. Góð reynsla er af innflutningi slíkra fyrirtækja. Átakið mun einnig veita ráðgjöf um stofnun fyrirtækja og frumkvöðlar og uppfinningamenn fá aðstoð til að koma hugmyndum sínum á framfæri og í framkvæmd.

Þriðja viðfangsefnið, sem ég hef lagt mikla áherslu á, stefnir að því að laða hingað erlenda fjárfestingu í auknum mæli. Alþekkt er það markaðsstarf sem stundað hefur verið um áratug í samvinnu Landsvirkjunar og iðnaðarráðuneytisins til að fá hingað fjárfesta í orkufrekum iðnaði. Fjölmargir kostir hafa þar verið kannaðir og kynntir. Það sem helst er á döfinni í þeim efnum um þessar mundir eru, auk stækkunar álversins í Straumsvík, viðræður við Columbia Aluminium um álver á Grundartanga en þær voru komnar langt áleiðis þegar skyndilega kom upp ágreiningur milli eigenda sem valda mun frestun á ákvörðun. Hugmyndir eru um stækkun járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga um 60% og mun ríkið, sem 55% eignaraðili, leggja áherslu á stækkunina en hún mun auka hagkvæmni rekstrar verulega. Þá má nefna áhuga kínverskra aðila á að reisa hér lítið álver með 30-40 þúsund tonna framleiðslugetu. Íslensk viðræðunefnd fer til Kína í næsta mánuði til að halda áfram viðræðum.

Loks nefni ég áframhaldandi viðræður við Atlantál-hópinn um álver á Keilisnesi. Í gær var undirrituð hér í Reykjavík samstarfsyfirlýsing Atlantál-hópsins og ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar um að endurskoða fyrri áætlanir um byggingu álvers á Keilisnesi. Ég hef lagt áherslu á að aðilar nái fljótt niðurstöðu um hvort fýsilegt sé að ráðast í nýtt álver og vænti ég fyrstu niðurstöðu eftir 4-6 mánuði. Verði sú niðurstaða jákvæð eru aðilar sammála um að ljúka undirbúningi á fyrsta ársfjórðungi 1997. Þó að ljóst sé að áhugi erlendra aðila á samstarfi á sviði orkufreks iðnaðar sé meiri nú en verið hefur um langt skeið, þá vil ég í ljósi reynslunnar vara við of miklum væntingum um nýjar framkvæmdir á þessu sviði.

Árangur sá sem náðst hefur við að kynna Ísland sem fjárfestingarkost hefur fyrst og fremst tengst ákveðnum verkefnum sem undirbúin hafa verið af íslenskum aðilum. Ég tel brýnt að mynda hér sterkt eignarhaldsfélag, hugsanlega í samstarfi við lífeyrissjóði og aðra innlenda fjárfesta, til að taka aukið fjárhagslegt frumkvæði að nýjum verkefnum.

Að frátalinni stóriðju hefur erlend fjárfesting verið óveruleg hér á landi hingað til. Að hluta hefur löggjöf meðvitað haldið hugsanlegum erlendum fjárfestum fjarri, en í tengslum við samninginn um EES-svæðið hafa takmarkanir smám saman verið afnumdar. Að samþykktu stjórnarfrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi eru einungis eftir takmarkanir á beinni fjárfestingu í sjávarútvegi. Til þess að vinna að markvissri kynningarstarfsemi á kostum fjárfestingar í almennum atvinnurekstri hérlendis hefur í samstarfi iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Útflutningsráðs verið sett á laggirnar sérstök Fjárfestingarskrifstofa.

Auk gerðar almenns kynningarefnis hyggst skrifstofan einbeita sér að markvissri kynningu á iðjukostum á tilteknum svæðum annars vegar og hins vegar í tilteknum iðngreinum. Þannig er unnið að kynningu á Reykjanesi sem svæði fyrir hvers konar iðnað sem samnýtir iðnaðargufu og raforku. Þá er Akureyri og umhverfi kynnt sem matvælaiðnaðarsvæði. Verið er að skilgreina önnur verkefni þar sem sérstakir kostir til fjárfestinga eru kynntir fyrir markhópi erlendra fjárfesta. Í þessu starfi er mikilvægt að íslensk fyrirtæki komi að einstökum verkefnum. Loks munu Fjárfestingarskrifstofan og Samtök iðnaðarins hyggja á samstarf um að kynna fyrir Norðurlandabúum sérstaklega kosti til fjárfestinga. Vonandi tekst að auka erlenda fjárfestingu hér á landi en eins og þið heyrið er margt í burðarliðnum í þeim efnum.
VII.

Góðir þingfulltrúar. Ég vil að endingu þakka Samtökum iðnaðarins fyrir gott og árangursríkt samstarf og vonast til að við höldum áfram á sömu braut. Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum