Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. október 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Opnun málþings um siðareglur

Hótel Sögu, föstudaginn 3. október 1997.

I.
Góðir málþingsgestir.

Siðareglur gegna sífellt mikilvægara hlutverki í vestrænum ríkjum. Þeim fyrirtækjum fjölgar sem móta siðareglur og bjóða starfsmönnum sínum þjálfun í að takst á við siðferðileg álitamál. Þannig hafa langflest stærri fyrirtæki í Bandaríkjunum innleitt skráðar siðareglur, þriðjungur þeirra hefur ráðið siðastjóra og eitt af hverjum fimm hefur komið á fót siðadeild.
Hvers vegna hefur þessi þróun átt sér stað? Jú, stjórnendur þessara fyrirtækja hafa væntanlega komist að þeirri niðurstöðu að siðferðilega ábyrg viðskipti séu jafnframt þau ábatasömustu. Hagnaðarvon fyrirtækja er af þessum sökum meiri til langs tíma litið ef það kemur fram af siðferðilegri festu og ábyrgð gagnvart umhverfi sínu.
Þessi boðskapur á einnig erindi til íslenskra fyrirtækja. Enn sem komið er hafa þó fá íslensk fyrirtæki innleitt skráðar siðareglur, þó frá því séu vissulega undantekningar. En orð eru til alls fyrst og því má vænta að málþing Siðfræðistofnunar hér í dag verði mikilvægt framlag í umræðuna um siðareglur í íslensku viðskiptalífi og fyrirtækjum hvatning til dáða.
II.
Siðareglum á ekki að þröngva upp á fyrirtæki, stofnanir eða starfsstéttir. Þessir aðilar eiga að finna hjá sér þörfina til að fara í naflaskoðun og gera alla, undirmenn sem yfirmenn, meðvitaða um gildi slíkra reglna. Siðareglur eiga því koma frá fyrirtækjunum sjálfum og mótast af aðstæðum á hverjum stað.
Hvert er þá hlutverk stjórnvalda? Í fyrsta lagi er stjórnvöldum mikilvægt, ekki síður en fyrirtækjum, að setja sér siðareglur um samskipti sín við almenning. Í öðru lagi hafa stjórnvöld því mikilvæga hlutverki að gegna að móta lagalega umgjörð um samfélagið.
Flest frumvörp sem unnin eru í viðskiptaráðuneytinu miða að því að skapa siðferðilega ábyrgar leikreglur um verslun og viðskipti. Frumvörpin byggjast á leikreglum frjáls markaðsbúskapar þar sem samkeppni fyrirtækja ræður ríkjum en hagsmunir neytenda eru tryggðir með ákvæðum þeim til verndar.
III.
Stjórnvöld geta með ýmsum hætti stuðlað að aga og ábyrgð í viðskiptum. Á ýmsum sviðum er þörf á virkari aðgerðum, t.d. á rannsóknum efnahagsbrota. Á liðnum árum hefur orðið mikið tjón vegna manna sem stofnsett hafa fyrirtæki að því er virðist í þeim eina tilgangi að svíkja út verðmæti frá viðskiptavinum sínum og ríkinu. Þeir koma hverju fyrirtækinu á fætur öðru í þrot en birtast jafnharðan á nýjan leik í skjóli fyrirtækja með nýja kennitölu í farteskinu. Erfitt hefur reynst að eiga við þetta en vissulega er hér þörf á harðari viðurlögum.
IV.
Í bankakerfinu koma oft upp erfið álitaefni. Þegar gjaldþrot fyrirtækja urðu hvað flest á fyrstu árum þessa áratugar lentu fjármálastofnanir oft í því að yfirtaka fyrirtæki í fjárhagsvanda og reka þau áfram í samkeppni við viðskiptamenn sína. Þetta vakti áleitnar spurningar.
Viðskiptaráðuneytið gaf út skýrslu í fyrra með tillögum nefndar um siðareglur fjármálastofnana. Nefndin lagði til að fjármálastofnanir aðskildu í daglegum rekstri ákvarðanir um lánveitingar og yfirtöku. Um leið og yfirtaka ætti sér stað skyldi gefa upp lágmarkssöluverð á viðkomandi eign og bjóða hana til sölu. Sérstakt rekstrarfélag, með aðrar bækistöðvar en fjármálastofnunin, skyldi hafi reksturinn með hendi á meðan fyrirtækið væri í eigu fjármálastofnunar. Skýrsla þessi nýttist sem þarft innlegg inn í umræðu um góða bankavenju.
Annað dæmi um siðferðilegt álitamál innan bankakerfisins eru ábyrgðir þriðja aðila sem bankar krefjast að jafnaði við lánveitingar. Ýmis dæmi hafa verið nefnd þar sem lánveitanda hefði átt að vera ljóst að lántaki væri ekki borgunarmaður fyrir skuldinni og skuldin myndi því lenda á ábyrgðarmanni. Talið er að um 90 þúsund Íslendingar eða um 50% einstaklinga á aldrinum 18-75 ára séu í ábyrgð fyrir þriðja aðila, á meðan annars staðar á Norðurlöndunum eru innan við 10% einstaklinga í ábyrgðum. Bankakerfinu hefur oft verið legið á hálsi fyrir gjörðir sínar á þessu sviði og stjórnvöld hvött til þess að setja lög til að vernda ábyrgðarmenn fyrir ágangi lánveitenda. Nú eru bankarnir smátt og smátt að taka ábyrgari afstöðu til ábyrgðarmanna og hefur myndast gott samstarf á milli bankanna, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um þetta mál.
V.
Ég vil hér að síðustu taka dæmi úr stóriðju. Síðasta vetur urðu harðar deilur um fyrirhugað álver Columbia á Grundartanga. Þær raddir heyrðust að Columbia væri óstöndugt fyrirtæki og með sitthvað á samviskunni í umhverfismálum. Forsvarsmenn Columbia gerðu sér frá fyrstu tíð grein fyrir mikilvægi þess að ná góðum tengslum við heimamenn. Þeir komu fram með siðferðilega ábyrgum hætti, lögðu spilin á borðið og áunnu sér traust. Þeir lögðu sig í líma við að sannfæra landsmenn að þeim væri enginn hagur í að brjóta umhverfisstaðla eða gera litlar öryggiskröfur. Þvert á móti. Þeirra framtíð byggðist á að þessir hlutir væru í lagi.
Í umræðunni um álverið á Grundartanga var því einnig haldið fram að það væri óábyrgt af stjórnvöldum gagnvart komandi kynslóðum að stuðla að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er ekki rétt. Gróðurhúsaáhrifin ráðast af samanlagðri losun í öllum löndum og því ber að lágmarka heildarlosun. Einn liður í því er að tryggja að framleiðslan fari fram á þeim stöðum þar sem heildarlosun er minnst. Það á við um framleiðslu hér á landi þar sem heildarlosun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu er nánast eingöngu vegna notkunar kolaskauta í framleiðsluferlinu. Þess má geta að heildarlosun koltvísýrings í álframleiðslu er um tífalt minni ef vatnsafl frekar en kol er notað til framleiðslunnar.
VI.
Góðir málþingsgestir. Mikilvægt er að umræða um siðareglur í viðskiptum aukist. Slík umræða stuðlar að aga og ábyrgð í íslensku viðskiptalífi. Ég vil að lokum þakka Siðfræðistofnun fyrir þarft framtak og vona að málþingið hér í dag verði hið mesta þarfaþing. Þakka ykkur fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum