Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. apríl 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Framsaga á fundi um stóriðju í Eyjafirði, 30. apríl 1997.

 


 

I.

Sú kyrrstaða sem ríkt hefur í orkufrekum iðnaði hefur verið rofin. Ísland er áþreifanlega komið á landakort fjárfesta á vissum sviðum. Í því sambandi má nefna að á síðustu tólf mánuðum hefur einungis verið tilkynnt um fimmtán nýjar fjárfestingar í málmvinnslum í Evrópu. Nú hefur okkur Íslendingum tekist að laða að þrjú verkefni á þessu sviði á undanförnum átján mánuðum. Óhætt er að segja að nú sé svo komið að ekki komi til fjárfesting á þessu sviði í Evrópu nema Ísland sé skoðað sem vænlegur valkostur.

Með þremur nýjum stóriðjusamningum á örfáum misserum rofar aftur til í orkumálum eftir langvarandi stöðnum. Vinnsla hefst í nýjum kerskála í Straumsvík á miðju þessu ári og hafa framkvæmdir gengið þar framar vonum. Samningar voru undirritaðir milli ríkisins, Elkem og Sumitomo um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar með þriðja ofni sem á að komast í rekstur haustið 1999. Í samkomulaginu er jafnframt lagður grunnur að fjórða og fimmta bræðsluofni. Framkvæmdir eru þegar hafnar við byggingu álvers Columbia sem mun hefja rekstur á Grundartanga um mitt ár 1998.

Þessir samningar eru hagkvæmir fyrir þjóðarbúið. Þeir munu draga úr vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum, renna fleiri styrkum stoðum undir útflutningsatvinnuvegina, auka framleiðslugetu þjóðfélagsins, skapa fjölbreyttara atvinnulíf og flytja inn erlent fjármagn, tækniþekkingu og hundruð nýrra hálaunastarfa. Síðast en ekki síst leiðir meiri fjölbreytni til sveiflujöfnunar og bættra lánskjara.
II.

Það krefst mikillar vinnu og þolinmæði að laða erlenda fjárfesta til landsins. Það höfum við Íslendingar svo sannarlega fengið að reyna. Við Íslendingar stöndum þó mun betur að vígi nú en áður vegna langvarandi stöðugleika í þjóðarbúskapnum, rýmkunar laga um erlendar fjárfestingar, opnunar hagkerfisins með aðild að EES, betra viðskiptaumhverfis og breyttra viðhorfa til erlendrar fjárfestingar. Uppsveifla á ýmsum mörkuðum stóriðnaðar, svo sem í málmvinnslu, hefur einnig leitt til aukins áhuga á Íslandi. Þetta hefur skapað okkur ný sóknarfæri á síðustu árum.

Þessi þrjú nýju verkefni á sviði stóriðju sem nú eru í burðarliðnum falla öll til á suðvesturhluta landsins. Tvö þeirra eru stækkun á iðjuverum sem fyrir voru og eitt er byggt upp frá grunni. Erlendir fjárfestar líta á marga þætti við staðarval fyrir orkufrekan iðnað. Nauðsynlegt er að nægilegt landrými sé til staðar, hafnaraðstaða sé góð, vinnumarkaðurinn stór og fjölbreyttur, rétt umhverfisskilyrði séu til staðar, kostnaður við raforkuflutning sé lítill og stuðningur sé meðal staðbundinna stjórnvalda og almennings á svæðinu.

Þegar þessir þættir; landrými, hafnaraðstaða, vinnumarkaður, umhverfisskilyrði og raforkuflutningur, eru metnir fyrir þá staði á landinu, sem taldir eru koma til greina fyrir stóriðju, koma valkostir á suðvesturhorni landsins best út frá sjónarhóli erlendra fjárfesta, sér í lagi Keilisnes og Grundartangi. Aðrir valkostir, svo sem Eyjafjörður og Reyðarfjörður, koma þar á eftir. Álitlegasti staðurinn við Eyjafjörð, Dysnes, þykir þó ákjósanlegur kostur, þar er aðstaða fyrir höfn góð, vinnumarkaður góður og landrými og umhverfisskilyrði viðunandi.
III.

Sú spurning sem borin er upp hér á þessum fundi um hlut stóriðju í framtíðarsýn í atvinnumálum Eyfirðinga er eðlileg í ljósi nýjustu viðburða í stóriðjusögu Íslendinga. Mikil uppbygging í stóriðju er hafin og því eðlilegt að menn staldri við og leiði hugann að framtíðarsýn í atvinnumálum. Mitt svar við spurningu þeirri sem varpað er upp á fundinum er skýrt: Stærri iðnaður getur að sjálfsögðu verið hluti af blómlegu atvinnulífi í Eyjafirði í framtíðinni, enda skilyrði til slíkra fjárfestinga að mörgu leyti ákjósanleg í firðinum. En þetta, og það vil ég undirstrika, er undir Eyfirðingum sjálfum komið.

Það er mjög mikilvægt að sveitarfélög í Eyjafirði móti skýra stefnu um hvort kynna beri möguleika á stóriðju í Eyjafirði sem vænlegan kost fyrir erlenda fjárfesta. Jafnframt er mikilvægt að fyrir liggi skýr afstaða til þess hvaða svæði Eyfirðingar telja vænlegast til slíks iðnaðar. Kaupandi í fasteignahugleiðingum hugsar sig tvisvar um ef hann sér eigendur hússins hnakkrífast í eldhúsinu um hvort húsið sé til sölu.

Að mínu mati er Dysnes hagkvæmasti kosturinn fyrir stærri iðnað í Eyjafirði. Mikil vinna hefur farið fram í hálfan annan áratug að rannsaka svæðið. Á fyrri hluta níunda áratugarins fóru fram margháttaðar rannsóknir vegna hugsanlegs álvers á Dysnesi. Má þar nefna vindmælingar ofan við Hjalteyri, kortagerð, jarðvegsdýpi á lóð, dýptarmælingar á sjó, botnrannsóknir vegna hafnargerðar, straummælingar vegna losunar úrgangsefna, náttúrufarskönnun á vesturströnd Eyjafjarðar, hitamælingar á Vaðlaheiði vegna dreifingarspár, sýnataka og mælingar á flúor í gróðri o.fl. Þetta er hér nefnt sem dæmi en rannsóknir á svæðinu hafa síðan haldið áfram með hléum. Miklum tíma og peningum hefur verið varið til þessara rannsókna. Á árunum 1990-1994 greiddi Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar 18 milljónir í umhverfisrannsóknir og lóðarathuganir við Dysnes. Samt sem áður liggur ekki ljóst fyrir í dag hvort hægt sé að bjóða fjárfestum Dysnes.

Komið hafa upp hugmyndir um að rannsaka Árskógssand sem mögulegt stóriðjusvæði. Það tel ég lakari kost. Heilt byggðarlag er í túnfætinum, aðstaða til hafnargerðar lakari en á Dysnesi og vinnumarkaður fjær, svo eitthvað sé nefnt. Ríkið getur ekki lagt út í kostnaðarsamar rannsóknir á mörgum stöðum á Eyjafirði, þegar engin trygging er fyrir hendi að heimild fáist þegar áhugasamir fjárfestar knýja dyra. Gert er ráð fyrir að kostnaður við rannsóknir á Árskógssandi nemi um 15 milljónum. Það er ekki forsvaranlegt að leggja út í slíkan kostnað ef mikil óvissa ríkir um vilja heimamanna til stóriðju á svæðinu.

Í fyrra var komið á samstarfsnefnd Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar, Byggðastofnunar og Héraðsnefndar Eyjafjarðar um framhald staðarvalsathugana í Eyjafirði. Ég er þeirrar skoðunar að rétt væri að endurskipuleggja starf þessarar nefndar og fá sveitarfélögin á svæðinu sterkar inn í hana.

Verkefni nefndarinnar gætu verið:
  • að gera viðamikla viðhorfskönnun meðal Eyfirðinga um stóriðju,
  • festa stóriðjusvæði hjá sveitarfélögum og í skipulagi,
  • gera tillögur um hvaða rannsóknir þurfi að fara fram og
  • gera tillögu um kostnaðarskiptingu.

Ég er þeirrar skoðunar að heimamenn eigi að taka meiri þátt í fjármögnun rannsóknanna en verið hefur og verði að bera allan kostnað ef fallið verður frá því á síðari stigum að bjóða svæði undir stóriðju.
IV.

Góðir fundarmenn
Ég vil að lokum geta þess að Eyfirðingar, sem aðrir landsmenn, geta ekki vænst þess að stóriðja verði grundvöllur efnahagslegra framfara á næstu áratugum. Vissulega er hún mikilvæg viðbót en atvinnuuppbygging verður að mestu á öðrum sviðum. Það þarf frjóan jarðveg svo atvinnulífið blómgist. Aflið sem býr í fólkinu sjálfu mun knýja þjóðarskútuna fram á næstu öld. Áherslur iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins taka mið af þessu. Þar er byggt á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem meginstoðum.

Í fyrra lagði Fjárfestingarskrifstofa Íslands upp í langferð með Eyfirðingum í því skyni að laða að erlenda fjárfestingu í matvælavinnslu. Þessu verkefni miðar vel áfram þó enn hafi það ekki skilað tilætluðum árangri. Ég hef mikinn hug á að verkefni þessu verði framhaldið því það er trú mín og vissa að Eyjafjörður sé ákjósanlegt svæði fyrir erlenda fjárfestingu.

Ég þakka fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum