Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. apríl 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp á ársfundi Iðnlánasjóðs



Góðir ársfundargestir,

I.
Á síðustu fjórum til fimm árum hefur starfsemi á fjármagnsmarkaði þróast í átt til opnunar gagnvart umheiminum og aukinnar samkeppni milli fyrirtækja. Þetta hefur meðal annars lýst sér í því að hefðbundin skipan fjármálastarfsemi og fyrirtækja í ákveðna flokka hefur raskast. Skýrt dæmi um þetta eru nýleg kaup viðskiptabanka og sparisjóða á eignarhlutum í vátryggingastarfsemi.

Þrátt fyrir þessa þróun sýnir samanburður á íslenskum fjármagnsmarkaði og mörkuðum þeirra landa sem við eigum í mestri samkeppni við að nauðsyn er frekari endurskipulagningar. Vextir hjá okkur eru hærri en víðast hvar kostnaður við bankaþjónustu sömuleiðis og ríkið er hér umfangsmikið á fjármagnsmarkaði.

II.
Hinir hefðbundnu fjárfestingarlánasjóðir voru stofnaðir með sérlögum fyrr á þessari öld til þess að sinna ákveðnum og afmörkuðum sviðum atvinnulífsins við allt aðrar aðstæður en nú eru orðnar. Því er nauðsynlegt að endurskoða skipulag þeirra, eignarhald og starfsemi. Þess vegna hefur ríkisstjórnin staðið fyrir víðtækri endurskoðun á sjóðakerfi atvinnulífsins. Raunar hefur skipulag fjárfestingarlánasjóðanna verið til umræðu á annan áratug, án þess að nokkuð markvert hafi gerst. Nú eru rótttækar breytingar hins vegar í þann veginn að nást fram með stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.

III.
Ríkisstjórnin hefur að undanförnu verið gagnrýnd af sumum fyrir þá stefnu sem hún hefur markað í þessum málum. Þannig telja ýmsir að með því að setja á stofn nýjan fjárfestingarbanka sé verið að spyrna við fótum gegn þróun á fjármagnsmarkaði.

Þetta er alls ekki svo. Markmiðið með fyrirhuguðum breytingum er margþætt. Ætlunin er að auðvelda atvinnufyrirtækjum að afla sér hagstæðrar fjármögnunar í gegnum öfluga stofnun sem hafi möguleika á að ná hagstæðum samningum við lánveitendur sína og reka starfsemi sína með lágmarks tilkostnaði. Þannig megi draga úr kostnaði íslenskra fyrirtækja við langtímafjármögnun með minni vaxtamun og bættri þjónustu.

Annað markmið er að fækka lánastofnunum í eigu ríkisins og draga úr áhrifum ríkisins á fjármagnsmarkaðnum með einkavæðingu. Í skýrslum alþjóðastofnana hefur margoft komið fram, að víðtæk þátttaka ríkisins á fjármagnsmarkaði sé tímaskekkja. Standard & Poor}s telur að lánshæfiseinkunn Íslands séu settar skorður af þátttöku ríkisins í fjármálalífinu. Það er því mat ráðuneytisins að framtíðarhlutverk ríkisins á fjármagnsmarkaði, auk hins opinbera tilsjónarvalds, verði fyrst og fremst að tryggja að fyrir hendi sé sérhæfð fjárfestingarþjónusta. Meðal annars þess vegna þarf einnig að aðgreina áhættufjármögnun frá hefðbundinni fjárfestingarlánastarfsemi.

Þriðja markmiðið er að skapa fyrirtækjum og stofnunum á fjármagnsmarkaði heilbrigða samkeppni sem leiði til bætts rekstrar og bættrar þjónustu almennt.

Fjórða markmiðið er vissulega að nýta eign sína á þann hátt að sem mest fáist fyrir hana. Þess vegna er sett á stofn arðvænleg, traust og seljanleg fjármálastofnun.

Síðast en ekki síst byggist sú leið sem valin hefur verið á því að nýta þann trausta grunn sem fyrir hendi er, á sem árangursríkastan hátt. Í starfandi fjárfestingarlánasjóðum hefur verið byggð upp mikil þekking á atvinnulífinu í landinu. Jafnframt hefur tekist að reka þessa starfsemi með lágum tilkostnaði og afla lánsfjár á hagstæðum kjörum. Það er því skynsamlegt þegar hugað er að breytingum að byggja á þessum grunni. Á þessum grundvelli gefst síðan færi á að þróa nýja sérhæfða fjármálaþjónustu. Má þar nefna að fjárfestingarbankinn kynni að eiga þess kost að taka þátt í fjármögnun stórverkefna ef svo ber undir.

Í þessu sambandi vek ég athygli á nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins, VSÍ og Verslunarráðs Íslands um aga og ábyrgð í viðskiptalífinu. Þar er lagt til að lánastofnanir verði í auknum mæli að skoða greiðslugetu skuldara og fylgjast betur með rekstrinum, gera meiri kröfur um áætlanagerð og arðsemisútreikninga, enn mat á tryggingum. Náin tengsl við atvinnufyrirtæki, sem starfsemi fjárfestingarbankans og raunar einnig Nýsköpunarsjóðs er ætlað að byggja á, grundvallast einmitt á slíkum sjónarmiðum.

IV.
Með hliðsjón af öllu framansögðu má fullyrða að stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hafi í för með sér róttækustu og umfangsmestu skipulags- og hagræðingaraðgerðir sem gerðar hafa verið á íslenskum fjármagnsmarkaði um langt skeið.

Stofnun fjárfestingarbanka felur fyrst og fremst í sér tiltekið upphaf á þróun á fjármagnsmarkaði. Stjórnvöld hyggjast ekki viðhalda starfsemi sérstakra fjárfestingarlánasjóða til framtíðar. Reynslan ein mun leiða í ljós hver þróun mála verður þegar fjárfestingarbankanum hefur verið komið á fót. Þar mun markaðurinn og þeir hluthafar sem gerast meðeigendur ríkisins í upphafi ráða för.

V.
Óþarft er að fjölyrða nánar um efni þeirra frumvarpa sem nú eru til meðferðar á Alþingi. Svo mjög hefur verið fjallað um þau að undanförnu. Þó er rétt að víkja að þeim breytingum sem lagðar hafa verið til í meðförum þingsins.

Við umfjöllun um fjárfestingarbankann hefur þeirri skoðun verið haldið hátt á lofti að draga megi úr sterkri eiginfjárstöðu hins tilvonandi banka. Með því verði ríkissjóði gert meira úr eign sinni, bankinn verði arðvænlegri og um leið fýsilegri fjárfestingarkostur. Því hefur á Alþingi verið lagt til að draga einn milljarð út úr fjárfestingarbankanum þannig að stofnfé bankans verði um 7,5 milljarðar í stað um 8,5 milljarða króna.

Á móti þessari tillögu má færa þau rök að fjárfestingarbankanum muni reynast erfiðara að afla sér hagstæðs lánsfjár og að meiri hætta verði á gjaldfellingu lána starfandi sjóða, einkum Fiskveiðasjóðs. Það er mat flestra sem um málið hafa fjallað að þessi breyting muni ekki hafa neikvæðar afleiðingar í þessa veru. Mestu skipti að vel verði staðið að kynningu fyrirhugaðra breytinga.

Samfara þessum tillögum hefur verið lagt til að milljarðinum, sem áður er nefndur, verði ráðstafað með sérstökum hætti í gegnum Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Lagt er til að milljarðinum verði varið til hlutafjárkaupa í fyrirtækjum í nýsköpun og þróun, einkum á sviði upplýsinga og hátækni og með áherslu á landsbyggðina.

Við ráðstöfun þessara fjármuna er lagt til að stjórn Nýsköpunarsjóðs fái verðbréfafyrirtæki og aðra til þess bæra aðila að annast umsýslu og ráðstöfun fjárins. Tilteknir hlutar höfuðstólsins verði því fengnir nokkrum aðilum til ráðstöfunar þannig að unnt verði að fylgjast með og bera saman árangur þeirra aðila sem fengnir hafa verið til verksins. Að tilteknum tíma liðnum verði hlutafé í nýsköpunarfyrirtækjum selt og andvirðið renni í ríkissjóð.

Það er mat ráðuneytisins að þessar breytingar á frumvarpinu séu til bóta og er fullur stuðningur við þær.

VI.
Góðir fundargestir,
Nái hin umtöluðu frumvörp fram að ganga er stigið fyrsta skrefið í framkvæmd fyrirhugaðra breytinga. Mikið verk og vandasamt er þó framundan. Til þess að þessar breytingar nái farsællega fram að ganga og fjárfestingarbankinn nái tilgangi sínum verða allir að leggjast á eitt um framkvæmdina. Þar er átt við stjórnendur og starfsmenn starfandi fjárfestingarlánasjóða og jafnframt samtök atvinnufyrirtækja sem eru bakhjarl fjárfestingarlánasjóðanna. Hagsmunir ríkisins, atvinnufyrirtækja og starfandi fjárfestingarlánasjóða fara saman í þessu efni. Gott samstarf tókst um undirbúning fyrirliggjandi frumvarpa og vænti ég þess að það samstarf eigi áfram eftir að vera farsælt. Þar sem þetta kann að vera síðasti ársfundur Iðnlánasjóðs í núverandi mynd eru stjórnendum og starfsfólki sjóðsins færðar bestu þakkir fyrir gott samstarf á liðnum misserum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum