Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. nóvember 1997 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Grein í Byggiðn

I. Inngangur.

Byggingariðnaðurinn hefur ekki farið varhluta af þeim sveiflum sem gengið hafa yfir efnahag þjóðarinnar á undangengnum árum. Þótt breytingar í efnahagslegri afkomu snerti alla þegnana að einhverju marki er þó sennilegt að byggingariðnaðurinn finni meira fyrir slíkum lægðum og hæðum en flestar aðrar greinar.

Eftir langvinnt samdráttarskeið í upphafi áratugarins gengur nú flest byggingariðnaðinum í haginn. Ein helsta ástæða þess eru framkvæmdir sem tengjast byggingu nýrra iðjuvera og orkumannvirkja. Í ljósi þessa hef ég kosið að gera framkvæmdum þessum nokkur skil í þessari grein. Ástæða er þó að benda á að þrátt fyrir að stóriðjuumræðan hafi verið fyrirfararmest í almennri umfjöllun eru margir aðrir iðjukostir í athugun hjá stjórnvöldum, á vegum sveitarstjórna, veitufyrirtækja o.fl.

II. Þrjú ný iðjuver.
Hinn mikli uppgangur í byggingariðnaði hefur ekki hvað síst verið vegna stórfelldra framkvæmda á sviði orku- og stóriðjuframkvæmda síðastliðin tvö ár. Þegar samningurinn um stækkun álvers Ísal var undirritaður í nóvember 1995 var loks séð fyrir endann á margra ára stöðnun, en þá voru liðin 12 ár frá því bygging Blönduvirkjunar hófst.

Framkvæmdir við stækkun álversins hófust snemma á árinu 1996. Þær gengu mun betur en ráð var fyrir gert og varð framkvæmdakostnaður nærri 10% lægri en áætlanir. Í heild varð verkið um þrem mánuðum á undan áætlun, sem er góður vitnisburður fyrir íslenskan byggingariðnað. Segja má að þarna hafi íslenskir framkvæmdaaðilar, tæknimenn og iðnaðarmenn sýnt að þeir voru fyllilega sambærilegir við það besta sem aðrar iðnvæddar þjóðir geta boðið upp á. Frammistaða íslenskra byggingarmanna í Straumsvík var veigamikill þáttur í að efla trú þeirra fjárfesta sem á eftir fylgdu á íslenskri verkkunnáttu.

Í apríl á þessu ári, eða rúmu ári eftir að stækkunin í Straumsvík hófst, byrjuðu framkvæmdir við álbræðslu Norðuráls á Grundartanga. Þær hafa gengið vel og eru í samræmi við áætlanir sem miða við að rekstur verksmiðjunnar hefjist í júní á næsta ári. Lóðarframkvæmdum er nánast lokið og steypuvinna við kerskála er rúmlega hálfnuð. Um miðjan september var byrjað að reisa yfirbyggingu kerskálans sem á að ljúka í byrjun apríl. Jafnframt er hafin vinna á hafnarsvæðinu með steypingu súrálstanka og lengingu hafnarbakkans sem á að ljúka í júní.

Eins og sjá má af þessu fer háannatími framkvæmdanna á Grundartanga í hönd og er gert ráð fyrir að um 400 iðnaðar- og verkamenn verði við vinnu á svæðinu þegar þeir verða flestir á fyrsta ársfjórðungi 1998.

Væntanlega munu slög byggingarmanna á Grundartanga ekki þagna er líður á næsta ár þótt framkvæmdum Norðuráls ljúki þá. Vonir standa til að þau hafi aðeins fært sig um set og að þá verði unnið að stækkun verksmiðju Íslenska Járnblendifélagsins. Hér er um að ræða þriðja ofn verksmiðjunnar.

Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun um stækkunina þótt allar líkur bendi til að af henni verði. Nú er unnið að lokaáætlun um verkið sem felur í sér hönnun ofnsins og þess búnaðar sem tengist honum. Jafnframt er unnið að endanlegum áætlunum um kostnað, verktíma, mannaflaþörf og arðsemi. Þá tekur við lokahönnun og gerð útboðsgagna og má vænta þess að verkið verði boðið út í byrjun næsta árs. Miðað við þetta gangi eftir ætti jarðvinna og steyping undirstaðna að geta hafist á fyrri hluta ársins. Áætlað er að starfsmenn á byggingarstað verði um 140 þegar mest er á síðari hluta næsta árs og fram á árið 1999.

Þessar þrjár framkvæmdir hafa fallið nokkuð vel saman, sem er mikilvægt til að fá hámarksnýtingu á innlendu vinnuafli og tækjabúnaði. Það er líka mikilvægt til að komast hjá óþarfa þenslu sem oft er fylgifiskur tímabundinna stórframkvæmda. Upphaf framkvæmda Norðuráls var gott framhald framkvæmdanna í Straumsvík og útlit er fyrir að verulega verði farið að draga úr verkþunga við álver Norðuráls þegar framkvæmdir við þriðja ofn Járnblendifélagsins ná hámarki.

III. Orkuöflun vegna nýrrar stóriðju.
Orkuþörf þessara nýju iðjuvera þarf að mæta með samsvarandi orkuframkvæmdum. Alls er orkuþörf iðjuveranna um 2.400 GWst. á ári, sem svarar til rúmlega þriggja Blönduvirkjana. Það sem greinir þessar framkvæmdir frá fyrri orkuframkvæmdum er að nú er unnt að ná betri nýtingu tiltæks vatns og eldri orkuvera. Með aukningu miðlunarrýmis fyrir vatnsforðann og með endurbótum á eldri virkjunum verður um þriðjungi orkuþarfarinnar sinnt.

Til þess að nýta vatnið í Blöndu betur hefur Blöndustífla verið hækkuð um fjóra metra og miðlunarrými fyrir virkjunina þannig aukið úr 200 Gl í 400 Gl, sem jók orkuvinnslugetu stöðvarinnar um 160 GWst. á ári.

Á sama hátt er tilgangur 5. áfanga Kvíslaveitu sá að nýta vatn Þjórsár betur. Framkvæmdir þar hófust vorið 1996 og lauk því verki nú í haust. Verkið felst í því að Þjórsá er stífluð suðaustan Hofsjökuls og vatninu veitt um kerfi skurða til Þórisvatns þar sem því verður miðlað eftir þörfum til virkjananna neðar. Fyrst rennur vatnið úr Þórisvatni til Sigölduvirkjunar, þaðan til Hrauneyjafossvirkjunar sem er rétt neðar í Tungnaá. Þaðan fer vatnið í Sultartangalón sem er við ármót Tungnaár og Þjórsár og verður aðalmiðlunin fyrir Sultartangavirkjun. Frá Sultartangavirkjun rennur vatnið til Búrfellsvirkjunar. Með tilkomu þessa 5. áfanga Kvíslaveitu vex orkuvinnslugeta þessara stöðva um 290 GWst. á ári.

Hágöngumiðlun gegnir sama hlutverki og Kvíslaveitan. Hágöngumiðlun verður 385 Gl miðlun í Köldukvísl norðaustan Syðri-Hágöngu, en úr því er vatni miðlað niður til Þórisvatns og þaðan til virkjananna eins og áður er rekið. Áætlanir gera ráð fyrir að hægt verði að byrja að safna vatni í lónið um miðjan júlí og ljúka framkvæmdum að fullu í nóvember 1998. Miðlunin mun auka orkuvinnslugetu raforkukerfisins um 200 GWst. á ári.

Búrfellsvirkjun er nú komin hátt á þrítugsaldur og þótt hún hafi lítið látið á sjá á þeim tíma hafa tækninýjungar gert það mögulegt að bæta nýtni stöðvarinnar. Með því að skipta um vatnshjól í aflvélum Búrfellsstöðvar, auka rennsli og endurnýja hluta rafala, spenna og ýmsan annan búnað stöðvarinnar er unnt að auka afl hennar um 60 MW og orkuvinnsluna um 90 GWst. á ári. Fyrsta vélin með nýju vatnshjóli var gangsett í mars sl. og er nú lokið endurnýjun fjögurra aflvéla af sex.

Í tengslum við stóriðjuna verður byggð ein ný vatnsaflsvirkjun, Sultatangavirkjun, ný jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum og lokið við Kröfluvirkjun.

Sultartangavirkjun er skammt ofan Búrfells, neðan ármóta Þjórsár og Tungnaár. Uppsett afl virkjunarinnar verður 120 MW í tveim aflvélum, 60 MW hvor. Með tilkomu virkjunarinnar verður orkuaukning í raforkukerfi landsins um 800 GWst. á ári. Gerðir hafa verið allir meiri háttar verksamningar um byggingarvinnu og um kaup og uppsetningu véla og rafbúnaðar. Byrjað var að grafa fyrir stöðvarhúsi og jöfnunarþró um miðjan apríl sl. og í kjölfarið fylgdi gröftur skurða og gerð jarðganga. Framkvæmdir hafa verið skv. áætlun og er að því stefnt að fyrri vélin verði tekin í notkun í október 1999 og sú seinni í janúar árið 2000. Í september sl. unnu rúmlega 100 manns á byggingarstað en gera má ráð fyrir að þeir verði flestir um 350 á árinu 1999.

Á Nesjavöllum standa yfir framkvæmdir við stækkun varmaorkuvers úr 150 MW (varmaorka) í 200 MW og byggingu raforkuvers með 2 x 30 MW afli. Samkvæmt fyrirliggjandi samningum á fyrri vélasamstæða raforkuversins að hefja framleiðslu inn á net Landsvirkjunar í október 1998 og sú síðari í janúar 1999. Á Nesjavöllum hafa verið boraðar 18 holur og fæst úr þeim næg orka fyrir orkuverið og er undirbúningur og framkvæmdir nokkurn veginn samkvæmt áætlun.

Nú hyllir undir að unnt verði að ljúka við byggingu Kröfluvirkjunar, en horfið var frá niðursetningu 2. vélar virkjunarinnar á sínum tíma vegna eldsumbrota og breytinga í efnasamsetningu jarðvatnsins sem tengdust þeim. Með tilkomu vélarinnar eykst afl virkjunarinnar um 30 MW og orkuvinnslugetan um 240 GWst. á ári. Verkinu verður skipt í tvo áfanga. Fyrsta áfanga er lokið, en í honum fólst öflun lágþrýstigufu og uppsetningu vélarinnar. Seinni áfangi felst í öflun háþrýstigufu sem þarf til fullrar nýtingar afls vélarinnar. Báðum áföngum á að vera lokið í september 1998.

IV. Þjóðhagsleg áhrif umsaminna framkvæmda.
Á meðfylgjandi töflu er yfirlit um heildarfjárfestingar í iðjuverum og orkuframkvæmdum sem tengjast þeim og yfirlit um þjóðhagsleg áhrif þessara framkvæmda. Af 52 milljarða kr. heildarfjárfestingu eru um það bil 25 milljarðar kr. í orkuframkvæmdum en 27 milljarðar kr. í iðjuverum

ÍSAL
Norðurál
Járnblendið
Samtals
Framkvæmdir
1996-1997
1997-2000
1998-2000
Framlag til landsframleiðslu
- Í ma. kr. ári
4,0
4,0
1,5
9,5
- Hlutfall
0,8%
0,8%
0,3%
1,9%
Útflutningur
- Í ma. kr. á ári
7,3
6,8
1,7
15,8
- Hlutfall af vöruútflutningi 1996
5,8%
5,4%
1,3%
12,5%
Fjárfesting
- Í ma. kr. á framkvæmdatíma
16
30
6
52
- Hlutfall af fjárfestingu 1996
19%
35%
7%
61%
Mannafli
- Ársverk við framkvæmdir
750
1300
300
2350
- Frambúðarstörf
80
150
30
260

V. Framtíðarhugmyndir um virkjanir á Þjórsár- Tungnaár svæðinu.
Meginþungi virkjunarframkvæmda okkar hafa miðað að því að nýta sem best hagstæð skilyrði til orkuöflunar á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár. Nú eru þar þrjár virkjanir í rekstri, Búrfellsvirkjun, Sigölduvirkjun og Hrauneyjafossvirkjun, og sú fjórða, Sultartangavirkjun, bætist fljótlega í hópinn. Með þessu er þó vatnið úr Þórisvatnsmiðlun, og fallið þaðan niður fyrir Búrfellsvirkjun, ekki að fullu nýtt.

Einhvern tímann síðar verður væntanlega unnt að byggja tvær virkjanir til viðbótar í þessum vatnsvegi án þess að í frekari framkvæmdir þurfi að ráðast vegna miðlana. Þessar virkjanir eru Vatnsfellsvirkjun sem nýtir fallið milli Þórisvatns og Sigölduvirkjunar og Búðarhálsvirkjun sem nýta myndi fallið á milli Hrauneyjafossvirkjunar og Sultartangavirkjunar.

Í þjórsá, ofan ármóta við Tungnaá, hafa nokkrir virkjunarmöguleikar komið til álita. Þær hafa tekið breytingum sem m.a. hafa mótast af aukinni vitund um verndun Þjórsárvera og aukinni þekkingu á nýjum byggingaraðferðum, t.d. jarðgangagerð. Á meðfylgjandi mynd sem sýnir núverandi og fyrirhugaðar virkjanir á Þjórsár-Tungnaársvæðinu er m.a. eldri hugmynd um stórvirkjun í Gljúfurleit á Gnúpverjaafrétti sem nýtti allt fallið milli Norðlingaöldu og Sultartangalóns. Þessi hugmynd hefur nú vikið fyrir annarri sem felst í því að vatn úr Þjórsá, sem miðlað yrði úr Norðlingaöldumiðlun, fari um jarðgöng í Þórisvatnsmiðlun og nýtist til orkuframleiðslu í öllum virkjununum sex sem að framan greinir.


 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum