Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. febrúar 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Formáli í blað um Framadaga



Með Framadögum, atvinnulífsdögum Háskóla Íslands, er þess freistað að tengja skólann íslensku atvinnulífi sterkari böndum. Hér gefst fyrirtækjum kostur á að kynna starfsemi sína og Háskólinn og nemendur hans tefla fram sínu besta. Þetta framtak er lofsvert og er vonandi að framhald verði þar á.

Brýna nauðsyn ber til að atvinnulíf og skólakerfið tengist sterkum böndum. Hagvöxtur framtíðarinnar byggist einkum á menntun, þekkingu og rannsókna- og þróunarstarfi. Sá auður sem í fólkinu býr skiptir sköpum í harðnandi samkeppni. Geysilegur kraftur í hagkerfum margra auðlindasnauðra þjóða á undanförnum áratugum samhliða hnignun þjóða, sem búa yfir gjöfulum auðlindum, sýnir þetta best. Því þarf að hlúa vel að helstu auðlind okkar, fólkinu í landinu. Við þurfum velmenntað fólk sem hefur kjark og dug til að skara fram úr og koma með nýjar hugmyndir.

Efnahagsaðstæður eru okkur Íslendingum hagstæðar um þessar mundir. Hagvöxtur er meiri hér en víðast hvar í nálægum löndum en verðbólga svipuð. Kaupmáttur hefur verið að aukast og á þessu ári verður ríkissjóður rekinn án halla í fyrsta sinn í langan tíma. Atvinnulausum hefur fækkað og störfum fjölgað. Við megum þó hvergi slaka á klónni, enda tækifæri til ýmissa búháttabreytinga í íslensku efnahagslífi.

Við Íslendingar verðum að gera okkur grein fyrir því að auðlindir hafsins eru ekki lengur ávísun á vaxandi velmegun. Stefna stjórnvalda verður að taka mið af þessu. Ég hef í tíð minni sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt megináherslu á atvinnu- og verðmætasköpun með því að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu. Atvinnulífið þarf ekki hvað síst að byggjast á vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja, enda eru þau hvarvetna burðarásar hagvaxtar. Við stefnum í rétta átt. Nýskráðum fyrirtækjum fjölgaði um 18% á síðasta ári og áætlanir benda til að störfum hafi fjölgað um þrjú þúsund. Allt bendir til að störfum fjölgi meira fram til aldamóta en Framsóknarflokkurinn boðaði í síðustu kosningum.

Mikil umræða hefur verið um stóriðju að undanförnu, ekki síst vegna áforma um byggingu álvers á Grundartanga. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að draga til okkar stóriðju eins og samræmst getur skynsamlegri orkunýtingu og markmiðum í umhverfismálum. Við getum hins vegar ekki treyst því að stóriðja verði lykill að atvinnuuppbyggingu næstu áratuga. Stóriðja verður fyrst og fremst hliðargrein sem styður meginmarkmiðin. Með aukinni stóriðju skjótum við fleiri rótum undir útflutningsatvinnuvegi landsins, en síðustu ár hafa sjávarafurðir staðið undir rúmlega helmingi gjaldeyristekna. Aukin fjölbreytni mun væntanlega leiða til betra lánshæfismats Íslands á erlendum mörkuðum. Ekki má heldur gleyma að nýrri stóriðju fylgir ný tækni en einn af helstu kostum erlendrar fjárfestingar er einmitt innflutningur nýrrar tækni. Ekki má heldur gleyma því að reynsla okkar Íslendinga af stóriðju er góð og launakjör óvíða betri en þar.

Framadagar eru vel til þess fallnir að styrkja tengsl atvinnulífs og Háskólans, miðla þekkingu og upplýsingum og koma á mikilsverðum samböndum til framtíðar. Megi þetta samstarf verða aðstandendum þess til heilla.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum