Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. september 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ráðstefnunni "INFO 2000 Information Day", 24. september 1996.

 


Ágætu ráðstefnugestir!

I.

Við stöndum nú við dagrenningu nýrra tíma. Ný þjóðfélagsgerð er að birtast sem mun geta fært okkur aukna hagsæld og bætt mannlíf ef rétt er að málum staðið. Þessu valda stórstígar framfarir í upplýsinga- og fjarskiptatækni sem byggja á aukinni þekkingu og nýrri tæknikunnáttu. Óhindrað flæði upplýsinga og greiður aðgangur að helstu þekkingarbrunnum heimsins munu breyta atvinnuháttum okkar og öllum samskiptum manna á milli. Þessi nýja samfélagsmynd er nefnd upplýsingasamfélagið.

Upplýsingaiðnaðurinn er burðarás þessara breytinga. Til upplýsingaiðnaðar telst öll sú starfsemi sem tengist vinnslu og meðhöndlun upplýsinga til útbreiðslu eða sölu og er því samnefni fyrir hugbúnaðargerð, gagnavinnslu og hvers konar upplýsingaþjónustu.

Upplýsingaiðnaður er ung atvinnugrein og hefur þá sérstöðu að hún tengist öllum greinum atvinnulífsins með einum eða öðrum hætti. Þetta hefur auk annars orðið til þess, að hin hefðbundna skipting atvinnulífsins í landbúnað, sjávarútveg og iðnað verður stöðugt óljósari. Upplýsingaiðnaðurinn hefur þannig glögglega sýnt, að hagsmunir þessara höfuðatvinnugreina okkar eru ekki andstæðir heldur sameiginlegir í umhverfi þar sem einn getur ekki án annars verið. Þannig undirstrikar upplýsingaiðnaðurinn mikilvægi heildstæðrar og þverfaglegrar atvinnustefnu.

Gleggsta dæmið um þetta eru hin samfléttuðu tengsl iðnaðar og sjávarútvegs. Sjávarútvegur hefur um langt árabil verið ein helsta undirstaða íslensks atvinnulífs og skapað um helming gjaldeyristekna okkar. Í skjóli hans hefur vaxið upp öflugur iðnaður sem í rás tímans hefur þróast úr eldsmíði í flókinn hátækniiðnað. Sú þróun hefur byggst á sérhæfðri tæknikunnáttu sem stendur styrkum fótum á grunni mikillar og almennrar þekkingar á þörfum atvinnulífsins.

Gott brautargengi hugbúnaðariðnaðarins má fyrst og fremst þakka dugmiklum skapandi einstaklingum sem með þekkingu sinni og eljusemi hafa komist yfir ótrúlegar hindranir og náð umtalsverðum árangri á margvíslegum sviðum upplýsingatækninnar. Það eru þessir menn og fyrirtæki þeirra sem munu draga vagninn inn í velferðarþjóðfélag komandi ára. Hlutverk stjórnvalda er fyrst og fremst að búa til hagstæð ytri skilyrði til þess að sú ferð verði sem greiðust. Lykilatriðið í því er að skapa sem hagstæðust efnahagsskilyrði, afnema óþarfa hindranir og tryggja heilbrigt samkeppnisumhverfi.

Nýsköpun er lykillinn að því að auka framleiðni og skapa ný störf í heimi aukinnar samkeppni. Fyrir okkur, eins og margar aðrar þjóðir, mun nýsköpun tengd upplýsingaiðnaði gegna veigamiklu hlutverki. Mér segir svo hugur, að þrátt fyrir smæð okkar á þessu sviði megi þar vænta umtalsverðs árangurs. Ég tel jafnframt raunhæft að álykta að ýmisskonar iðnaðarframleiðsla, er byggir á háþróuðum hugbúnaði, verði undirstaða nýrrar atvinnuþróunar og aukins útflutnings á komandi árum.

Það sem öðru fremur einkennir atvinnuhætti hér á landi er almenn smæð fyrirtækja. Hugbúnaðariðnaðurinn er dæmigerður fyrir þetta. Sé litið til þess, að flest ný störf verða til í smærri fyrirtækjum mætti ætla að staða okkar væri nokkuð góð. Þess ber þó að gæta að örsmá fyrirtæki er ekkert sérstakt markmið í sjálfu sér. Þau eiga vissulega sinn sess í litrófi fyrirtækjanna og gegna mikilvægu hlutverki í þjóðfélagsmynstrinu. Yfirburðir þessara smáu fyrirtækja eru ekki síst frumherjaandinn sem þar ríkir og mikil aðlögunarhæfni þeirra. Ekki er þó síður mikilvægt að í þessum smáu fyirirtækjum eru einmitt vaxtarmöguleikarnir mestir. Að þessum vaxtarmöguleikum verðum við að huga betur.

Við hjótum öll að sjá fyrir okkur þá miklu möguleika sem hugbúnaðariðnaðurinn getur haft í atvinnuþróun komandi ára. Til þess að svo megi verða þurfa að vera í röðum þeirra nokkur stór og öflug fyrirtæki. Stærð og styrkur býður t.d. upp á markvissari stjórnun, öflugra rannsóknar- og þróunarstarf og öflugri markaðssetningu en smærri fyrirtæki hafa bolmagn til. Þetta á ekki að koma niður á hinum smærri. Þvert á móti ættu minni fyrirtækin að geta notið góðs af sambúðinni við þau stærri, m.a. sem sérhæfðir samstarfsaðilar í sameiginlegum verkefnum.

Mikilvægur þáttur í framþróun upplýsingaiðnaðarins er alþjóðavæðing heimsviðskipta sem skapað hefur enn fleiri tækifæri fyrir framleiðendur jafnt og neytendur. Íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf er vissulega alþjóðleg og mun ný tækni og útbreyðsla nýrrar verkkunnáttu enn hraða alþjóðavæðingu heimsviðskiptanna. Nýsköpun í íslensku atvinnulífi verður að taka mið af þessu og atvinnuþróun að verða á þann veg að útflutningur standi að mestu undir bættri afkomu. Hér mun upplýsingatæknin skipta sköpum og geta breytt samkeppnisstöði okkar mjög til hins betra.

Sérstaða Íslands er að upplýsinga- og fjarskiptatæknin mun nýtast okkur hlutfallslega betur en stærri þjóðum þar sem opinn aðgangur að upplýsingum og frjáls viðskipti um hraðvirka upplýsingabraut eykur samkeppnisstöðu smærri fyrirtækja gagnvart þeim stærri og gerir að engu þá fjarlægð við viðskiptaþjóðirnar sem ætíð hefur háð eðlilegri framþróun og samkeppnisstöðu atvinnulífsins hér á landi.
II.

Því ber ekki að neita, að á sama tíma og margir horfa sókndjarfir fram á veg til upplýsingasamfélagsins hefur fyrirsjáanleg þróun valdið ótta ýmissa við að störfum muni fækka og lífsskilyrði versna. Þannig sjá margir í hinni nýju samfélagsmynd ógnun frekar en tækifæri til sóknar.

Þrátt fyrir að engin sérstök rök séu fyrir því að fleiri störf tapist en skapist og að reynslan bendi í raun til hins gagnstæða er ástæðulaust að ganga fram af gáleysi. Ekki má fram hjá því líta, að málefni upplýsigasamfélagsins eru margbrotin og snúast ekki eingöngu um hin efnahagslegu gildi. Ekki er síður mikilvægt að okkur beri gæfa til að nýta tæknina til eflingar lýðræðis, aukins félagslegs jafnréttis og til eflingar sérstæðrar menningar okkar og tungu. Slíkt mun ekki gerast af sjálfu sér. Upplýsingabrautirnar verða yfirfullar af erlendu efni af margvíslegri og misjafnri gerð. Þar getum við orðið undir ef við höldum ekki vöku okkar.

Breyttir viðskiptahættir og opnun markaða ásamt örri tækniþróun hafa nú þegar, og munu óhjákvæmilega í auknum mæli, gjörbreyta atvinnuháttum okkar og þar með hafa áhrif á lífshætti okkar og tekjumyndun. Við þessum breyttu aðstæðum þarf að bregðast og gefa fólki á vinnumarkaði tækifæri til að afla sér nýrrar þekkingar til að nýta sér nýja tækni og afla sér nýrrar verkkunnáttu. Kröfur um menntun aukast stöðugt. Æ meiri þekkingar er þörf til að verða gjaldgengur á vinnumarkaði og störfum fyrir ófaglærða fækkar. Hlutverk menntunar í hinni nýju samfélagsgerð verður því aldrei ofmetið. Það má ekki verða, að einstaklingar á vinnumarkaði sem vilja leita sér frekari menntunar hafi ekki þá lágmarksmenntun sem nauðsynleg er til að viðbótarmenntun komi að gagni í störfum sem krefjast stöðugt meiri tækniþekkingar. Því verður að leggja sífellt meiri áherslu á almenna grunnþekkingu og símenntun. Menntun og kennsla getur því, til lengri tíma litið, ekki verið takmörkuð við hið opinbera skólakerfi. Hún verður að ná inn á vinn
ustaði og verða að símenntun þar sem menn eru hvattir til að halda áfram að mennta sig allt lífið.

Ég geri þetta að sérstöku áhersluatriði hér þar sem menntun er undirstaða þeirrar þekkingar sem farsæl vegferð okkar á vit upplýsingasamfélagsins byggir á.
III.

Ekki fer á milli mála, að Ísland siglir nú inn í öld upplýsingasamfélagsins. Sú sigling er hröð enda tölvulæsi hér á landi meira og almennara en víða annarsstaðar. Boðleiðir eru stuttar og landsmenn almennt móttækilegir fyrir nýjungum. Stjórnvöld gera sér grein fyrir að tímabært er að móta framtíðarsýn um þessa siglingu.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 voru í fyrsta sinn á vettvangi opinberrar stjórnmálaumræðu sett fram markmið um nýtingu upplýsingatækni til að bæta stjórnsýslu og örva atvinnulífið.
  • Þar er gefið fyrirheit um mótun heildarstefnu um hagnýtingu upplýsingatækni í samvinnu við fulltrúa atvinnulífsins er m.a. miði að því að auka framleiðni og bæta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
  • Upplýsingatækni verði nýtt í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, vísindarannsóknum, listum og hvers kyns menningarmála. Jafnframt verði settar reglur er tryggi aðgang borgaranna að upplýsingum hjá stjórnvöldum.
  • Dregið verði úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og óþarfa laga- og reglugerðarákvæði afnumin.
  • Þjónusta ríkisins verði sniðin að nútímatækni t.d. með nettengingu ríkisstofnana og pappírslausum viðskiptum.

Í þessu felst, að ný upplýsinga og fjarskiptatækni verði á sem bestan hátt nýtt til að tryggja vaxandi hagsæld í landinu svo unnt verði að halda uppi velferðarkerfi og menningarstigi eins og best gerist.

Á grundvelli stefnuyfirlýsingarinnar fól ríkisstjórnin mér í október 1995 að skipa nefnd til að gera tillögur um stefnumótun um málefni upplýsingasamfélagsins. Í nefndinni sátu 20 menn sem tilnefndir fulltrúar ráðuneyta, atvinnulífs og hagsmunaaðila. Formaður nefndarinnar var Tómas Ingi Olrich, alþingismaður.

Á vegum nefndarinnar var stofnað til níu starfshópa um helstu málaflokka upplýsingasamfélagsins. Málaflokkar þessir voru: Lýðræði, lög- og siðareglur; launafólk og neytendur; atvinnu- og viðskiptalíf; opinber stjórnsýsla; fjarskipti og margmiðlun; menntun, vísindi og menning; heilbrigðisþjónusta; félagsmálaþjónusta og samgöngumál og ferðaþjónusta. Nefndin hefur fyrir nokkru skilað tillögum sínum til mín og nefnist hún Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið og byggja tillögurnar á álitsgerð starfshópanna sem áður er getið.

Beinir þátttakendur í stefnumótunarvinnunni voru um 130 en nokkuð fleiri komu að henni með óformlegum hætti. Nærri lætur að í Framtíðsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið sé að finna samræmt álit um 200 manna sem tengjast flestum greinum þjóðlífsins.

Tillögur nefndarinnar eru nú til umfjöllunar í ríkisstjórninni og er þess að vænta að hún verði afgreidd þaðan fljótlega (og var hún samþykkt af henni nú í morgun?). Í framhaldi þess mun ég, ásamt formanni nefndarinnar Tómasi Inga Olrich alþingismanni, væntanlega kynna stefnu ríkisstjórnarinnar á næstu dögum.

Flest iðnríki hafa nú þegar mótað stefnu sína um upplýsingasamfélagið. Eitt þekktasta dæmið er skýrslan The National Information Infrastructure Act sem kennd er við Al Gore, varaforseta Bandaríkjanna og samþykkt var á Bandaríkjaþingi árið 1993. Ári síðar kom stefnumótun Evrópubandalagsins Europe and the global information society, sem unnin var undir forustu Martin Bangemann iðnaðarstjóra þess. Þar er m.a. hvatt til þess að bandalagslöndin fylgi því fordæmi og móti síns eigin upplýsingastefnu. Það höfum við Íslendingar nú gert.

Þrátt fyrir að samfélag okkar sé háþróað iðnaðarsamfélag, og fyllilega sambærilegt við iðnaðarsamfélög annarra Evrópuþjóða, er sérstaða okkar engu að síður mikil. Landfræðileg lega landsins er augljós og það er menning okkar og tunga einnig. Í ljósi þessa hlýtur íslensk upplýsingastefna að mótast umfram annað af þessum tveim sérkennum. Í huga mínum er því meginhlutverk stjórnvalda annarsvegar að vísa upplýsingatækninni veg og greiða fyrir framgangi hennar á sem flestum sviðum til hagsbóta fyrir landsmenn og hins vegar að standa vörð um sérstæða menningu og tungu, svo og um ýmis siðferðisleg verðmæti og vernd viðkvæmra persónuupplýsinga.
IV.

Það er okkur öllum áræðanlega ljóst að stefnumótun sem þessi markar ekki endi máls. Þvert á móti er stefnumótun í eðli sínu aðeins upphaf þar sem framkvæmdir fylgja á eftir. Án framkvæmda er stefnumótun dautt plagg. Að auki verður að líta svo á að stefnumótun sé lifandi og síbreytilegt verkefni sem þarfnast stöðugrar endurskoðunar. Áherslur munu breytast fljótt enda er ógjörningur að sjá fyrir enda þeirrar þróunar sem framundan er. Þar þarf stöðugt að taka mið af örri framþróun tækninnar og breytilegum þörfum þjóðfélagsins.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi góða yfirsýn yfir þróun málaflokksins í heild til að stuðla að framkvæmd stefnunnar, tryggja almenna þátttöku hins opinbera í nýtingu upplýsingatækninnar og ýta undir samræmingu og hagkvæmni í nýtingu þeirra miklu fjármuna sem nú þegar er varið til upplýsingamála. Í þessu sambandi er jafnframt mikilvægt að náið samráð verði haldið við launþega, atvinnurekendur og aðra þá sem áhrif vilja hafa á stefnuna og sem stefnan hefur áhrif á.

Ágætu ráðstefnugestir!

Framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið lítur brátt dagsins ljós. Það er trú mín að með henni verði mörkuð mikilvæg spor í upphafi vegferðar okkar á vit upplýsingasamfélagsins. Örlög þeirra vegferðar mun þó ekki einvörðungu ráðast af ásetningi stjórnvalda. Almenn samstaða þarf að verða um þá ferð enda augljóst að meginþungi þeirra breytinga sem við sjáum nú fyrir verður knúinn áfram af krafti og framsýni einstaklinga og fyrirtækja. Leiðarlok munu því ekki hvað síst markast af virkri og farsælli þátttöku þeirra.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum