Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. febrúar 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Jafnræði og samkeppni: Viðskiptaþing Verslunarráðs Íslands.




I.
Góðir þinggestir.

Fyrir Viðskiptaþinginu liggja þrjár greinargóðar skýrslur um jafnræði í atvinnulífinu. Það er fengur í þessum skýrslum. Þær lýsa á aðgengilegan hátt að víða í atvinnulífinu er samkeppni skert eða ójafnræði á milli aðila. Oftast liggur stjórnvaldsákvörðun að baki, svo sem einkaleyfi til ákveðinnar starfsemi og vernd gegn samkeppni með ýmis konar höftum og hömlum. Skilaboð Verslunarráðs til stjórnvalda eru skýr: Gerið hina almennu jafnræðisreglu virka á öllum sviðum atvinnulífs. Undir þetta get ég tekið.

Stefna skal að frjálsræði í viðskiptum og koma í veg fyrir mismunun aðila í sömu grein. Spurningin sem lögð er fyrir þingið er hvort ríkisvaldið sé andsnúið jafnræði í atvinnulífinu. Svarið við spurningunni liggur ljóst fyrir: Nei. Ríkisstjórnin hefur sýnt það með orðum og aðgerðum að hún boðar frelsi til athafna. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að gera þurfi ríkisreksturinn einfaldari og skilvirkari og jafna aðstöðumun þar sem ríkið stundar atvinnurekstur í samkeppni við einkaaðila. Áherslan er lögð á að breyta rekstrarformi þeirra ríkisfyrirtækja og stofnana sem eru í slíkri samkeppni. Að þessu hefur verið unnið og mörg mál eru í farvatninu sem bera þessari stefnumótun glöggt vitni. Það má því ljóst vera að ríkisstjórnin stefnir að auknu jafnræði fyrirtækja.

Ísland stefnir hraðbyri í átt til frjálsari markaðshátta. Það eru ekki nema nokkur ár síðan að þeir stimplar sem mest voru notaðir í viðskiptaráðuneytinu voru stimplar samstarfsnefndar um gjaldeyrismál. Annar var rauður en hinn blár. Sá rauði táknaði að gjaldeyrisumsókn hefði verið synjað en hinn blái bar vott um að yfirvöld samþykktu gjaldeyrisviðskiptin. Tímarnir breytast hratt. Við höfum losað okkur að mestu úr viðjum hafta og banna. Í stað þess hafa stjórnvöld kappkostað að setja samkeppnisskapandi leikreglur og skapa eins ákjósanleg rekstrarskilyrði fyrir atvinnulífið og kostur er.

Ég ætla hér ekki að rifja upp hvað gert hefur verið á starfstíma ríkisstjórnarinnar heldur fjalla um það sem fram kemur í skýrslum Verslunarráðsins og snýr að ráðuneytum iðnaðar og viðskipta.


II.
Í skýrslunni um jafnræði á milli opinberra aðila og einkaaðila er lögð áhersla á meiri eftirfylgni af hálfu samkeppnisyfirvalda og gerð tillaga um nýtt ákvæði í samkeppnislög sem bannar hvers kyns aðstoð sem veitt er af opinberu fé og raskar samkeppni.

Hver sú hugmynd sem er til þess fallin að auka svigrúm samkeppnisyfirvalda til að þróa heilbrigða samkeppni er skoðunar verð. Hins vegar er engum blöðum um það að fletta að sú stutta reynsla sem við höfum af samkeppnislögunum er góð. Breyting á samkeppnislögum er ekki á forgangslista viðskiptaráðuneytis en búast má við að til endurskoðunar komi þegar meiri reynsla hefur fengist af þeim.

Samkeppnisyfirvöld gegna lykilhlutverki við að þróa eðlilega og heilbrigða samkeppni í íslensku atvinnulífi. Með samkeppnislögunum var stefnt að því að efla virka samkeppni þar sem hún getur tryggt hag neytenda og atvinnulífsins. Þetta er gert með því að skerpa samkeppnisreglur, auka gagnsæi markaðarins og draga úr opinberum samkeppnishömlum.

Sá mikli fjöldi mála sem samkeppnisyfirvöldum berst sýnir svo ekki verður um villst þörfina á virku samkeppniseftirliti. Þessi mikli fjöldi mála hefur gert það að verkum að Samkeppnisstofnun hefur lítið svigrúm til að rannsaka markaði að eigin frumkvæði. Viðamiklar úttektir hafa þó verið gerðar og aðrar eru í undirbúningi. Æskilegt væri þó að Samkeppnisstofnun hefði meiri tíma til sjálfstæðra athugana.

Á undanförnum árum hafa viðskiptahindranir á milli landa verið á hröðu undanhaldi og í kjölfarið hafa siglt aukin alþjóðaviðskipti. Þessi þróun hefur hrundið af stað umræðu á alþjóðavettvangi um þörfina á því að samræma framkvæmd samkeppnisreglna landa á milli til þess að koma í veg fyrir að fyrirtækjum sé sköpuð mismunandi samkeppnisstaða eftir því hvar þau eru staðsett á hnettinum. Evrópusambandið hefur verið að vinna að gerð tvíhliða samninga við til að mynda Japan og Bandaríkin til þess að tryggja sambærilega túlkun samkeppnisreglna. Reyndar hefur umræðan innan Evrópusambandsins gengið það langt að fyrir liggur tillaga frá Þjóðverjum að setja á fót sérstaka Samkeppnisstofnun Evrópu. Hver sem framvindan verður í þessum málum á alþjóðavettvangi er ljóst að áhrifanna mun gæta hér á landi.


III.
Með tilkomu samkeppnislaga voru skapaðar nauðsynlegar forsendur til að jafna samkeppnisaðstæður einkareksturs og opinbers reksturs. Eins og kunnugt er taka samkeppnislög til hverskonar starfsemi án tillits til þess hvort hún er rekin af hinu opinbera, einstaklingum, félögum eða öðrum. Hlutverk samkeppnisyfirvalda er því ekki síst að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni, benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra aðila að markaði.

Þetta hlutverk samkeppnisyfirvalda er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að þátttaka hins opinbera í atvinnurekstri hér á landi er allmikil. Í skýrslu Samkeppnisráðs um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi, sem út kom í desember 1994, kemur fram að velta opinberra- og hálfopinberra fyrirtækja hafi numið tæplega 30% af heildarveltu atvinnufyrirtækja á árinu 1993. Miklir hagsmunir eru því í húfi að samkeppni opinbers reksturs og einkareksturs sé á jafnræðisgrundvelli.

Okkur er öllum vafalítið kunnar ásakanir forsvarsmanna einkarekinna fyrirtækja um ójafna samkeppnisaðstöðu þeirra í glímunni við ríkisreksturinn. Bent hefur verið á að opinber rekstur njóti í ýmsu eiganda síns, þ.e. að samkeppnisrekstur hins opinbera njóti góðs af því að vera rekinn af ríki og sveitarfélögum. Í því sambandi hefur m.a. verið minnst á skattfrelsi opinbers reksturs og því haldið fram að fé úr ríkissjóði hafi verið notað til að styrkja samkeppnisrekstur opinberra fyrirtækja. Einnig, að opinber fyrirtæki njóti ótakmarkaðrar ábyrgðar ríkissjóðs, hagstæðra lánskjara og að yfirleitt séu gerðar litlar arðsemiskröfur til þeirra.

Rekstrarlegt jafnræði milli hins opinbera og einkamarkaðar er mér nokkuð kappsmál, ekki eingöngu vegna þess að samkeppnismál eru veigamikill málaflokkur í ráðuneytum mínum, heldur einnig vegna þess að þar undir heyra stofnanir sem legið hafa undir ámæli fyrir að stunda ójafna samkeppni. Vissulega á þetta þó aðeins við um hluta af blandaðri starfsemi þeirra.

Samkvæmt samkeppnislögum er Samkeppnisráði heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað þess hluta sem nýtur einkaleyfis eða verndar og þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra. Jafnframt skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi. Óljóst hefur verið á hvern hátt skilja eigi hugtakið "fjárhagslegur aðskilnaður" og hefur það því komið í hlut samkeppnisyfirvalda að túlka hugtakið nánar.

Það er von mín að fljótlega verði leiðbeinandi reglur fyrir ríkisfyrirtæki og stofnanir um fjárhagslegan aðskilnað fullmótaðar, eins og unnið hefur verið að í fjármálaráðuneytinu, svo unnt verði að beita markvissum aðgerðum til að tryggja jafnræði á þeim sviðum sem opinber rekstur á í samkeppni við einkarekstur.

Í nýsettri reglugerð um Orkustofnun er kveðið á um fjárhagslega aðgreiningu og fjárhagslegan aðskilnað eins og við á um rekstur þeirrar stofnunar. Mun ég á sama hátt beita mér fyrir því, að eins verði um rekstur annarra stofnana sem undir ráðuneyti mín falla.


IV.
Í skýrslu Verslunarráðs um jafnræði í atvinnulífinu eru tilgreind nokkur dæmi um atvinnugreinar sem enn eru nánast lokaðar fyrir samkeppni og um aðrar þar sem ríkið hefur tögl og hagldir. Ég hef á undanförnum misserum undirbúið breytingar á tveimur mjög mikilvægum sviðum, þ.e. á raforkumarkaði og fjármagnsmarkaði.

Ég mun á næstunni leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu um framtíðarskipan raforkumála. Ég legg megináherslu á að breyta skipulagi raforkumála þannig að skilið verði á milli vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu raforku. Í kjölfarið komi svo samkeppni í vinnslu og sölu raforku.

Skemmst er frá því að segja að skipan raforkumála hefur víða um lönd tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Breytingarnar eru undantekningalítið sama eðlis en taka þó mið af aðstæðum á hverjum stað. Meginefni þeirra felst í því að skilja í sundur náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Þannig hefur verið lagður grunnur að markaðsbúskap í raforkukerfi margra landa.

Hefðbundin viðhorf til raforkumála hafa því verið að breytast. Hér áður fyrr var það viðtekin skoðun að hið opinbera hefði óhjákvæmilega lykilhlutverki að gegna á öllum sviðum raforkukerfisins vegna þess að markaðslausnir ættu þar ekki við, meðal annars vegna einkaréttar í starfsemi af þessu tagi. Á síðustu árum hafa hins vegar verið þróaðar aðferðir þar sem markaðsöflin hafa verið hreyfiaflið á mikilvægum sviðum, einkum í vinnslu og sölu raforku. Þessar aðferðir hafa í aðalatriðum reynst vel og er það nú skoðun flestra að samkeppnisumhverfi skili að jafnaði meiri árangri í vinnslu og sölu en hefðbundið einkaréttarumhverfi.

Þessi nýju sjónarmið er sjálfsagt að færa sér í nyt á Íslandi þótt hér eins og annars staðar þurfi jafnframt að taka mið af aðstæðum. Þetta verður best gert með því að endurskipuleggja raforkubúskapinn á núverandi grunni með markaðssjónarmið að leiðarljósi í vinnslu og sölu raforku. Aðskilnaður vinnslu, flutnings, dreifingar og sölu er þar höfuðatriði ásamt því að gefa vinnslu raforku og sölu frjálsa í áföngum.


V.
Í skýrslu Verslunarráðs er vikið að því að atvinnugreinar sitji ekki við sama borð þegar um aðgang að fjármagni er að ræða. Eitt brýnasta verkefnið í viðskiptaráðuneytinu þetta kjörtímabil eru gagngerar endurbætur á fjármagnsmarkaði. Tvö mál ber þar hæst, hlutafélagavæðing ríkisbankanna og einföldun sjóðakerfisins, sem jafnframt þarf að fela í sér bætta þjónustu í áhættufjármögnun fyrirtækja. Samanburður á okkar fjármagnsmarkaði og mörkuðum þeirra landa, sem við eigum í mestri samkeppni við, sýnir að við eigum langt í land á þessu sviði. Vextir hjá okkur eru hærri en víðast hvar, kostnaður við bankaþjónustu sömuleiðis, ríkið er hér ótrúlega umfangsmikið á fjármagnsmarkaði en er þó ekki að sinna sem skyldi, þeim þáttum hans sem eðlilegast væri. Með hlutafélagavæðinu ríkisviðskiptabankanna er jöfnuð samkeppnisstaða bankastofnanna hér innanlands, auk þess sem íslenska bankakerfið verður þá betur undir það búið að mæta erlendri samkeppni í náinni framtíð. Breytingin getur jafnframt haft í för með sér hagstæðari k
jör fyrir viðskiptamenn, með aukinni samkeppni.

Nú er unnið að sameiningu Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Fiskveiðasjóðs og verður þá loks hrundið í framkvæmd þeirri áætlun margra undangenginna ríkisstjórna, að einfalda sjóðakerfið og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem reistar hafa verið milli atvinnugreina. Með sameiningunni er verið að fækka sjóðum. Til verður einn sterkur fjárfestingarbanki atvinnulífsins, sem verður opinn öllum atvinnugreinum. Bankinn verður hlutafélag og er stefnt að því að ríkið hefji mjög fljótt sölu hlutabréfa í honum. Þannig er því ekki verið að stofna til nýs ríkisbanka eins og sumir hafa viljað halda fram, heldur að fækka opinberum fjárfestingarlánasjóðum. Eiginfjárstaða bankans verður svo sterk að stærstu íslensk fyrirtæki eiga ekki að þurfa að leita út fyrir landsteinana til fjármögnunar stærri verkefna, eins og þau neyðast til í dag. Að auki mun styrkur bankans tryggja honum hagstæð lánakjör á erlendum mörkuðum sem ætti að koma fram í lægri vöxtum, íslensku atvinnulífi til hagsbóta.

Um leið og fjárfestingarbankinn verður til verður settur á fót nýsköpunarsjóður sem jafnframt verður opinn öllum atvinnugreinum. Með honum verður bætt úr brýnni þörf atvinnulífsins á áhættufjármagni sem gerir ráð fyrir veði í hugmyndum og/eða framleiðslu fremur en steinsteypu og/eða framleiðslutækjum. Þegar fjármagnsmarkaðurinn hér er borinn saman við markaði nágrannalanda okkar kemur fljótt í ljós að víðast er ríkið umsvifalítið á almennum fjármagnsmarkaði en hefur hins vegar ríkum skyldum að gegna í áhættufjármögnun og kapp er lagt á að uppfylla þær þarfir. Hér hefur þessu verið öfugt farið, ríkið hefur verið umsvifamikið í almennri fjármálaþjónustu en látið sig alltof litlu varða áhættufjármögnun. Nú er stefnt að breytingum þar á.


VI.
Góðir þinggestir.

Ég vil að endingu þakka Verslunarráðinu fyrir ágætt samstarf á undanförnum misserum og vonast til að þar verði framhald á. Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum