Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. mars 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Framsöguræða vegna frumvarps til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.


Herra forseti.
Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga á þingskjali nr. 704, sem er 407. mál þingsins, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

I.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er lögð áhersla á að stuðla að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um allt land, tryggja stöðug og góð rekstrarskilyrði útflutningsgreina og stuðla að nýsköpun og sókn í vöruþróun og markaðssetningu.

Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að tryggja atvinnulífinu aðgang að fjármagni til nýsköpunar og þróunar.

Eins og áður hefur komið fram ákváðu forsætisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra í upphafi kjörtímabilsins að fela ráðuneytisstjórum þessara ráðuneyta að vinna að endurskoðun á núverandi sjóðakerfi að því er varðar starfsemi Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Höfðu þeir náið samráð við forsvarsmenn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði. Frumvarp til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., sem ég hef þegar lagt fram og mælt fyrir, og frumvarp það er ég mæli nú fyrir er afrakstur þessarar vinnu.

II.
Þrátt fyrir mikla þátttöku ríkisins á íslenskum fjármagnsmarkaði er almennt viðurkennt að mikið skorti á að nægileg aðstoð til nýsköpunar og þróunar sé fyrir hendi.

Þátttaka ríkisins í hinum hefðbundnu greinum fjármálastarfsemi er rótgróin. Hefðin er rík og þrátt fyrir að miklar breytingar hafi átt sér stað á fjármagnsmarkaði á síðustu árum, þar sem einkaaðilar hafa rutt sér til rúms, hefur ríkið lítið dregið úr starfsemi sinni á þessum sviðum.

Reynslu okkar sjálfra og erlendum samanburðarkönnunum ber saman um að aðstoð við nýsköpun, þróun og alþjóðavæðingu er ábótavant hér á landi. Með alþjóðavæðingu er átt við fjárfestingu íslenskra aðila erlendis og aukna fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Þetta eru hin áhættusamari svið fjármálaþjónustu og því er einkaaðilum síður kleift að bjóða upp á slíka þjónustu. Því er nauðsynlegt að ríkið tryggi að slík þjónusta sé fyrir hendi, svo atvinnulíf geti vaxið og dafnað á sem árangursríkastan hátt. Margt bendir til að skortur á þessu eigi veigamikinn þátt í því að Ísland hefur ekki komist í fremstu röð þegar litið er til alþjóðlegrar samkeppnisstöðu.

Það er því mat ríkisstjórnarinnar að framtíðarhlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði, auk hins opinbera tilsjónarvalds, verði fyrst og fremst að tryggja að fyrir hendi sé fjárfestingarþjónusta eins og verkefnafjármögnun og bein áhættufjármögnun. Meðal annars þess vegna þarf einnig að aðgreina áhættufjármögnun frá hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi.

III.
Með frumvarpi þessu er lagt til að stofnaður verði Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Er honum ætlað að starfa sem sjálfstæð ríkisstofnun samkvæmt sérstökum lögum. Hlutverk hans verði að stuðla að arðbærri uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar með áhættufjármagni og að styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði lagt til stofnfé af sameiginlegu eigin fé Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Útflutningslánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs. Samhliða þessu frumvarpi er, eins og áður hefur komið fram, lagt fram frumvarp til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. sem reistur verður á grunni fyrrgreindra sjóða.

Auk þessa er Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins ætlað að taka við starfsemi tryggingardeildar útflutningslána við Iðnlánasjóð og tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð.

IV.
Ætla má að hinn nýji sjóður muni að nokkru leyti byggja á þeirri reynslu sem fengist hefur af starfsemi Iðnþróunarsjóðs sl. 2 ár og af starfsemi Vöruþróunar- og markaðsdeildar Iðnlánasjóðs.

Með tilliti til þess má ætla að starfssvið Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði þríþætt: þátttaka í arðvænlegum fjárfestingarverkefnum með íslenskum eða erlendum fyrirtækjum, stuðningur við forathuganir, vöruþróunar- og kynningarverkefni, og starfræksla tryggingardeildar útflutningslána.

Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er ætlað að starfa fyrst og fremst sem áhættufjármagnssjóður. Í því felst að hann leggur fram fjármagn í formi hlutafjár eða lána með sambærilegum kjörum og hlutafé hvað varðar áhættu og arðsemisvon. Áhættufjármagn er gjarnan flokkað eftir því í hvaða tilgangi eða á hvaða stigi það er lagt fram. Af eðlilegum ástæðum er áhættan meiri á fyrri þrepum þróunar, enda er ekki gert ráð fyrir því að framlög til slíkra verkefna séu endurgreidd nema í undantekningartilvikum. Ljóst er að starfandi áhættufjármagnsfélög hafa tilhneigingu til að sinna áhættuminni verkefnum. Samkvæmt upplýsingum frá European Venture Capital Association má flokka áhættufjármögnun vegna nýsköpunar í nokkra flokka.

Í fyrsta lagi má nefna svokallað þróunarfjármagn eða hugmyndafé, en með því er átt við fjármagn til rannsókna og þróunar á vöru eða viðskiptahugmynd. Fjármagn á þessu stigi fer aðallega í gerð frumáætlana, fyrstu tilraunir við vöruþróun og forkönnun markaða.

Í öðru lagi má nefna byrjunarfjármagn eða upphafsfé sem tekur við af þróunarfjármagni, t.d. til að fullgera frumeintak vöru og til að hefja markaðsstarfsemi.

Í þriðja lagi má nefna fjármagn til vaxtar eða vaxtarfé en það er fjármagn til að útvíkka starfsemi að aflokinni þróun og öflun markaða.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins í fjárfestingarverkefnum mun aðallega falla að þriðja flokknum, þ.e. fjármögnun vaxtar. Einnig er sjóðnum ætlað að styðja við vöruþróunar- og kynningarverkefni, svo og forathuganir og hagkvæmniathuganir, en það fellur nær því sem nefnt er þróunarfjármagn eða byrjunarfjármagn.

V.
Mikilvægt starfssvið Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verður þátttaka í fjárfestingarverkefnum sem hafa það markmið að auka alþjóðavæðingu íslensks atvinnulífs, annars vegar með fjárfestingu íslenskra aðila erlendis og hins vegar með aukinni fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Vöxtur íslensks atvinnulífs í framtíðinni mun ráðast af því hvort hér nær að dafna atvinnustarfsemi, sem stenst samkeppni á alþjóðamarkaði og nær að auka hlutdeild sína í vaxandi alþjóðlegum viðskiptum. Til þess að svo megi verða þurfa íslensk fyrirtæki að taka í auknum mæli þátt í alþjóðlegum atvinnurekstri.

VI.
Sjóðnum er ætlað að vera virkur þátttakandi í verkefnum og skapa þannig fjárhagslegan aga og styrk fyrir atvinnufyrirtæki. Eðli málsins samkvæmt mun hann oft ekki geta gengið að tryggingum öðrum en þeim sem liggja í verkefnunum sjálfum. Af því leiðir að tengsl sjóðsins við verkefnið verða náin og eftirlit og agi því mikilvægur þáttur í starfsemi hans. Þá mun sjóðnum verða heimilt að nýta afl atkvæða sinna í samræmi við hlutafjáreign og leiðir það til þess sama. Nýsköpunarsjóði er því í stuttu máli ætlað að vera traustur bakhjarl þeirra sem ráðast í áhættusöm verkefni.

VII.
Með hliðsjón af ákvæðum 61.-64. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, og ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um málsmeðferð og efni reglna á sviði ríkisaðstoðar frá 19. janúar 1994 er ljóst að tilkynna verður til stofnunarinnar þá aðstoð við atvinnulífið sem felst í starfsemi Nýsköpunarsjóðs. Eins og áður segir mun stjórn sjóðsins móta sér starfsreglur og mun við gerð þeirra höfð hliðsjón af reglum EES. Slíkar starfsreglur, staðfestar af ráðherra, eða eftir atvikum reglugerð ráðherra, munu síðan tilkynntar Eftirlitsstofnun EFTA.

VIII.
Gert er ráð fyrir að Nýsköpunarsjóði verði lagðar til 4.000 millj. kr. Þar af munu honum lagðar til 3.000 millj. kr., annars vegar í formi markaðshæfra hlutabréfa, og hins vegar í formi skuldabréfs, sem útgefið verður af Fjárfestingabanka atvinnulífsins h.f. Auk þess mun ríkissjóður leggja sjóðnum til 1.000 millj. kr. af söluandvirði hlutafjár í fjárfestingabankanum. Þá verða eignir Vöruþróunar- og markaðsdeildar vistaðar í sérstakri deild í tiltekinn tíma og ráðstafað til sérstakra verkefna. Samkomulag varð um þá tilhögun í ljósi þess að starfsemi deildarinnar er fjármögnuð með iðnlánasjóðsgjaldi sem innheimt er af iðnaðinum í landinu.

IX.
Gert er ráð fyrir að sjóðnum verði óheimilt að skerða stofnfé sitt, og eðlilegt er að gera ráð fyrir að raunávöxtun hans til lengri tíma verði nokkur. Af þessum sökum mun ráðstöfunarfé sjóðsins á hverjum tíma ráðast af raunávöxtun stofnfjár. Í því sambandi skiptir tvennt miklu máli: árangur fjárfestingarverkefna (þ..e arðsemi, afskriftir og töp) og fjárhæð framlaga til stuðningsverkefna, sem ekki er reiknað með að endurgreiðist. Til þess að hindra að gengið verði á eigið fé er nauðsynlegt að fjárhagsuppgjör sjóðsins sýni ætíð raunhæft mat á þeirri áhættu sem tengist fjárfestingarverkefnum.

X.
Lagt er til að hagsmunasamtökum í sjávarútvegi og iðnaði verði tryggð áhrif við stjórnun Nýsköpunarsjóðs. Þannig eigi samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði, ásamt Alþýðusambandi Íslands, þrjá fulltrúa í fimm manna stjórn Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, auk tveggja fulltrúa ríkisins sem tilnefndir verði af iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra. Ástæður þessa eru hinar sömu og varða þátttöku samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og iðnaði í meðferð atkvæða ríkisjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

XI.
Í frumvarpinu er lagt til að Nýsköpunarsjóður taki við starfsemi tryggingardeildar útflutningslána hjá Iðnlánasjóði, skv. lögum nr. 76/1987 um Iðnlánasjóð, og tryggingardeildar útflutningslána við Ríkisábyrgðasjóð, skv. lögum nr. 60/1970. Eðlilegt þykir að starfsemi þessara deilda verði á einum stað. Tryggingardeild útflutningslána við Ríkisábyrgðarsjóð hefur dregið úr starfsemi sinni og hefur nú aðeins eitt verkefni á sinni könnu.

Sókn á nýja erlenda markaði er oft það áhættusöm, að einkaaðilar eru ekki í stakk búnir til þess að veita útflytjanda tryggingar gegn greiðslufalli erlends kaupanda. Þess vegna er ríkistryggð útflutningstryggingastarfsemi talin nauðsynleg forsenda þess að útflutningur aukist.

Ætla má að nauðsynlegt verði að endurskoða ákvæði þessa kafla á næstu árum með hliðsjón af þróun í nágrannalöndunum og reynslu af starfseminni.

XII.
Skýrt er kveðið á um að ríkissjóður beri ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, nema hvað varðar skuldbindingar tryggingardeildar útflutningslána.

XIII.
Gert er ráð fyrir að starfsmenn Fiskveiðasjóðs, Iðnlánasjóðs og Iðnþróunarsjóðs eigi rétt á starfi hjá Nýsköpunarsjóðnum, hafi þeim ekki verið boðið starf hjá

Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. Ákvæði þetta er sambærilegt 10. gr. frumvarps til laga um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

XIV.
Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins er ætlað að taka til starfa eigi 12. janúar 1998, eða á sama tíma og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Hins vegar er gert ráð fyrir að stjórn Nýsköpunarsjóðs verði skipuð a.m.k. hálfu ári áður en sjóðurinn tekur til starfa. Hlutverk hennar á þeim tíma verður að undirbúa starfsemi sjóðsins.

Herra forseti,
Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og að það verði afgreitt á þessu þingi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum