Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða ráðherra á ársfundi Samorku, 15. mars 1996.



Ágætu ársfundargestir.
Hin áralanga kyrrstaða sem einkenndi efnahagslíf hinna vestrænu ríkja hefur nú verið rofin. Við Íslendingar fórum ekki varhluta af henni, né heldur þeim breytingum sem urðu í Austur Evrópu og víðar við hrun Járntjaldsins. Afleiðingar þessa varð m.a. frestun á framkvæmdum Atlantál hópsins haustið 1991, sem okkur flestum er eflaust í fersku minni.

Það er án efa mikilvægt fyrir orkufyrirtækin að áframhald verði á uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu. Víst má telja að svo verði þótt enn sé ekki með öllu ljóst hvenær eða með hvaða hætti það verður. Nú er unnið að stækkun Álversins í Straumsvík og hugmyndir eru um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga. Auk þess eru viðræður í gangi við Columbia Aluminium um álver á Grundartanga og áfram verður haldið sambandi við Atlantálhópinn um álver á Keilisnesi. Áhuginn er því greinilega nokkur og hafa jafnvel borist fyrirspurnir alla leið frá Kína.

Ekki er þó fært að einblína um of á stóriðjukosti heldur verður að horfa til almennrar atvinnusköpunar og til eflingar samkeppnishæfni atvinnulífsins. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er sérstök áhersla á atvinnu- og nýsköpun í atvinnulífinu. Þar gegna lítil og meðalstór fyrirtæki veigamiklu hlutverki, enda eru þau hvarvetna helsti vaxtarbroddur hagvaxtar. Samhliða þessu þarf að stuðla að auknu alþjóðlegu samstarfi fyrirtækja á sviði markaðsmála og tækniyfirfærslu. Sennilega mættu orkufyrirtækin huga betur að erlendu samstarfi og að markaðssetningu á grundvelli þeirrar víðtæku þekkingar sem þau búa yfir.

Eitt af meginverkefnum ríkisstjórnarinnar er að ná niður ríkishallanum á næsta ári. Í ljósi þessa hefur ríkisstjórnin samþykkt stefnu um nýskipan í ríkisrekstri, þar sem m.a. verður reynt að ná fram rekstrarhagræðingu með sameiningu stofnana ríkisins og með því að ríkið leggi niður starfsemi sem unnt er að fá á almennum markaði.

Áhrifa þessa mun gæta í framkvæmd rafmagnsöryggismála og í starfsemi Orkustofnunar við öflun grundvallarupplýsinga vegna rannsókna og nýtingar orkulindanna.

Ef við víkjum fyrst að rafmagnsöryggismálum þá hef ég tilbúið á borði mínu frumvarp um sameiningu Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar. Þetta er í samræmi við þá áherslu að leita verði leiða til að samræma eða sameina skilda eftirlitsstarfsemi þannig að ekki verði gerðar andstæðar kröfur til fyrirtækja af öðrum eftirlitsaðilanum.

Sameining starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar stuðlar að því að gera ríkisreksturinn einfaldari en um leið skilvirkari. Stofnanir þessar fjalla báðar um viðskipta- og neytendamál á tæknilegum forsendum. Með tilkomu nýrrar stofnunar, er annast þessa tvo málaflokka, næst umtalsverð hagræðing og beinn sparnaður án þess að nokkrum faglegum þáttum í starfsemi þeirra sé fórnað.

Líta verður svo á að með ráðstöfunum þessum sé aðeins fyrsta skrefið stigið í þá átt að endurskoða alla eftirlitsstarfsemi ríkisins. Heppilegast hefði verið að fella fleiri skylda eftirlitsþætti undir þessa nýju stofnun og skapa þannig enn tryggari grunn að samhæfingu opinberrar eftirlitsstarfsemi.

Hugmyndir um sameiningu þessara stofnana komu fram hjá nefnd sem ég skipaði síðastliðið sumar til að yfirfara lög um Rafmangnseftirlit ríkisins. Slík endurskoðun var nauðsynleg í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hafði af framkvæmd rafmagnsöryggismála eftir gildistöku reglugerðarinnar frá 1993, sem fjallar um verksvið og tilhögum rafmagnseftirlits.

Sú marglita umræða sem varð í kjölfar gildistöku reglugerðarinnar fór ekki fram hjá mér og hef ég fengið ótal athugasemdir og ábendingar um breytingar. Mér varð því fljótt ljóst að brýn nauðsyn var að eyða þeirri óvissu sem um mál þetta hafði skapast. M.a. var nauðsynlegt að gera framkvæmd rafmagnsöryggismála markvissari og skilvirkari og jafnframt brýnt að skilgreina betur ábyrgðar- og verksvið þeirra sem að málum koma.

Nefndin lauk störfum í október s.l. og skilaði tillögum sínum í formi frumvarps til laga um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Ég hef yfirfarið tillögur þessar og er þeim efnislega sammála. Þó hyggst ég gera nokkrar breytingar á fyrirkomulagi gjaldtöku vegna eftirlits með neysluveitum sem mér finnst nefndin hafa gert of flókna.

Eftirlit með neysluveitum er nú á ábyrgð rafveitnanna sjálfra. Það er skiljanlegt að rafveitur vilji losna undan þessari eftirlitsskyldu og fella neysluveiturnar undir eitt samstætt eftirlitskerfi. Rafveiturnar losna þar við mikla ábyrgð og kostnaðarsamt eftirlit flytst frá þeim til ríkisins. Mikilvægt er að samstaða náist um gjaldtöku fyrir skoðanir á þessum neysluveitum. Allur ágreiningur um þetta og önnur ákvæði frumvarpsins verður að vera leystur áður en það verður lagt fram, en það hefur dregist óþarflega mikið af ýmsum ástæðum.

Í frumvarpsdrögum þessum er lögð áhersla á tvö meginmál. Annars vegar er um að ræða aðskilnað stjórnsýsluþáttar rafmagnsöryggismála frá framkvæmd eftirlits. Slíkur aðskilnaður er nauðsynlegur til þess að stjórnsýslan sé óháð þeim aðilum sem annast framkvæmdina, geti óháð fylgst með störfum þeirra og fellt hlutlausa úrskurði í þeim álitamálum sem upp kunna að koma.

Faggiltum skoðunarstofum er falin framkvæmd eftirlits, sem hið opinbera hefur haft með höndum. Strangar kröfur verður að gera til þeirra sem taka að sér eftirlit, sérstaklega þegar um er að ræða að flytja það frá hinu opinbera til einkaaðila. Fyrst og fremst verða þeir að vera óháðir öllum þeim sem eftirlitið beinist að eða öðrum þeim sem gætu haft hagsmuni af niðurstöðum þess. Faggildingin er vel skilgreind aðferð sem á að geta tryggt að þeir sem falið hefur verið öryggiseftirlit á rafmagnssviði uppfylli allar tilskyldar kröfur.

Hins vegar er, í frumvarpsdrögum þessum, lögð áhersla á gæðastjórnun og innra eftirlit þeirra, sem rafmagnsöryggismál snerta. Innra gæðaeftirlit fyrirtækja er talið árangursríkasta leiðin til að tryggja öryggi og til að bæta starfsemina yfirleitt. Tekið er upp skipulag þar sem unnið verður eftir skilgreindum verklagsreglum og ótvírætt skilgreint hver beri ábyrgð á að lágmarks öryggiskröfum sé fullnægt og á hvern hátt að því er staðið. Þær auknu kröfur sem gerðar eru til rafveitna og rafverktaka um innleiðingu gæðastjórnunar í starfsemi sína eru í grundvallaratriðum þær sömu og almennt er beitt í atvinnulífinu við framleiðslu og þjónustustarfsemi. Hér er um að ræða mikilvæg áhersluatriði þar sem ábyrgð eigenda og umráðamanna raforkuvirkja er aukin, en það er einmitt forsenda þess að unnt verði að minnka eftirlit hins opinbera, eða hið ytra eftirlit. ---

Víkjum þá að Orkustofnun. Í september sl. skipaði ég nefnd til að endurskoða starfsemi Orkustofnunar og Iðntæknistofnunar. Í tillögum nefndarinnar, sem mér hafa nýlega borist, er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á því meginverkefni Orkustofnunar að annast yfirlitsrannsóknir á orkulindum landsins, eðli þeirra og skilyrðum til hagnýtingar þeirra.

Sú breyting verði þó gerð að vinna við rannsóknarverkefni, sem nú eru unnin hjá stofnuninni fyrir ríkisfé, verði framvegis boðin út eða keypt á almennum markaði eins og frekast er unnt. Við þetta verður Orkustofnun fyrst og fremst stjórnsýslustofnun. Hún mun annast ýmis mál fyrir ráðuneytið, sem m.a. munu snúa að orkupólitískri stefnumótun, sem efla þarf frá því sem nú er. Auk þess mun Orkustofnun varðveita áfram og viðhalda gagnagrunnum um orkulindirnar og fá nýtt hlutverk sem verkkaupi fyrir ríkið við öflun grundvallarupplýsinga um þær.

Í þessu felst að ríkið mun draga sig út úr ýmisskonar sölu á þjónusturannsóknum til orkufyrirtækja og annarra. Við það kemur upp sú staða að orkufyrirtækin jafnt sem ríkið þurfa að kaupa þessa þjónustu á almennum markaði.

Ég hef fallist á þessa megintillögu nefndarinnar og tel fulla ástæðu til að ríkið dragi sig alveg út úr rekstri á þeim sviðum sem aðrir geta sinnt. Jafnframt má telja víst að nú þegar sé fyrir hendi á almennum markaði færni og reynsla til að taka að sér mikið af þeim rannsókna- og þjónustuverkefnum sem Orkustofnun hefur sinnt.

Vatnamælingar Orkustofnunar hafa hér þó talsverða sérstöðu. Vatnamælingar eru grundvallarrannsóknir sem stunda þarf í tugi ára til að fá áræðanlegar rennslisraðir til að meta orkuvinnslugetu fallvatnanna.

Á fundum sem ég hef átt með nokkrum forstöðumönnum orkufyrirtækja kom fram vilji hjá þeim, að vatnamælingar Orkustofnunar og tiltekin sérhæfð starfsemi á jarðhitasviði, sem ekki er með góðu móti unnt að setja á almennan markað, verði haldið saman í nýju félagi sem ríkið og orkufyrirtækin stæðu að. Í ljósi þessa vilja hef ég ákveðið að láta reyna á það hvort af stofnun slíks félags geti orðið. Til þess ætla ég ekki nema þennan mánuð. Ástæða þess er að ég vil geta lagt fyrir yfirstandandi þing frumvarp til laga um nýtt hlutafélag sem tæki við vatnamælingum og takmarkaðri starfsemi á jarðhitasviði.

Viðræður við orkufyrirtækin standa nú yfir og er markmið þeirra að ná sammælum um stofnun hlutafélags með aðild orkufyrirtækja, ríkisins og annarra sem telja sér hag af þátttöku í því. Félagið hefði fyrst og fremst þann tilgang að viðhalda samstæðri rannsóknarheild sem veitt gæti ríkinu og orkufyrirtækjunum nauðsynlega þjónustu við rannsóknir á innlendum orkulindum og sem lagt gæti grunn að útflutningi á þeirri sérfræðiþekkingu sem starfsmenn Orkustofnunar og orkufyrirtækjanna búa yfir.

Ég tel mikilvægt að slíkt félag verði stofnað. Ekki síst þykir mér um vert, að með því skapast vettvangur fyrir orkufyrirtækin til að koma víðtækri þekkingu sinni á framfæri erlendis, en fram að þessu hafa ýmsar takmarkanir verið á möguleikum þess.

Ég vil þó leggja á það áherslu að orkufyrirtækin verða að koma að stofnun þess með öflugum hætti. Ekki er um það að ræða að ríkið standi að því eitt, eða með mikilli meirihlutaeign. Náist ekki viðunandi samstaða um félagsstofnunina í þessum mánuði tel ég varla um annað að ræða en að ríkið dragi sig einhliða út úr umræddri rannsókna- og þjónustustarfsemi. Það yrði gert eins hratt og unnt væri og yrði hafist handa við það strax í sumar. ---

Á undanförnum árum hefur endurskoðun orkulaga margsinnis borið á góma. Inn í þá umræðu hafa spunnist hugleiðingar um nýskipan orkumála í Evrópu og alþjóðlegar hugmyndir um þrískiptingu orkugeirans, en í þeim felst að greint verði á milli orkuframleiðslu, orkuflutnings og orkudreifingar.

Það er ekki ætlan mín að fjalla sérstaklega um hugmyndir þessar á þessum vettvagi í dag. Ykkur er þó flestum kunnugt um að ég hef ákveðið að hefja heildarendurskoðun á orkulöggjöfinni og skipa ráðgjafarnefnd til að vera mér til fulltingis um þau mál. Markmiði þessarar endurskoðunar á að vera fernskonar:

  • að auka hagkvæmni á orkusviðinu,
  • að auka samkeppni en jafnframt stuðla að jöfnun orkuverðs,
  • að tryggja gæði þjónustu og afhendingaröryggi, og
  • að auka sjálfstæði orkufyrirtækja og ábyrgð stjórnenda.

Ég vænti þess að vinna við endurskoðun þessa geti hafist á næstu dögum. ---

Ágætu ársfundargestir.
Samorka heldur nú sinn fyrsta ársfund eftir að orkuveitusamböndin sameinuðust um mitt seinasta ár. Ekki er ég í nokkrum vafa um að sú sameining hefur nýttst ykkur vel til að hagræða í rekstri og bæta þjónustuna við félaga ykkar og viðskiptavini, - öllum til hagsbóta. Þeim ávinning sem þið hafið náð með þessu vil ég einnig ná með hagræðingu í ríkisrekstrinum, eins og ég hef hér að framan lauslega drepið á.

Við sameinigu sambanda ykkar hafið þið vafalítið orðið að yfirstíga ýmsar hindranir og mætt bæði tómlæti og mótlæti. Í því sambandi er mikilvægt að missa ekki sjónar af marmkiðum sínum og láta ekki hrekja sig af leið að þeim. - Í orkumálum eigum við vafalítið sameiginlegra hagsmuna að gæta um flest. - Stuðningur Samorku við þau framfaramál sem við stöndum frammi fyrir er því mikilvægur

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum