Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. júní 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ársfundur RARIK: Stefnumótun í orkumálum, 6. júní 1997.

 



Flutt af Halldóri J. Kristjánssyni ráðuneytisstjóra

Góðir ársfundargestir.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Raforkulög voru sett fyrir rúmlega fimmtíu árum. Þau lög mörkuðu tímamót í rafvæðingu landsins og með þeim var í senn mótuð stefna í raforkumálum og komið á heildstæðri löggjöf til að framfylgja þeirri stefnu. Lögin fólu meðal annars í sér að:

    1. Ríkið fékk einkarétt til að reisa og reka raforkuver sem voru stærri en 100 hestöfl, þó með þeirri undanþágu að þeim sem áttu eða voru að reisa slík orkuver fengu leyfi til að reka þau. Ekki var heimilt að framselja þann rétt ríkisins nema með samþykki Alþingis.
    2. Rafmagnsveitur ríkisins voru settar á fót um leið og Rafveitur ríkisins sem stofnaðar höfðu verið 5 árum áður voru lagðar niður. Hlutverk rafmagnsveitnanna var meðal annars að afla almenningi og atvinnuvegum landsins nægrar raforku, veita henni um landið og selja hana í heildsölu til héraðsrafmagnsveitna.
    3. Héraðsrafmagnsveitur ríkisins voru stofnaðar meðal annars til að selja notendum rafmagn á þeim svæðum landsins þar sem ekki voru starfandi rafveitur í eigu sveitarfélaga. Skipuleg rafvæðing sveitanna var þannig hafin. Rafmagnsveitur ríkisins önnuðust rekstur Héraðsrafmagnsveitna ríkisins, en fyrirtækin voru fjárhagslega aðskilin.
    4. Raforkusjóður sem stofnaður hafði verið árið 1942 var efldur og hlutverk hans aukið.
    5. Embætti raforkumálastjóra var stofnað og var hlutverk hans meðal annars að vera ráðunautur ríkisstjórnarinnar í raforkumálum og hafa yfirumsjón með rafmagnsveitum ríkisins, rekstri þeirra og framkvæmdum.


Eins og þessi upptalning ber með sér fékk ríkið mjög stórt hlutverk í raforkumálum og hafði nánast einkarétt til vinnslu og flutnings raforku sem og sölu á rafmagni í heildsölu.

Jakob Gíslason, síðar orkumálastjóri, var skipaður raforkumálastjóri og Eiríkur Briem, síðar forstjóri Landsvirkjunar, rafmagnsveitustjóri. Báðir gengdu þeir þessum stöðum þar til löggjöf um orkumál var endurskoðuð um miðjan sjöunda áratuginn og Landsvirkjun og Orkustofnun settar á fót. Jakob og Eiríkur voru framsýnir menn og spor þeirra og þeirra starfsmanna sem hófu störf hjá Raforkumálaskrifstofunni og Rarik fyrir hálfri öld sér víða stað í orkumálum þjóðarinnar.

Fullyrða má að sú skipan sem komið var á með raforkulögunum hafi reynst Íslendingum farsæl. Sömuleiðis má fullyrða að endurskoðun orkulöggjafarinnar um miðjan sjöunda áratuginn hafi skilað landsmönnum þeim árangri sem að var stefnt. Orkuverð hér á landi, einkum til hitunar húsnæðis, er mjög lágt þrátt fyrir að landið sé strjálbýlt og kostnaður við flutning orkunnar sé hár. Hlutur endurnýjanlegrar orku er hærri en hjá öðrum ríkjum og loftmengun vegna orkuvinnslunnar óveruleg. Nú er hins vegar kominn tími til breytinga.

Þessi 1. ársfundur Rarik er haldinn á umbrotatímum í íslenskum orkumálum. Heildarendurskoðun á orkulöggjöfinni er hafin og tveggja áratuga kyrrstaða í stórnýtingu íslenskra orkulinda til raforkufreks iðnaðar hefur verið rofin. Vík ég nú nánar að þessu tvennu.

Þrír nýir samningar um orkufrekan iðnað hafa verið gerðir á örfáum misserum eftir tveggja áratuga hlé:
  • Framleiðsla hefst í nýjum kerskála í Straumsvík á næstu vikum, þremur mánuðum fyrr en áætlað var.
  • Samningar milli ríkisins, Elkem og Sumitomo um stækkun Járnblendiverksmiðjunnar hafa verið staðfestir og lögum um verksmiðjuna breytt.
  • Lög hafa verið sett um nýtt álver Norðuráls hf. á Grundartanga og eru framkvæmdir þegar hafnar.

Með þessum samningum munu 2.300 gígavattstundir bætast við raforkunotkun landsmanna, sem er um 40% aukning. Raforkunotkun Íslendinga um aldamótin verður þá komin í 7.000 gígavattstundir, þar af eru um tveir þriðju hlutar til stóriðju.

Þessir samningar eru hagkvæmir fyrir þjóðarbúið og orkufyrirtækin. Þeir munu draga úr vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum, renna fleiri styrkum stoðum undir útflutningsatvinnuvegina, skapa fjölbreyttara atvinnulíf og flytja inn erlent fjármagn, tækniþekkingu og hundruð nýrra hálaunastarfa. Síðast en ekki síst leiðir meiri fjölbreytni í atvinnulífinu til sveiflujöfnunar og bættra lánskjara.

Þessir samningar eru mjög hagstæðir fyrir Landsvirkjun. Núvirtur hagnaður af orkusölu til Columbia og Járnblendifélagsins er yfir 1.700 milljónir króna miðað við ávöxtunarkröfuna 5,5% og innri vextir af fjárfestingunni eru 6,7%. Þetta þýðir að fjárhagsstaða Landsvirkjunar batnar með tilkomu nýju samningana og fyrirtækið verður betur í stakk búið en áður að lækka orkuverð til almenningsveitna og fylgja þannig eftir þeirri stefnu eigenda fyrirtækisins að lækka orkuverð eins og síðar verður vikið að.

Með þessum samningum hefur öll umframorka í kerfinu verið seld, jafnframt því sem hefja hefur þurft framkvæmdir, s.s. við
  • Að ljúka Kvíslaveitu,
  • Sultartangavirkjun,
  • Nesjavallavirkjun,
  • Hágöngumiðlun,
  • Stækkun Kröflu og
  • Blöndulóns.

Á næstu árum mun verða þörf fyrir frekari virkjanir og hafa Hitaveita Suðurnesja, Rarik o.fl. aðilar gefið til kynna áhuga á að taka þátt í þeirri uppbyggingu. Stjórnarformaður hefur þegar kynnt ályktun um að fyrirtækið muni leita langtímasamninga við Landsvirkjun um kaup á raforku á verði sem er sambærilegt við verð frá nýjum virkjunum sem fyrirtækið gæti reist. Þessi ályktun stjórnarinnar er eðlileg og lýsandi dæmi um breytta tíma í orkumálum. Nú er farið að líta í æ ríkara mæli á raforku sem vöru og að venjuleg viðskipta- og markaðssjónarmið eigi að gilda.

Aukin markaður og þörf fyrir nýjar virkjanir á næstu árum mun auðvelda þá endurskipulagningu raforkumála sem hefur verið í brennidepli að undanförnu. Lögum um Landsvirkjun hefur verið breytt og í byrjun liðins vetrar skilaði ráðgjafarnefnd fulltrúa orkufyrirtækja, þingflokka, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins tillögum um endurskoðun á skipulagi raforkumála.

Á grundvelli tillagna nefndarinnar er nú unnið að stefnumótun um framtíðarskipulag raforkumála í landinu. Áður en málið verður lagt fyrir Alþingi í haust er nauðsynlegt að haft verði samráð við hagsmunaaðila meðal annars orkufyrirtækin og verður það gert í sumar.

Í þeirri stefnumótun verður megináhersla lögð á að skilja að náttúrulega einkasöluþætti raforkukerfisins og þá þætti þar sem samkeppni verður við komið. Í þessu felst, að í áföngum verði unnið að því að skapa forsendur fyrir aðskilnaði vinnslu, flutnings og dreifingar rafmagns. Jafnframt er nauðsynlegt að búa svo um hnútana að samkeppni geti þróast eðlilega á þeim sviðum þar sem hún á við, þ.e. í vinnslu og sölu rafmagns, og að komið verði á virku eftirlitskerfi á sviðum einkaréttar, þ.e. í flutningi og dreifingu rafmagns. Þessar breytingar þurfa að eiga sér stað í áföngum þar sem fullt tillit verður tekið til stöðu raforkufyrirtækjanna og þeim veitt nauðsynlegt svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum.

Fyrsta skrefið í átt að breyttu skipulagi raforkumála gæti verið að aðskilja vinnslu, flutning, dreifingu og sölu bókhaldslega í reikningum orkufyrirtækja. Sum fyrirtækjanna hafa þegar tekið upp þessa nýbreytni. Annað skrefið gæti verið að stofna félag um meginflutningskerfið - Landsnetið. Á vegum ráðuneytisins er verið að skoða hvaða tæknilega þætti þurfi sérstaklega að kanna vegna stofnunar Landsnets. Sömuleiðis er verið að athuga með hvaða hætti unnt er að greina milli Landsnetsins og dreifikerfa og meta kosti og galla þessara kosta. Sérstaklega verður hugað að því hvaða leiðir eru til gjaldtöku fyrir flutninginn, m.a. með tilliti til jöfnunar orkuverðs. Þegar þessari vinnu er lokið verður tekin afstaða til frekari könnunar á tæknilegum þáttum sem þarfnast sérstakrar athugunar og verður í því sambandi væntanlega leitað til viðkomandi orkufyrirtækja. Sömuleiðis verður tekin afstaða til þess hvaða leiðir varðandi aðgreiningu Landsnetsins og dreifikerfisins vilji er til að kanna frekar. Að því máli þurfa bæði
stjórnmálamenn og fulltrúar orkufyrirtækjanna að koma. Stefnt er að því að þessari vinnu geti lokið í haust og unnt verði að leggja frumvarp til laga fyrir Alþingi á næsta ári.

Þriðja skrefið gæti verið að breyta stjórnskipulagi orkufyrirtækja og móta arðstefnu þeirra. Ekki er ólíklegt að
  • á árunum fram til 2004 verði orkufyrirtækjum breytt í hlutafélög,
  • á árunum 2004-2007 verði lokið við að innleiða samkeppni til að mæta aukinni raforkuþörf til almenningsnota og loks
  • á árunum 2007-2009 verði myndaður orkumarkaður á vegum Landsnetsins. Frjáls samkeppni ríki þá í viðskiptum með raforku.

Stefnumótun eigenda Landsvirkjunar og nýsamþykktar breytingar á lögum um Landsvirkjun er í fullu samræmi við þetta. Breytingar á lögum og sameignarsamningi um Landsvirkjun fela meðal annars í sér að:
  • Landsvirkjun verður rekin sem sameignarfélag fyrst um sinn en eigi síðar en á árinu 2003 verði metið hvort ástæða sé til að stofna hlutafélag um fyrirtækið.
  • Stjórnskipulag félagsins hefur verið fært til aukins samræmis við ákvæði hlutafélagalaga, meðal annars hvað varðar hlutverk ársfundar og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra.
  • Skýr markmið hafa verið sett um raunlækkun á verði raforku til almennings, sem tryggi 3% árlega raunlækkun frá 2001 til 2010.
  • Skýr stefna hefur verið sett um arðsemi fyrirtækisins og samkomulag gert um hóflegar arðgreiðslur til eigenda, sem eru vel samrýmanlegar markmiðum um verðlækkun á raforku.

Það er tímabært að fram fari sambærilegt mat á verðmæti annarra orkufyrirtækja sem ríkið á eitt eða með öðrum. Ráðuneytið mun hlutast til um það við þessi fyrirtæki. Slíkt mat er forsenda þess að unnt sé að gera eðlilega arðgjafarkröfu til fyrirtækjanna og forsenda þess að stjórnskipulagi þeirra verði breytt.

Í alþjóðlegu samstarfi eru sífellt gerðar meiri kröfur til umhverfismála. Þetta má sjá í áherslu á sjálfbæra þróun, notkun endurnýjanlegra orkugjafa og að draga úr mengun vegna orkuframleiðslu. Í samþykktum ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó um umhverfismál og þróun fyrir 5 árum var rík áhersla lögð á þetta. Í umræðum að undanförnu um stóriðju hafa andstæðingar hennar staðhæft að slík nýting sé ekki í samræmi við Loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna, þar sem við framleiðsluna myndist gróðurhúsalofttegundir. Þetta er alrangt. Lokamarkmið samningsins er skýrt, það er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum. Gróðurhúsaáhrifin ráðast af samanlagðri losun í öllum löndum og því ber að lágmarka heildarlosun. Einn liðurinn í því er að tryggja að framleiðslan fari fram á þeim stöðum þar sem heildarlosun er minnst. Það á við um framleiðslu hér á landi þar sem óveruleg losun er vegna orkuöflunar til framleiðslun
nar. Í þessu sambandi má geta þess að árleg heildarlosun Íslendinga á koldíoxíði er álíka og losun frá 180 þúsund tonna álveri sem notar rafmagn sem framleitt er í kolarafstöð. Til samanburðar má nefna að álveri ISAL mun framleiða rúm 160 þúsund tonn á ári eftir stækkun. Bent hefur verið á að með tilflutningi raforkufreks iðnaðar frá ríkjum þar sem jarðefnaeldsneyti er nýtt til orkuvinnslu til ríkja þar sem mögulegt er að mæta slíkri þörf með nýjum vatnsorkuverum væri hægt að draga umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Niðurstöðutala þeirra jafngildir meira en 100 faldri losun Íslendinga á koldíoxíði árið 1995.

Orkufyrirtækin hafa að flestu leyti staðið sig með miklum ágætum í umhverfismálum en sjónarmið þeirra og aðgerðir í umhverfismálum hafa ekki komist nægilega skýrt til skila í almennri umræðu. Þörf er á átaki í því efni til að sjónarmið orkufyrirtækjanna verði ekki útundan í þeirri umræðu sem nú á sér stað jafnt innanlands sem á alþjóðavettvangi. Hagkvæm nýting orkulinda landsins, að teknu tilliti til umhverfisþátta, er hagsmunamál fyrir þjóðina alla. Jafnframt mun aukin nýting hreinna og endurnýjanlegra orkulinda Íslendinga, m.a. til iðnaðarframleiðslu, draga úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og því mikilvægt að um slíka nýtingu ríki samstaða.

Góðir fundargestir.

Rafmagnsveitur ríkisins eiga að baki hálfrar aldar gifturíkt starf við uppbyggingu raforkumála í landinu. Í sveitum landsins voru frumherjarnir auðfúsugestir og sögur fara af þeim veislum sem haldnar voru í sveitum landsins þegar farið var að reisa staurana til að flytja rafmagnið heim á bæina. Afmælisgjöf fyrirtækisins til landsins að reisa tré fyrir staur er táknræn fyrir breytta tíma, þá áherslu sem orkufyrirtækin leggja á umhverfismálin, og í anda sjálfbærrar þróunar eins og raunar nýting vatnsorkunnar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim fjölmörgu sem starfað hafa hjá Rarik fyrr og síðar fyrir góð og farsæl störf í þágu fyrirtækisins. Ég vil einnig þakka stjórnarmönnum, sérstaklega þeim sem nú hverfa úr stjórninni fyrir þeirra framlag. Fráfarandi stjórnarformanni, Gylfa Magnússyni, vil ég fyrir hönd ráðherra og stjórnvalda þakka sérstaklega fyrir ánægjulegt samstarf. Ég vil að lokum þakka rafmagnsveitustjóra og starfsmönnum fyrirtækisins fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á liðnum árum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum