Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. mars 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á aðalfundi Sambands ísl. tryggingafélaga, 4. mars 1998.

 


I. Inngangur

Kæru fundargestir.

Ég vil byrja á því að þakka stjórn Sambands íslenskra tryggingafélaga fyrir þann heiður að fá að ávarpa aðalfund sambandsins.

Fjármálaþjónusta og þar með talin vátryggingastarfsemi stendur á tímamótum. Aukið þjónustuframboð og lægri tilkostnaður munu fara saman sem mikilvægustu þættirnir til þess að tryggja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs í framtíðinni.

Því er brýnt að gott samstarf sé á milli stjórnvalda og atvinnulífs varðandi þróun íslensks fjármálamarkaðar sem taki mið af því sem best gerist í samfélagi þjóðanna.

Alþjóðasamtök og –stofnanir hafa á undanförnum misserum hælt efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og lofað þann góða árangur sem hún hefur náð. Hækkandi lánshæfismat íslenska ríkisins ber til dæmis efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar gott vitni. En það er ekki síður athyglisvert að skoða hvað betur má fara.

Hin viðamikla árlega athugun um samkeppnishæfni þjóða, World Competitiveness Report, gefur til kynna að staða okkar er að styrkjast. Á síðasta ári lentum við í 21. sæti af 46 þjóðum og hækkuðum um fjögur sæti frá árinu á undan. Á þremur sviðum erum við í fremstu röð:
· Efnahagslegur styrkleiki þjóðarinnar er mikill,
· innviðir þjóðfélagsins eru mjög traustir og
· mannauður með því besta sem gerist.

Á þremur öðrum sviðum stöndum við hins vegar ver að vígi í samanburði við aðrar þjóðir, það er á sviði:
· Alþjóðavæðingar efnahagslífsins,
· fjármálaþjónustu og
· á vísinda- og tæknisviði eigum við að geta gert betur.

Íslenskt efnahagslíf hefur tekið algjörum stakkaskiptum á undanförnum árum eins og þeir vita sem starfa á fjármagnsmarkaði. Á fyrri hluta þessa áratugar var fjárfesting hættulega lítil, erlend fjárfesting engin, fjárlagahalli viðvarandi, vextir að sliga fyrirtæki og atvinnuleysi óx stöðugt.
Engu þessu er til að dreifa núna, enda hefur staða okkar í alþjóðlegu samhengi batnað um heil 18 sæti, eða úr 25. sæti í það 7. Við búum við lága verðbólgu samfara miklum hagvexti, jafnvægi í ríkisbúskapnum, aukin kaupmátt launa, vaxandi fjárfestingu, lækkandi vexti og minnkandi atvinnuleysi. Það sem er meira um vert er að við sjáum fram á að búa við hagstætt umhverfi næstu árin án þess að komi til meiriháttar átaka á vinnumarkaði. Nú getum við skapað enn betri grunn fyrir framtíðarkynslóðir, byggt upp nýjar stoðir í efnahagslífinu, aukið samkeppni, greitt niður erlendar skuldir og aukið sparnað þjóðarinnar.

Annar styrkleiki okkar eru innviðir þjóðfélagsins. Sterk staða okkar skýrist fyrst og fremst af gnægð náttúrulegrar orku í vatnsafli og jarðhita. Einnig eru fjarskipti og samgöngur í fararbroddi og tölvueign og tölvulæsi með því besta sem þekkist.
Ég hef trú á að staða okkar eigi enn eftir að batna. Sú stefna sem ríkisstjórnin markaði að Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar er mjög mikilvæg. Nú er unnið gott og markvisst starf við að koma þessari stefnu í framkvæmd. Ljóst má þó vera að markmiðinu verður ekki náð nema með fulltyngi atvinnulífsins og almennings.

Eins og ég vék að hér áðan er mannauður talinn einn af þremur helstu styrkleikum okkar Íslendinga. Það kemur reyndar ekki á óvart því við erum ofarlega á blaði í öllum könnunum þegar mannauður er metinn. Þó hann sé vandmetinn má ekki vanmeta hann. Það er mikilvægt að hafa hugfast að mannauðurinn er forsenda þess að við náum árangri á öðrum sviðum í þekkingarþjóðfélaginu.

Þegar mannauðurinn er metinn hafa atriði eins og lífsgæði, viðhorf og gildismat fólks, atvinnustig og minnkandi atvinnuleysi sterka stöðu, en með samstilltu átaki hefur tekist að auka atvinnu verulega samhliða því að draga úr atvinnuleysi. Hér hefur tekist betur til en margir þorðu að vona. Það þótti á sínum tíma djarft að ætla að draga svo hratt úr atvinnuleysinu að skilyrði fyrir 12 þúsund nýjum störfum til aldamóta yrðu sköpuð. Allt bendir til að það muni takast og gott betur.

Unnið er markvisst að því að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs. Aukin fjölbreytni dregur úr sveiflum í þjóðarbúskapnum og eflir lánshæfismat. Stefnt er að því að árið 2005 verði vægi sjávarafurða í útflutningi komið niður í 36% úr 51% eins og var árið 1995.


II. Breyting á ytra umhverfi fjármagnsmarkaðar.

Á nýliðnum árum hafa verið stigin stór skref í alþjóðavæðingu atvinnulífs. Hér skiptir sköpum að erlend fjárfesting hefur aukist verulega bæði í atvinnurekstri og í verðbréfaviðskiptum.  Brýnt er þó að auka tækifæri fyrir erlenda fjárfesta, meðal annars með því að gera verðbréfaviðskipti aðgengilegri og auka heimildir þeirra til beinna fjárfestinga.

Í því má nefna mikla möguleika í heilsutengdri ferðaþjónustu, líftækni, fiskeldi og annarri sérhæfðri matvælaframleiðslu, smærri iðnferlum sem samnýta gufu og rafmagn og hugbúnaði svo fátt eitt sé nefnt.

Hin hliðin á alþjóðavæðingunni er aukinn útflutningur og fjárfestingar Íslendinga erlendis. Þar hef ég beitt mér fyrir margvíslegum aðgerðum. Í fyrsta lagi er Nýsköpunarsjóðnum ætlað stórt hlutverk við fjárfestingar íslenskra aðila erlendis en það er eitt af þremur meginverkefnum sjóðsins. Í öðru lagi tekur viðskiptaráðuneytið þátt fyrir Íslands hönd í samningaviðræðum OECD um fjölþjóðlegan fjárfestingarsáttmála, eins og ég mun víkja nánar að hér á eftir. Í þriðja lagi hef ég beitt mér fyrir að hafin verði vinna við að endurskoða skattamál íslenskra fyrirtækja sem starfa erlendis þannig að heimflutningur hagnaðar verði auðveldari en nú er. Það tel ég að sé lykilatriði varðandi fjárfestingar erlendis.

Ég vil hér víkja nánar að tveimur þáttum í ytra umhverfi okkar sem ég tel að komi til með að skipta miklu fyrir þróun íslensks atvinnulífs á næstu misserum, þar á meðal íslenskra fjármálafyrirtækja.

Fyrra atriðið er aðild okkar að GATS (General Agreement on Trade in Services). Í desember s.l. lauk viðræðum um hinn almenna samning um þjónustuviðskipti, eins og heiti hans er á íslensku, á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Genf og tekur hann gildi þann 1. mars á næsta ári. Samkvæmt upplýsingum stofnunarinnar nemur umfang milliríkjaviðskipta þeirra er samningurinn tekur til 18.000 milljörðum dollara í verðbréfaviðskiptum, 38.000 milljörðum dollara í alþjóðlegum bankalánum og 2.500 milljörðum dollara í vátryggingaiðgjöldum. Samningaviðræðurnar sem hófust í Uruguay árið 1986 hafa, ásamt þátttöku Íslands í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, gefið íslenskum stjórnvöldum tilefni og tækifæri til þess að hefja aðlögun íslensks fjármálamarkaðar að alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Ekki er að vænta að GATS-samningurinn einn út af fyrir sig breyti miklu fyrir innlend fyrirtæki á fjármagnsmarkaði. Skuldbindingar Íslands gagnvart honum taka mið af gildandi löggjöf hér á landi og kalla því ekki á neinar breytingar á henni. Samningurinn opnar fyrst og fremst markaði í Asíu og latnesku Ameríku þar sem í gildi hafa verið miklar hömlur gagnvart erlendum þjónustuveitendum á þessu sviði.

Segja má að aðal ávinningur samningsins sé sá að hann setur samræmdan grunn að frekara afnámi hafta á fjármálasviðinu, en gert er ráð fyrir að næsta lota samningaviðræðna um víðtækari opnun markaða hefjist árið 2.000.

Það að tekist skyldi að ljúka samningaviðræðunum mitt í fjármálakreppunni í Asíu er kannski öruggasta vísbendingin um að alþjóðavæðing fjármálamarkaðarins verður ekki stöðvuð.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er aðild okkar að fjölþjóðlegum fjárfestingarsamningi sem nú er í undirbúningi á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, eða OECD eins og hún er almennt nefnd. Embættismenn úr viðskiptaráðuneytinu hafa tekið þátt í samningaferlinu fyrir Íslands hönd og er reiknað með að brátt fari að draga að lokum viðræðnanna.

Þótt sá samningur fjalli um mun víðtækara svið en fjármálaþjónustu þá fer ekki hjá því að áhrif hans kunna að verða veruleg á þá atvinnugrein. Meðal þátttakenda í viðræðunum eru öll helstu iðnríki heims; ríki sem hafa yfir að ráða reynslu og getu til fjárfestinga í flestum geirum atvinnulífsins.

Samningurinn gerir ráð fyrir að fjárfestum frá aðildarríkjunum verði frjálst að setja á stofn hvers konar atvinnurekstur í öðrum aðildarríkjum samningsins nema þar sem ríkin gera sérstaka fyrirvara. Skulu erlendir fjárfestar í þessu skyni njóta sömu réttinda og innlendir.

Það er ljóst að samningurinn skiptir engum sköpum fyrir fjölþjóðleg risafyrirtæki. Þau hafa yfir að ráða þeim mannafla og fjármunum að þau geta á eigin vegum staðið í samningaviðræðum við stjórnvöld um allan heim til þess að tryggja fjárfestingar sínar. Samningurinn mun sérstaklega koma litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem hyggja á landvinninga til góða. Hann ætti því að verða íslenskum fjárfestum erlendis kærkominn svo og þeim minni- eða meðalstóru fjárfestum sem kunna að hafa áhuga á fjárfestingum hér á landi.

Samningurinn verður smáríkjum eins og Íslandi mikilvægur vegna þess að hann setur Ísland á kortið sem fjárfestingarvalkost, en dýrt er að halda úti öflugu kynningarstarfi. Það er því vonast til að hann komi til með að auka áhuga erlendra fjárfesta á valkostum hér. Þá má nefna að smæð landsins gerir það að verkum að við getum ekki beitt neina viðskiptaþvingunum ef við teljum brotið á fjárfestum okkar erlendis. Samningurinn mun innihalda virka vernd fyrir fjárfesta og tryggja að deilur sem upp kunna að koma verði leystar af viðurkenndum alþjóðlegum gerðardómum.

Ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt bráðabirgðafyrirvara Íslands við ákvæði samningsins. Í fyrirvörum Íslands er gert ráð fyrir að fjárfestingar í sjávarútvegi og fiskvinnslu verði áfram takmarkaðar, svo og í flugrekstri, fasteignum og orkufyrirtækjum. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að fjárfestingar þegna aðildarríkja lúti sömu ákvæðum og fer um þegna ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Þessi þróun er færir okkur enn heim sanninn um að við erum hluti af alþjóðlegum markaði, þar með töldum markaði í fjármálaþjónustu. Hindranir í vegi erlendra fjármálafyrirtækja til að bjóða þjónustu hér á landi í samkeppni við innlenda aðila eru að hverfa. Þetta verða íslensk fjármálafyrirtæki, bankar, vátryggingafélög sem og önnur fyrirtæki á fjármagnsmarkaði, að hafa í huga við alla stefnumótun til framtíðar. Aðgerðir stjórnvalda varðandi sameiningu fjárfestingarlánasjóða og hlutafélagavæðingu ríkisviðskiptabankanna hafa m.a. verið hugsaðar sem hluti aðgerða til þess að undirbúa innlenda fjármálastarfsemi undir aukna samkeppni erlendis frá.

Þótt íslenski markaðurinn sé smár er ekki að efa að þeir sem hafa augum opin fyrir sóknarfærum sjá hér ýmsa möguleika. Á vettvangi þeirra sem hér eru í dag hefur þegar orðið vart aukinnar samkeppni á vissum sviðum vátrygginga, svo sem í líftryggingum hér á landi. Óraunhæft er að ætla að þar verði látið staðar numið.

III. Breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði

Vík ég nú stuttlega að hinum innlenda fjármagnsmarkaði, þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar og hvert við erum að stefna.

Allt fram á þennan dag hefur íslenskur fjármagnsmarkaður staðið illa að vígi á alþjóðlegan mælikvarða. Samkeppni á milli banka hefur verið takmörkuð, fjárfestingarlánasjóðirnir atvinnugreinaskiptir og viðskiptabankar búið við ólík starfsskilyrði þar sem þeir lutu ekki allir aga hlutafélagaformsins. Ríkið hefur verið allsráðandi á markaðnum en sinnti þó ekki sem skyldi þeim anga hans þar sem það hefur óhjákvæmilega hlutverki að gegna, en það er á fyrstu stigum nýsköpunar.

Öllu þessu hefur nú verið breytt. Með hlutafélagavæðingu ríkisbankanna og sameiningu fjögurra fjárfestingarlánasjóða í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og Nýsköpunarsjóð urðu tímamót. Þessum breytingum hafði verið beðið eftir í áratug en gengu ekki eftir fyrr en nú um áramótin.

Um sameiningu fjárfestingarlánasjóðanna var hart deilt. Nú hafa úrtöluraddir að mestu þagnað eða þá breyst í umkvartanir yfir vaxandi samkeppni.

Hér hafa þó aðeins verið stigin fyrstu skrefin. Allir sem þekkja til íslensks fjármagnsmarkaðar vita að við stöndum á tímamótum í þróun hans. Stefnumótun um framtíð þeirra fjármálastofnana sem ríkið er enn eigandi að skipta hér meginmáli. Því er mikilvægt að stjórnvöld geri sér glögga grein fyrir þeim markmiðum sem stefna ber að.

Öllum er ljóst að íslenska bankakerfið er of dýrt. Vaxtamunur hér á landi sem hlutfall af heildareignum er mun hærri en í Evrópu, eða um 4% á meðan vaxtamunur í Evrópu er yfirleitt um og yfir 2%. Rekstrarkostnaður banka á Íslandi sem hlutfall af rekstrartekjum er í kringum 70% á meðan sama viðmiðun í Danmörku er undir 60% og undir 50% í Svíþjóð. Enn má nefna að um 1.500 íbúar eru á hvern afgreiðslustað banka hér á landi á meðan 3.500 íbúar eru um hvern afgreiðslustað í Svíþjóð og 2.400 íbúar um hvern afgreiðslustað í Danmörku.

Af þessu má ljóst vera að þjónusta við atvinnulíf og almenning er of dýr. Hagræðingarmöguleikar í íslensku bankakerfi eru miklir. Frá hendi okkar stjórnmálamanna hlýtur grunnmarkmið við stefnumótun á fjármagnsmarkaði að vera að útvega atvinnulífi og almenningi ódýrari þjónustu.

Önnur markmið liggja einnig til grundvallar og tengjast þessu markmiði. Þannig ber þeim sem fara með eignarhlut ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum að leitast við að hámarka verðmæti hlutafjár ríkissjóðs. Það er skylda okkar sem förum með eignir þessar að arðurinn af þeim verði sem mestur þjóðinni til hagsbóta.

Einnig þarf að tryggja aukna samkeppni á fjármagnsmarkaði. Rök sem færð voru fyrir stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. voru m.a. þau að með honum myndi samkeppni við hina hefðbundnu viðskiptabanka aukast, en það myndi knýja þá til meiri hagræðingar. Ennfremur ber að tryggja góða og örugga þjónustu við atvinnulíf og almenning. Tryggja þarf að góð þjónusta sé til staðar í öllum atvinnugreinum og á öllum landssvæðum, en mikilvægt er að slík þjónusta sé tryggð með lágmarkstilkostnaði.

Almennt hefur verið við það miðað við sölu ríkisfyrirtækja að almenningur eigi þess kost að gerast hluthafar. Þar með gefst þeim færi á að fylgjast með og taka þátt í rekstri þeirra. Það er einnig nauðsynlegt að meta í hverju tilviki hvort ekki þurfi að fá kjölfestufjárfesta að eignarhaldinu, fjárfesta sem hafi þekkingu á rekstri þessara stofnana og eigi nægilega stóran eignarhlut til að geta beitt áhrifum sínum. Að lokum má nefna að almennt er talið að þátttaka erlendra fjárfesta á íslenskum fjármagnsmarkaði styrki stöðu hans og auki samkeppnishæfni fjármálastofnana. Aukin tengsl markaðarins við erlenda markaði er nauðsynlegt skref í þróuninni.

Þessi markmið verður hafa í huga þegar næstu skref eru stigin.

En af hverju er ég að fjalla um þetta hér á aðalfundi Sambands íslenskra tryggingafélaga. Ljóst er að á vátryggingasviðinu hefur aðild ríkisins verði í lágmarki. Staðan er hins vegar sú að hin aukna samkeppni á fjármagnsmarkaði hefur fært saman svið sem áður voru aðskilin. Það eru því ekki aðeins landamæri á milli markaða sem hafa máðst út heldur hafa landamæri á milli vörutegunda á fjármálamarkaði verið að dofna. Á undanförnum árum hefur færst í aukana að vátryggingafélög og viðskiptabankar stilli saman strengi sína. Hér á landi hafa viðskiptabankar keypt hlut í vátryggingafélögum og bera þar hæst kaup og kaupréttur Landsbanka Íslands í Vátryggingafélagi Íslands.

Hagræði af samstarfi af þessu tagi er mismikið eftir eðli trygginga. Almennt er talið að líftryggingar og bankastarfsemi fari vel saman og er þróunin sú að viðskiptabönkum er nauðsyn að geta boðið upp á afurðir sem samanstanda af líftryggingu og sparnaði. Þjónustuform viðskiptabanka samrýmist einnig vel líftryggingastarfsemi.

Hins vegar er það mat flestra að skaðatryggingar og bankastarfsemi fari síður vel saman. Þjónusta í tengslum við skaðatryggingar er í eðli sínu frábrugðin bankastarfseminni og þekking í viðskiptabönkum fellur ekki eins vel að þessum tryggingum. Samlegðaráhrif eru því almennt takmarkaðri en innan hvers geira fyrir sig.

Með hliðsjón af öllu framansögðu munu vátryggingafélögin geta átt verulegan þátt í þeim breytingum á fjármagnsmarkaði sem nú standa yfir.

IV. Opinbert eftirlit með starfsemi á fjármagnsmarkaði.

Hér að framan hef ég fjallað um breytingar á íslenskum fjármagnsmarkaði sem við óhjákvæmilega stöndum frammi fyrir, með hliðsjón af því alþjóðlega umhverfi sem við erum hluti af og með hliðsjón af nauðsyn þess að hér sé boðið upp á fjölbreytta, örugga og ódýra fjármálaþjónustu. Í þessu efni hef ég lagt áherslu á að draga úr ríkisumsvifum og að tryggja þurfi aukna samkeppni sem er öflugasta tækið til þess að ná fram hagkvæmni í fjármálakerfinu.

Um þetta getum við ekki fjallað án þess að taka líka til umfjöllunar umgjörð fjármagnsmarkaðarins. Segja má að EES- samningurinn hafi haft einna jákvæðust áhrif á fjármagnsmarkaðinn, vegna þess að samningurinn knúði okkur til að aðlaga löggjöf á þessu sviði löggjöf annarra landa á efnahagssvæðinu. Þetta var lykilatriði til þess að við gætum verið hluti af hinu alþjóðlega umhverfi. Almennt má því segja að fjármálafyrirtæki hér á landi búi við heildstæða og trausta löggjöf.

En við þurfum líka að huga að áhættuþáttunum í nýju umhverfi. Þess vegna skipaði ég fyrir tveimur árum nefnd til að endurskoða opinbert eftirlit með fjármálastofnunum, þ.e. það eftirlit sem er nú í höndum tveggja stofnana, Seðlabanka Íslands, bankaeftirlits og Vátryggingaeftirlits. Þeim breytingum á fjármagnsmarkaði og hinni almennu þróun markaðarins fylgja nefnilega óhjákæmilega nýjir áhættuþættir sem nauðsynlegt er að huga að. Augljóst er að hörð samkeppni og nýjar greinar þjónustu kalla á gott opinbert eftirlit sem er til þess bært að fylgjast með því að farið sé að lögum og reglum og að rekstur fjármálafyrirtækja sé heilbrigður og eðlilegur.

Flestir geta verið sammála um að núverandi eftirlit hefur reynst vel, en það má ekki koma í veg fyrir að stjórnvöld horfi fram á veginn í þessum efnum. Þjóðhagsleg nauðsyn áreiðanlegs fjármálakerfis er óumdeilanleg. Þess vegna er brýnt að á hverjum tíma sé fyrir hendi virkt og sveigjanlegt eftirlit með starfsemi á fjármagnsmarkaði. Slíkt eftirlit verður sífellt að laga að breyttum aðstæðum. Vegna hinnar öru þróunar á fjármagnsmarkaði verður reglulega að taka til skoðunar hvort það eftirlit sem til staðar er á hverjum tíma sé eins og best verður á kosið.

Í nefndinni áttu sæti fulltrúar fjármálastofnana sem heyra undir eftirlit bankaeftirlits og Vátryggingaeftirlits, fulltrúi Seðlabanka Íslands auk fulltrúa ráðuneytisins. Nefndinni var stýrt af Guðmundi Skaftasyni fyrrverandi Hæstaréttardómara. Nefndin fjallaði sérstaklega um þrjú viðfangsefni. Í fyrsta lagi fjallaði hún um hvort til greina kæmi að sameina þá starfsemi sem fram fer í bankaeftirlitinu og Vátryggingaeftirlitinu. Í öðru lagi tók hún til skoðunar stöðu eftirlitsstofnunar eða eftirlitsstofnana innan stjórnsýslunnar. Í þriðja lagi var fjallað um hvernig standa beri undir kostnaði af eftirlitsstarfsemi á fjármagnsmarkaði.

Nefndin skilaði mér niðurstöðum sínum nú fyrir áramótin en þær eru þessar helstar:

· Í fyrsta lagi að virkast eftirlit með fjármagnsmarkaði náist með því að setja á stofn eitt almennt fjármálaeftirlit sem nái til allra greina markaðarins.
· Í öðru lagi að slík stofnun eigi að vera sjálfstæð stofnun sem stjórnsýslulega heyri undir viðskiptaráðherra.
· Í þriðja lagi að tryggja verði starfstengsl stofnunarinnar við Seðlabanka Íslands, til þess að hann geti í starfsemi sinni nýtt sér þær upplýsingar sem aflað er innan eftirlitsstofnunarinnar og öfugt.
· Í fjórða lagi að eftirlitsskyldir aðilar sem falla undir eftirlit hinnar nýju stofnunar standi undir kostnaði við það með svipuðum hætti og vátryggingafélögin gera nú, en eins og kunnugt er hefur Seðlabankinn greitt kostnað vegna bankaeftirlits án sérgreindrar gjaldtöku.

Ég styð meginniðurstöður nefndarinnar heilshugar, og tel þær falla vel að þeim heildarbreytingum á fjármagnsmarkaði sem ég hef hér lýst. Ég vil í því efni nefna nokkur rök sem ég legg til grundvallar.

Ljóst er að nú er boðin blönduð fjármálaþjónusta vátryggingafélaga og annarra fjármálastofnana. Einnig hefur þróunin verið sú að mynda fjármálasamstæður. Þannig hafa lánastofnanir, vátryggingafélög og verðbréfafyrirtæki verið tengd saman, annað hvort sem dóttur- og móðurfyrirtæki eða í gegnum eignarhaldsfélög.

Mörg atriði sem snerta eftirlit með svo samþættum markaði geta valdið erfiðleikum.

Flest bendir til þess að sameinað eftirlit verði öruggara og árangursríkara heldur en eftirlit fleiri aðskildra stofnana, þó úr ýmsum ókostum megi bæta með samvinnu eftirlitsstofnana og upplýsingaflæði milli þeirra. Líklegt er að þróun næstu ára muni þrýsta enn á og auka þörfina á samræmdu eftirliti á einni hendi.

Þegar litið er til nágrannalandanna kemur í ljós að öll þróun hnígur til sameiningar eftirlitstofnana. Þannig starfa sameinaðar eftirlitsstofnanir í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Í Finnlandi er einnig rætt um sameiningu eftirlita. Þá eru í undirbúningi miklar breytingar á eftirliti á breskum fjármagnsmarkaði, sem fela í sér heildstæðara eftirlit.

Eins og fyrr segir var það niðurstaða meirihluta eftirlitsnefndarinnar að skipa bæri eftirlitsstofnun af þessu tagi undir viðskiptaráðherra. Mjög er breytilegt eftir löndum hvort eftirliti með fjármálastarfsemi er skipað beint undir seðlabanka, hvort ráðuneyti eiga þar hlut að máli eða hvort eftirlitið er í höndum sérstakrar stofnunar. Í Danmörku, Svíþjóð og Noregi er eftirlit með fjármálastofnunum utan seðlabanka þessara landa. Í Finnlandi er eftirlit með fjármálastarfsemi annarri en vátryggingastarfsemi rekið í tengslum við seðlabankann, en með sjálfstæðri stjórn. Í Bretlandi hefur eftirlit með innlánsstofnunum verið í höndum seðlabankans, en eftirlit með annarri starfsemi á fjármagnsmarkaði í höndum ýmissa aðila. Nú standa yfir breytingar sem fela það í sér að færa bankaeftirlitið frá Seðlabanka Englands. Sjaldgæft er að seðlabankar hafi með höndum eftirlit með annarri starfsemi en starfsemi lánastofnana.

Almennt má segja að eftirlit bankaeftirlits Seðlabanka Íslands hafi gefist vel. Eftir því sem umfang eftirlitsins hefur aukist og fleiri svið fjármagnsmarkaðarins hafa verið felld undir bankaeftirlitið, má þó segja að þessi þáttur í starfsemi bankans hafi fjarlægst hið eiginlega hlutverk Seðlabankans. Rök eru fyrir því að eftirlit með innlánsstofnunum falli undir seðlabanka þar sem hann er lánveitandi til þrautavara. Önnur svið, svo sem verðbréfaviðskipti, lífeyrissjóðastarfsemi eða vátrygginga-starfsemi, eru fjarlægari hlutverki bankans.

Mikilvægt er að eftirlitstofnun fái að starfa óháð öðrum hagsmunum en þeim sem í eftirlitinu felast. Þetta verður best tryggt með því að tryggja þessari starfsemi sjálfstæði. Og á þetta legg ég áherslu.

Ég vil jafnframt tryggja góð tengsl eftirlitsstofnunar og Seðlabanka Íslands. Mikilvægt er að Seðlabankinn fái áfram notið þeirrar upplýsingaöflunar og þekkingar sem nú er til staðar í bankaeftirlitinu, og að ekki þurfi að koma til tvíverknaðar. Að sama skapi er brýnt að ný eftirlitsstofnun haldi góðum tengslum við Seðlabankann. Báðum stofnununum er þetta nauðsynlegt þannig að þær geti gegnt hlutverki sínu á sem árangursríkastan hátt.

Með hliðsjón af þessu öllu hef ég látið vinna í ráðuneytinu frumvarp til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þar er gert ráð fyrir að eftirlit sem nú fellur undir bankaeftirlitið og Vátryggingaeftirlitið verði í framtíðinni í höndum nýrrar stofnunar, Fjármálaeftirlitsins. Frumvarpsdrög hafa þegar verið kynnt samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirliti. Hafa þessir aðilar komið sjónarmiðum sínum á framfæri og vil ég þakka það. Lít ég svo að þetta samráð hafi leitt í ljós almennan stuðning við áform mín í þessum efnum þótt vitaskuld sýnist sitt hverjum um einstök efnisatriði.

Helstu efnisatriði frumvarpsdraganna eru þessi:
· Í fyrsta lagi er eins og áður segir gert er ráð fyrir að komið verði á fót nýrri stofnun, Fjármálaeftirlitinu, sem annast skal þá starfsemi sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitið hafa nú með höndum. Starfshemildir og úrræði verði svipuð því sem nú er.
· Í öðru lagi verði Fjármálaeftirlitið sjálfstæð ríkisstofnun með sérstakri stjórn, en heyri stjórnskipulega undir viðskiptaráðherra. Með daglega stjórn fari forstjóri. Stjórnendum og starfsmönnum verði sett ströng hæfisskilyrði. Sérstök ráðgjafarnefnd eftirlitsskyldra aðila starfi í tengslum við stofnunina. Hún hafi það hlutverk að taka þátt í stefnumótun og koma á framfæri viðhorfum sínum til starfshátta og reksturs.
· Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að náin samskipti verði milli Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands, þannig að báðar stofnanir hafi stuðning af hvor annarri og að komið verði í veg fyrir tvíverknað.
· Í fjórða lagi er gert er ráð fyrir sérstakri kærunefnd, en þangað megi skjóta ákvörðunum stofnunarinnar.
· Í fimmta lagi verði öllum eftirlitsskyldum aðilum gert að greiða kostnað af eftirlitinu með svipuðum hætti og vátryggingafélög gera nú. Þetta er að mínu mati nauðsynlegt til þess að jafna starfsskilyrði á fjármagnsmarkaði.

Ég hef í hyggju að leggja frumvarp þetta fyrir ríkistjórn nú í vikunni með það að markmiði að leggja það fyrir Alþingi til afgreiðslu nú á vorþingi. Nái frumvarpið fram að ganga gæti hin nýja eftirlitsstofnun tekið til starfa í byrjun næsta árs.

V. Lokaorð

Góðir fundargestir,

Hér að framan hef ég fjallað í stuttu máli um íslenskan fjármagnsmarkað með hliðsjón af stöðu okkar í samfélagi þjóðanna og þróun hér á landi og erlendis. Það er mín skoðun að við séum á réttri braut í þessum efnum. Ekki verður þó um það deilt að þær ráðstafanir sem stjórnvöld hafa nú ráðist í eru nokkrum árum of seinar á ferðinni. Þess vegna er brýnt er að hika ekki eftir að fyrstu skrefin hafa verið stigin, heldur halda ótrauðir fram á veg. Í því sambandi verðum við að bera gæfu til þess að horfa rökrétt á hagsmuni okkar og markmið. Von mín er að okkur auðnist að ganga þannig frá málum að hér þrífist fjölbreytt og hagkvæm fjármálastarfsemi sem geti boðið einstaklingum og atvinnufyrirtækjum ódýra og góða þjónustu og sé fyllilega samkeppnishæf við það besta annars staðar. Jafnframt að okkur takist að búa starfseminni umhverfi og aðstæður þar sem hætta á stórslysum í rekstri fjármálafyrirtækja sé í lágmarki.

Að þessu vil ég stefna.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum