Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. maí 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða iðnaðarráðherra á ársfundi Iðnlánasjóðs, 8. maí 1996.


I.

Ágætu ársfundargestir.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er bjart yfir íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir. Iðnaðurinn er þar svo sannarlega ekki undanskilinn. Velta í iðnaði hefur aukist verulega og markaðshlutdeild íslenskra iðnaðarvara vaxið. Sérstaklega er þó ánægjulegt að sjá mikla sókn iðnaðarins á erlenda markaði. Þannig jókst útflutningur iðnaðarvara, að stóriðju undanskilinni, um tæp 19% að magni á síðasta ári. Á sama tíma dróst útflutningur þjóðarinnar saman um 2% að magni.

Við þessi skilyrði blómstrar atvinnulífið. Það hefur fengið tækifæri til að sýna hvað í því býr og nýtt sér það til fullnustu. Nýjum greinum vex fiskur um hrygg og skapa þúsundum atvinnu. Má þar nefna ferðaþjónustu og upplýsingaiðnað. Gamlar og rótgrónar greinar, eins og málm- og skipasmíði og húsgagnaiðnaður, sem voru nær dauða en lífi í byrjun áratugarins, standa nú mun traustari fótum.

Atvinnulífið hefur tekið stakkaskiptum og byggir í æ ríkari mæli á frjálsum markaðsbúskap. Fyrirtæki gera nú marktækar áætlanir fram í tímann. Samkeppnisstaða atvinnulífsins gagnvart erlendum keppinautum, mælt á mælikvaða raungengis, hefur ekki verið betri í áratugi.

Þegar litið er á vöxt útflutningsgreina er athyglisvert að sjá hvað iðngreinar sem tengjast sjávarútvegi hafa dafnað. Þannig nam útflutningur á:
  • fiskinetum og línum 470 milljónum á síðasta ári, sem er 122% aukning frá árinu á undan,
  • rafeindavogum 835 milljónum, sem er 42% aukning,
  • vélum til fiskverkunar 254 milljónum, sem er 18% aukning og
  • ýmsum búnaði til fiskveiða 263 milljónum, sem er 39% aukning.

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að iðnaður og sjávarútvegur eru að tengjast sterkari böndum en tengsl þessara greina hafa þó löngum verið mikil. Iðnaður tengdur sjávarútvegi er verulegur hluti iðnaðarframleiðslu hér á landi. Iðnfyrirtæki tengd sjávarútvegi hafa það fram yfir önnur íslensk iðnfyrirtæki að búa við mjög öflugan heimamarkað. Erlendir fræðimenn á sviði samkeppnishæfni þjóða, svo sem Michael Porter, hafa einmitt haldið því fram að öflugur heimamarkaður sé forsenda fyrir því að varanlegur árangur náist í útflutningi.

Margir halda því fram að íslenskur þjóðarbúskapur sé ofurseldur einni framleiðslugrein og því í eðli sínu sveiflukenndur og áhættusamur. Rétt er að sveiflur hafa verið meiri hér á landi en víðast hvar annars staðar. En það má að nokkru rekja til þess að hagstjórn hér á landi hefur oft á tíðum magnað þessar óumflýjanlegu sveiflur, frekar en mildað.

Það er hins vegar alrangt að Íslendingar hafi sett öll sín egg í eina brothætta körfu. Íslenskt atvinnulíf er einkar fjölbreytt. Skipting vinnuafls í atvinnugreinar er keimlík því sem tíðkast í helstu viðskiptalöndum okkar. Helmingur gjaldeyristekna kemur að sönnu frá einni atvinnugrein, sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er hins vegar mjög fjölbreytileg atvinnugrein, því fisktegundir, vinnsluaðferðir og markaðir eru margir og ólíkir. Það má því með sanni segja að íslenskur þjóðarbúskapur standi traustum fótum.

Staðfesting á traustum þjóðarbúskap kom fram á dögunum þegar hið virta bandaríska matsfyrirtæki, Standard & Poor}s, hækkaði mat sitt á lánshæfi Íslands. Þessi hækkun á lánshæfismati endurspeglar bætta hagstjórn. Standard & Poor}s bendir á að bætt hagstjórn ásamt styrkri stjórn á auðlindum sjávar geri þjóðarbúskapinn síður viðkvæman fyrir ytri áföllum og að aukinn sveigjanleiki í ríkisfjármálum ætti að draga úr háu hlutfalli erlendra skulda opinberra aðila og leggja um leið grunn að stöðugri hagvexti í framtíðinni.
II.

Besta atvinnustefna sem ríkisstjórnin getur gefið atvinnulífinu er að halda raungengi óbreyttu. Atvinnulífið sér um afganginn með markvissri uppbyggingu á öllum sviðum. Ég er sannfærður um að við aldahvörf verðum við búin að skjóta traustari stoðum undir íslenskt atvinnulíf og útflutningur verður enn fjölbreyttari en nú er. Við megum ekki láta þetta tækifæri okkur úr greipum ganga. Stöðugleikanum, samhliða æskilegu raungengi, verður að viðhalda með öllum tiltækum ráðum.

Margir sjá ýmis hættumerki framundan. Forsvarsmenn iðnaðarins hafa til að mynda áhyggjur af afleiðingum mögulegrar aukningar á þorskkvótanum. Ég er þeirrar skoðunar að hófleg aukning þorskkvótans muni ekki valda slíkum straumhvörfum við núverandi aðstæður að ástæða sé til að ætla að aðrar atvinnugreinar bíði varanlegt heilsutjón. Þó að góður gangur sé í efnahagsvélinni um þessar mundir þá er ekki sérstök ástæða til að óttast að vélin ofhitni. Helst er að sjá þenslumerki í bifreiðakaupum og utanlandsferðum. Þessir þættir hafa hins vegar tilhneigingu til að sveiflast mikið og eru að ná sér eftir langvarandi lægð. Ekki er því hægt að alhæfa um þenslu á grunni þessa.

Verðbólgustig bendir heldur alls ekki til þenslu. Verðbólga er nú heldur lægri en að meðaltali í iðnríkjunum. Verðlag hefur hækkað umtalsvert minna frá áramótum en búist var við í upphafi árs. Seðlabankinn hefur endurmetið verðbólguspá sína og gerir nú ráð fyrir 2% hækkun verðlags á þessu ári. Verulegar launahækkanir á undanförnum misserum hafa þannig ekki hækkað verðlag að neinu marki. Svo virðist sem aukin samkeppni og framleiðniaukning í atvinnulífinu komi í veg fyrir að kostnaðarhækkanir komi fram í hærra útsöluverði.

Ég er þeirrar skoðunar að meiri festa og ögun í efnahagsmálum, meira frjálsræði í viðskiptum og almennt virkari hagstjórn geri það að verkum að hægt sé að takast á við hóflega aukningu þorskkvótans, eða nokkra hækkun á verði sjávarafurða á erlendum mörkuðum, án sértækra sveiflujöfnunaraðgerða í sjávarútvegi. Öðru máli gegnir um verulega aukningu þorskkvótans eða mikla verðhækkun á erlendum mörkuðum. Sú staða getur komið upp og við þurfum að vera við því búin. Ég bendi á í þessu sambandi að nú er starfandi nefnd undir forystu forsætisráðuneytisins, sem ætlað er að finna leiðir til að skapa sem best og stöðugust hagvaxtarskilyrði fyrir þjóðarbúið til langs tíma litið. Mikil ábyrgð hvílir á þessari nefnd og er brýnt að hún nái sem fyrst samkomulagi um aðgerðir sem stuðla að raunverulegri sveiflujöfnun í þjóðarbúskapnum.

Auðlindagjald er það form sveiflujöfnunar sem mest hefur verið rætt um undanfarin misseri. Ég vil alls ekki útiloka að auðlindagjald verði tekið upp hér á landi. Ég er hins vegar ekki hlynntur því að tekið verði upp auðlindagjald á eina atvinnugrein umfram aðrar. Auðlindagjald ætti að leggjast á allar atvinnugreinar sem nýta sér sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Auðlindagjald, ef til þess kemur, mun skapa ríkissjóði tekjur og því væri eðlilegt að lækka skatta á atvinnulífið á móti.
III.

Lækkun vaxta á undanförnum tveimur mánuðum bendir heldur ekki til að mikil ólga sé í hagkerfinu. Á síðasta ári hækkuðu vextir hér á landi en lækkuðu umtalsvert í nær öllum viðskiptalöndum okkar. Í byrjun þessa árs var svo komið að mismunur á skammtímavöxtum hér og að meðaltali í viðskiptalöndum okkar var um 3%. Raunþáttur vaxta af lengri ríkisskuldabréfum var á sama tíma 2-3% hærri hér á landi. Á þessum tíma benti ríkisstjórnin ítrekað á að vextir væru of háir miðað við efnahagsaðstæður. Ósýnileg tregðulögmál réðu ferðinni á fjármagnsmarkaði í stað hinnar ósýnilegu handar markaðarins.

Vextir hafa nú lækkað allnokkuð og er ekki enn séð fyrir endann á vaxtalækkunum. Seðlabankinn reið á vaðið í byrjun apríl og lækkaði vexti á ríkisvíxlum um 0,75%. Síðan hefur Seðlabankinn lækkað vexti á skammtímamarkaði um 0,2% til viðbótar, þannig að í apríl stóð bankinn fyrir vaxtalækkun á skammtímamarkaði um 0,95%. Markaðurinn tók lækkuninni vel. Vextir fimm ára spariskírteina lækkuðu verulega í apríl og eru nú um 5,45%. Þess má geta að í ársbyrjun voru vextir fimm ára spariskírteina 5,9%. Sérstaklega er athyglisverð 1.6% vaxtalækkun á fimm ára óverðtryggðum ríkisbréfum. Þetta bendir til að markaðurinn hafi trú á að stöðugleikinn sé langvarandi.

Bankar og sparisjóðir hafa hins vegar ekki enn tekið við sér og fylgt þessum lækkunum eftir. Kjörvextir almennra skuldabréfalána banka eru nú 0,3% hærri en í desember. Í vaxtalækkunarhrinunni í apríl lækkuðu vextir aðeins óverulega. Það er athyglisvert hvað bankar og sparisjóðir taka lítið mið af vöxtum á peningamarkaði við ákvörðun óverðtryggðra vaxta. Sterk markaðsstaða banka og sparisjóða á skammtímamarkaði kann að skýra þetta, þó vissulega hafi samkeppnin aukist. Þessi sterka staða birtist einnig í miklum vaxtamun á óverðtryggðum út- og innlánum. Vaxtamunur út- og innlána á óverðtryggðum liðum hefur verið á bilinu 10-11% undanfarin ár en vaxtamunur á verðtryggðum liðum 4-5%.

Bankar hafa svigrúm til lækkunar vaxta. Bankar bjóða til að mynda gríðarlega góð kjör á 3-5 ára bundnum verðtryggðum sparireikningum. Þessir vextir eru nú nokkru hærri en ríkissjóður býður í áskrift að spariskírteinum ríkissjóðs. Það hlýtur að teljast afar óeðlilegt því mikill munur er á eðli innlána annars vegar og spariskírteina hins vegar. Í viðskiptum með spariskírteini er fólgin vaxtaáhætta, sem ekki er til að dreifa varðandi innlánin. Sveigjanleikinn gagnvart fjárhæðum og dagsetningum er ekki hin sami við spariskírteini eins og innlán. Þessi form eru því alls ekki sambærileg. Hér er því tækifæri til lækkunar inn- og útlánsvaxta.
IV.

Þær skipulagsbreytingar sem fyrirhugaðar eru á fjármagnsmarkaði munu einnig stuðla að lækkun vaxta. Umskiptin gegna mikilvægu hlutverki í því að aðlaga íslenskt atvinnulíf að breyttum aðstæðum. Á fjármagnsmarkaði eru aðstæður gerbreyttar frá því sem var þegar núverandi skipan komst á, skipan sem einkennist af ríkisviðskiptabönkum og nokkrum fjárfestingarlánasjóðum í eigu ríkisins. Því er rökrétt að endurskoða skipulag og starfsemi allra fjármagnsfyrirtækja í eigu ríkisins.

Markmið þessarar endurskoðunar eru í fyrsta lagi að tryggja atvinnulífinu á sem hagkvæmastan hátt aðgang að langtímafjármagni til fjárfestingar á markaðskjörum, og í öðru lagi að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar. Stefnt er að því að öll fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem er, eigi jafnan aðgang að slíku fjármagni.

Með fyrrgreind markmið í huga hefur verið tekið til skoðunar hvernig best megi nýta það fjármagn sem þegar er til staðar í fyrirliggjandi fjárfestingarlánasjóðakerfi. Í því sambandi hefur einkum verið horft til Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Samkvæmt þeim hugmyndum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að Iðnlánasjóður, Iðnþróunarsjóður og Fiskveiðasjóður hætti starfsemi í núverandi mynd en á grunni þeirra verði stofnaður fjárfestingarbanki atvinnulífsins sem verði lánastofnun í skilningi laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Fái bankinn það hlutverk að veita íslensku atvinnulífi fjármálaþjónustu og hafi í því skyni með höndum hverja þá starfsemi sem lánastofnunum er heimil. Það er mín skoðun að bankinn eigi í upphafi að vera hlutafélag í eigu ríkisins en það hlutafé selt um leið og markaðsaðstæður leyfa. Atvinnulífið mun síðan hafa þau áhrif sem það kýs með því að eignast hlut í bankanum.

Ennfremur er gert ráð fyrir að stofnaður verði nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem hafi það hlutverk að veita fyrirtækjum lán, ábyrgðir og styrki til þróunar- og nýsköpunarverkefna og stuðla þannig að vöru- og tækniþróun og markaðssetningu íslenskrar framleiðslu og þekkingar. Til að tryggja nýsköpunarsjóðnum nægilega fjármuni njóti hann arðs af hluta af eigin fé sjóðanna þriggja og arðs af hluta af hlutafé fjárfestingarbankans.
V.

Góðir ársfundargestir.
Tilgangurinn með þessum breytingum á fjárfestingarlánasjóðakerfi atvinnuveganna er að skapa fjárhagslega traustar heildir og draga úr eða afnema hina óheillavænlegu skiptingu þessara sjóða eftir atvinnugreinum. Þetta er nauðsynlegt því að atvinnulífið tvinnast æ meira saman. Hlutföll á milli atvinnugreina eru sífelldum breytingum háð og nýjar atvinnugreinar skjóta rótum sem falla illa inn í fyrra mynstur. Skipulag fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna má ekki verða til þess að tefja nauðsynlegar breytingar í íslensku efnahagslífi. Síðast en ekki síst eru núverandi fjárfestingarlánasjóðir einfaldlega of litlir til að geta tekist á við harðnandi alþjóðlega samkeppni. Sameinaður og öflugur fjárfestingarbanki ætti að hafa bolmagn til að geta boðið íslenskum fyrirtækjum lán á hagstæðustu kjörum hverju sinni, til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf. Þakka ykkur fyrir

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum