Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. maí 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ráðstefnu um grænbók Evrópusambandsins um nýsköpun, 6. maí 1996.



Dr. Constant Gitzinger. It is a pleasure to welcome you to this conference on the Green Paper on innovation. We appriciate the iniative of the European Union on this very important issue. Ágætu ráðstefnugestir.

Nýsköpun er grundvöllur nauðsynlegrar atvinnuþróunar og almennra framfara í þjóðfélaginu öllu. Ný og bætt framleiðsla verður fyrst og fremst til vegna nýsköpunar í fyrirtækjum þar sem hæfnin til að breyta hugmyndum og þekkingu í söluhæfa vöru skiptir megin máli. Nýsköpun er því ein af helstu undirstöðum öflugs og vaxandi atvinnulífs og forsenda þess að störfum fjölgi og unnt verði að greiða hærri laun.

Eitt af þeim verkefnum sem ég hef lagt hvað ríkasta áherslu á nýliðnu fyrsta starfsári mínu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra eru nýsköpunar og atvinnuþróunarmál. Það er einnig eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar, en í stefnuyfirlýsingu hennar segir m.a. að hún ætli sér að tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.

Frumskilyrði þessa er að skapa og viðhalda eðlilegu rekstrarumhverfi er veitt geti fyrirtækjum viðunandi afkomu til að stunda þær rannsóknir og vöruþróun sem nauðsyn ber til. Þessum ytri skilyrðum hefur að mestu verið fullnægt. Vaxandi stöðugleiki er í ríkisfjármálunum sem skapað hefur ný skilyrði fyrir hagvöxt. Raungengi er hagstætt og vextir eru að verða sambærilegir við það sem er í helstu viðskiptalöndum okkar.

Þrátt fyrir góða afkomu fyrirtækja sl. tvö ár er fjárfesting í atvinnulífinu enn allt of lítil. Eftir áralangan samdrátt í efnahagslífi þjóðarinnar virðist svo af fyrirtækjunum dregið að nokkurn tíma muni taka að byggja upp þá tiltrú og kraft sem nauðsynlegur er til árangursríkrar og almennrar útrásar.

Engu að síður hafa alþjóðleg umsvif fyrirtækja heldur aukist með batnandi afkomu. Athygli vekur að umsvif þessi eru ekki bundin við næstu nágrannalönd okkar heldur teygja þau sig til fjarlægra heimshorna. Þarna er að finna lýsandi dæmi um það hvernig okkur hefur tekist að nýta víðtæka þekkingu og reynslu okkar. Þessi þekking og reynsla hefur fyrst og fremst orðið til við nýsköpun á heimavelli á þeim sviðum sem við kunnum best. Þrátt fyrir þetta verður að líta svo á að alþjóðleg umsvif okkar séu enn á frumstigi og að margt eigi eftir að ávinnast á þeim vettvangi á komandi árum. Mikilvægur þáttur í eflingu þeirra er samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði.

Nú stendur yfir mótun 5. Rammaáætlunar Evrópusambandsins. Mikilvægt er að sú stefnumörkun takist vel svo hún geti nýst íslensku atvinnulífi sem best. Í þessu sambandi er mér efst í huga að hlúð verði sem best að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Smáfyrirtæki skipa veigamikinn sess í allri Evrópu og má til viðmiðunar geta þess að 91% fyrirtækja í Evrópusambandinu hafa færri en 20 starfsmenn. Flest ný störf verða til hjá slíkum fyrirtækjum svo draga má þá ályktun að vöxtur og efling atvinnulífsins mun að verulegu leyti hvíla á þeim. Vandi þeirra er fyrst og fremst aðgengi að fjármangni og erfiðleikar við að koma á tæknilegu og viðskiptalegu samstarfi. Þetta þekkist vel hér á landi og virðist af Grænbókinni að dæma vera sammerkt með Evrópskum fyrirtækjum.

Á undanförnum mánuðum hef ég heimsótt fjölda fyrirtækja víðsvegar um land. Umræður hafa þá fyrst og fremst snúist um nýsköpun og atvinnumál. Meðal annars hefur verið rætt um þá möguleika sem bjóðast með þátttöku í rannsóknaráætlunum Evrópubandalagsins. Mikill áhugi virðist vera á þessum áætlunum en vegna mikils fjölda og margbreytileika þeirra sýnist mér flestir eigi erfitt með að átta sig á því hvar ávinnings sé helst að leita fyrir þá. Þrátt fyrir að almennar kynnigar séu nauðsynlegar til að vekja fólk til almennrar vitundar um þessa möguleika tel ég að reynslan hafi sýnt að til þess að ná þeim árangri sem við sækjumst eftir í Evrópusamstarfinu þurfi að leggja meira upp úr beinu persónulegu sambandi við fyrirtækin þar sem þau fái handleiðslu til að feta veginn framávið.

Á þessum ferðum mínum hef ég m.a. kynnt verkefnið Átak til atvinnusköpunar sem er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Iðntæknistofnunar. Átak til atvinnusköpunar hefur þann tilgang að samræma stuðningsaðgerðir þessara aðila við nýsköpun og greiða götu þeirra sem leita eftir opinberum stuðningi eða leiðsögn að Evrópusamstarfi. Þannig er unnið að því að vera leiðbeinandi með jákvæðum og hvetjandi hætti. Ljóst má þó vera að Átak til atvinnusköpunar leysir ekki þann stóra vanda sem er áhættufjármögnun nýsköpunarverkefna. Þar þarf meira að koma til.

Til lengri tíma litið er nýskipan fjárfestingalánasjóða atvinnuveganna eitt brýnasta framfaramálið er tengist nýsköpun og atvinnuþróun. Annars vegar þarf að stofna öflugan almennan fjárfestingarbanka. En hins vegar er mikilvægt er að samræma stuðningsaðgerðir við atvinnulífið og bjóða upp á áhættufjármagn. Í þessu sambandi þarf að brúa það bil sem er frá því að rannsóknum og annarri þekkingaröflun lýkur og þar til framleiðsla eða þjónusta er orðin markaðshæf.

Erfitt hefur reynst að afla áhættufjármagns til þessa, m.a. vegna þeirra veðkrafna sem tíðkast hafa. Sennilega hafa lánveitendur að einhverju leiti einnig verið illa í stakk búnir til að meta gildi nýsköpunarverkefna þannig að þeir gætu tryggt fjármagn sitt með öðrum hætti. Úr þessu þarf að bæta og er það ætlunin með hugmyndum sem eru í vinnslu í stjórnarráðinu að uppstokkun sjóðanna leiði til myndunar öflugs Nýsköpunarsjóðs. Hlutverk hans væri að styðja við hverskonar nýsköpun í öllum greinum íslensks atvinnulífs.

Ágætu ráðstefnugestir. Ráðstefna þessi um nýsköpun er mér fagnaðarefni. Hún snýst öðru fremur um Grænbók Evrópusambandsins, þau markmið og þær leiðir sem þar eru settar fram. Í fjótu bragði sýnist mér að aðstæður okkar Íslendinga séu að flestu leiti líkari því sem þar er lýst en ég hefði fyrirfram haldið. Engu að síður búum við við nokkra sérstöðu og væri áhugavert ef af vinnu ykkar hér í dag mætti draga fram niðurstöður er snéru öðru fremur að íslenskum aðstæðum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum