Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. nóvember 1996 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á hádegisverðarfundi um nýtingu upplýsingatækni, 4. nóvember 1996.



Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar setti hún sér það markmið að mótuð skyldi heildarstefna í málefnum upplýsingasamfélagsins. Þar skyldi tekið á hagnýtingu upplýsingatækni í þágu efnahagslegra framfara og uppbyggingar í atvinnulífinu, vísindarannsókna, lista og annarra menningarmála. Tryggja skyldi aðgang almennings að opinberum upplýsingum, dregið úr skrifræði í samskiptum borgaranna við stjórnvöld og afnema skyldi óþörf laga- og reglugerðarákvæði. Nú - ári síðar - liggur fyrir framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um Upplýsingasamfélagið.

Í ljósi þess að vaxtarmöguleikra hefðbundinna atvinnuvega þjóðarinnar eru takmarkaðir er mikilvægt að tæki upplýsingasamfélagsins verði nýtt eins og kostur er til að skapa þeim ný sóknarfæri. Mikilvægur þáttur í þeirri sókn er virk íslensk þátttaka í alþjóða viðskiptum. Íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf er vissulega alþjóðlegt og mun ný tækni og verkkunnátta enn hraða þróun í þá átt. Nýsköpun í íslensku atvinnulífi verðru að tka mið af þessu og atvinnuþróun að verða á þann veg að útflutningur standi að mestu undir bættri afkomu.

En þá að innviðunum. Það er stundum haft á orði að opinber stjórnsýsla einkennist af seinagangi og skriffinnsku. Slíkar ásakanir eiga í einhverjum tilvikum við rök að styðjast, en á það ber þó að minna að oftar en ekki eru viðfangsefnin sem leysa þarf umfangsmikil og vandmeðfarin. Núverandi aðferðir og verkskipulag bjóða etv. ekki upp á mikið hraðari afgreiðslu.

Hins vegar ber okkur sífellt að leita leiða til bættrar þjónustu, ekki síst í ljósi tækniframfara tengdum upplýsingasamfélaginu. Það er því mitt verkefni og ríkisstjórnar að hefja átak til að nýta nýja tækni - til að bæta þjónustu og starfsemi ríkisstofnana í samræmi við þá stefnu sem nú liggur fyrir.

Slíkar endurbætur verða ekki sjálfkrafa. Nauðsynlegt er að þeir sem málið varðar komi að því og sjónarmið sem flestra komi fram. Öll verðum við að hjálpast að við að bæta samskipti og auka samvinnu fyrirtækja og almennings við stjórnvöld.

Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er tekið af skarið um nýtingu upplýsingatækni til að bæta stjórnsýslu og örva atvinnulíf - enda kom sá vilji strax fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, eins og áður sagði. Í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar er m.a. lögð áhersla á:

  • Nýtingu upplýsingatækni í samráði við fulltrúa atvinnulífsins til að auka framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.
  • Aukinn aðgang fyrirtæka og borgara að upplýsingum frá stjórnvöldum.
  • Að minnka skrifræði í samskiptum almennings og fyrirtækja við stjórnvöld og að afnema óþarfa laga- og reglugerðarákvæði.
  • Og að lokum - Að þjónusta ríkisins verði sniðin að nútímatækni, t.d. með nettengingu ríkisstofnanna og pappírslausum viðskiptum.
  • Augljóst er að mikið verk er fyrir höndum en farið er af stað ferli sem mun engan endi taka - sífellt þarf að endurskoða vinnubrögð og bæta.
  • Eðli umbótanna er slíkt að ekki er nóg að kaupa tæki og þjálfa starfsfólk. Það þarf að endurskoða öll vinnuferli - því þá aðeins nýtist tæknin að aðgangur að henni sé einfaldur og almennur.
  • En hvernig verður tækninni beitt til að stytta vinnuferla? Þessu viljum við velta fyrir okkur í samvinnu við hagsmunaaðilia.

Það er krafa almennings og fyrirtækja að ríkisstofnanir bæti sig og við þeirri kröfu er sjálfsagt að verða, sérlega þar sem tæknin gefur tækifæri til hagræðingar. Krafa almennings og fyrirtækja um hagræðingu hjá ríkisstofnunum kemur samt ekki fram tækninnar vegna heldur er umhverfið að breytast og kröfurnar að aukast.

Í dag þurfa mörg fyrirtæki að sækja aðföng erlendis frá eða þau selja vöru og þjónustu á alþjóðlegum markaði. Viðskiptalöndin eru ekki lengur einvörðungu þau sem næst okkur standa í menningarlegu og landfræðilegu tilliti - heldur allt eins fjarlæg lönd, t.d. í Asíu eða Suður-Ameríku. Vörurnar sem fluttar eru milli fjarlægra staða eru tíðum dýrar og viðkvæmar. Fersk matvara er t.d. flutt milli heimsálfa og því ríður á að afgreiðsla allra aðila sem að starseminni koma sé hröð og örugg. Um þetta eru sífellt auknar kröfur og okkar er að finna leiðir til að verða við þeim.

Umhugsunarvert er hvaða möguleika hagnýting upplýsingatækni gefur í alþjóðlegu umhverfi. Víst má telja að ef við verðum í fararbrodi þjóða, eins og ríkisstjórnin stefnir að, muni samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja verða á alþjóðavettvangi batna. Upplýsingatæknin getur því skilað umtalsverðum ábata til fyrirtækja og samfélagsins í heild.

Með því að hvetja til og styðja við fjárfestingu ríkis og fyrirtækja í upplýsingatækni getum við uppskorið ríkulega. Sérstakur ávinningur er að ýmis viðskiptakostnaður lækkar og á það ekki síst við um okkur sem búum fjarri stærstu mörkuðunum. Þannig er augljóst að íslensk fyrirtæki geta hagnast á þeirri þróun sem nú á sér stað í upplýsingatækni. Því hefur nýlega verið haldið fram að framfarirnar verði slíkar að eftir tæp tíu ár muni myndsímasamtal yfir Atlantshafið aðeins kosta örfáar krónur á klukkutímann - þetta verðum við að nýta okkur.

Það gera erlend fyrirtæki. Fjárfestingar bandarískra fyrirtækja í upplýsingatækni hafa aukist um 20-30% að raunvirði á undanförnum árum. Í ár fara 40% af fjárfestingu þeirra í upplýsingatækni. Augljóslega kalla þessar staðreyndir á frekari fjárfestingar okkar í upplýsingatækni þótt við stöndum framarlega á sumum sviðum eins og í nýtingu Internetsins.

Upplýsingatækni verður stöðugt stærri hluti þeirrar vöru og þjónustu sem seld er. Nýlega notaði yfirmaður ESPRIT áætlunar Evrópusambandsins, sem var í heimsókn hér, flugvélar sem dæmi. Hann sagði að ef horft væri til hlutfallslegs kostnaðar upplýsingartækni í byggingu vélanna þá væru þær ekkert annað en fljúgandi hugbúnaðarpakki. Þessi skondna saga felur í sér augljósa vísbendingu um hvert stefnir.

Margir efast um að fjárfestingar ríkis og fyrirtækja í upplýsingatækni skili hagnaði og benda á lítinn hagvöxt undanfarinna ára því til sönnunar. Þetta byggir að mínu viti á misskilnini. Í fyrsta lagi tekur tíma fyrir ríkið og fyrirtækin að átta sig á hver er besta notkun hug- og vélbúnaðar og hvaða búnað á að kaupa. Í öðru lagi hefur það sýnt sig í gegnum tíðina að það tekur langan tíma frá því að uppfinning kemur fram þar til hún skilar verulegum hagvexti - notkunin þarf að verða almenn. Í þriðja lagi má benda á að upplýsingatækni er í dag aðeins lítill hluti heildarfjárfestingar fyrirtækja. Og að lokum má benda á að almennt getur reynst erfitt að mæla þá framleiðsluaukningu sem á sér stað vegna upplýsingatækninnar þar sem stærstur hluti heildarframleiðslu landsmanna er þjónusta.

Heilbrigðisþjónusta hefur til að mynda batnað vegna fjarskipta - nefni ég í því sambandi fjarlækningar - röntgenmyndir eru sendar milli sjúkrahúsa með nýrri tækni þegar framkvæma þarf aðgerðir úti á landi. Þetta mælist illa í hagtölum. Jafnvel getur hugbúnaður sem leiðir til minni orkunotkunar dregið úr mælingu á hagvexti og þannig mætti lengi áfram telja

En hvað getur ríkið gert strax í dag til að nýta upplýsingatækni og bæta hag fyrirtækja og almennings:
  • Byggt upp aðgengilegt og öflugt upplýsingakerfi og lagt áhersla á pappírslaus viðskipti - slíkt hjálpar til við hagræðingu og ávinningurinn berst út í hagkerfið.
  • Numið á brott óþarfa hindranir með því að tryggja jákvæða afstöðu og hraða afgreiðslu fyrirspuna þeirra sem vilja og þurfa að sækja gögn í stjórnkerfið
  • Með því að setja staðla um vinnslu gagna og staðsetningu, skýra ráðstöfunarvald, fjarlægja tæknilegar hindranir og lágmarka hagsmunaárekstra innan stjórnkerfisins.
  • Ákvörðun þarf taka um greiðan og gjaldfrjálsan aðgang almennings og fyrirtækja að grunnupplýsingum. Hins vegar ber að forðast niðurgreiðslu kostnaðar vegna sérhæfðrar upplýsingaþarfar fyrirtækja og einstaklinga.

Til að tryggja að atvinnulífið fái þær upplýsingar sem það þarfnast þurfa fyrirtæki sem sérhæfa sig í upplýsingaveitu að vinna grunnupplýsingarnar frekar. Ríkið skildi síst hindra slíka starfsemi því samkeppnihæfni atvinnulífsins myndi þá minnka. Upplýsingar á réttu formi eru nauðsynlegar framsæknum fyrirtækjum sem eiga í samkeppni.

Við verkið sem framundan er hjálpar að Íslendingar hafa margir mikinn áhugi á að nýta hina nýju tækni og að undirstöðumenntun okkar og tækniþekking er almennt góð. Jafnframt er mikilvægt að ríkisvaldið hafi áhuga og góða yfirsýn
eins og stefnt er að í framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar. Mikilvægast er þó að samstaða og skilningur ríki þegar fyrirtækin eða einstakar stofnanir vilja taka upp bæta aðferðafræði við úrvinnslu gagna og þjónustu.

Best væri ef ríkið færi fremst í flokki við nýtingu upplýsingatækni. Þannig getur það stuðlaði að því að smærri aðilar nýti sér einnig nýja tækni og aðferðafræði. Stjórnvöld geta gefið tóninn um hvernig úrvinnslu gagna skuli háttað og sömuleiðis hvernig samskiptum er best fyrir komið. Minni fyrirtæki munu fylgja á eftir. Hér á ég t.d. við að ríkið fari á undan í að tileinka sér pappírslaus samskipti þar sem slíkt á við. Víst er að mörg framsæknustu fyrirtækin myndu hagnast strax í dag yrði framþróunin ör á þessu sviði

Því má ekki gleyma í þessari umræðu að fyrirtæki á landsbyggðinni munu ekki hvað síst hagnast á nýtingu upplýsingatækni. Það er kappsmál allra Íslendinga að sem flestir, hvar á landi sem þeir búa, geti séð sér og sínum farborða. Það að upplýsingatækni jafnar aðstöðumun er enn ein ástæða þess að við ættum að sækja hratt fram á við. Ég dreg það ekki í efa að slíkt er okkur fært.

Tvennt vil ég leggja áherslu á að lokum. Fyrst er að fjárfestingar ríkisins í upplýsingatækni samfara aukinni útboðsstefnu ríkisins geta skapað mörg ný tækifæri fyrir hugbúnaðarfyrirtæki. Þessi nýju tækifæri geta síðan orðið að útflutningsvörum fyrir Íslendinga. Dæmin sanna að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki eru mjög framsækin og geta sem best starfað á alþjóðlegum markaði. Á næstu dögum hefur störf nefnd, sem ætlað er að athuga stöðu mála hvað varðar útboð hugbúnaðarverkefna ríkisins og hvernig stuðla má að sem flest verkefni á þessu svið verði boðin út. Ég vænti mikils af starfi hennar.

Hitt er að upplýsingatæknin nýtist ekki aðeins fyrirtækjum heldur líka almenningi. Ég hef hér lagt áherslu á fyrirtækin - en framsókn þeirra og útrás mun, ef vel tekst til, skapa hálaunastörf fyrir launþega. Almenningur mun líka hagnast af bættum starfsháttum og aukinni nýtingu upplýsingatækni - bæði til að fylgjast með og taka þátt en ekki síður til fá þá þjónustu sem hann þarfnast frá ríkinu. Það er því til mikils að vinna ef við stöndum saman að framförum - aukinni menntun, endurskipulagningu og nýtingu upplýsingatækni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum