Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. september 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Afhending skírteinis um gæðavottun til Skýrr hf. í Borgarleikhúsinu, 5. september 1996.



Ágætu samkomugestir.

Ísland siglir nú hraðbyri inn í öld upplýsingasamfélagsins. Hin nýja upplýsinga- og fjarskiptatækni hefur nú þegar haft gagnger áhrif á rekstur fyrirtækja og líf og störf almennings. Við höfum þó enn sem komið er aðeins séð upphaf mikilfenglegrar þróunar sem ógjörningur er að sjá fyrir enda á. Okkur er þó öllum ljóst að með virkri þátttöku í þessum breytingum býða tækifærin okkar við hvert fótmál og er því brýnt að okkur auðnist gæfa til að hagnýta okkur þau á sem farsælastan hátt. Í þessu sambandi hlýtur markmið okkar að vera, að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heimsins við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.

Mikilvægur þáttur í þessu er efling upplýsingaiðnaðarins. Við höfum um nokkurra ára skeið náð umtalsverðum árangri á þesssu sviði, bæði með þróun hugbúnaðar fyrir innlendan markað og í útflutningi hugbúnaðar. Útflutningurinn nemur nú mörg hundruð milljónum króna á ári og er þá ótalinn umfangsmikill útflutningur á margvíslegum iðnaðarvörum sem byggja á hugbúnaði.

Tiltrú viðskiptavina okkar er lykilatriði í því að árangur náist í útflutningi hugbúnaðar. Hún byggist ekki síður á orðspori okkar, reynslu og þekkingu en hugbúnaðinum sjálfum sem við erum að selja. Markaðurinn er vandfýsinn og þar skipast veður skjótt í lofti. Ef okkur mistekst í eitt skipti getur eftirleikurinn orðið okkur erfiður og kostnaðarsamur. Kaupendur vöru og þjónustu gera þá kröfu, að það sem þeir fá afhent sé í góðu lagi, sé afhent á réttum tíma og uppfylli að öllu leyti væntingar þeirra. Virk gæðastjórnun er skilvirkasta leiðin til að mæta þessum kröfum.

Okkur í iðnaðarráðuneytinu hefur verið það ánægjuefni að fylgjast með framgangi gæðastjórnunar undanfarin ár. Augu manna hafa opnast fyrir mikilvægi þessa mikilvirka tækis til að fækka göllum, auka gæði og lækka kostnað, auk þess að skapa þá viðskiptavild sem nauðsynleg er.

Innleiðing gæðastjórnunar í hugbúnaðariðnaði er trúlega mikilvægari fyrir litla og lítt þekkta þjóð sem okkar en margar hinar stærri þar sem lengri hefð er fyrir hugbúnaðargerð og meiri rótfestu hefur verið náð á alþjóðlegum mörkuðum. Það er ráðuneytinu því gleðiefni að vera þátttakandi í þessum merkisviðburði er Skýrr hf., annað íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja, fær hugbúnaðarframleiðslu sína vottaða.

Skýrr á sér langa og merka sögu. Stofnun Skýrsluvéla ríkisins og Reykjavíkurborgar var á sínum tíma nauðsyn til unnt væri að byggja upp þá reikniþjónustu sem þessir aðilar höfðu þörf fyrir. Þá var ekki til nægilegt bolmagn né þekking á almennum markaði til að koma þessu fyrir með öðrum hætti. Síðan hefur margt breyst og hin síðari ár hefur borið á vaxandi gagnrýni á mikil umsvif Skýrr og þá sérstöðu sem stofnunin hafði í skjóli eigenda sinna.

Eflaust var margt í þeirri gagnrýni réttmætt. Ekki má þó gleyma því að með Skýrr byggðist upp öflugt og framsækið hugbúnaðarfyrirtæki sem er líklegt til að verða burðarás í útflutningi hugbúnaðarvöru, -þjónustu og -ráðgjafar á komandi árum. En jafnframt hefur Skýrr verið breytt í hlutafélag sem verður að spjara sig á samkeppnismarkaði.

Ég vil nú biðja Jón Þór Þórhallsson forstjóra Skýrr hf. að koma hingað og taka á móti þessu skjali, sem er til staðfestingar því að hugbúnaðarframleiðsla fyrirtækisins hefur verið vottuð skv. gæðastaðlinum ÍST ISO 9001

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum