Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. apríl 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ársfundi Sementsverksmiðjunnar



I.
Ágætu aðalfundargestir.
Mér er það mikil ánægja að ávarpa aðalfund Sementsverksmiðjunnar. Engum blöðum er um það að fletta að Sementsverksmiðjan hefur í hartnær fjörutíu ár átt drjúgan þátt í að efla og auka mannvirkjagerð hérlendis og hefur auk þess verið atvinnulífi á Akranesi mikil lyftistöng.

Rekstrartekjur Sementsverksmiðjunnar hækkuðu um nær 20% á síðasta ári í samanburði við 1995. Sementssala tók við sér á síðasta ári eftir að hafa minnkað ár frá ári frá 1988. Sementssala var minni árið 1995 en hún hafði verið frá byrjun sjöunda áratugarins. Aukin sementsala í fyrra á rót sína að rekja til aukinna byggingarframkvæmda, stækkun álversins í Straumsvík og jarðgangna við Hvalfjörð. Bættur hagur þjóðarinnar gerir það að verkum að vel horfir til með sementssölu næstu misserin.

Þrátt fyrir auknar tekjur varð hagnaður verksmiðjunnar af reglulegri starfsemi minni en árið áður því rekstrargjöld jukust um 25% á milli áranna 1995 og 1996. Fjárhagsstaða verksmiðjunnar er engu að síður góð og hefur batnað verulega á undanförnum árum. Handbært fé frá rekstri nam 66 milljónum og var það að mestu nýtt til að greiða niður langtímaskuldir. Langtímaskuldir hafa lækkað verulega síðustu árin og ef svo fer fram sem horfir verða þær að mestu uppgreiddar um aldamótin.

Það er sérstaklega athyglisvert hve vel stjórnendum Sementsverksmiðjunnar hafa náð að laga verksmiðjuna vel að minnkandi sölu. Þannig var sementssala um 130 þúsund tonn og starfsmannafjöldi um 180 í byrjun níunda áratugarins. Árið 1995 var sementssala komin niður í 76 þúsund tonn og starfsmönnum hafði fækkað um helming.

II.
Iðnaðarráðuneytið hefur hingað til ekki sett stjórn Sementsverksmiðjunnar skýr arðsemismarkmið til að starfa eftir. Kemur það til af því að fjárhagsstaða verksmiðjunnar hefur lengstum verið erfið. Oft á tíðum reyndist erfitt að fá stjórnvöld til að samþykkja verðhækkun og hefur sementsverð langt í frá haldið í við byggingarvísitölu. Nú hefur fjárhagsstaða verksmiðjunnar hins vegar styrkst og er hún nú betur í stakk búinn en nokkru sinni að greiða arð í ríkissjóð.

Að undanförnu hefur iðnaðarráðuneytið kannað hvaða leiðir séu best til þess fallnar að setja verksmiðjunni markmið um arðsemi og arðgreiðslur. Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að ríkið geri 7,5% arðsemiskröfu til matsvirðis eignarinnar, eða um 2% álag ofan á traustustu skuldabréfavexti. Ég tel ekki að áhætta ríkisins af eign sinni í Sementsverksmiðjunni réttlæti hærri arðsemiskröfu.

Í þessu felst að stjórn verksmiðjunnar skal hafa 7,5% arðsemi að leiðarljósi við stefnumörkun fyrir verksmiðjuna. Ef tekið er mið af skýrslu verðbréfafyrirtækisins Fjárvangs um virðismat á Sementsverksmiðjunni þá ætti sú arðsemiskrafa ein og sér ekki að leiða til hækkunar á sementsverði. Miðað við verðmat Fjárvangs frá síðastliðnu hausti væri krafan um arðsemi upp á rúmlega 50 m.kr.

Fyrir Sementsverksmiðjuna skiptir meira máli hve mikið fé eigandinn hyggst taka út úr fyrirtækinu í arð af eign sinni. Ég tel að eðlileg arðgreiðslukrafa ríkisins næstu tvö til þrjú árin sé 3% af núverandi nafnverði hlutafjár, eða 30 m.kr. Þessar arðgreiðslur eiga ekki að koma í veg fyrir að verksmiðjan geti greitt niður langtímaskuldir. Afborganir af langtímalánum verksmiðjunnar verða á bilinu 70-80 m.kr. á þessu og næstu tveimur árum og gerir verksmiðjan ekki ráð fyrir að þurfa að taka langtímalán á þessu tímabili. Langtímaskuldir verksmiðjunnar verða því litlar um aldamótin. Hægt væri að taka meiri arð út úr félaginu fram til aldamóta í stað þess að greiða niður langtímaskuldir. Þó ávallt megi deila um hagkvæmustu samsetningu langtímaskulda og eigin fjár, telur iðnaðarráðuneytið farsælast að verksmiðjan fái tóm á næstu tveimur árum til að greiða niður langtímaskuldir. Tillögur mínar um arðgreiðslur Sementsverksmiðjunnar hafa verið samþykktar í ríkisstjórn.

III.
Eins og aðalfundargestum mun eflaust vera kunnugt þá hefur iðnaðarráðuneytið í samráði við Framkvæmdanefnd um einkavæðingu nú um eins árs skeið hugað að sölu hlutafjár ríkisins í Sementsverksmiðjunni. Í fjárlögum þessa árs er heimild fyrir sölu 25% hlutafjár í Sementsverksmiðjunni. Engin ákvörðun hefur verið tekin um að nýta þessa heimild og mun hún ekki verða tekin nema í góðu samráði við heimamenn.

Að mörgu þarf að hyggja áður en ákvörðun um hvort selja skuli Sementsverksmiðjuna verður tekin. Það er að verða viðtekin skoðun að ríkið eigi ekki að sinna atvinnustarfsemi sem einkaaðilar geta sinnt. Það verður ekki séð að brýn þörf sé fyrir ríkið að stunda sementsframleiðslu, enda þess ekki dæmi í vestrænum löndum. Að þessu leyti er ríkiseign á Sementsverksmiðjunni barn síns tíma.

Á hinn bóginn ber að líta á að Sementsverksmiðjan er allsráðandi á íslenskum markaði. Það gerir sölu verksmiðjunnar erfiðari. Reyndar eru til dæmi um velheppnaða einkavæðingu á markaðsráðandi fyrirtæki, en það er sala ríkis og Reykjavíkurborgar á Jarðborunum hf.

Ekki er hægt að líta framhjá því að Sementsverksmiðjan er í mikilli samkeppni við innflutt sement. Sementsverð hér er hærra heldur en í þeim löndum sem við Íslendingar viljum helst bera okkur saman við. Verðmunurinn er tilkominn vegna smæðar verksmiðjunnar og lítils markaðssvæðis. Engu að síður hefur ekki komið til innflutnings á sementi, nema í örlitlu magni til sérstakra nota, í þá rúmlega tvo áratugi sem innflutningur á sementi hefur verið frjáls. Það stafar fyrst og fremst af háum flutningskostnaði og kostnaði við búnað sem innflytjandi þarf að koma sér upp. Þó ekki hafi hingað til komið til innflutnings á sementi þarf Sementsverksmiðjan ætíð að vera viðbúin að mæta erlendri samkeppni. Ljóst má þó vera að Sementsverksmiðjan á erfitt með að keppa við margfalt stærri erlendar verksmiðjur, takist að halda flutningskostnaði niðri.

Það er skoðun mín að æskilegt sé að fá starfsmenn verksmiðjunnar og heimamenn sem meðeigendur að Sementsverksmiðjunni. Það myndi þjóna þeim tilgangi að færa starfsmenn og heimamenn nær ákvarðanatöku um stefnu og framtíð verksmiðjunnar. Ég vil þó ítreka að ekki hafa verið teknar neinar ákvarðanir um hvort selja skuli hlutabréf ríkissjóðs, eða með hvaða hætti það skuli gert.

IV.
Góðir aðalfundargestir. Ég vil að endingu þakka stjórn, framkvæmdastjórn og starfsfólki Sementsverksmiðjunnar fyrir ánægjulegt samstarf þau tvö ár sem ég hef gegnt stöðu iðnaðarráðherra og vonast eftir góðu samstarfi í framtíðinni. Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum