Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. júlí 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Opnun Útboðsbanka Evrópusambandsins, 11. júlí 1996.


Ágætu fundarmenn.

Ljóst er, að með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði opnuðust mikilvæg tækifæri til náins samstarfs við Evrópsk fyrirtæki og stofnanir um hverskonar rannsóknir og þróun er styrkt geta undirstöður efnahagslegra framfara hér á landi. Ekki er síður mikilvægt, að með tilkomu samningsins erum við orðnir hluti af sameiginlegum innri markað Evrópu. Þar hefur okkur opnast markaður sem er kjörinn vettvangur fyrir þá auknu útrás sem er bráðnauðsynleg fyrir íslensk fyrirtæki og eðlilega framþróun íslensks atvinnulífs. Allar tiltækar leiðir til slíkrar útrásar þarf að nýta í sem ríkustum mæli.

Allar ytri forsendur eru nú fyrir hendi til að svo megi verða. Ríkjandi efnahagsstöðugleiki er undirstaða þess - með lágri verðbólgu og hagstæðri skráningu gengis. Ríkisstjórnin hefur einsett sér að ná hallalausum fjárlögum á næsta ári og viðhalda stöðugleika efnahagslífsins. Þessi stefna hefur leitt til þess, að starfsskilyrði fyrirtækja eru nú betri en verið hefur um langt árabil. Það hefur aftur leitt til aukins áhuga fyrirtækja og áræðni þeirra til nýrrar sóknar.

Afleiðing þessa er, að vart hefur orðið við meiri nýjungar í framleiðslu og framboði vöru en áður. Hið aukna vöru- og þjónustuúrval kallar á stækkun markaða okkar og meiri hlutdeild á hefðbundnum mörkuðum. Jafnframt hafa umbætur orðið í stjórnun og skipulagi fyrirtækja og mannauðurinn skilar sér í auknum mæli inn í fyrirtækin - um leið og vaxandi skilningur hefur orðið á gildi þekkingar. Þannig sé ég hægfara en markvissa breytingu á áherslum frá nokkuð einhliða nýtingu takmarkaðra náttúruauðlinda okkar til markvissari virkjunar mannauðs - og frá einblíningu á heimamarkað til virkrar alþjóðasóknar. Þrátt fyrir vaxandi alþjóðavæðingu í heimsviðskiptum okkar mun innri markaður Evrópu áfram verða okkur mikilvægastur, einkum vegna hinna margvíslegu tækifæra sem þar bjóðast. Mikilvægur þáttur í útrás okkar þangað er að við getum nýtt okkur opinber útboð Evrópusambandsins - til að koma þekkingu okkar, verkkunnáttu og vörum á framfæri.

Um þau tækifæri sem innlendum framleiðendum bjóðast með notkun bankans og þá aðstoð við tilboðsgerð, sem í boði verður, munu aðrir fjalla um hér á eftir.

Ég vil því að lokum aðeins nota tækifærið og þakka þeim fjöldamörgu sem að þessu máli hafa komið. Að öðrum ótöldum verður þó vart hjá komist að minnast framsýni Ásgeirs Jóhannssonar, fyrrverandi forstjóra Ríkiskaupa, sem af miklum dugnaði hefur unnið að kynningu og undirbúningi TED bankans. Fyrir óeigingjarnt starf hans ber að þakka

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum