Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. janúar 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ávarp við opnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., 2. janúar 1998.

 


Ágætu stjórnendur, starfsfólk og samgestir. Gleðilegt nýtt ár.
Ég hygg að ársins 1997, sem nú er liðið í aldanna skaut, verði minnst sem eins mikilvægasta árs í sögu íslenskrar fjármálaþjónustu. Ársins, þegar teknar voru ákvarðanir um einhverjar umfangsmestu skipulagsbreytingar á íslenskum fjármálamarkaði, sem ráðist hefur verið í. Þegar ákveðið var að breyta gömlu ríkisviðskiptabönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka í hlutafélög og fjórir fjárfestingarlánasjóðir í eigu ríkisins voru sameinaðir í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
Um leið var ákveðið að selja ætti allt að 49% af eignarhlut ríkisins í Fjárfestingarbankanum. Þær eru því dálítið broslegar þær fullyrðingar, sem heyrst hafa frá einum og einum, að með þessum breytingum sé ríkið að auka umsvif sín á fjármagnsmarkaðnum.
Þessar skipulagsbreytingar urðu ekki fyrir tilviljun heldur var strax í upphafi, ætlunin að ná fram með þeim skýrum markmiðum, markmiðum sem mér finnst rétt við þetta tækifæri að rifja upp.
Í fyrsta lagi er verið að draga úr umsvifum ríkisins í almennri fjármálastarfsemi með einkavæðingu en um leið að styrkja áhættufjármögnun í atvinnulífinu með stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
Í öðru lagi er tilgangurinn sá að brjóta niður þá múra sem verið hafa á fjármagnsmarkaðnum milli einstakra atvinnugreina.
Í þriðja lagi að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaðnum með aukinni samkeppni, sem á að skila sér í ódýrari og betri fjármálaþjónustu fyrir atvinnulífið.
Með þessum breytingum eru bundnar vonir við að alþjóðleg samkeppnisstaða Íslands banti á þessu sviði. Á því er full þörf því uppbygging fjármagnsmarkaðar hefur verið einn af okkar helstu veikleikum í þessu samhengi.
Það verður horft til þess árs sem nú er nýgengið í garð þegar metið verður hvernig til hafi tekist við skipulagsbreytingar og hvort þau markmið sem menn settu sér í upphafi hafi gengið eftir. Það verður með okkur fylgst úr öllum áttum og margir tilbúnir að gagnrýna. Þar munu þeir fremstir í flokki fara, sem finnst að þeim stafi ógn af starfsemi hins nýja banka. Smjörþefinn af því hafið þið nú þegar fengið.
Á Fjárfestingabankann eru lagðar ríkar skyldur og við hann bundnar miklar vonir. Sakir stærðar sinnar, traustrar stöðu og lítillar yfirbyggingar á hann að geta veitt íslensku atvinnulífi bestu fáanlega þjónustu á kjörum sem standast erlenda samkeppni.
Hann á um leið að veita bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum sem hér starfa verðuga samkeppni og þannig stuðla að hagkvæmni í rekstri þeirra, lækkun vaxta og annars kostnaðar, sem á að koma fólki og fyrirtækjum í landinu til góða. Fyrstu vísbendingar um þetta eru strax komnar fram því keppinautarnir eru nú þegar farnir að kveinka sér undan samkeppninni. Það er ekki hægt í einu orðinu að tala um mikilvægi samkeppninnar en í hinu að hafna henni.
Til forystu í Fjárfestingarbankanum hefur valist ungt og áræðið fólk. Þetta unga fólk tekst nú á við spennandi og krefjandi verkefni. Með því verður fylgst af áhuga, ekki einungis af eigendum og samkeppnisaðilunum heldur einnig af atvinnulífinu og öllum þeim sem um áraraðir hefur verið ljós nauðsyn frekari framþróunar á íslenskum fjármagnsmarkaði. Síðast en ekki síst verður með bankanum fylgst af væntanlegum fjárfestum. Það verður því í höndum þessarar rösku ungu sveitar og stjórnar Fjárfestingabankans að skapa bankanum tiltrú á markaðnum, gera hann fýsilegan fyrir fjárfesta og gera sem mest verðmæti úr þessari eign þjóðarinnar.
Ég vil því nota tækifærið, við opnun Fjárfestingabanka atvinnulífsins hf. til að óska stjórn og starfsliði bankans gæfu og gengis í sínum störfum. Um leið þakka ég fráfarandi stjórnum og stjórnendum þeirra stofnana sem nú eru leystar af hólmi, gifturíkt og óeigingjarnt starf í áratugi. Ekki síst forstjórum sjóðanna, sem nú hafa hætt starfsemi sinni; þeim Braga Hannessyni, Má Elíassyni og Þorvarði Alfonssyni. Hafið þökk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum