Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. júní 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á fundi um innlendan verðbréfamarkað, 4. júní 1996.

 



 

I.

Góðir fundarmenn.

Verðbréfamarkaðir á Vesturlöndum hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum áratug. Viðskipti með verðbréf hafa hvarvetna aukist gríðarlega og orðið æ mikilvægari hlekkur í gangverki hagkerfisins. Frjálsari löggjöf og opnun markaða hafa aukið samkeppni á fjármagnsmarkaði og nýjar tegundir fjármálastofnana fest sig í sessi. Framþróun upplýsinga- og fjarskiptatækninnar hefur gert aðilum á markaði kleift að nýta til fulls þau tækifæri sem opnun markaða gefur. Útgefendur bjóða sífellt upp á fjölbreyttari flóru verðbréfa og fjárfestar nota í auknum mæli vísindalegar aðferðir við að hámarka ávöxtun verðbréfasafna sinna að teknu tilliti til áhættu.

Þó þróunin hafi verið hröð þá byggðu verðbréfamarkaðir Vesturlanda á traustum grunni. Ýmis nýfrjáls ríki í Evrópu og Asíuhluta fyrrum Sovétríkjanna byrjuðu hins vegar ekki að feta sig áfram eftir grýttri braut verðbréfamarkaðar fyrr á fyrri hluta þessa áratugar. Mörgum þeirra hefur samt sem áður orðið vel ágengt á stuttum tíma.

Íslenskur verðbréfamarkaður byggir ekki á langri hefð. Líkt og markaðir nýfrjálsu ríkjanna hefur hann sprottið upp úr nánast engu á örstuttum tíma. Hann hefur þó, ólíkt nýfrjálsu ríkjunum, notið stöðugra efnahagskilyrða og öflugrar grunngerðar hagkerfisins. Íslenskur verðbréfamarkaður hefur farið vel af stað en óhætt er að segja að hann eigi þó enn langa leið fyrir höndum.
II.

Skýrslur starfshópanna tveggja sem ég skipaði síðastliðið haust eru kynntar hér í dag. Annar þeirra fjallaði um markaðssetningu íslenskra verðbréfa meðal erlendra fjárfesta. Ég vildi kanna hvort ekki væri unnt að selja bréf í íslenskum krónum til erlendra fjárfesta. Tilraunir til að selja erlendum fjárfestum innlend bréf hafa til þessa lítinn árangur borið þrátt fyrir góða ávöxtun bréfanna. Eftir að flæði fjármagns var gefið frjálst hefur fjármagn til verðbréfakaupa leitað út en nær ekkert inn. Verðbréfaeign Íslendinga í erlendri mynt var um 13 milljarðar króna um síðustu áramót en eign útlendinga í íslenskum bréfum var nánast engin. Því hefur verið spáð að verðbréfaeign lífeyrissjóða í bréfum í erlendri mynt muni nema um 35 milljörðum um aldamót. Fjárstraumar munu því aðeins leita í aðra áttina nema hérlendur fjármagnsmarkaður verði gerður aðgengilegri og áhugaverðari kostur fyrir erlenda fjárfesta.

Í skýrslu starfshópsins kemur fram að forsenda fyrir því að takast megi að markaðssetja innlend verðbréf til erlendra fjárfesta sé að innlendur markaður og form verðbréfa svari þeim kröfum sem almennt eru gerðar af hálfu alþjóðlegra fjárfesta.

Erlendir fjárfestar eru almennt ekki kunnugir verðtryggðum bréfum. Þeir setja einnig fyrir sig smæð verðbréfaflokka hér á landi auk þess sem þeir telja að seljanleika bréfanna sé ábótavant. Einnig er erfiðleikum bundið að verjast gengisáhættu, enda hafa ekki þróast hér á landi áhættuvarnir, eða svokallaðar afleiður, í sama mæli og víðast hvar annars staðar. Hópurinn bendir einnig á nauðsyn þess að sníða af ýmsa tæknilega vankanta á verðbréfaviðskiptum hér á landi, svo sem varðandi skráningu, uppgjör og vörslu verðbréfa.

Enn vantar talsvert upp á að innviðir fjármagnsmarkaðar og skipuleg meðferð verðbréfa sé með sama hætti hér á landi og tíðkast á grónum mörkuðum erlendis. Stofnun verðbréfamiðstöðvar og breyting yfir í pappírslaus viðskipti með stöðluð verðbréf er mjög mikilvæg til að koma á æskilegum úrbótum í þessum efnum. Að þessu er nú þegar unnið. Undirbúningsnefnd að stofnun verðbréfamiðstöðvar er að störfum og er ætlað að koma með tillögur um ýmis atriði er lúta að tæknilegri, lagalegri og rekstrarlegri umgjörð verðbréfamarkaðar. Forvali vegna hugbúnaðargerðar lýkur nú í júní og er stefnt að lokuðu útboði innan tíðar. Gera má ráð fyrir að verðbréfamiðstöð geti hafið starfsemi á árinu 1998. Búast má við að á næstu tveimur árum takist að sníða ýmsa vankanta af verðbréfamarkaðnum þannig að hann verði gildari á alþjóðavettvangi.
III.

Hinn starfshópurinn hafði með höndum að kanna skilvirkni á íslenskum skuldabréfamarkaði. Oft hafa heyrst raddir um að ýmsar hindranir séu í vegi frjálsrar vaxtamyndunar. Þannig valdi til að mynda ráðandi markaðsstaða ýmissa lánastofnana eða stofnfjárfesta því að vextir breytast ekki með hliðsjón af markaðsaðstæðum á hverjum tíma.

Mjög mikilvægt er að vextir séu í samræmi við framboð og eftirspurn. Skilvirk vaxtamyndun er grundvöllur þess að innlent fjármálakerfi geti staðist samkeppni á opnum markaði. Rétt áhættumat á skuldbindingum einstakra lántaka er einnig mikilvægt til að tryggja rekstrargrundvöll lánastofnana og fjármálafyrirtækja. Jafnframt er mikilvægt að lagaleg umgjörð um starfsemi fyrirtækja á verðbréfamarkaðnum sé sambærileg, þannig að ekki skapist misræmi í vaxtakjörum af þeim sökum. Hér er átt við ýmis atriði sem geta skekkt samkeppnisstöðu aðila, svo sem starfsheimildir fyrirtækja, takmarkanir á fjárfestingarstefnu, félagsform og skattareglur. Frá sjónarmiði fjárfesta og lántaka er einnig mikilvægt að verðbréfamarkaðurinn tryggi sem réttasta niðurstöðu og að vaxtamyndunin sé sýnileg og skiljanleg.

Í skýrslu sinni bendir starfshópurinn á fjölmörg atriði sem betur mættu fara á íslenskum fjármagnsmarkaði. Ekkert eitt atriði mun valda straumhvörfum á markaðnum en saman vísa þau veginn til skilvirkari markaðar. Hópurinn leggur mikið upp úr að viðskipti með skuldabréf verði sem sýnilegust. Í því skyni er lagt til að stuðlað verði að því að útboð fari í meira mæli fram sem opin útboð og viðskipti fari að mestu í gegnum Verðbréfaþing Íslands.

Hópurinn bendir á nauðsyn þess að bæta fyrirkomulag viðskiptavaktar á Verðbréfaþingi Íslands í því skyni að gera skuldabréf auðseljanlegri. Í því sambandi hvetur hópurinn banka og aðrar lánastofnanir til að vera virkari í verðbréfaviðskiptum og beinir því til stærstu útgefenda að fækka og stækka verðbréfaflokka sína.

Starfshópurinn hvetur til þess að settur verði rammi um fjárfestingar lífeyrissjóða. Jafnframt leggur hópurinn til að samkeppnisskilyrði á lánamarkaði verði samræmd, meðal annars með því að breyta ríkisbönkum og fjárfestingarlánasjóðum í hlutafélög.

Hópurinn leggur einnig til að könnuð verði áhrif þess og möguleiki á að afnema skylduaðild að tilteknum lífeyrissjóðum, með tilliti til þess hvaða áhrif það hefði á samkeppni á fjármagnsmarkaðnum.

Með annarra tillagna hópsins er að komið verði á formlegu áhættumati á verðbréfum, sala spariskírteina í áskrift verði tekin til endurskoðunar, bankar og sparisjóðir tengi vexti sína betur peningamarkaðsvöxtum og fyrirkomulag stimpilgjalda verði endurskoðað. Hópurinn vekur líka athygli á nauðsyn þess að sparnaður þjóðarinnar aukist og þess verði freistað að fá heimilin til að auka sparnað sinn.
IV.

Góðir fundarmenn.
Tillögur starfshópanna eru ítarlegar og umfangsmiklar. Sátt ríkir um margar tillagnanna en deilt er um aðrar, eins og gengur. Tillögurnar eru varða á leið til virkari verðbréfamarkaðar. Til að hrinda þeim í framkvæmd þarf samstillt átak löggjafans, útgefenda, fjárfesta, miðlara og eftirlitsaðila. Við skulum vinna saman að því marki að efla og bæta íslenskan verðbréfamarkað. Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum