Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. febrúar 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á Iðnþingi, 20. febrúar 1998: Samkeppnisstaða Íslands

 

 

I.

Nokkrum dögum eftir að ég tók við embætti iðnaðarráðherra ávarpaði ég Iðnþing í fyrsta sinn. Þá sagðist ég vona að mögru árin væru að baki og við þyrftum að treysta samkeppnisstöðu iðnaðarins og vinna þannig bug á atvinnuleysinu. Árið eftir lét ég svo um mælt að vorvindar blésu um íslenskan iðnað. Á síðasta ári var komið sumar í íslenskum iðnaði, sem enn stendur og sem betur fer sjást engin merki um að farið sé að hausta.
Óhætt er að segja að vel hafi gengið að skapa iðnfyrirtækjum ákjósanleg starfsskilyrði. Mikill stöðugleiki er í efnahagsmálum, verðbólga er lág, fjárfesting vaxandi, hagvöxtur mikill, jafnvægi er á ríkisbúskapnum, vextir fara lækkandi, og kjarasamningar hafa verið gerðir til þriggja ára. Stjórnvöld hafa skapað góða umgjörð en atvinnugreinin sjálf tekið boltann á lofti og sent hann yfir marklínuna.
Sem dæmi um sókn iðnaðarins má nefna að útflutningur iðnaðarvara jókst um tæp 17% á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs samanborið við árið á undan og velta jókst um 7%. Útflutningur iðnaðarvara á síðasta ári var 35% meiri en árið 1994.
Í ræðu minni hér í dag ætla ég að fjalla um samkeppnisstöðu Íslands á víðum grunni með hliðsjón af aðgerðum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og hvað megi betur fara til að treysta samkeppnisstöðuna enn frekar.
II.
Glöggt er gests augað segir máltækið. Alþjóðasamtök og -stofnanir hafa á undanförnum misserum hælt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og lofað þann góða árangur sem hún hefur náð. Hækkandi lánshæfismat íslenska ríkisins ber til dæmis efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar gott vitni. En það er ekki síður athyglisvert að skoða hvað betur má fara.
Hin viðamikla árlega athugun um samkeppnishæfni þjóða, World Competitiveness Report, sýnir að staða okkar er að styrkjast. Á síðasta ári lentum við í 21. sæti af 46 þjóðum og hækkuðum um fjögur sæti frá árinu á undan. Á þremur sviðum erum við í fremstu röð.
  • Efnahagslegur styrkleiki þjóðarinnar er mikill,
  • innviðir þjóðfélagsins eru mjög traustir og
  • mannauður með því besta sem gerist. Á þremur öðrum sviðum stöndum við hins vegar illa að vígi í samanburði við aðrar þjóðir og erum neðarlega á lista.
  • Alþjóðavæðing efnahagslífsins er lítil enn sem komið er,
  • fjármagnsmarkaðurinn á enn langt í land og
  • á vísinda- og tæknisviði eigum við geta gert betur.

Ég vil nota tækifærið og fara nokkrum orðum um hvernig við getum viðhaldið styrkleikum okkar samhliða því að vinna bug á veikleikunum.


II.1. Hagkerfi
Íslenskt efnahagslíf hefur tekið algjörum stakkaskiptum á undanförnum árum, þó vart þurfi að rifja það upp fyrir iðnrekendum. Á fyrri hluta þessa áratugar var fjárfesting hættulega lítil, erlend fjárfesting engin, fjárlagahalli viðvarandi, vextir að sliga fyrirtæki og atvinnuleysi óx stöðugt.
Engu þessu er til að dreifa núna, enda hefur staða okkar í alþjóðlegu samhengi batnað um heil 18 sæti, eða úr 25. sæti í það 7. Við búum við lága verðbólgu samfara miklum hagvexti, jafnvægi í ríkisbúskapnum, aukin kaupmátt, vaxandi fjárfestingu, lækkandi vexti og minnkandi atvinnuleysi. Það sem er meira um vert er að við sjáum fram á að búa við hagstætt umhverfi næstu árin án þess að komi til meiriháttar átaka á vinnumarkaði. Nú getum við skapað enn betri grunn fyrir framtíðarkynslóðir, byggt upp nýjar stoðir í efnahagslífinu, aukið samkeppni, greitt niður erlendar skuldir og aukið sparnað þjóðarinnar.

II.2. Innviðir þjóðfélagsins
Annar styrkleiki okkar eru innviðir þjóðfélagsins. Sterk staða okkar skýrist fyrst og fremst af gnægð náttúrulegrar orku í vatnsafli og jarðhita. Einnig eru fjarskipti og samgöngur í fararbroddi og tölvueign og tölvulæsi með því besta sem þekkist.
Ég hef trú á að staða okkar eigi enn eftir að batna. Sú stefna sem ríkisstjórnin markaði að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar er mjög mikilvæg. Nú er unnið gott og markvisst starf við að koma þessari stefnu í framkvæmd. Ljóst má þó vera að markmiðinu verður ekki náð nema með fulltyngi atvinnulífsins og almennings.
Opnun fyrir samkeppni í orkuframleiðslu mun leiða til aukinnar skilvirkni og samkeppni á því sviði og treysta enn frekar innviði hagkerfisins. Í haust lagði ég fram þingsályktunartillögu um framtíðarskipan orkumála þar sem ég lagði grunninn að samkeppni í framleiðslu raforku á næstu árum. Ég á von á því að tillagan verði samþykkt nú á vorþingi og þegar á þessu ári verði fyrstu skrefin stigin í átt að samkeppni á þessum markaði.
Allt ber þetta að sama brunni. Engum vafa er undirorpið að innviðir þjóðfélagsins eru sterkir og munu styrkjast enn á komandi árum. Við verðum þó að halda vöku okkar og láta ekki glepjast af þeim óraunhæfu stóryrðum sem óneitanlega hefur borið nokkuð á í kjölfar Kyoto-fundarins og gætu, ef undir þau er tekið, orðið til að skaða mjög samkeppnisstöðu okkar og þar með lífskjör í framtíðinni. Það má ekki verða.
Megininntak samþykktanna í Ríó og Kyoto er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Lögð er á það áhersla að auka nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Þetta þýðir í hnotskurn að samstaða er um að stuðla að því að framleiðsla fari fram þar sem losun þessara lofttegunda er minnst, m.ö.o. að nýr iðnaður nýti endurnýjanlegar orkulindir og dragi þar með úr losuninni á heimsvísu.
Hér getum við lagt mikið að mörkum, einkum í ljósi þess að aðeins lítill hluti orkulinda okkar hefur enn sem komið er verið nýttur. Þessi sérstaða okkar var staðfest á ráðstefnunni í Kyoto með sérstakri bókun.
Ég tel að þessi sérstaða Íslands eigi eftir að fá enn víðtækari viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Við megum því ekki setja okkur í heimatilbúna fjötra sem ógna munu efnahagslegri og félagslegri framþróun þjóðarinnar með ófyrirséðum afleiðingum.

II.3. Mannauður.
Einn af þremur helstu styrkleikum okkar Íslendinga er mannauður. Það kemur reyndar ekki á óvart því við erum ofarlega á blaði í öllum könnunum þegar mannauður er metinn. Þó hann sé vandmetinn má ekki vanmeta hann. Það er mikilvægt að hafa hugfast að mannauðurinn er forsenda þess að við náum árangri á öðrum sviðum í þekkingarþjóðfélaginu.
Þegar mannauðurinn er metinn hafa atriði eins og lífsgæði, viðhorf og gildismat fólks, atvinnustig og minnkandi atvinnuleysi sterka stöðu, en með samstilltu átaki hefur tekist að auka atvinnu verulega samhliða því að draga úr atvinnuleysi. Hér hefur tekist betur til en margir þorðu að vona. Það þótti á sínum tíma djarft að ætla að draga svo hratt úr atvinnuleysinu að skilyrði fyrir 12 þúsund nýjum störfum til aldamóta yrðu sköpuð. Allt bendir til að það muni takast og gott betur.
III.
Veikleikar okkar Íslendinga liggja, eins og áður sagði, á fjármagnsmarkaði, alþjóðavæðingu og í stuðningi við nýsköpun á sviði vísinda og tækni. Það er hins vegar á þessum sviðum sem gerðar hafa verið róttækar breytingar á síðustu misserum, breytingar sem munu án alls efa bæta samkeppnisstöðu okkar í framtíðinni og leggja grunn að efnahagslegum framförum fólks og fyrirtækja.

III.1 Fjármagnsmarkaður
Á fjármagnsmarkaði stóðum við illa að vígi árið 1995. Samkeppni á milli banka var takmörkuð, vextir mjög háir og vaxtamunur hærri en í nokkru öðru landi OECD. Fjárfestingarlánasjóðum var skipt niður í hólf eftir atvinnugreinum. Viðskiptabankar bjuggu við ólík starfsskilyrði þar sem þeir lutu ekki allir aga hlutafélagaformsins. Ríkið var allsráðandi á markaðnum en sinnti þó ekki sem skyldi þeim anga hans þar sem ríkið hefur óhjákvæmilega hlutverki að gegna, en það er á fyrstu stigum nýsköpunar.
Á fjármagnsmarkaði hafa breytingarnar verið hvað mestar á undanförnum þremur árum. Með hlutafélagavæðingu ríkisbankanna og sameiningu fjögurra fjárfestingarlánasjóða í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóð urðu tímamót. Þessum breytingum hafði verið beðið eftir í áratug. Þrátt fyrir áform síðustu ríkisstjórnar um sameiningu sjóðanna og formbreytingu ríkisviðskiptabankanna gekk hún ekki eftir fyrr en síðastliðið vor.
Um sameiningu fjárfestingarlánasjóðanna var hart deilt. Nú hafa úrtöluraddir að mestu þagnað eða þá breyst í umkvartanir yfir vaxandi samkeppni. Fjárfestingarbankinn kemur vel út á fyrstu vikum æviferilsins. Þar blása ferskir vindar og hann mun veita viðskiptabönkum og sparisjóðum mikla samkeppni, til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og heimilin í landinu. Nýsköpunarsjóður hefur fengið tugi umsókna frá áramótum og ljóst að verkefnaskortur mun ekki hrjá hann.
Markmið endurskipulagningar og einkavæðingar á íslenskum fjármagnsmarkaði hlýtur að hafa það að leiðarljósi að gera sem mest verðmæti úr þessum eignum þjóðarinnar og lækka vaxtamun og kostnað. Vaxtamunur hér á landi sem hlutfall af heildareignum er mun hærri en í Evrópu, eða um 4% á meðan vaxtamunur í Evrópu er yfirleitt um og yfir 2%. Það liggur ljóst fyrir að bankakerfið er of dýrt hér á landi.

III.2. Alþjóðavæðing
Annar helsti veikleiki okkar er lítil alþjóðavæðing. Hér skiptir sköpum að erlend fjárfesting er minni en annars staðar, bæði í atvinnurekstri og í verðbréfaviðskiptum. Mikill árangur hefur orðið af markaðsstarfi á sviði stóriðju. Það er hins vegar langt í frá að ekki sé hugað markvisst að erlendri fjárfestingu á öðrum sviðum. Sérstök skrifstofa, Fjárfestingarskrifstofa Íslands, hefur það verkefni með höndum og er árangurinn af undirbúningsstarfi hennar þegar farinn að skila sér í nýjum fjárfestingum.
Möguleikar Íslendinga eru á mun fleiri sviðum en í raforkufrekum iðnaði. Þannig má nefna mikla möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu, líftækni, fiskeldi og annarri sérhæfðri matvælaframleiðslu, smærri iðnferlum sem samnýta gufu og rafmagn og hugbúnaði svo fátt eitt sé nefnt. Samningur Íslenskrar erfðagreiningar við Hoffman-La Roche er einstakur og staðfestir að við eigum góða möguleika á erlendum fjárfestingum á öðrum sviðum en stóriðju. Samningur Hugvits og IBM um dreifingu á afurðum Hugvits á mörkuðum í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku er annað dæmi og mikilsverð viðurkennig fyrir íslenskan upplýsingaiðnað. Samningar sem þessir eru til þess fallnir að styrkja tiltrú á íslensku hugviti á erlendum mörkuðum og eru jafnframt ómetanleg hvatning fyrir aðra sem eru að feta sig á sömu braut.
Hin hliðin á alþjóðavæðingunni er aukinn útflutningur og fjárfestingar Íslendinga erlendis. Þar hef ég beitt mér fyrir margvíslegum aðgerðum. Í fyrsta lagi er Nýsköpunarsjóðnum ætlað stórt hlutverk við fjárfestingar íslenskra aðila erlendis en það er eitt af þremur meginverkefnum sjóðsins. Í öðru lagi tekur viðskiptaráðuneytið þátt fyrir Íslands hönd í samningaviðræðum OECD um fjölþjóðlegan fjárfestingarsáttmála sem mun sérstaklega koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggja á landvinninga erlendis til góða. Í þriðja lagi hef ég beitt mér fyrir að hafin verði vinna við að endurskoða skattamál íslenskra fyrirtækja sem starfa erlendis þannig að heimflutningur hagnaðar verði auðveldari en nú er. Það tel ég að sé lykilatriði varðandi fjárfestingar erlendis.
Ég er þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að Fjárfestingarskrifstofa Íslands og Markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar sameini krafta sína í eina öfluga skrifstofu sem hafi það hlutverk að laða erlenda fjárfesta til landsins. Ég á von á að sú sameining gangi í gegn á þessu ári. Mér finnst ástæða til að samhliða verði skoðað hvort þörf sé á að breyta starfsemi Útflutningsráðs, en sem kunnugt er mun markaður tekjustofn ráðsins, markaðsgjald, renna skeið sitt á enda um næstu áramót. Ég hef viðrað þessar hugmyndir mínar við utanríkisráðherra.

III.3. Vísindi og tækni
Þriðja sviðið þar sem við stöndum höllum fæti er nýsköpun á sviði vísinda og tækni. Hér verður að gera bragarbót á. Rannsóknarstofnanir atvinnulífsins eru veigamikið tæki stjórnvalda til að styðja við atvinnulífið hvað varðar hagnýtingu vísinda- og tæknilegrar þekkingar. Mér hefur nokkuð þótt á það skorta að þar sé ávallt gætt nægilega að heildarhagsmunum atvinnulífsins, en afmarkaðir sérhagsmunir einstakra atvinnugreina fremur verið látnir ráða.
Þetta er afleit staða og hefði ég kosið að samstaða gæti náðst um endurskipulagningu rannsóknarstofnana atvinnulífsins, sem hefði það að markmiði að til yrði, ein eða fleiri, sterk þverfagleg rannsókna- og þekkingarmiðstöð. Þar vildi ég sjá að sérstök áhersla væri lögð á hagnýtingu vísinda- og tækniþekkingar til raunverulegrar afurðasköpunar. Þetta felur í sér umtalsverða breytingu frá starfsháttum hefðbundinna rannsóknarstofnana í þá veru að stórefla hlutverk leiðsagnar, þekkingarmiðlunar og tækniyfirfærslu.
Iðntæknistofnun hefur á undanförnum árum byggt upp veigamikla þekkingu og reynslu sem líta má á sem vísi að svona þekkingarmiðstöð. Þessa starfsemi vil ég efla og bíð eftir því að stjórn stofnunarinnar ljúki yfirstandandi stefnumótunarvinnu, sem m.a. hefur sem forsendu að þar verði til sterk þverfagleg þekkingarmiðstöð sem þjóni öllu atvinnulífinu.
Með skipulagsbreytingum á Orkustofnun var, líkt og á Iðntæknistofnun, rannsóknarhluti stofnunarinnar fjárhagslega- og stjórnunarlega skilinn frá annarri starfsemi. Með þessu er stefnt að því að auka samkeppni um rannsóknir, efla rannsóknastarfsemi á frjálsum markaði og auka skilvirkni fjármagns sem varið er til rannsókna.
Við megum hins vegar aldrei gleyma því að til að nýsköpunarstarf verði sem öflugast þarf gott samstarf að ríkja á milli atvinnulífsins annars vegar og rannsóknastofnana, menntastofnana og háskóla hins vegar.
IV.
Ágætu fundarmenn.
Ég vil að endingu sýna ykkur sviðsmynd sem ég hef dregið upp af mögulegum útflutningi þjóðarinnar uppúr miðjum næsta áratug. Boðskapurinn er sá að við höfum núna betri tækifæri til að styrkja stoðir íslensks efnahagslífs en nokkurn tíma áður og draga úr vægi sjávarútvegs í þjóðarbúskapnum. Hér er ekki verið að kasta rýrð á sjávarútveginn. Sjávarútvegur hefur haldið uppi góðum lífskjörum í þessu landi á seinni hluta aldarinnar og er betur rekinn en sjávarútvegur annarra þjóða. Hins vegar er óráðlegt að ætla að verðmæti útfluttra sjávarafurða geti vaxið hröðum skrefum frá því sem nú er. Þess vegna er okkur nauðsynlegt að byggja upp fleiri stoðir.
Þessar nýju stoðir geta svo sannarlega verið fleiri en stóriðja. Stóriðja mun ekki halda uppi atvinnu í þessu landi á nýrri öld. Hún er hins vegar mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni okkar að byggja upp fjölbreyttari iðnað hér á landi.
Í skýrslu Samtaka iðnaðarins, sem kynnt er hér á þessum fundi, kemur fram að útflutningur annarra vara en sjávarafurða verði að aukast um nær 80% á næstu tíu árum til þess að halda uppi hagvexti og jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Ég held að þetta sé rétt mat.
Í sviðsmynd minni er gert ráð fyrir að útflutningur hugbúnaðar sexfaldist á tíu árum, og hlutdeild hugbúnaðar í útflutningi verði þá komin í 3%, útflutningur iðnaðarvara annarra en stóriðju þrefaldist og hlutdeild þeirra aukist úr 5% í 9% og gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar rúmlega tvöfaldist og hlutur hennar aukist í 13%. Miðað er við að hlutdeild stóriðju aukist í 22% og er þá ekki gert ráð fyrir öðru en einu miðlungsstóru iðjuveri til viðbótar við þær fjárfestingar sem nú þegar eru ákveðnar. Hlutdeild sjávarútvegs fellur við þessa aukningu annarra greina úr 51% í 35% þrátt fyrir 2% árlegan vöxt útflutningsverðmætis sjávarafurða.
Þessi mikla breyting á samsetningu útflutnings krefst þess að nýjar áherslur verði lagðar í atvinnumálaumræðunni og megináherslan lögð á bætta samkeppnisstöðu með endurnýjun mannauðsins, miðlun vísinda- og tækniþekkingar, sveigjanleika í innra skipulagi fyrirtækja, virkni markaðsaflanna, skipulagi fjármagnsmarkaðarins og aðlögunarhæfni vinnumarkaðarins.
Ágætu fundarmenn. Ég vil að endingu þakka Samtökum iðnaðarins fyrir gott og árangursríkt samstarf á liðnum árum. Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum