Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ársfundi Samorku




Ágætu ársfundargestir
I.

Það hefur lengi verið lenska hér á landi að margt sé rætt og ritað um sambúð okkar mannanna við náttúru landsins. Sú umræða hefur jafnan verið nauðsynleg til að halda vöku okkar um sameiginleg hagsmunamál þjóðarinnar og til þess að við gætum öll náð sameiginlega sátt um umgengni okkar við bæði landið og hafið umhverfis það og um nýtingu auðlinda láðs og lagar.

Lykill að farsælum lyktum slíkrar umræðu er, að hún sé málefnaleg og að litið sé á umfjöllunarefnið á heildstæðan hátt út frá raunhæfum heildarhagsmunum þjóðarinnar allrar. Því miður er því oft á annan veg farið. Af alkunnri sóknarfestu okkar Íslendinga vill það henda, að mönnum rennur slíkt kapp í kinn að úr verður málflutningur sem einkennst öðru fremur af órökstuddum gífuryrðum. Slíkur áróður, þar sem fyrst og fremst er reynt er að höfða til tilfinninga fólks en ekki til skynsemi þess, er engum til sóma en öllum til tjóns.

Sú umfjöllun sem átt hefur sér stað upp á síðkastið um nýtingu orkulindanna og uppbyggingu iðnaðar í landinu hefur því miður einkennst allt of mikið af þröngri sýn á þau mál. Ástæða þess kann að vera sú að umfjöllunarefnið er margbreytilegra og flóknara en mörg fyrri deilumál, sem þjóðin hefur látið sig varða, eins og t.d. líflegar deilur seinustu ára um kosti og galla lúpínunnar frá Alaska.

Umræðan um orku- og stóriðjumál snertir mörg svið og ólíka hagsmuni. Þar er m.a. tekist á um nýtingu orkulindanna, umhverfismál, landbúnað, ferðaþjónustu og síðast en ekki síst um efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Það gefur auga leið að þegar svo margþætt mál er til skoðunar hljóta sjónarmið einhverstaðar að stangast á. Slíkt er eðlilegt, en umfjöllun sem einvörðungu snýst um afmarkaða viðnámspunkta lýsir engu öðru en þröngsýni eða baráttu fyrir afmörkuðum sérhagsmunum, sem er engu betra.

II.


Umræðuefni þessa fundar er orku- og ferðamál. Það fyrsta sem skaut upp í huga mér þegar ég sá yfirskrift þessa var, að þrátt fyrir yfirlýsingar ýmissa um hið gagnstæða, er það fullvissa mín, - að hagnýting orku fallvatnanna og jarðhitans er fyllilega samrýmanleg hagsmunum ferðaþjónustunnar.

Augljósasta dæmið um þetta er hin farsæla sambúð ferðaþjónustunnar við orkuverið í Svartsengi. Þar hefur ferðaþjónustunni tekist að nýta sér frárennslisvatn virkjunarinnar í "Bláa lóninu" og skapað einn eftirsóttasta ferðamannastað hér suðvestanlands. Staðurinn er ekki hvað síst eftirsóknarverður vegna þeirra dulúðar sem gufur orkuversins skapa - í hinni hrópandi andstöðum úfins hraunsins og skínandi áferðar orkuversins sjálfs.

Þrátt fyrir sérkenni sín er orkuverið í Svartsengi ekki einstakt í því að vekja áhuga fólks. Mér er sagt, að virkjanir og iðjuver séu almennt eftirsóknarverðir ferðamannastaðir. Þetta kann að hljóma einkennilega í ljósi þeirrar neikvæðu umræðu sem svo mjög hefur borið á, - þar sem andstæðurnar eru málaðar hvað sterkustum litum. Sé þetta rétt, sem ég efa ekki, ætti að vera unnt að ná fram enn meiri ávinningi fyrir ferðaþjónustuna ef að skipulagningu orku- og iðnaðarmannvirkja væri unnið út frá þeim fyrirfram mótaða ásetningi, að gagnkvæmur ávinningur allra verði sem mestur.

Með þessum orðum vil ég draga fram það sjónarmið að umræðan má ekki stöðugt snúast um það viðhorf sem felst í orðunum ANNAÐ HVORT - EÐA, heldur ætti hún fremur að taka mið af þeim heildarhagsmunum sem felast í orðumum BÆÐI - OG. - Þannig ætti nýting auðlinda landsins, hverju nafni sem nefnist, ætíð að hafa að meginmarkmiði að gæta bæði að raunhæfri náttúruvernd og skynsamlegri nýtingu auðlindanna.

III.

Um það deila fáir, að orku- og stóriðjuframkvæmdir eru fýsilegir og góðir kostir fyrir efnahagslegt sjálfstæði okkar. Þær raddir sem á sínum tíma voru andvígar álverinu í Straumsvík eru löngu þagnaðar og almenn samstaða er um áframhaldandi uppbyggingu þar.

Álverið hefur ætíð verið eftirsóknarverður vinnustaður. Um það vitnar langur starfsaldur starfsmanna fyrirtækisins og gífurleg eftirspurn eftir nýjum störfum sem til verða vegna stækkunar verksmiðjunnar. Ástæður þess eru vafalítið þær, að í álverinu eru greidd hærri laun en almennt gerist á vinnumarkaði og að þar eru aðbúnaður og öryggismál starfsmanna með því besta sem finnst í fyrirtækjarekstri.

Framtíð þjóðarinnar byggir á því að við getum á farsælan hátt styrkt stoðir efnahagslífs okkar. Nýting orkulindanna er ótvírætt hluti af þeirri viðleitni, en einskorðast að sjálfsögðu ekki við einhliða uppbyggingu orkufreks iðnaðar, án skírskotunar til annars. Ferðaþjónustan hefur og mun án efa áfram gegna þar veigamiklu hlutverki ásamt fleiri atvinnugreinum.

Fullyrða má, að aukin nýting orkulindanna og efling ferðaþjónustu eru samrýmanleg markmið. Þannig hafa orkuframkvæmdir á sinn hátt stuðlað að ýmisskonar framförum í ferðamannaiðnaði, þótt það hafi sennilega verið ómeðvitað á sínum tíma. Ég hef hér á undan minnst á orkuverið í Svartsengi og "Bláa lónið" til vitnis um þetta. Ekki má heldur gleyma því að virkjunarrannsóknir og virkjunarframkvæmdir hafa orðið til þess að opna hálendið fyrir umferð ferðamanna og stórbætt aðgengi alls þorra manna til þess að njóta þeirrar undraveraldrar sem þar er að finna. Í þessu sambandi má m.a. velta því fyrir sér hvort enn væri komin brú á Tungnaá við Sigöldu ef ekki hefði komið til virkjunarrannsókna þar á árunum fyrir 1970.

Fegurð landsins er einstök og sérkenni þess verður okkur að auðnast að varðveita fyrir komandi kynslóðir. Hornsteinn þess er raunhæf náttúruvernd sem byggir á skynsamlegri nýtingu náttúruauðlindanna. Þar þarf að vera rými fyrir eðlilega landnýtingu vegna - landbúnaðar, -ferðaþjónustu, - orkuvinnslu og -annarar atvinnustarfsemi, sem hver á sinn hátt taka vissulega toll af landinu. Náttúruverndarstefna sem felst í því að ekkert megi gera til að byggja upp innviði samfélagsins leiðir aðeins til stöðnunar. Hún hefur enga þá verðleika sem komandi kynslóðir munu þakka okkur og hún leiðir ekki til markvissrar náttúruverndar. Sameiginlegt takmark okkar hlýtur að felast í því að efla efnahagslega afkomu þjóðarinnar. Ávinningur þess er margbreytilegur, m.a. er það ein helsta forsenda þess að okkur takist að ná raunverulegum árangri í umhverfismálum.

IV.

Þótt það heyri ekki undir yfirskrift þessa ársfundar get ég ekki skilið við ykkur án þess að minnast í fáeinum orðum á rafmagnsöryggismál.

Mér er í fesku minni, að stuttu eftir að ég varð iðnaðar- og viskiptaráðherra átti ég fund með stjórn SÍR þar sem reifuð voru helstu áherslumál hennar í raforkumálum. Þar bar tvennt hæst. Annars vegar var það endurskoðun á fyrirkomulagi framleiðslu, flutnings og dreifingar rafmagns og hins vegar rafmagnsöryggismál. Þótt ekki sé langt um liðið, frá þessum fundi með stjórn SÍR, hef ég þegar markað stefnu fyrir báða þessa málaflokka og er nýskipan rafmagnsöryggismála komin til framkvæmda með nýsettum lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga og með lögum um Löggildingarstofu sem tekur við fyrra hlutverki Rafmagnseftirlits ríkisins og Löggildingarstofunnar.

Mikil óvissa hafði ríkt um rafmagnsöryggismál um nokkurt skeið og var orðið brýnt að leysa úr þeim vanda. Það er von mín að með framkominni nýskipan rafmangsöryggismála hafi það tekist, m.a. með því að skapa málaflokknum nauðsynlega festu og skilvirkt verklag. Endurskoðun rafmangnsöryggismála er þó ekki þar með lokið í eitt skipti fyrir öll. Um er að ræða viðvarandi verkefni þar sem stöðugt þarf að taka tillit til nýrra viðmiða neytenda og stöðugra tækniframfara. Því þurfa bæði rafveitur og stjórnvöld að halda vöku sinni um málaflokkinn og er það von mín að með starfsmönnum Löggildingarstofu og ykkur Samorku- félögum takist farsælt og viðvarandi samstarf um framgang sameiginlegra hagsmuna okkar í rafmagnsöryggismálum.

Góðir ársfundargestir, ég þakka ykkur áheyrnina og óska ykkur farsældar í störfum ykkar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum